Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Morris Cerullo á Íslandi

Morris

Þann 6. maí síðastliðinn var haldin sérstök trúarsamkoma í Háskólabíó á vegum predikarans Morris Cerullo. Þetta var tækifæri sem ég gat ekki látið úr hendi sleppa. Tilgangurinn var aðallega sá að upplifa hvernig slíkar samkomur færu fram þó ég vissi að hún væri alls ekki dæmigerð fyrir þær sem eiga sér stað hér á landi. Við fórum tvö á samkomuna til að sjá hvort við gætum fundið "MÁTTINN".

Miðinn

Samkomusalurinn var nokkuð fjölmennur þótt snemma var komið en hann varð þó ekki alveg fullur þegar samkoman hófst. Á hverju sæti var miði þar sem fólk var beðið um að láta fé af hendi renna til samtaka nefndum eftir Morris Cerullo. Á miðanum stóð:

ELLEFU þýðir “VIÐBÓT!” Meðtaktu smurningu VIÐBÓTAR Guðs ... umfram það sem þú hefur vænst og þarfnast - og meira en heimurinn á að venjast.

Nú er þinn tími fyrir VIÐBÓTAR-úthellingu hjálpræðis Guðs, lækningar og lausnar, úthellingar smurningarinnar og óvenjulegra fjárhagslegra blessana.

TRÚÐU! Guð hefur lofað mér því að þú þurfir ekki lengur að skrapa botninn á mjölskjóðunni. (Lestu 1. Konungabók 17.8-15.) Guð fer með þig í nýja vídd VIÐBÓTAR og það síast inn í hverja þörf sem þú stendur frammi fyrir!

Í opnu miðans var að finna biblíutilvitnanir þar sem fólk gaf og hlaut góðs af. Fyrir neðan var form til að fylla út hvað maður vildi gefa. Þar voru fastar fjárhæðir sem allar enduðu á 11 og síðan valmöguleiki sem kallaðist „Eins og Drottinn leiðir (ISK) kr.“ þar sem hægt var að fylla inn upphæð að eigin vali. Einnig var í boði að gefa upp kreditkortanúmer ásamt öryggisnúmeri og undirskrift.

Upphafið

Atburðurinn hófst með trúartónlist í fjörugri kantinum með söngvurum fremst á sviðinu. Þau tóku nokkur lög þar til Eiríkur Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Omega, kom á svið og hóf kynningu sína á aðalgesti kvöldsins, hinn 79 ára gamla Morris Cerullo. Var hann kynntur sem mikill öðlingur sem hefur gefið ævi sína til guðs og jafnframt líkt við Móse sem 80 ára hóf leiðangur sinn til að frelsa Gyðingana frá Faraó. Ferill Morris við að þjóna Jesú væri bara rétt svo að hefjast.

Morris kom þá á sviðið við fagnaðarlæti áhorfenda ásamt íslenskum þýðanda sem Omega hafði greinilega reddað. Morris byrjaði á því að nefna að hann hefði ekki fengið slíka kynningu áður og þakkaði kærlega fyrir. Þá hófst fjörið.

Eitt það fyrsta sem hann gerði var að minnast á 60 ára brúðkaupsafmæli þeirra hjónanna og upp brast mikill fögnuður. Þá minntist hann sérstaklega á Ísland og sagði að eftir þetta kvöld myndi Ísland ekki vera eins og áður og þá brast aftur mikill fögnuður úr salnum. Hann nefndi þetta nokkrum sinnum en orðaði það öðruvísi í hvert skipti.

Þetta var það sem hægt er að kalla þjálfunarfasann. Ef honum fannst áhorfendur í salnum ekki fagna nógu mikið eða fagnaði ekki á réttum tíma, þá sneri hann baki við áhorfendur og sagði, eins og hann væri að tala við skipuleggjendur atburðarins, „þau hafa ekki áhuga“ eða álíka.

Áhugavert var þegar Morris kynnti bók sem hann seldi á staðnum og nefndi að hann seldi hana á kostnaðarverði. Hann sagði að þeir ætluðu ekki að selja hana fyrir þrjú þúsund krónur, þýðandinn þýddi það, ekki heldur á tvö þúsund krónur, þýðandinn þýddi það, heldur eitt þúsund krónur. En þá þýddi þýðandinn verðið sem fimm þúsund krónur. Hvort þetta var misheyrn af minni hálfu eða ranglega þýtt af misgáningi þarf að liggja milli hluta.

Predikunin hélt áfram

Nú þegar lýðurinn var peppaður upp rifjaði hann það upp hvers vegna guð Biblíunnar væri hinn sanni guð. Til að gera langa sögu stutta var ástæðan sú að Jahve svaraði bænum. Til stuðnings því nefndi hann sögu Ísraelsmanna þegar þeir lögðu af stað úr þrælahaldinu í Egyptalandi. Sömuleiðis nefndi hann hernaðarsigra Ísraelsmanna. Hinar þjóðirnar höfðu nefnilega ekki guði sem svöruðu bænum en Ísraelsmenn höfðu einn sem gerði það. Reglulega í þessari predikun fögnuðu áhorfendur mikið og það var greinilega tengt tóninum í röddinni hans því núna var hann búinn að þjálfa fólkið hvenær það ætti að fagna.

