Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Herferð trúboðssinna gegn börnum

Mynd

Á undanförnum árum hefur farið fram umræða um réttmæti þess að ríkiskirkjan og önnur kristin félög eins og t.d. Gídeonfélagið fái að boða kristna trú í opinberum menntastofnunum hér á landi.

Varnarbarátta þeirra kristnu hefur að mestu gengið vel þó að einhverjir ósigrar hafi litið dagsins ljós en síðastliðinn vetur ollu tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um samstarf leik- og grunnskóla við trú- og lífsskoðunarfélög miklu uppnámi í þeirra ranni. Þá upphófst barátta sem hefur verið mjög upplýsandi og afhjúpandi. Ímynd ríkiskirkjunnar sem hófsamrar og „nútímalegrar“ stofnunar er nú álíka trúverðug og hugmyndin um íslenska útrásarvíkinga sem sniðuga og klóka viðskiptamenn.

Við skulum byrja á því að fara yfir hvað það er sem mun áfram vera leyfilegt. Það er nauðsynlegt því að rangfærslur og skrumskælingar hafa því miður einkennt málflutning trúboðssinna. Hvort það sé vegna þess að þeir séu einfaldlega ekki nógu vel að sér um málið eða hvort að aðrar aðstæður liggi að baki verður ekki fullyrt hér, né hvor ástæðan sé á hærra siðferðislegu plani.

Kennsla um trúarbrögð, þar sem kristni er eðlilega veitt langmest athygli, mun áfram fara fram. Börn munu áfram mega syngja í leik- og grunnskólum öll þau jólalög sem þeim dettur í hug og föndra allt það jóla- og páskaskraut sem hugurinn girnist. Litlu jólin verða áfram haldin með tilheyrandi jólaböllum og –sveinum. Skólar mega fara í heimsóknir í kirkjur og aðrar trúarlegar byggingar sem hluta af trúarbragðafræðslu.

Eina breytingin sem um ræðir er sú að trúarstarf og trúboð mun nú fara fram utan skólatíma. Börn munu áfram mega fara í Sunnudagaskóla og messur og þau fara í fermingarfræðslu með tilheyrandi ferðalögum, rútusöngvum og félagslífi. Æskulýðsstarf trúfélaga mun halda áfram hafi trúfélögin áhuga og bolmagn til. Gídeon má halda áfram að „ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist“ með því að dreifa litlu bláu bókinn og biðja með börnum.

Það er ekki verið að útrýma trúnni úr opinberu rými, svo notað sé orðalag sem prestar hafa gripið til. Það er bara verið að fara fram á að trúarstarf og trúboð fari ekki fram í opinberum skólum. Af því að í þeim eru ekki bara kristin börn.

Barátta trúboðssinna mun halda áfram þrátt fyrir að Mannréttindaráð hafi samþykkt tillögurnar í síðastliðnum júní. Nýjasta útspilið, sem var augljóslega kokkað upp af spunameisturum Biskupsstofu miðað við hversu samtaka prestar landsins voru í því að grípa til þess, er að fullyrða að nú sé trúleysi orðið viðmiðið í skólastarfi Reykarvíkurborgar. Þetta er auðvitað algjör fásinna. Skólar í Reykjavík eru einfaldlega loksins orðnir hlutlausir í trúmálum. Það að ekki sé boðaður harður sósíalismi í samfélagsfræði þýðir ekki sjálfkrafa að markaðshyggja sé viðmiðið.

Virðing trúboðssinna fyrir börnum sem ekki eru kristin kristallast í þessum orðum séra Arnar Bárðar Jónssonar, stjórnlagaráðsmanns, sem hann lét falla í blaðagrein þar sem hann mótmæli tillögum Mannréttindaráðs:

Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, „vesalings ég og börnin mín", virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífsskoðanir minnihlutans. Kristnir menn um allan heim verða að þola hið sama. #

Yfirgangurinn og virðingarleysið sem skín úr þessum orðum er lýsandi fyrir baráttu trúboðssinna. Þeim er fullkomlega sama um hvaða aðstæður þeir skapa börnum sem ekki tilheyra rétta liðinu. Börnin eru algjört aukaatriði. Það er trúboðið - sem við skulum ekki gleyma að er órjúfanlegur partur af kristni - sem öllu skiptir.

