Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jón eða séra Jón

Kirkjan

Prestar landsins eru iðnir við að básúna að sértrúarsöfnuður þeirra "þjóni" allri þjóðinni og ríkisstofnun þeirra þurfi svo óskaplega mikla peninga til að viðhalda gríðarlegum fjölda kirkjubygginga á öðrum hverjum hól út um allar koppagrundir.

En eru allir velkomnir í kirkjur landsins, standa þær öllum opnar? Svarið er nei, a.m.k. geta ekki allir landsmenn fengið afnot af sumum kirkjum landsins til brúðkaups. Nýlegt dæmi um þetta er brúðkaup sem átti að fara fram í Kotstrandarkirkju í Hveragerðisprestakalli í Árnesprófastsdæmi. (Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990, samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989 og fær því eflaust sitt úr sameiginlegum sjóðum okkar).

Væntanleg brúðhjón höfðu samband við kirkjuvörðinn og föluðust eftir að fá kirkjuna leigða dagstund um miðjan ágúst, það var auðsótt. Parið óskaði aðeins eftir húsnæðinu, ekki þjónustu prestsins, þar sem þau eru mormónar. Boðskort voru pöntuð, prentuð og send út. En þegar kom að því að greiða séra Jóni Ragnarssyni leiguna kom babb í bátinn. Séra Jón tók ekki í mál að kirkja hans safnaðar væri notuð af einhverjum trúvillingum. Hann tjáði brúðhjónunum að sjálfur hefði hann ekki fengið aðgang að musteri mormóna í útlöndum. Þrátt fyrir vilyrði kirkjuvarðarins og útsenda boðsmiða varð prestinum ekki haggað.

Ég sló á þráðinn til séra Jóns til að spyrja hann nánar um þetta. Hann sagði að um þetta giltu ákveðnar reglur, sem hann gat þó ekki vísað í, og kirkjuverðinum er greinilega ókunnugt um. Þessar meintu reglur virðast heldur ekki gilda um allar kirkjur landsins því parið fékk inni í annarri sveitakirkju á sama svæði, enda eru þau búsett fyrir austan fjall. Séra Jón taldi hins vegar að parið gæti og ætti að halda sínar athafnir í eigin helgidómi.

Ég sagði séra Jóni að þessi ákvörðun hans hefði farið illa í fjölskylduna og valdið þeim töluverðum óþægindum og leiðindum. Séra Jón kvaðst bera alla ábyrgð á gjörningnum og standa við hann, hann sæi ekki eftir neinu, ekki einu sinni þegar ég minnti á vilyrði kirkjuvarðarins og vonbrigði brúðhjónanna.

Ekki er sama Jón og séra Jón og séra Jón veit það manna best. Vilji menn kynna sér nánar hugmyndir séra Jóns um náð, opinn faðm, réttlæti og fleira þess háttar þýðir ekkert að leita á tru.is, því þar á hann ekki eina einustu grein.

Hvernig rímar þessi þvergirðingsháttur séra Jóns við fagurgala starfsbræðra hans og annarra:

Séra Sigurður Árni Þórðarson:

Þjónustan er við allt samfélagið og ekki spurt um trúfélagsaðild þegar leitað er eftir eða boðin þjónusta. Kirkjan er allra, ber að verja og efla fjölbreytni og margbreytileika.

Séra Gunnar Jóhannesson:

Í þessu samhengi má líka hafa í huga að Þjóðkirkjan veitir landsmönnum öllum víðtæka þjónustu óháð trúfélagsaðild.

Séra Þórhallur Heimisson:

Í því sambandi er aldrei spurt um trúfélagsaðild heldur veitt sú hjálp sem þörf er á. Því Þjóðkirkjan er öllum opin og vinnur í allra þágu.

Séra Hjálmar Jónsson:

Þjónar hennar veita öllum kirkjulega þjónustu. Þeir spyrja ekki um trúarskoðanir eða trúfélagsaðild. Svo hefur ekki verið - og það stendur ekki til. Það gildir um alla Þjóðkirkjuna.

Leiðari Morgunblaðsins:

Þjóðkirkjan starfar um allt land og fer ekki í manngreinarálit þegar fólk þarf á aðstoð hennar að halda, spyr aldrei um trúfélagsaðild heldur veitir öllum þjónustu.

