Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Óráð stjórnlagaráðs

11. fundur Stjórnlagaráðs

Stjórnlagaráð afgreiddi mannréttindakafla A-nefndar inn í áfangaskjal ráðsins á 14. ráðsfundi í hádeginu í gær þar sem lagður var fram auka valkostur um þjóðkirkjuna.

Þjóðkirkja Leið A - Tímabundið ákvæði:

Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.

Endurskoða skal stöðu evangelísku lútersku kirkjunnar sem þjóðkirkju og skal þeirri endurskoðun ljúka innan fimm ára frá gildistöku stjórnarskrár þessarar með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ræður hvort grein þessi fellur brott í heild sinni eða fyrsta málsgrein stendur ein eftir.

Leið B - Valkostir:

Valkostur 1: Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.

Valkostur 2: [Ákvæðið falli brott.]

Í ræðu sinni á fundinum sagði formaður A-nefndar að rétt væri að minna á að þetta eru drög en ekki endanleg útgáfa. En endanleg útgáfa stjórnlagaráðs verður líka bara drög að frumvarpi. Hið grátlega er að stjórnlagaráðsmenn vita ekki einu sinni hvort endanleg drög þeirra verða lögð fyrir þjóðina fyrst og Alþingi svo eða öfugt.

Auðvitað eru þessir valkostir grátlegir í sjálfu sér. Það ætti ekki einu sinni að vera til umræðu að mylja undir eitt trúfélag sérstaklega í stjórnarskrá sem leggur áherslu á trúfrelsi og jöfnuð. Þetta klúður er óskiljanlegt, jafnvel þegar útskýringar þess liggja fyrir. Hvernig stendur þá á þessu hiksti?

Grein 62 í núverandi stjórnarskrá hljóðar svo:

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.

En 79. grein hljóðar svo:

Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög. Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Orðin "breyta má þessu með lögum" í 62. grein eru furðuleg í stjórnarskrá en voru sett inn til að auðvelda aðskilnað ríkis og kirkju. En viðbótinni í 79. grein var svo troðið inn til að tryggja að þjóðin fengi að segja álit sitt beint. Frekar klúðurslegt.

En þetta klúður í núverandi stjórnarskrá nýta stuðningsmenn ríkisstyrktra trúarbragða sér og halda fram að tilgangur þess sé alls ekki að auðvelda aðskilnað ríkis og kirkju heldur þvert á móti að torvelda hann - því þetta sé svo óskaplega merkilegt og mikilvægt ákvæði - sem njóti alveg sérstakrar verndar. Því til stuðnings vitnaði séra Örn Bárður Jónsson, stjórnlagaráðsmaður og fulltrúi í A-nefnd, í Pétur Kr. Hafstein hæstaréttardómara, fyrrum forsetaframbjóðanda og núverandi forseta Kirkjuþings - sem hóf síðasta Kirkjuþing, sem fjallaði um afglöp biskups í starfi, á því að lýsa yfir fullu trausti á hann. Þannig er öllu snúið á haus.

En ríkiskirkjan nýtur ekki bara stuðnings og verndar ríkisvaldsins í stjórnarskrá því um hana gilda líka sérstök lög um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar. Upphaf laga þeirra er svohljóðandi:

  1. gr. Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni. Ríkisvaldinu ber að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veitir aðild að þjóðkirkjunni.

Næstu greinar tíunda svo enn frekar hvernig mylja skal undir þetta trúfélag öðrum frekar og framar, borga laun starfsmanna þess o.s.frv. o.s.frv. (En takið eftir að til að teljast aðili að kirkjunni þarf bæði skírn og skráningu í Þjóðskrá. Margir eru skráðir (sjálfkrafa við fæðingu) í þessa ríkisstofnun en eru ekki skírðir og því ekki aðilar að henni. Ríkið borgar þessari kirkju samt gjöld samkvæmt skráningu einni.) Þótt ekkert yrði getið um "Þjóðkirkjuna" í nýrri stjórnarskrá stæðu lögin um yfirburðastöðu hennar og forréttindi eftir. Brottnám "Þjóðkirkjuákvæðisins" þýðir þannig ekki sjálfkrafa aðskilnað ríkis og kirkju.

En stjórnlagaráðsmenn vita ekki sitt rjúkandi ráð því einhverjir "sérfræðingar" hafa reynt að koma þeirri hugmynd í kollinn á þeim að hrófli þeir við stjórnarskrárbundnum forréttindum ríkiskirkjunnar jafngildi það voðalegum aðskilnaði ríkis og kirkju, sem menn hafa búist við í hundrað ár og meirihluti þjóðarinnar hefur viljað síðan mælingar hófust. Síðast vildu 73% þjóðarinnar þennan hræðilega aðskilnað.