Egill Óskarsson 31.08.2011
Flokkað undir: ( Gídeon , Siðferði og trú , Skólinn )

Viðbrögð


Einar - 31/08/11 10:37 #

Virkilega góð grein og leiðréttir ruglið og ósannindin sem komið hafa frá kirkjunnar mönnum síðan þessar tillögur mannréttindaráðs komu fram.

Manni verður óglatt af því að lesa þetta frá Erni Bárðar. Þvílíkur málflutningur... og þessi maður fær ofurlaun úr ríkissjóði til að geta haldið áfram að ausa þessum óþverra sínum yfir fólk.


Guðjón - 31/08/11 15:43 #

Frábær grein og þörf. Það er ótrúlegt hvað prédikarar sanngirni og umburðarlyndis eru lengi að sætta sig við svona augljóst sanngirnismál. Mig langar samt að benda á að það er líklega ekkert til sem heitir "kristið barn". Barnið kann e.t.v. að eiga kristna foreldra en það er bara annað mál. Börnin eru í eðli sínu opin fyrir öllu (sem betur fer) og ef þau hafa sterkar skoðanir á trúmálum er það næstum örugglega ekki frá þeim sjálfum komið heldur foreldrum eða öðrum sem hafa í eigingirni og/eða stjórnsemi sinni hamast í því að móta þau á þann veg.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 31/08/11 17:03 #

Takk fyrir viðbrögðin.

Mér sjálfum finnst hæpið að tala um kristin börn en notaði það þarna til einföldunar.


Gulli Jóns - 31/08/11 21:14 #

Er ég leit á forsíðu Fréttablaðsins í dag þá spurði ég sjálfan mig " Er þetta framtíð Íslands? "


Halla Sverrisdóttir - 01/09/11 08:53 #

Sammála um "kristnu börnin". Mér finnst alltaf mjög óviðeigandi að tala um börn með félagslega aðgreinandi formerkjum, t.d. þegar rætt er í fjölmiðlum um "fátæk börn", en ekki "börn sem búa við fátækt" eða "börn efnalítilla/fátækra foreldra". Sem er vissulega ekki jafn þjált og "fátæk börn" en mun nákvæmari lýsing á aðstæðum þeirra. Sama á að sjálfsögðu við um trúarbragðaskilgreiningar á börnum, og þótt Egill skýri það hvers vegna hann notar frasann finnst mér hann ekkert viðfelldnari í þessari grein en þegar hann er notaður af öðrum, eins og oft hefur gerst í þessari umræðu.


gös - 01/09/11 09:23 #

Ég hef aðeins verið að hugsa um þetta hugtak "kristið barn" síðan Dawkins fór að hamra á því að slíkt væri ekki til.

Nú er ég sammála því að nýfædd börn, og óvitar, séu ekki kristin. En hvenær verður þá einstaklingur kristinn?

Hvernig skilgreinum við yfir höfuð hugtakið að vera kristinn? Er það nóg að segjast vera kristinn (self-identify)? Þarf maður að trúa (og skilja?) trúarjátningu (einhverrar) kristinnar kirkjudeildar? Er það nóg að finnast Jesús hafa verið sniðugur karl með fallegan boðskap? Hvað með heilagan anda?

Ég er viss um að þessi skilgreiningaratriði eru vandamál sem allir hérna sem hafa rökrætt og rifist við kristna kannast við, t.d. þegar reynt er að henda reiðar á því sem "personlig" kristinn einstaklingur trúir í raun og veru (og hvað hann meinar með orðinu "trú") eða þegar þarf að fjalla um meint trúleysi Hitlers.

Hafa menn skýra hugmynd um hvað það þýðir að vera kristinn? Hvernig fellur sú hugmynd að fermingarbarni? En leikskólabarni sem sækir sunnudagsskóla, fer fumlaust með faðir vor og trúarjátningu og finnst Jesús frábær?

Mér finnst þetta ekki eins einfalt og menn hafa látið skína í.


