Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Síðasta mannréttindabrotið

Kettlingar

Síra Vigfús Þór Árnason prestur í Grafarvogi hafði þetta að segja um tillögu um aukin mannréttindi barna og trúfrelsi í landinu:

„Þetta getur ekki verið satt, eftir þúsund ára frið og sambýli kristinnar trúar og þjóðar. Það hefur alltaf verið svo gott samstarf við skóla og skólakerfið. Ég er búinn að vera prestur í 35 ár og það hafa aldrei orðið neinir árekstrar, enda erum við ekki að koma í skóla með trúboð.“ #

Siðaskiptin: Nýr ríkiskirkjusiður í landinu

Allt frá stofnun ríkiskirkjunnar hafa hundruð Íslendinga verið teknir af lífi eða verið limlestir. Ríkiskirkjan byrjaði á því að rífa höfuðið af nokkrum kaþólikkum sem vildu ekki taka við Lúterskri kristinfræðslu. Síðan setti hún á Talibana-Stóradóm sem byggði á kristilegu siðgæði og lífsgildum, sem varð þess valdandi að tugir einstæðra mæðra voru myrtar í Drekkingarhyl.

Ekki má gleyma bálköstunum, en á þriðja tug manna var myrtur á hryllilegan hátt fyrir trúvillu. Þjófar voru drepnir og sakamenn hengdir á kirkjudyr til sýnis, listinn er endalaus.

Eftir fylgdu stórkostleg brot gegn eignaréttinum með upptöku eigna og menningareyðimörk tók við með banni á öllu nema kristilegu, þannig glötuðust mikil menningaverðmæti í landinu. Mannréttindabrot ríkiskirkjunnar frá tímum siðaskipta eru svo viðurstyggileg og víðtæk að þau sprengja í raun alla skala

Ríkiskirkja okkar tíma

Það er líka nauðsynlegt að rifja upp fleiri mannréttindabrot sem eru nær okkur í tíma. Hvernig ríkiskirkjan setti í lög bann við fermingu fatlaðra í kirkjum landsins. Prestar töldu að fatlaðir gætu valdið hneykslan í guðshúsum og var þeim með lögum vísað á kirkjudyr.

Viðtæk mannréttindabrot gegn konum tóku enda í lok 20 aldar, fyrirgefið, á 21 öld með nýlegum dómi yfir biskupi. Ríkiskirkjan var síðasta ríkisstofnunin til að leyfa þeim að gegna embætti árið 1974. Að sjálfsögðu gegn miklum mótmælum karlpresta sem vörðu sig með kristilegum Jesú-rökum um kristna arfleifð landsins.

Íslenska ríkiskirkjan var 30 árum á eftir þeirri sænsku að leyfa konum að gegna prestembætti. Samkynhneigðir hafa verið ofsóttir af ríkiskirkjunni allt fram á 21 öld. Kirkjan gerði allt með fulltingi almannatengslameistara landsins til að koma í veg fyrir réttindi samkynhneigðra á Íslandi.

Aldrei má gleyma 125 gr. hegningarlaga sem leggur blátt bann við guðlasti. Ríkiskirkjan hefur oft farið mikinn í hótunum og ofsóknum gegn einstaklingum með talabanalöggjöfinni í annarri hendi og verndandi stjórnarskrá í hinni. Reynt að hneppa fólk í fangelsi fyrir að særa ríkisguðinn með léttu spaugi. Hver man ekki eftir Spaugstofumálinu sem stýrt var beint frá rannsóknarrétti biskupstofu? Einnig hvernig Úlfar Þormóðsson var dæmdur vegna létts fermingagríns í tímaritinu Speglinum. Einn af dómurum í sakadómi var presturinn sr. Bjarni Sigurðsson sem dæmdi fyrir hönd kirkjuyfirvalda í máli Úlfars. Dómurinn yfir Úlfari var ekkert annað en gróft mannréttindabrot sem verður ríkiskirkjunni til ævarandi háðungar.