Davíð Þór Jónsson:

Á Íslandi er trúfrelsi, málfrelsi og skoðanafrelsi, bæði innan kirkjunnar og utan. Að því getur komið að skoðanir einstaklinga eru of ólíkar skoðunum kirkjunnar til að þeir eigi þangað nokkuð erindi. Kirkjan er þeim samt opin, enginn er spurður um trúfélagsaðild eða yfirheyrður um hreinleika trúar sinnar þegar hann af einhverjum ástæðum kýs að leita til kirkjunnar.


Skyld mál:

Neitaði að ferma stúlku úr Fríkirkjunni:

Unglingsstúlku var í haust meinað að fermast í Digranessókn vegna þess að móðir hennar er í Fríkirkjunni. Móður stúlkunnar var tilkynnt að ef hún gengi úr Fríkirkjunni fengið barnið að fermast, annars ekki.

Svo má minna á borgaralega giftingu í Fríkirkjunni 2007. Margir guðsgeldingar hneyksluðust á umburðarlyndi Fríkirkjunnar og séra Gunnar Jóhannesson (aftur, já) sagði:

Í máli sem þessu hlýtur fólk að sjá og skilja að kirkjulegu umburðarlyndi og víðsýni eru takmörk sett.

Af þessu er ljóst að heitið "Þjóðkirkja" á ekki við þar sem smákóngar á við séra Jón ráða ríkjum.

Reynir Harðarson 17.08.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Kristinn - 17/08/11 09:58 #

Stórgóðar greinar að undanförnu. Thumbs up!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/08/11 10:52 #

Pressan fjallar um málið og þar má lesa frásögn brúðarinnar.

Séra Jón neitaði að tjá sig varðandi málið en sagði þó:

"Ég hef enga þörf fyrir að verja mig,"

sagði Séra Jón og skellti svo á blaðamann.


Eiríkur - 17/08/11 11:54 #

Þetta er eins og Jesús sagði:

"Slái einhver þig á hægri kinn, þá slá þú einhvern í sama trúfélagi og hann."


Baldurkr - 17/08/11 13:03 #

Það er einn meinbugur á þessari lógík í athugasemdum og grein. Það hefði eflaust verið annað mál ef sr. Jón eða einhver annar prestur sem sr. Jón hefði samþykkt hefði annast athöfnina. Mormónakirkjan er kenningarlega ekki samstíga Þjóðkirkjunni (á sama hátt og kaþólska kirkjan og Hvítasunnuhreyfingin eru t.d.) og prestar verða að ráða því hvaða smiðum þeir hleypa í verkfærasafnið sem þeim er trúað fyrir. Kv. Baldur


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/08/11 13:07 #

S.s. ef einhver ríkiskirkjuprestur hefði annast athöfnina þá hefði þetta ekki verið tiltökumál?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/08/11 13:13 #

Já, Þjóðkirkjan spyr ekki um trúfélagsaðild, svo lengi sem þú tilheyrir trúfélagi sem er "kenningarlega samstíga Þjóðkirkjunni". ;)


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/08/11 13:14 #

Parið fékk að gifta sig í Sólheimakirkju? Væntanlega er "kenningarlegur" grundvöllur hennar sá sami og Kotstrandarkirkju. Eini munurinn er að þar ríkir séra Jón ekki.

Í Pressunni stendur:

Síðan hringdum við í yfirmenn séra Jóns sem sögðu þetta vera mjög skrýtið og að þetta hlyti að vera einhver misskilningur. Þau buðust svo til að hringja í Séra Jón sem þau svo gerðu en tjáðu okkur það að hann hefði sýnt þeim alveg jafn mikinn dónaskap og að hann yrði að fá að ráða sínum reglum í sinni kirkju.

Samkvæmt þessu eru prestarnir kóngar í "sínum kirkjum" - sem er þó arfur okkar allra, ekki satt, og sameign þjóðarinnar - þar sem um "þjóðkirkju" er að ræða.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/08/11 13:40 #

Nú kemur fram í nýrri frétt á Pressunni að þetta sé misskilningur, "Mormónar [eru] ekki hluti af okkar félagi og prestum er frjálst að hafna þeim"


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/08/11 13:48 #

Þjóðkirkjan starfar um allt land og fer ekki í manngreinarálit þegar fólk þarf á aðstoð hennar að halda, spyr aldrei um trúfélagsaðild heldur veitir öllum þjónustu.

