Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Niðurskurðartillögur Vantrúar og Kolbrúnar

Skurðlæknar

Í morgunútvarpi Rásar2 í morgun setti Kolbrún Halldórsdóttir fram tillögur að niðurskurði ríkisútgjalda. Hennar lausn var meðal annars að skera niður í heilbrigðiskerfinu og beina fólki að ódýrari úrræðum.

Ég held að við séum í heilbrigðiskerfinu að eyða meiri peningum en við þurfum því það er oft þannig að dýrustu úrræðin eru aðgengilegust fyrir fólk en ódýrari úrræðin eru allsendis óaðgengileg af því að ríkissjóður tekur ekki þátt í að greiða þau niður. Þannig að ég held að með því að beina fólki í heilbrigðiskerfinu í ódýrari úrræðin í auknu mæli, þá getum við skorið niður í þessum fjármunum sem eru að fara í heilbrigðiskerfinu.

- Með ódýrari úrræðum, getur þú nefnt mér einhver dæmi?

Já, þá er ég náttúrulega að nefna svona óhefðbundnar leiðir. Við eigum stóra og mikla skýrslu um starfsemi græðara á Íslandi sem eru í raun og veru þeir sem að sagðir eru starfa undir merkjum óhefðbundinna lækninga, þó að þar séu í flestum tilvikum lækningar sem eiga sér lengri sögu en lækningar vestrænu læknavísindanna.

Kolbrún var semsagt að tala um óhefðbundnar leiðir. Með öðrum orðum: Í stað þess að framkvæma dýrar aðgerðir eða setja fólk á dýr lyf sendum við það til hómópata eða heilara á kostnað ríkisins.

Þetta veiti okkur innblástur til að koma með frekari tillögur að niðurskurði ríkisútgjalda í anda tillagna Kolbrúnar. Hér eru ellefu tillögur Vantrúar vegna þess að ellefu er einum meira en tíu.

Niðurskurðartillögur Vantrúar

  1. Leggjum Veðurstofuna niður og stólum á veðurklúbbinn frá Dalvík. Það kólnar með haustinu.
  2. Skerum niður útgjöld til Háskóla Íslands enda höfum við Google og Wikipediu. Hver þarf meira?
  3. Skerum niður útgjöld til leikhúsa, fólk getur fylgst með störfum Alþingis í staðin. Það er oft góð blanda af tragík og kómík.
  4. Skerum niður hjá lögreglunni og beinum fólki til Vítisengla. Vítisenglar eru þekkt alþjóðleg samtök sem hafa mikla reynslu af því að vernda einstaklinga og fyrirtæki gegn "óhöppum". Starfsaðferðir þeirra eru vissulega óhefðbundnar en eiga sér miklu lengri hefð heldur en hefðbundnar aðferðir lögreglunnar.
  5. Skerum niður útgjöld til Matvælastofnunar. Jónína Ben reddar þessu fyrir skít og ekki neitt.
  6. Leggjum niður fréttastofu RÚV, sannleikurinn.com, baggalutur.is og AMX sjá um fréttaflutning.
  7. Skerum Mannréttindastofu Íslands niður, Norður-Kóreustjórn getur veitt óhefðbundin ráð.
  8. Vigdís Steinþórsdóttir tekur að sér geðlækningar og sálfræði okkar Íslendinga.
  9. Rannsóknarlöggæsla verður í höndum Sálarrannsóknafélagsins, "Amma þín er komin, hún er að tala um dökkklæddann lágvaxinn dreng. Hann er með samviskubit yfir því að hafa brotist inn í sumarbústaðinn þinn".
  10. Jafnréttisstofa er algjörlega óþörf þegar við höfum bleikt.is. Stelpur, ekki gleyma augnskugganum! Þjóðhátíðarnefnd í Vestmannaeyjum getur veitt ráðgjöf.
  11. Látum ríkiskirkjuna eiga sig. Ekkert getur komið í staðin fyrir hana!

