Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hommarnir, lesbíurnar og styrktu trúfélögin

Mynd

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að veita Kristskirkjunni ekki fyrirhugaðan byggingarstyrk vegna skoðana forstöðumanns kirkjunnar á hommum og lesbíum eins og lesa má hér.

Mér finnst tvennt athugavert við þessa ákvörðun borgarinnar:

1. Af hverju er Kristskirkjunni refsað sérstaklega fyrir þá skoðun að samkynhneigð sé af hinu slæma og að samkynhneigðir ættu ekki að njóta sömu réttinda og aðrir? Er þetta ekki nokkurn vegin afstaða meira og minna allra trúfélaga á Íslandi? Er t.d. einhver búinn að gleyma áralangri baráttu ríkiskirkjunnar gegn réttindum samkynhneigðra? Lýsa eftirfarandi orð Karls Sigurbjörnssonar biskups um hjónabönd samkynhneigðra skoðunum sem eru annars eðlis en þær sem Friðrik Schram hefur lýst?

Ég held að hjónabandið eigi það inni hjá okkur að við allavegana köstum því ekki á sorphauginn alveg án þess að hugsa okkar gang. #

Það væri líklega hægt að fylla marga pistla með tilvitnunum og gömlum fréttum þar sem fordómar gagnvart hommum og lesbíum hafa komið í ljós í íslenskum trúfélögum. Mér finnst alveg vanta rökstuðning fyrir því að það sem forstöðumaður Kristskirkjunnar boðar sé verra en það sem gengur og gerist í trúarbransanum á Íslandi.

2. Eins röng, heimskuleg, fordómafull og asnaleg mér finnst skoðun Friðriks á samkynhneigðum vera þá á hann rétt á henni. Það er ekki bannað að hafa rangar, heimskulegar fordómafullar og asnalegar skoðanir, sem betur fer.

En hið opinbera veitir trúfélögum styrki. Í mín eyru hljómar það einkennilega að hið opinbera taki upp á því að neita trúfélögum sem hafa idjótískar skoðanir, skoðanir sem eru nota bene að miklu leiti dregnar af trúnni sem félagið er myndað utan um, um styrki úr opinberum sjóðum. Ef trúfélög eiga að fá opinbera styrki þá finnst mér eiginlega ekki hægt að mismuna þeim eftir trúarskoðunum, sama hversu slæmar þær skoðanir eru. Svo lengi sem ekki er um að ræða eitthvað ólöglegt.

En auðvitað finnst mér fyrst og fremst að hið opinbera eigi bara ekki að styrkja trúfélög yfirhöfuð.


Greinin birtist upprunalega á bloggi höfundar.

Egill Óskarsson 12.09.2011
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Sigurlaug Hauksdóttir - 20/09/11 11:40 #

Það er eins og ég segi... píslarvættishlutverkið er vinsælt. http://www.visir.is/fridrik-schram--their-sem-eru-a-moti-samkynhneigd-maeta-fordomum/article/2011110929978


Árni Árnason - 20/09/11 21:37 #

Auðvitað er rangt að mismuna trúfélögum. Þau eiga að sjálfsögðu öll að vera jafnréttlaus til að þiggja fé úr vasa almennings í gegn um ríki og sveitarfélög. Öll eru þau jafnvitlaus. Ef það er ekki ein vitleysan þá er það bara einhver önnur í staðin. Vilji einhver trúa því að guð hafi sagt þetta eða hitt þá meiga þeir það svosem fyrir mér en fjandinn hafi það að ég sé látinn borga fyrir að þeirri þvælu sé logið að öðrum.

Mörgum finnst djúpt tekið í árinni að kalla söguna um guð lygi. Skoðum það aðeins betur.

Öll samanlögð og uppsöfnuð þekking mannsins bendir til að enginn guð sé til. Öll raunveruleg vísindi sem beita rökréttum aðferðum við rannsóknir leiða til sömu niðurstöðu. Hrein rökfræði hreinlega útilokar almáttugan og algóðan guð. Þeir sem mest er í mun að telja okkur trú um hið gagnstæða, og hafa haft til þess nokkur þúsund ár, ómælda fjármuni og stuðning yfirvalda, viðurkenna enn að eina leiðin sé að trúa gagnrýnislaust. Engar haldbærar vísbendingar þar að hafa. Líkurnar á tilvist guðs eru svo ör- örsmáar á meðan líkurnar á því að ekkert slíkt fyrirbæri sé til, eru yfirþyrmandi. Líkindin eru í þeim ógnarhlutföllum að allir viðurkenndir dómstólar myndu jafna til hreinnar sönnunar.

Samt er börnum kennd þessi þvæla sem staðreynd væri. Það er sama hvað ég reyni, ég get ekki kallað það neitt annað en LÝGI.

Ég get ekki annað en mótmælt því harðlega að sameiginlegum fjármunum Reykvíkinga sé varið til styrktar lygavefjum bábiljubullukolla hómófóbiskum eður ei.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.