Þá er það á hreinu að þessi orð og önnur slík eru lygi - og "Þjóðkirkjan" alls ekki þjóðkirkja.


Baldurkr - 17/08/11 17:00 #

Jú, málid er ad ekki fá allir ad framkvæma athafnir. Finnst ykkur thad skrítid ef thid hugsid málid?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/08/11 17:05 #

En þau óskuðu eftir og fengu prest úr sínu trúfélagi til að sinna athöfninni í annari kirkju í sömu sókn. Var sá prestur verri en prestar í ríkiskirkjunni? Skiptir ekki máli fyrir fólk sem tilheyrir vissum trúfélögum að fá fólk sem það treystir til að sinna þeim þáttum sem þau hafa mikla trú á?

Það er ekkert svo óalgengt hjá sóknarbörnum Þjóðkirkjunnar að fá aðra presta en sóknarprestinn sinn til að sinna kirkjulegum athöfnum. Þetta er mjög algengt á Höfn í Hornafirði, svo ég taki dæmi.


Baldurkr - 17/08/11 17:27 #

Veit Thórdur,sæll. Sólheimakirkja er ekki sóknarkirkja og auk thess getur verid ad hann hugsi thetta ödruvísii, presturinn thar. En er ekki málid thad ad presur hlítur ad ráda thví hverjir framkvæma athafnir en honum ber ad thjónusta alla. VITASKULD!


Einar (meðlimur í Vantrú) - 17/08/11 17:34 #

Þetta er víst allt misskilningur, "Mormónar eru ekki hluti af okkar félagi og prestum er frjálst að hafna þeim.

Athyglisverð fullyrðing sérstaklega ef maður les pistilinn hér að ofan og það sem haft er eftir kirkjunnar mönnum.

Það er ekkert að marka það sem frá þeim kemur greinilega. Miðað við þetta mál.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/08/11 17:41 #

En er ekki málid thad ad presur hlítur ad ráda thví hverjir framkvæma athafnir en honum ber ad thjónusta alla. VITASKULD

Baldur, hvað áttu við með því að honum "beri" að gera það? Ertu að segja að það sé skylda hans?

Jú, málid er ad ekki fá allir ad framkvæma athafnir. Finnst ykkur thad skrítid ef thid hugsid málid?

Mér finnst það ekki undarlegt. En mér finnst það ekki passa við málflutning ykkar um að það sé aldrei spurt um trúfélagsaðild að ákveðinn aðili fái ekki að nota kirkjuna af því að hann er ekki í réttri kirkjudeild.


Baldurkr - 17/08/11 18:09 #

Spurning um ad lána hverjum sem er kikjuna? Thad tharf ákvedin (kristin)réttindi til ad athafna eda bera ábyrgd á athöfn í kristinni kirkju. Já mér finnst ad prestum beri ad thjóna öllum!


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/08/11 18:28 #

Já mér finnst ad prestum beri ad thjóna öllum!

Baldur, þannig að ríkiskirkjuprestar þurfa ekki að þjóna öllum, heldur finnst þér bara að þeir ættu að gera það?

En er það raunin (taktu eftir því að tilvitnanirnar í prestana í greininni fjalla um hvernig hlutirnir eru víst), eða mega prestar neita fólki um þjónustu, t.d. vígslu, af því að þau eru ekki í réttu trúfélagi?


G - 17/08/11 20:16 #

Baldurkr skrifar: "Spurning um ad lána hverjum sem er kikjuna? Thad tharf ákvedin (kristin)réttindi til ad athafna eda bera ábyrgd á athöfn í kristinni kirkju."

Nei, þetta er ekki spurning um að lána hverjum sem er kirkjuna, þetta var spurning um að lána brúðhjónum (sem eru mormónar) kirkjuna. Það hljómar sjálfsagt að lána ekki "hverjum sem er" kirkjuna enda aldrei að vita hver "hver sem er" er og hvað þessi "hver sem er" ætlar sér. En það er vitað hver þau eru og hvað þeim gekk til. Þannig að í stað þess að tala um "hvern sem er" skulum við vera nákvæm: Þetta voru brúðhjón sem ætluðu að gifta sig, þau eru mormónar og presturinn þeirra líka. Nú þegar það er vitað, þá má spyrja á móti af hverju ætti að banna þeim að fá lánaða kirkjuna. Þ.e.a.s. af hverju að banna þeim það?