Smáa letrið: Að sjálfssögðu er þörf á að skoða útgjöld til heilbrigðismála og eflaust eru til dæmi um að einstalingar fái hér of dýra meðferð. Lausnin er ekki sú að ríkið niðurgreiði aðferðir sem ekki hefur verið sýnt fram á að virki. Fólk getur leitað til kuklara á eigin kostnað.

Ritstjórn 03.08.2011
Flokkað undir: ( Grín , Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Einar - 03/08/11 14:35 #

Orð Kolbrúnar eru ótrúleg og í raun ótrúleg rök hjá henni. Kannski best að sjúkrabíllinn fari bara beint til græðara, eða kannski heilara. Óþarfa kostnaður að fara uppá spítala.....

En Niðurskurðartillögurnar eru mjög góðar.

kv.


oddur - 03/08/11 15:34 #

Það má alveg spara sjúkrabílinn. Því að heilari þarf ekki að vera á staðum til að hundakúnstirnar hans virki :-)


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/08/11 15:36 #

Fjarheilun og englaheilun er klárlega stálið. Hnakkus gerði mjög fræðilega úttekt á þessu fyrirbæri einu sinni.


Freyr - 03/08/11 22:25 #

Það kann að hafa einhver áhrif á ráðleggingar Kolbrúnar að maður hennar hefur, væntanlega með góðum árangri, beitt höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun á viðskiptavini sína.


Kári Rafn Karlsson - 03/08/11 23:15 #

Hugsa að þetta sé framtíðarsýn Kolbrúnar.


Vigga vestræna - 04/08/11 12:25 #

Það væri áhugavert að vita hvert Kolbrún leitar ef veikindi koma upp t.d. hjá henni sjálfri eða börnum hennar? Hún fer auðvitað ekki til "vestræns" læknis (hef reyndar aldrei skilið af hverju aðferðir sem upprunnar eru - eða amk sagðar vera - í austurlöndum, oft fyrir ansi mörgum árhundruðum og með takmarkaða þekkingu að baki - eru taldar betri en gagnreyndar aðferðir og lyf "vesturlanda". Það er kannski önnur saga?) heldur leitar til heilara eða beinaréttingamanns? Fær seyði með einhverju óskilgreindu innihaldi og óreiknuðu magni af mögulega virkum efnum sem geta í sumum tilfellum gagnast við einhverju en enginn veit í raun hvort virka og hvaða áhrif hafa þegar þau koma saman við önnur efni. Af því samsæriskenningarnar ganga út á það að vondu læknarnir (sem hugsa bara um launin sín) og enn verri lyfjafyrirtæki (sem hugsa bara um að græða) koma á einhvern hátt í veg fyrir að litlu sætu (sem græða aldrei neitt og hugsa bara um velferð allra) óhefðbundu framleiðendurnir geti prófað sína vöru. Held reyndar að þeir prófi ekki vörurnar til að ekki komi í ljós gagnsleysi þeirra en það er annað mál. Auðvitað kosta rannsóknir peninga en það er ein ástæða þess að lyf eru dýr - og það er svo merkilegt að þrátt fyrir rannsóknarleysi er óhefðbundna leiðin oft dýrari en hin "vestræna" (lesist: vonda).

Í þessu er ekkert rétt og ekkert rangt en hafa skal það sem sannara reynist og á meðan kuklarar geta ekki með neinu móti sannað að það sem þeir gera og selja (!) virki, er ábyrgðarleysi að halda fram gagnsemi þess, hvað þá beinlínis hvetja til meiri notkunar eða fleiri heimsókna. Og svona til að klípa smá...hversu margir fara til ýmis konar heilara, beinaréttarar eru þar með taldir, og fá kvittun fyrir heimsókninni?

Myndbandið er brill:)


Óli Þ - 04/08/11 20:59 #

Er svo einhver hissa yfir því hvernig er komið fyrir okkur með svona vanvita við stjórnvölin, ég meina þessi kona var ráðherra !