Eiríkur - 01/09/11 10:04 #

Varðandi hvað það þýðir að vera kristinn, þá skrifaði Þorsteinn Gylfason þetta:

"Kjarni kristinnar trúar er í rauninni ósköp einfalt mál. Jesús Kristur er sonur Guðs. Hvernig veistu það? Hann sagði það sjálfur. Hvers vegna skyldum við taka mark á honum frekar en hvaða vitfirringi sem er og segir það sama? Hann sannaði það með því að rísa frá dauðum og stíga til himins, einn allra manna sem sögur greina fyrr og síðar. Ertu viss um þetta? Já, við höfum um það fjórar heimildir." (Sál og mál bls 123-4)

Þetta fer nú langleiðina, held ég.


gös - 01/09/11 10:23 #

Eiríkur: Er þá eitthvað að því að tala um kristin börn, allavega í grunnskóla? Nær barn ekki þroska til að skilja þetta á grunnskólaaldri?


Eiríkur - 01/09/11 10:46 #

Jú, barn á grunnskólaaldri ætti alveg að ráða við þessar fullyrðingar og skilja samhengið á milli þeirra. En ég held að það segi ekki mikið eitt og sér.

Barn getur alveg skilið fullyrðinguna um að markaðurinn rétti sig alltaf af (heimildin sé kannski Milton Friedman) og að skattalækkanir auki lífsgæði. En þú sérð að slíkt barn er ekki endilega frjálshyggjubarn fyrir vikið.

En það er víst nóg að trúa á fullyrðingar trúfélaga til að teljast meðlimur. Maður á að líta á málið "eins og barn" (sem þýðir væntanlega í gagnrýnislausri einlægni). Stundum er nóg að endurtaka þær.

Ég veit ekki hvort börn eru frábært eða ómögulegt dæmi um trúfólk. Þau trúa öllu mögulegu af öllu hjarta. Ef kristiboði er snöggur til, getur hann fengið barn til að skrifa undir trúarjátningu og sagt barnið vera kristið. En það segir meira um hann heldur en barnið.


gös - 01/09/11 11:08 #

Nei, það er ekki nóg að barn skilji fullyrðingar, hvort sem eru um guði eða markaði, til að það teljist kristið eða frjálshyggjubarn. Hins vegar tel ég það nauðsynlegt forskilyrði fyrir því að barn geti verið kristið, að það skilji hugtökin og fullyrðingarnar sem liggja þar að baki. Ef það skilyrði er uppfyllt og barnið trúir að auki að fullyrðingarnar séu sannar, þá sé ég ekki af hverju við getum ekki talað um kristið barn.

Eins tel ég að barn á grunnskólaaldri gæti hæglega verið frjálshyggjubarn í sama skilningi og við tölum um fullorðið frjálshyggjufólk: það skilur einföld hugtök um markaði og trúir að fullyrðingarnar sem þú tekur sem dæmi séu réttar.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 01/09/11 12:50 #

Þessi ummæli Arnar Bárðar eru auðvitað kostuleg, skv. þessu hlýtur honum að finnast í góðu lagi að gengið sé á réttindi kristinna þar sem þeir eru í minni hluta. (tók þann þráð upp á Eyjunni)...


Eiríkur - 01/09/11 13:14 #

gös:

Ég hef kannski ekki verið nógu skýr. Ég nefndi frjálshyggjuna vegna þess að fullyrðingarnar hennar eru vafasamar. Að mínu mati þyrfti barnið líka að geta lagt mat á fullyrðingarnar. En auðvitað er það ekki mitt að segja hver er kristinn og hver ekki.

Kannski væri betra að taka dæmi um KR-barn. Það trúir því sem því hefur verið kennt: að KR sé heimsins besta lið. (Ef KR tapar leik, þá er það útskýrt með því að málið sé ekki svona einfalt, taka verði mið af aðstæðum þess tíma og hverjir spiluðu með. Ef KR vinnur, þá er það af því að KR er best.) KR-ingum finnst þetta kannski nóg til að barnið fái að vera með. Ef kristni er metin á þessum nótum, þá eiga börn í engum vandræðum með kristnina. Í báðum tilfellum er samt búið að afvegaleiða barnið (að Jesúsi og KR ólöstuðum), af því að því er ekki leyft að mynda sér alvöru skoðun.

(enn betra dæmi, fyrst Jesús er ekki lókal guð, væri kannski að kenna börnum að styðja Millwall eða eitthvað. Ef börn skilja fótbolta og geta sagt "Millwall er best" þá eru þau stuðningsmenn og ríkið ætti að niðurgreiða fræðslu um liðið)

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?