Hin kristna arfleifð

Upptalningin er miklu lengri. Nýleg dæmi um þöggun kynferðisafbrota til nýlegra brota á jafnréttislögum ættu að vera landsmönnum í fersku minni. Eldri mál eins og baráttu gegn getnaðarvörnum til draugaseturs á Stokkseyri eru spaugilegri. En listinn er langur, hlægilegur en jafnframt sorglegur. Lýsir vel öfgum og öfgahyggju sem ríkir innan ríkiskirkjunnar og hjá æðstu ráðamönnum hennar. Ég vil samt hrósa frjálslyndum guðfræðingum sem hafa oft reynt að stöðva eyðingarmátt biskupsstofu. En því miður eru þeir oft áratugum of seint á ferð, jafnvel eftir að hafa vera gerendur í brotunum.

Eitt síðasta mannréttindabrot ríkiskirkjunnar eru brot hennar gegn börnum. Það kemur ekki á óvart að ómálga börn verða síðustu fórnarlömb ríkiskirkjunnar. Það er eiginlega eðlilegt framhald af einbeittum brotavilja kirkjuyfirvalda. Eitt af brotunum er að skrá ómálga börn í félag ríkiskirkjumanna við fæðingu, sem er augljóst brot á félagafrelsi. En alvarlegasta brotið eru öfgahugmyndir um samrekstur ríkiskirkna og barnaskóla. Öfgar ríkiskirkjunnar virðast þannig vera hafnar yfir rétt foreldra, kennara og barnsins, allt til að troða sínu kristilega kennivaldi yfir skólana.

Ömurleiki málsins er líka sá að frjálslyndir guðfræðingar eru enn að bregðast okkur landsmönnum, eru jafnvel gerendur í þessum harmleik. Vonandi verður þetta síðasta mannréttindabrot ríkiskirkjunnar á Íslandi. Þannig hefur ríkiskirkjusiðurinn verið ávísun á öfga, ofstopa og yfirgang.

Það er okkar kristna arfleifð.

Frelsarinn 21.08.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Jón Ferdínand - 22/08/11 01:28 #

Fucking A maður!


Jon Steinar - 23/08/11 04:39 #

„...eftir þúsund ára frið og sambýli kristinnar trúar og þjóðar." " Það hefur alltaf verið svo gott samstarf við skóla og skólakerfið." "...og það hafa aldrei orðið neinir árekstrar..." "...enda erum við ekki að koma í skóla með trúboð.“

Ákveðin snilld að koma fjórum blatant ósannindum fyrir í einni málsgrein. Einhver hefði getað sagt þetta í háði og öfugmælum en ég óttast að þetta fólk trúi því virkilega sem það segir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/08/11 08:39 #

Tilvitnunin í þennan "snilling" byrjar á orðunum "Þetta getur ekki verið satt..."

En svo margir guðsmenn láta smáatriði eins og sannleikann eða veruleikann ekki trufla sig. Sumir sjá bara það sem þeir vilja sjá og trúa bara því sem þeim hentar.


Baldurkr - 23/08/11 18:05 #

Thetta er falleg setning hjá sr. Vigfúsi!


Einar - 23/08/11 19:33 #

Veit ekki hvort orð Vigfúsar Þórs Árnasonar séu fyndin eða sorgleg.

Það er síðan vægast sagt ámælisvert hvernig kirkjunnar menn og trúaðir hafa skrumskælt og snúið út úr, tillögum mannréttindaráðs.

Og ekki skánar málflutningurinn með því sem Vigfús setur frá sér.


Arnar - 26/08/11 11:14 #

Ég held að það sé mjög gott að kenna börnum um Jesú í skólum. Þau geta svo síðar meir tekið ákvörðun sjálf um hvort þau ætli að trúa á guð eða ekki. En það mikilvæga eru þau kristilegu siðferðilegu gildi sem þau læra og áhrif þeirra á samfélagið. Þú líkir miðalda Íslendingum við Tailbana. Ættum við ekki frekar að spyrja hvers vegna ókristnar þjóðir hagi sér eins og miðalda fólk? Meira að segja í klæðaburði. Ég sé ekki neitt að því að kenna börnum að koma fram við aðra eins og að þau vilji að komið sé fram við þau.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/08/11 11:41 #

Ættum við ekki frekar að spyrja hvers vegna ókristnar þjóðir hagi sér eins og miðalda fólk?

Þetta er ansi stór (og vafasöm) fullyrðing.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/11 11:53 #

Arnar, það er ekkert að því "að kenna börnum að koma fram við aðra eins og að þau vilji að komið sé fram við þau".