For crying out loud ! Getur einhver bjargað okkur ?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 04/08/11 22:03 #

Væri ekki hægt að loka öllum geðdeildum landsins bara með því að fá einhverja kaþólska presta til að reka út illu andana? Það myndi spara helling og það er svo gömul aðferð að hún hlýtur bara að virka


Halldór L. - 04/08/11 22:28 #

Það sem helst mætti skera niður hjá ríkinu er kjaftæðið í þessum fulltrúum okkar. Svo má líka leggja þingið bara niður og ráða einræðisherra sem eiga sér jú lengri sögu en lýðræði vestrænu lýðveldanna.


Svanur Sigurbjörnsson - 04/08/11 23:43 #

Það er í raun grafalvarlegt að þingmaður hjá þinflokki í ríkisstjórn skuli láta þetta út úr sér. Þetta gefur tóninn um það hversu auðvelt það getur reynst kuklurum að sannfæra fólk í valdastöðum um að kukl sé jafngilt vísindalegum heilbrigðisfræðum. Þetta er viðvörunarbjalla!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/08/11 09:18 #

Kolbrún Halldórsdóttir er ekki þingmaður í dag.


Halldór L. - 05/08/11 16:15 #

Gott mál, samt ekki gott hvað ég fylgist lítið með.


Valtýr Kári - 06/08/11 19:05 #

Óli Þ. ég held að við verðum bara að bjarga okkur sjálf.


AI - 06/08/11 21:46 #

Ekki gleyma að þetta eru snillingarnir sem árið 2007, 51 af 63 þingmönnum, vildu veita Sri Chinmoy friðarverðlaun nóbels.

Þegar maður sér vinnubrögðin og uppátækin hjá þessu liði þá kemst maður ekki hjá því að finnast bara kominn tími til að loka sjoppunni...


Kristján (meðlimur vantrú) - 08/08/11 23:28 #

Þetta er afar skuggalegt og mögulega hættulegt. Er fyllilega sammála öllum, sérstaklega Svani og Viggu. Ég get sagt það frá því að hafa unnið í Heilsuhúsinu (skammarblettur) að næringarþerapistarnir þar hafa lært að bera kennsl á það sem þau kalla "rauð flögg". Það þýðir að þegar þau grunar að "sjúklingur" þeirra hafi einhvert raunverulegt eða alvarlegt mein, beina þau sjúklingi sínum til læknis eða einhvers sem hefur raunverulega þekkingu eða hæfni á gefnu sviði. Jafnvel þetta fólk sem hefur tileinkað sér bullið sem þau lifa á, hefur ekki sannfæringuna/samviskuna til þess að hætta á að einhver skaðist vegna þess að þau voru að fylla þann af sínu kjaftæði.

Ég hugsa að þau séu jafn hrædd við hugmynd Kolbrúnu og við erum. Þau vilja ekki þessa ábyrgð, þau vilja bara selja fólki drasl við hlutum sem eru ekki alvarleg vandamál.


Halla Sverrisdóttir - 10/08/11 10:37 #

Ein spurning: af hverju gefur fyrrum þingkonan sér að "óhefðbundin" úrræði séu endilega ódýrari en þau "hefðbundnu"? Væri raunar gaman að sjá einhvers konar samantekt og samanburð á kostnaðarþáttum.

Þetta var klárlega ekki besti dagurinn hjá Kolbrúnu, sem hefur annars átt marga ágæta spretti og barist fyrir ágætum og þörfum málum, svo það sé nú nefnt.


Jón Ferdínand - 11/08/11 14:18 #

WTF!!! Varúð, varúð blót á leiðinni: Hvaða andskotans hálfvita helvítis rugludalla fífl er þessi manneskja? Það er á stundum sem þessum sem maður missir hálfpartinn trúna á mannkynið!

Ps: Kári, lol, Mitchell and Webb eru snillingar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.