Baldurkr talar um réttindi og ábyrgð. Ég spyr: Hefði það verið ábyrgðarlaust að leyfa þeim bara að giftast í kirkjunni, Baldurkr? Það er ekki eins og þau hafi ætlað að framkvæma einhverja sataníska athöfn eða gera eitthvað sem myndi særa (annað) kristið fólk. Eða er nokkur ástæða til að ætla það? Þau ætluðu bara að giftast, játa ást sína hvort á öðru frammi fyrir fjölskyldum sínum, vinum og kunningjum. Játa ást sína, já og ætlun sína til að heyja saman lífsbaráttuna. Móðgar það kristið fólk? Er það ósæmileg hegðun í kirkju? Og ef þú spyrð þetta fólk, þá segist það meira að segja trúa á Jesú, hverjum kirkjan er helguð. Nákvæmlega hvar hefði skaðinn legið ef þau hefðu bara fengið að giftast í kirkjunni? Og ef það er ekki hægt að benda á neitt nema einhverjar tæknilegar skilgreiningar á því hvaða trúarsamfélagi mormónar tilheyra, engan skaða sem af þessu hefði hlotist, er þá ekki hægt að segja að þetta hafi verið svívirðileg framkoma prestsins við brúðhjón sem búin voru að gera allar ráðstafanir?


Baldurkr - 18/08/11 00:28 #

Eg hef verid ad benda á thad ad málid snyst ekki um ad allir séu ekki velkomnir, allir eru vekomnir og prestum ber ad thjóna öllum(hjalti).Málid snyst um hver hefur leyfi til ad stjórna athöfn. Thví ráda prestar í samrádi vid biskupa. Lengra komumst vid ekki. Kv. Baldur


Friðrik Tryggvason - 18/08/11 03:26 #

Þegar ég og spúsan giftum okkur þá talaði ég við Hjört í Fríkirkjunni, honum fannst ekkert mál að gifta okkur trúleysingjana í Jesú lausri athöfn, hann sagðist oft gifta trúleysingja. Ég hef líka komið í búddista jarðarför í fríkirkjunni. Aðeins meiri kærlekur í Fríkirkjunni.


G. - 18/08/11 09:38 #

Jú, Baldur, lengra komumst við víst. Þú bendir á að prestur og biskup ráði hver fái leyfi til að stjórna athöfn. En þótt það sé staðreynd í málinu að einhver ráði einhverju, þá er samt hægt að leggja mat á teknar ákvarðanir. Ég er að reyna að fá þig til að leggja mat á hvort það hafi verið nauðsynlegt eða yfirhöfuð eðlilegt að synja mormónapresti að gifta mormónapar undir ákveðnu þaki. Þú virðist ekki vilja leggja mat á hvort presturinn kom illa fram við brúðhjónin og skýlir þér bak við þá staðreynd að hann ræður yfir kirkjunni og talar svo um ábyrgð á athöfnum. Ég spyr aftur, hefði verið stórkostlegt ábyrgðarleysi af hans hálfu að leyfa mormónapresti að gera ástfangið par að hjónum í kirkjunni?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 18/08/11 10:32 #

...og prestum ber ad thjóna öllum(hjalti)

Ef þú skoðar liðinn "þjónusta" á heimasíðu kirkjunnar og skoðar "hjónavígsla", þar stendur meðal annars þetta:

Þessvegna verður amk annað brúðhjónanna að tilheyra Þjóðkirkjunni...

Ber prestum að þjóna öllum, alveg óháð trúfélagsaðild?


Pétur Björgvin - 18/08/11 17:15 #

Takk fyrir að taka þetta upp hér á þessum vettvangi. Það er vonandi að ykkur umfjöllun sem og annarra um þetta mál hreyfi við kerfinu. Áhugavert er líka almennt að setja þetta í samhengi við það viðhorf sem mormónar hafa búið við á Íslandi í gegnum tíðina. Hvers vegna er ekki einfaldlega til samningur á milli mormóna og þjóðkirkjunnar um hvernig afnotum af einstökum kirkjum er háttað? Lögum samkvæmt er það sóknarpresturinn sem hefur síðasta orðið hvað fer fram í hans kirkju og er það í samhengi við embættisskilning og embættisheit í íslensku þjóðkirkjunni. Því hlýtur verkefnið að vera - til að byrja með - að finna sóknarpresta sem eru tilbúnir til samstarfs við mormóna og þá er hægt að gera samstarfssamning þar að lútandi. Og ábyrgðin hvað varðar frumkvæði að því hlýtur að liggja hjá báðum aðilum, mormónum og þjóðkirkjunni. Takk aftur. kveðja Pétur Björgvin, djákni í Glerárkirkju.


