Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sérfræðingar loksins sammála: Þjóðkirkjan er ríkiskirkja

Alþingi og Dómkirkjan

Er hin evangeliska lúterska Þjóðkirkja Íslands ríkiskirkja? Vantrú hefur spurt þessarar spurningar og svarað oftar en einu sinni undanfarin ár. Svarið er já. Þetta ættu allir að geta séð í hendi sér. Allavega flestir.

Stofnanir í stjórnarskrá

...orðið ríkiskirkja er í senn villandi og notað í pólemískum tilgangi til að gera lítið úr viðmælanda."#

Ekki á að þurfa fjögurra ára háskólanám auk óteljandi fleiri ára í sérfræðinámi í Hannover og víðar þegar þessi skilgreining á að vera ljós öllum þeim sem hafa gengið í gegnum rúmlega tíu ára skyldunám í grunnskóla. Í stjórnarskránni stendur að hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Það eru aðeins tvær stofnanir sem sérstaklega er getið um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands; Alþingi og Þjóðkirkjan. Það ætti að vera ansi öruggt - svona miðað við samhengi og ástæðu - að þetta eru ríkisstofnanir.

Talað er um að kirkjan sé þegar „sjálfstæð stofnun", „óháð ríkisvaldinu" og „ekki háð ríkisstyrkjum". Þetta er einfaldleg ósatt. Það er sama hvernig spunameistarar kirkjunnar spinna uppúr samningum ríkis og kirkju frá 1997 (og 1907) - það er nær óumdeilt að Þjóðkirkja Íslands er mjög háð ríkisvaldinu og ríkisstyrkjum og er þar af leiðandi ríkiskirkja.

Þetta er svo auðskiljanlegt hugtak að það er hálfglórulaust að um þetta skuli vera alvöru umræða innan ríkiskirkjunnar. Það gerist þó ekki kjánalegra en þegar þessari staðreynd er neitað með undarlegum útúrsnúningum og orðaleikjum.

Rétturinn til að móðgast

Hitt er svo annað mál að Hjalti Rúnar og Hjörtur Magni mættu láta af þeim ósið að kalla þjóðkirkjuna ríkiskirkju. Það er dónaskapur að uppnefna og við eigum ekki að nota um fólk og stofnanir nöfn sem hafa það markmið helst að hnika sýn í neikvæða átt.#

Þónokkrir starfsmenn ríkiskirkjunnar hafa í gegnum árin þrætt fyrir að vinnustaðurinn þeirra sé ríkiskirkja. Að kalla Þjóðkirkjuna ríkiskirkju virðist stundum jaðra við hið versta sóðabrúk. Líkt og verið væri að kalla kirkjuna hóruhús.

Því er það ansi almennt viðhorf ríkiskirkjupresta að fetta sig og gretta þegar trúleysingjar - sérstaklega - tala um „ríkiskirkjuna á Íslandi“. Reynslan hefur sýnt að það er frekar algengt hjá ríkiskirkjuprestum að sárna yfir flest öllu sem trúleysingjar (og fríkirkjuprestar) segja opinberlega um ríkiskirkjuna. Það að þessi hópur skuli tjá sig yfirhöfuð virðist vera mikið tilfinningamál meðal guðfræðinga.

Viðhorf vissra ríkiskirkjupresta hvað þetta tiltekna mál varðar gæti þó loksins hnikast í skynsamlega átt. Vissulega hafa einstakir prestar staðfest þessi sannindi en nýlegar heimildir herma að nokkrir hámenntaðir embættisguðfræðingar innan ríkiskirkjunnar - er hafa mótmælt þessari orðanotkun hvað mest - hafa rætt þessa rúmlega 100 ára gömlu staðreynd sín á milli.

Sérfræðingarnir

Þetta þýðir ekki að aðskilnaður hafi orðið. Til þess að svo verði þarf ekki aðeins að fella niður 62. gr. stjórnarskrárinnar heldur og að nema úr gildi sérstök lög um þjóðkirkjuna og fella hugtakið þjóðkirkja almennt úr lögum.#

Svo virðist að þeir séu loks tilbúnir til að samþykkja það að sú stofnun sem stór hluti prestastarfstéttarinnar tilheyrir falli vissulega undir skilgreininguna „ríkiskirkja“. Sterkustu rökin er lúta að þessari fádæma merkilegri niðurstöðu er skilgreining kirkjuréttarfræðinga í Hannover er segja að miðað við samband ríkis og kirkju þá sé Þjóðkirkjan sannarlega ríkiskirkja (þýs.:Landeskirche).

Það er því sérstaklega ánægjulegt að þessir tilteknu embættismenn kirkjunnar - er ættu að teljast sérstakir sérfræðingar í kristnum trúmálum á Íslandi - séu að öllum líkindum sammála okkur í Vantrú - sem ættum að teljast sjálfskipaðir sérfræðingar í trúmálum - að það sem stendur í lögum um Þjóðkirkjuna er hægt að sjóða saman í fjögur orð: Á Íslandi er ríkiskirkja.

Loksins þegar það verða endanleg sannindi meðal presta og guðfræðinga að þessi tiltekna ríkisstofnun er ríkiskirkja þá mun Vantrú fagna því með kampavíni og kavíar. Þá verður vonandi hægt að leggja það fáránlega þrætuepli niður og huga að því sem skiptir máli. Sem er sú afskaplega hógværa krafa að slíta þessi tengsl og gera kirkjuna almenna og óháða ríkisvaldinu. Þetta er ekki tilraun til að móðga nokkurn mann, þetta er einfaldlega afar sanngjörn réttlætiskrafa.

Þórður Ingvarsson 18.09.2011
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð


Jon Steinar - 18/09/11 23:46 #

Ef prestlingarnir eru í þessum nagandi vafa um það hjá hverjum þeir vinna, þá bendi ég þeim á að líta á launauppgjörið sitt.


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 04/10/11 03:55 #

Síðan er líka hægt að líta á 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar en þar stendur: „Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.“

62. greinin er einmitt greinin þar sem stendur að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 04/10/11 11:25 #

Einmitt. Þetta stendur í lögum, þetta er ekki flókið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.