Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ómarktækir pappírar ríkiskirkjunnar

Steindur gluggi

Oft er himinn og haf á milli þess sem ríkiskirkjufólk segir um sína ástkæru kirkju, og hvernig málunum er í raun og veru háttað. Annað hvort trúir þetta fólk virkilega að glansmyndin sem birtist í málflutningi þeirra sé sönn, eða þá að það er bara að bera út áróður og spuna.

Glansmyndin

Dæmi um svona glansmyndir eru fullyrðingar á borð við þær að Þjóðkirkjan spyrji ekki um trúfélagsaðild, heldur þjóni öllum (það er ekki satt), og að sóknargjöld séu félagsgjöld (það er ekki heldur satt).

Önnur slík fullyrðing er sú að ríki og kirkja séu þegar aðskilin. Ágætur guðfræðiprófessor, Hjalti Hugason, notaði orðið “spunameistarar” í nýlegri grein um sumt ríkiskirkjufólk sem kemur með þessa fullyrðingu. Ég get alveg tekið undir það. Nú tel ég Hjalta alls ekki vera spunameistara, en viku áður hafði hann skrifað aðra grein sem inniheldur aðra svona glansmyndar-fullyrðingu sem á sér litla stoð í raunveruleikanum.

Skuldbindingar presta

Í greininni Gengur fólk óbundið til biskupskosninga? skrifaði Hjalti Hugason þetta:

Sem kunnugt er er íslenska þjóðkirkjan opin þjóðkirkja sem ekki krefst sérstakrar trúarlegrar játningar af óbreyttum félagsmönnum sínum eða þeim sem leita þjónustu hennar. Öðru máli gegnir um þau sem taka að sér launað starf á vegum kirkjunnar sem beinlínis lýtur að boðun hennar, sálgæslu, fræðslu eða öðru kirkjulegu starfi í þröngum skilningi. Málefnaleg rök eru fyrir að krefjast að þau starfi á grundvelli evangelísk-lútherskrar játningar.

Seinna í greininni bætir hann við að “játningagrunnur þjóðkirkjunnar” “bindur hendur [presta]”.

Hjalti er alls ekki sá eini sem heldur þessu fram, í Kirkjan Játar eftir Einar Sigurbjörnsson eru svipaðar fullyrðingar[1]. Í reglum um innri málefni kirkjunnar kemur meira að segja fram að biskupinn geti rekið prest ef hann “hefur opinberlega hafnað játningum evangelísk-lúterskar kirkju”.

Prestar heita því líka við vígslu sína að boða í samræmi við játningar ríkiskirkjunnar, en er eitthvað að marka það loforð?

Helvítis játningarnar skoðaðar

Ágsborgarjátningin er aðaljátning Þjóðkirkjunnar og það ætti að vera öllum ljóst að mjög margir, eflaust flestir, ríkiskirkjuprestar trúa alls ekki því sem þar kemur fram.

Til að byrja með má benda á sautjándu grein játningarinnar. Þar er sagt að við heimsendi muni Jesús birtast og dæma “guðlausa menn” til að kveljast að eilífu. Svo eru þeir sem halda því fram að kvalirnar í helvíti muni ekki vara að eilífu sérstaklega fordæmdir.

Dettur nokkrum manni í hug að prestar Þjóðkirkjunnar trúi því almennt að fólk muni kveljast að eilífu í helvíti? Ef þeir gera það ekki, þá er nefnilega ekki nóg með að þeir afneiti játningunni, heldur eru þeir sérstaklega fordæmdir í henni.

Annað gott dæmi er eitt af kjarnaatriðum mótmælendatrúar, réttlæting af trú eingöngu (líka þekkt undr latneska nafninu sola fide). Þessa kenningu er að finna í fjórðu grein Ágsborgarjátningarinnar. Þar er talað um að maður getur ekki réttlæst “af eigin kröftum, verðleikum eða verkum”, heldur réttlætist maður bara með því að trúa á Jesú. Þetta þýðir að það þegar Jesús ákveður hverjir eiga skilið að kveljast að eilífu í helvíti (sjá sautjándu grein) þá skiptir engu máli hversu góður maður hefur verið í lífinu, bara hvort þú hafir trúað á Jesú eða ekki.

Ætli það séu margir ríkiskirkjuprestar sem geta tekið undir þetta? Ætli meirhluti ríkiskirkjupresta trúi því ekki að “gott fólk” endi í himnaríki?

Það má benda á fleiri dæmi, eins og þá hugmynd að dauði Jesú hafi verið fórnardauði til þess að sætta guð við menn (þriðja greinin), erfðasyndina (önnur greinin), en ég held að þessi tvö dæmi nægi til að sýna að raunveruleg trú ríkiskirkjuprestanna er alls ekki í samræmi við játningarnar.

Heiðarleg lausn

Ég á afskaplega erfitt með að ímynda mér það að biskup ríkiskirkjunnar viti ekki af öllum þessum “villutrúarmönnum” innan kirkjunnar. En samt gerir hann ekkert í því að þeir starfi sem prestar. Hvað sem líður vígsluheitum presta, kennslubókum guðfræðideildar og opinberum reglum ríkiskirkjunnar, þá virðist raunin vera sú að prestar ríkiskirkjunnar þurfa ekki að trúa því sem stendur í játningunum.

Ég vona að Hjalti Hugason og annað kirkjunnar fólk hætti því að tala um að prestar kirkjunnar þeirra séu eitthvað skuldbundnir við játningarnar, að minnsta kosti þangað til þeir annað hvort hreina til í prestastéttinni eða játningunum.


[1] Sjá umfjöllun á blaðsíðum 129-131, t.d. þessi ummæli “Hins vegar eru þeir, sem gegna opinberri þjónustu innan kirkjunnar, prestar og kennimenn, skuldbundnir til að haga boðun sinni og vitnisburði í samræmi við trúarjátningar kirkjunnar og heita því við vígslu sína. (bls 129-130)

Hjalti Rúnar Ómarsson 19.09.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.