Baldurkr - 19/08/11 13:20 #

Fridrik! Thú hefdir verid velkominn í thorlákskirkju/strandarkirkju. Vardandi thetta mál. Thad bar ad í misskilningi. Sóknarpresti var ekki knnugt um mormónatengingu og var erlendis. Tek undir med Pétri. Thetta á ad skoda á samkirkjulegum basis. Annars erud thid alltaf ad gagnrŷna kirkjuna fyrir thad ad byggja á trú og kennisetningum. Thad er akkúrat thad sem kirkjan gerir og grunnur hennar er mjög flókinn vefur kenninga og trúarsetninga. Mormónar trúarsetninga ekki á 3skiptingu guòdómsins. Thar med erud their ekki kenningarlega à sama grunni og evagelískar kirkjur. Thetta er ekkert einfalt fyrirbrigòi sem thiò eruò aò gagnrŷna enda væri mergurinn úr bæòi fylgjendum og gagnrŷnendum thá. Kv. Baldur


Baldurkr - 19/08/11 13:23 #

"Mormónar trúa ekki á thrískiptingu guòdómsins "á thetta ad vera.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 19/08/11 13:38 #

Baldur, það er óþarfi að flækja málið með vitleysunni í guðfræðinni. Þetta er bara spurning um mannasiði og gestrisni.

Ef höfðingsskapur, víðsýni og umburðarlyndi stjórnaði för væri sjálfsagt fyrir fólk að fá inni í kirkjum til hátíðlegra athafna á við hjónavígslu, nafngjöf, útför og annað slíkt þótt vísunin í guðdóminn sé önnur en prestar prédika sjálfir - eða jafnvel engin vísun í slík fyrirbæri.

Á þjóðin ekki "Þjóðkirkjuna" og kirkjubyggingarnar? Ég hefði haldið það, þar sem þetta er arfur okkar allra og haldið uppi með greiðslum úr sameiginlegum sjóðum.

Það er margt sem fram fer í kirkjum sem hefur hvort sem er enga vísun í nokkra guðfræði, svo sem tónleikar.

Séra Jón fær hugsanlega háa einkunn í guðfræði en falleinkunn í mannasiðum. Flóknara er það ekki.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/08/11 15:29 #

Hvers vegna er ekki einfaldlega til samningur á milli mormóna og þjóðkirkjunnar um hvernig afnotum af einstökum kirkjum er háttað?

Þetta er ágæt hugmynd. Ég vil stinga upp á annarri útgáfu af þessu: Á meðan ríkið er að borga fyrir því að halda uppi þessum kirkjum, þá eiga allir að fá sama aðgang að þeim og ríkiskrkjan getur ekki útilokað fólk af því að trúfélagsaðild þeirra er ekki rétt.


G. - 19/08/11 16:21 #

Ég er alveg sammála Reyni, þetta er spurning um mannasiði og nánast ekkert annað. Þetta er ekki spurning um hver ræður yfir kirkjunni, við vitum hver gerir það. Þetta er spurning um hvort presturinn, sem já ræður yfir kirkjunni, hefði átt að meina þessu fólki að gifta sig. Nú talar Baldurkr um þrískiptingu guðdómsins eins og hún komi málinu við, sú staðreynd að sumir trúi ekki á þrískiptingu guðdómsins gerir ekki ákvörðun prestsins skiljanlegri.

Baldurkr, er að þínu mati ástæða til að ætla að þessi brúðhjón hafi ætlað að fremja einhverja óhæfu í kirkjunni bara af því að þau trúa ekki á þrískiptinguna? Hefði ekki verið meinlaust að leyfa þeim að gefa sig hvort öðru í kirkjunni þrátt fyrir að þau séu ekki "á sama kenningalega grundvelli"? Ef ekki, af hverju ekki?