Til að koma á frekari tengslum við áhorfendur notaði hann gjarnan frasa sem fólk notar venjulega þegar það ræðir við annað fólk á persónulegu nótunum. Hann sagði oft „á ég að segja ykkur leyndarmál?“ og auðvitað fagnaði fólkið samanber "þjálfunina" sem það hlaut. Það sem fylgdi á eftir var oftast eitthvað sem var greinilega ekki leyndarmál og hefur örugglega verið á allra vörum fyrir þessa samkomu. Aðventistar ávarpa fólk oft „vinur“ þótt þeir séu ókunnugir til að koma á persónulegum tengslum og Morris var ekkert öðruvísi þegar kom að því.

Smurningin og lok samkomunnar

Í lok predikunarinnar bauð hann upp á það sem kallast smurning. Þeir sem hafa horft á predikara í útlöndum ættu að kannast við ferlið. Fyrir þá sem ekki vita þá felst það í því að fólk kemur til hans upp á sviðið. Hann leggur hendi á enni fólksins, þylur upp nokkur orð og ýtir fólkinu aftur þar sem aðstoðarmenn hans grípa fólkið og leggja það á sviðið.

Áður en "smurninginn" hófst var mikil áhersla á að fá fólk til að tala tungum. Morris byrjaði þá að tala í tungum og leit síðan til þýðandans, eins og hann væri pirraður, sagði eitthvað við hann - án þess að því var útvarpað um salinn - og þýðandinn byrjaði að tala í tungum. Þó heyrðist á þýðandanum að hann væri að segja eiginlega það sama aftur og aftur. Þá ályktaði ég að Morris hafi gefið honum fyrirmæli um að tala í tungum í smá stund.

Morris hóf smurningarferlið með því að smyrja aðalsöngvarann og bauð öðrum upp á það sama. Hann minntist á það að hann hefði blessað allan salinn. Fólk byrjaði síðan að streyma að sviðinu en þó ekki allir. Flestir voru áfram í sætinu sínu. Þó var nóg að gera fyrir Morris Cerullo og um stund lenti hann í vandræðum með að finna laust pláss á sviðinu.

Eftir drykklanga stund kvaddi hann alla í salnum og fór út af sviðsljósinu. Fólk byrjaði þá að fara út og aðstoðarmennirnir fóru á milli sæta til að safna útfylltum umslögum og peningagjöfum. Eiríkur Sigurbjörnsson talaði þá yfir hópinn og minntist á miðana sem voru í sætunum. Einnig nefndi hann að guð þyrfti á þessu að halda og hélt á veski, augljóslega að vísa til peninga.

Eftirþankar

Það er margt sem hægt var að læra af þessari samkomu. Efst í huga var formúlan sem predikarar nota til að fanga áhorfendur í ákveðið ferli. Fyrst tala þeir rólega um einhvern atburð eða sögu og framkalla spenntari og spenntari tón þar til hann nær hámarki sem er einmitt þar sem fólk fagnar mest. Síðan endurtaka þeir þetta aftur og aftur.

Þjálfunarfasinn hefur þann tilgang að koma fólki í þennan takt svo það viti við hverju það er að búast. Ef það stendur sig ekki nógu vel refsar hann fólki með því að drepa niður stemminguna. Tónlistin spilar þarna stórt hlutverk og er sér manneskja sem gefur hljómsveitinni merki um hvernig hljóma hún á að spila.

Hápunkturinn í samkomunni í augum fólks er þegar þjálfunarfasinn er búinn og hann byrjar að vísa í Biblíuna og tengda atburði. Fólk fær þá mikla ánægju út úr því að fagna á þennan hátt og fara eftir því sem aðrir áhorfendur eru að gera, þ.e.a.s. að fagna á ákveðnum tímapunktum. Við sem komum þarna sem túristar vorum auðvitað ekki blekkt svo auðveldlega þar sem við töldum okkur ekki eiga samleið með áhorfendum hvað þetta varðar.

Í heildina var þetta þó fróðleg og áhugaverð samkoma og verður áhugavert að fara næst á samkomu af þessu tagi til að greina ferlið betur.

Svavar Kjarrval 02.08.2011
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Arnar Már - 02/08/11 10:30 #

Þetta er með því betra sem ég séð, þessi samkoma. "Don't give me that Iceland look!" Morris var illilega pirraður á vandræðalega stemmaranum sem sveif yfir vötnum á tímapunkti. Hljómsveitarstjórinn var líka kostulegur, hélt ég yrði ekki eldri þegar trommarinn var fastur í uppbyggingu og stjórinn var að signala með hendinni eins og hann væri að negla á sneriltrommu, að bíða eftir að trommarinn dytti í steady bítið. Þetta var svo augljóslega hannað show að ég vissi ekki hvort eg ætti að hlæja eða gráta.


Jóhannes Helgi - 07/08/11 10:21 #

Það er ótrúlegt hvað fólk lætur blekkja sig með svona hócus pócus fólki sem er bara eftir að féfletta það.


Sigurlaug Hauksdóttir - 10/08/11 14:36 #

Magnús Magnússon skrifar um þessa trúarsamkomu. http://visir.is/trumal-og-tungumal/article/2011708109985


Jón Ferdínand - 11/08/11 01:18 #

Ég horfi stundum á hann Morris á Omega í þættinum hans Helpline, þar sem hann meðal annars læknar krabbamein og mænuskaða í gegnum símann, og ég sver það að þessi gæji er skuggalega líkur Yoda í bæði útliti og þá sérstaklega í tali ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.