Það hefur bara ekkert með kristniboð að gera. Það er vel hægt að kenna gott siðferði án þess að standa í trúboði. Meira að segja mjög mikilvægt.

"Gullna reglan" er nefnilega miklu eldri en kristnin, þó margir kristnir haldi að þarna sé einhver órjúfanleg tenging.


Arnar - 26/08/11 12:47 #

Svar til Matta: Ég á auðvitað ekki við allar ókristnar þjóðir en hlutfall kristinna þjóða sem teljast geta þróaðar, bæði á sviði iðnvæðingar og siðferðis miðað við ókristnar hlýtur samt að vera augljóst.

Svar til Valgarðs: Þó að gullna reglan sé eldri en kristni og sennilega fleiri kristnar reglur, þá virðist vera hvað mest farið eftir henni í hinum kristna heimi. Og hvað á svo að koma í staðin fyrir hina kristilegu kennslu? Á það að vera alfarið hlutverk kennara, mannréttindaráðs eða annarra ríkisbákna að innræta æskuna?


Halldór L. - 26/08/11 13:02 #

Vanþróaðar kristnar þjóðir eru ekki til, nei?

Kristna heimi farið eftir gullnu reglunni? Og hvaða kristni heimur er það?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/11 13:23 #

Arnar, ekki veit ég á hverju þú byggir að það sé að mestu farið eftir gullnu reglunni í kristnum heimi.

Kennsla í siðfræði er mjög góður kostur og á miklu meira erindi en trúboð.

Ég hélt að það væri einmitt hlutverk kennara að fræða. Ég veit ekki til að mannréttindaráð fari í skóla. En mér datt kannski í hug að foreldrar gætu komið að því að fræða börn.

Og talandi um "önnur ríkisbákn". Áttu þá við önnur ríkisbákn en kirkjuna? Ríkiskirkjan er jú eitt stærsta og fyrirferðamesta báknið hjá ríkinu.


Arnar - 26/08/11 18:16 #

Samfélög okkar hér á vesturlöndum er það sem ég byggi á því að hér sé farið eftir gullnu reglunni og öðrum kristilegum reglum, svona almennt, þó að eitthvað sé um undantekningar. Ég held að þið áttið ykkur ekki allveg á áhrifum kristninnar á samfélagið og ykkur sjálfa jafnvel í samskiptum við aðra.


Halldór L. - 26/08/11 19:48 #

Áhrif kristni á vesturlöndin? Hvar er aftur tengillinn á "Heilagur hryllingur"... ?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/11 20:01 #

Sagði einhver Heilagur hryllingur?


Tryggvi - 26/08/11 20:44 #

"hlutfall kristinna þjóða sem teljast geta þróaðar, bæði á sviði iðnvæðingar og siðferðis miðað við ókristnar hlýtur samt að vera augljóst"

Þetta er eflaust góð Guðfræði en afspyrnu slæm Sagnfræði. Ef þú ert að reyna að halda því fram að kristni hafi ýtt undir framþróun á vesturlöndum, skaltu fyrst athuga að meirihlutan af síðustu tveimur árþúsundum hafa Islamskar þjóðir verið langt á undan kristnum hvað varðar tækni og menningu. Þetta breittist ekki fyrr en við upphaf Upplýsingastefnunar í Evrópu, sem var grundvölluð á skynsemishyggju og trú á getu manna til að byggja hegðun sína og sjónarmið á þekkingu fremur en trú og fordómum. Að halda því fram að framþróun vesturlanda síðustu aldir sé á nokkurn hátt kristinni trú að þakka er mun meira í takt við þá tilhneigingu trúarstofnana að eigna sér heiðurinn af árangri sem í reynd var náð þvert gegn vilja og áróðri sömu trúarstofnana....


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 26/08/11 21:59 #

Nei Arnar, það á ekki að vera hlutverk „ kennara, mannréttindaráðs eða annarra ríkisbákna að innræta æskuna?“ þó að kennarar gegni að sjálfsögðu stóru hlutverki. Það á að vera hlutverk fjölskyldunnar fyrst og fremst. Þess vegna á trúboð ekki erindi í skóla.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.