Baldurkr - 19/08/11 18:33 #

Thad hefdi verid alveg meinalaust. En kirkjan er kenningar- og trúarfyrirbrigòi, ekki félagsheimili. Prestar eru hins vegar mis umburdalyndir en strangt til tekiò veròa their sem presera fyrir altari aò trúa á thríeinan Guò sbr. Trúarjátninguna. Their sem eru fyrir utan gráturnar mega trúa hverju sem er. Kv. B


Arnold Björnsson - 20/08/11 19:40 #

Kirkjan er ekki félagsheimili segir Baldur :) Mömmu morgnar í safnaðarheimilum og túrista heimsóknir ásamt fjölda tónleika og fl. sem fram fara í kirkjum landsins eru held ég örugglega með í tölunni um kirkjusókn á íslandi þegar þið réttlætið tilveru ykkar. Það er sem sagt stundum hentugt að kirkjan sé ígildi félagsheimilis en stundum ekki. Þið verðið seint talin til heiðarlegasta fólks. Hentistefnan í algleymi hjá ykkur eins og venjulega.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/08/11 05:36 #

Heiðarleiki, umburðarlyndi, kærleikur, kurteisi, manngæska... kannski er ég treggáfaður en ég er engan vegin var við þessar dyggðir hjá þessari evangelísku-lúthersku mafíu.


Baldurkr - 21/08/11 12:01 #

Kirkjan er samt ekki félagsheimili. Ef svo væri væruò thid ekki ad berjast á móti henni. Eruò thiò nokkuò á móti félagsheimilum?


Arnold Björnsson - 21/08/11 12:57 #

Málefnalegur ertu Baldur eða hitt þó heldur. Þú svarar ekki spurningum og snýrð bara út úr. Mér finnst málflutningur ykkar kirkjumanna sífellt falla í gæðum. Nú er svo komið að það er engu líkara en að maður sé að ræða við unglinga á spjallsíðu gagnfræðaskóla þegar þið eigið í hlut. Barnalegt er það.


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 21/08/11 13:00 #

Sem félag er Vantrú ekki á móti félagsheimilum almennt en það getur verið á móti ákveðnum félagsheimilum ef rekstur þeirra er slíkur að það komi inn á svið félagsins.


Baldurkr - 22/08/11 09:41 #

Af hverju er ég kirkjunnar maòur Arnold? Getur ekki verid aò ég sé bara maòur? Eòa hestamaòur? bridsmaòur? Maòur á aò tala viò thann sem maòur er aò tala viò, ekki hópsetja thá. Thad tharf ekki mikla greind til ad sjá aò félagsheimilatilvísun mín var mjög málefnaleg, snerti kjarna rökrædunnar. En hafi einhver ekki greind til aò sjá thaò thá dettur hann út úr umræòunni og allir sjá hvers vegna. Kv. Baldur


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/08/11 09:46 #

Baldur, mig langar enn að vita hvers vegna þú segir að ríkiskirkjuprestum "beri að þjónusta alla" óháð trúfélagsaðild í ljósi þess að heimasíða kirkjunnar segir að það eigi ekki að veita fólki ákveðna þjónustu (vígja það í hjónaband) ef hvorugt þeirra er skráð í ríkiskirkjuna.


Baldurkr - 22/08/11 12:04 #

Thetta kannast ég ekki viò. Hef margsinnis gefiò saman fólk sem ekki er í íslensku thjóòkirkjuni, íslenskt sem erlent.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/08/11 12:37 #

Hvaðan færðu þá hugmynd að ríkiskirkjuprestum "beri" að þjóna öllum óháð trúfélagsaðild?

Ef það er einhver almenn regla, þá er stórfurðulegt að á heimasíðu kirkjunnar skuli vera tekið fram að við hjónavígslu verði annað hjónanna að vera skráð í ríkiskirkjuna.

Sjáðu líka þessi ummæli Kristján Vals:

Þegar hjónaefni óska eftir kirkjulegri hjónavígslu nægir að annað þeirra tilheyri Þjóðkirkjunni. Sá sem segir sig úr kirkjunni á því ekki rétt á kirkjulegri hjónavígslu nema ef verðandi maki hans er skráður í kirkjuna. Sé hvorugur aðili skráður í kirkjuna getur hjónavígsla ekki verið kirkjuleg. Verður þá að leita til borgaralegra vígslumanna, sem eru sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra.

Ber prestum að veita fólki þjónustu (þmt hjónavígslu) alveg óháð trúfélagsaðild?


Baldurkr - 22/08/11 13:11 #

Ósammála. Fólk getur t.a.m. Veriò ,,vel kristiò" thó thad sé ekki í thjóòkirkju?!


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/08/11 13:16 #

Allt í lagi Baldur. Fólk getur verið kristið þó það sé ekki skráð í ríkiskirkjuna. En það breytir ekki því sem stendur á heimasíðu kirkjunnar þinnar og svari Kristjáns Vals: Að þessi þjónusta sé bara fyrir meðlimi Þjóðkirkjunnar.

Hvaðan fékkstu þá hugmynd að prestum bæri að þjóna öllum óháð trúfélagsaðild? Geturðu vísað mér á einhverjar reglur þar sem það stendur t.d. að prestar megi ekki neita fólki um vígslu vegna "rangrar" trúfélagsaðildar?


Arnold Björnsson - 22/08/11 15:41 #

Nei það er rétt hjá þér séra Baldur. Starfsmaður kirkjunnar sem ver slæmar gjörðir hennar með odd og egg er auðvitað ekki kirkjumaður. Hann er hestamaður. Ég biðst velvirðingar á þessu hjá mér.


Baldurkr - 22/08/11 18:25 #

Eòa bridsmaòur Arnold eòa ágætismaòur.


Baldurkr - 22/08/11 18:29 #

Nei, ég kannast ekki vid meinar reglur til eòa frá. Sem löggiltur vígslumaòur hef ég leyfi til ad gefa alla saman sem hafa pappíra sína í lagi óháò hvers konar félagsaòild.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/08/11 18:48 #

Kærar þakkir, Baldur, fyrir að standa fyrir máli þínu hérna. Hveragerðiskóngurinn gæti greinilega lært mikið af þér.


Arnold Björnsson - 22/08/11 19:25 #

Já einmitt séra Baldur, mátt bara velja. Ég ætla hins vegar að kalla þig geimfara hér eftir. Vona að það sé reiðilaust af þinni hálfu. Ég ætla alla vega ekki að voga mér að kalla þvi kirkjumann. Það er særandi. Ég hef áttað mig á því.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/08/11 20:09 #

Nei, ég kannast ekki vid meinar reglur til eòa frá. Sem löggiltur vígslumaòur hef ég leyfi til ad gefa alla saman sem hafa pappíra sína í lagi óháò hvers konar félagsaòild.

Allt í lagi. Þannig að þegar þú segir að presti "beri" að þjóna öllum óháð trúfélagsaðild, þá ertu bara að lýsa skoðun þinni á því hvernig þér finnst að hlutirnir ættu að vera. Ummæli Kristjáns sýna að hlutirnir eru ekki eins og þú vilt að þeir væru.

Í samþykktum um innri málefni kirkjunnar stendur líka þetta:

Prestar þjóðkirkjunnar eru vígslumenn að lögum einungis þegar annað hjónaefna eða bæði tilheyra þjóðkirkjunni. #

Þetta er samþykkt af Kirkjuþingi. Á það ekki að heita æðsta stofnun ríkiskirkjunnar? Ef að æðsta stofnun kirkjunnar þinnar segir að presti beri að athuga hvort að trúfélagsaðildin sé rétt þegar hann veitir þessa þjónustu, er þá ekki augljóslega rangt að segja að prestum beri að þjóna öllum óháð trúfélagsaðild?


Baldurkr - 23/08/11 18:03 #

Engu biò thetta aò bæta!


Svanur Sigurbjörnsson - 19/09/11 14:49 #

Af svipuðum stífleika: Í frétt í sjónvarpi um helgina var sagt frá því að nokkrir prestar í dönsku þjóðkirkjunni neituðu að gefa saman fólk sem hafi að baki skilnað. Ástæðan er sú að "það sem guð hefur saman gefið, skal enginn maður sundur skilja". Er þetta ekki dásamlegt. Ætli svartstakkar á Íslandi vilji taka þetta til fyrirmyndar, enda meira í anda orða Biblíunnar og þess sem þeir segja við hverja einustu giftingu?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.