Brottnám forréttinda ríkiskirkjunnar úr stjórnarskrá er líklega einfaldasta og sjálfsagðasta breytingin sem stjórnlagaráð gæti gert og jafnframt sú sem nýtur hvað mests stuðnings meðal þjóðarinnar. Samt er eins og ráðið ætli einmitt að klúðra því.

Tengdar greinar: / Stjórnlagaráð hikstar / Sáttatillaga um 62. grein / Íslenskir karlmenn

Reynir Harðarson 25.06.2011
Flokkað undir: ( Stjórnlagaráð , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Ægir Sævarsson - 25/06/11 14:29 #

hvers vegna má ekki hér á landi gera stjórnarskrá eins og í BNA þar sem er ekki minnst einu orði á guð og ekkert talað um trú nema til að segja að hana skal ekki þvinga upp á fólk og alls ekki styðja af ríki? Erum við að segja að það sé OK að ljúga að börnunum okkar? Verður það stjórnarskrárbundinn réttur ríkisins að ljúga að börnum í skólum? Að menn og konur verði sjálfkrafa hluti af þessari heimsku og nema þú sérstaklega segir þig frá kirkjunni fari skattar þínir í að styðja boðskap sem í besta falli telst skáldskapur en hefur í versta falli orsakað meir hörmungar og ömurleika en nokkuð annað á þessair jörð? Nýleg dæmi eru hörmungarsögur nemenda Landakotsskóla og eðlilegt viðbrögð trúbragða við þeim? Er þetta boðlegt á 21. öld þar sem mannleg skynsemi hlýtur að hafa eitthvað til síns máls, mannlegur heiðarleiki og góðmennska fyrir löngu búin að benda á ömurleika og hræðilega galla trúfélaga og vísindi fyrir löngu búin að afsanna allar staðhæfingar allra trúarrita sem til eru? Af hverju á að bjóða upp á þessa vitleysu undir vernda ríkisvaldsins?


Kristján (meðlimur vantrú) - 25/06/11 23:54 #

Styð fullkomnlega það sem Ægir hér að ofan segir.

Eins hrifinn og ég var um hugmyndina að stjórnlagaþingi þegar hún kom upp fyrst, er ég núna hræddur um að meginhluti starfs þeirra sé dæmt til þess að enda upp sem klúður sem muni aldrei mæta kröfum alþjóðasamfélagsins um t.d. mannréttindi. Það eina sem þau eru að gera er að endurorða hluti sem eru þarna fyrir á verri hátt.

Sterkasta dæmið væri það sem vinur minn (lögfræðingur) benti mér á, en það var að þau hafi í huga að taka út mismunun sökum kynþáttar og bæta inn erfðir. Mannréttindasáttmálar frá upphafi voru gerðir að meginþáttum vegna kynþáttamismununar og það að taka þær alþjóðasamþykktir sem Ísland hefur skrifað undir og breyta orðalagi bara eftir þeirra hentugleika á bara eftir að skapa vandræði.

Svo heyrði ég nú líka að í stjórnarskránni eigi trúarákvæðið að vera þess eðlis að öll trú- og lífskoðunarfélög beri að vernda túlki þau umburðarlyndi.

Það má kalla mig ruglaðan, en ég tel þetta beina árás á Íslam. Ekki leyfir deiluskipulag borgarinnar moskvu neins staðar.. ? En þar á móti má að sjálfsögðu segja þetta default-a kristnina einnig. Ég held að okkur bíði lögfræðimartröð þegar stjórnlagaþinginu er lokið.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/06/11 14:15 #

Saga stjórnlagaráðs er ein hörmungarsaga. Við munum eftir "Þjóðfundinum" og "orðasúpunni" sem var "niðurstaða" hans. Í kafla um "land og þjóð" mátti sjá setningar sem þessar:

Aðskilja skal ríki og kirkju. Á landinu er engin þjóðkirkja og enginn forseti.Íslenska tungu eflum við, auðlindir verjum af mætti, kirkja og ríki með hvort sína hlið, kannski þjóðina sætti. Stjórnarskráin er grunnsáttmáli sem tryggir fullveldi, sjálfstæði og jöfnuð íslendinga, varðveitir íslenska tungu, skilgreininir hlutverk forseta og aðskilnað ríkis og kirkju. Aðskilja skal ríki og kirkju. Aðskilja skal ríki og kirkju, standa vörð um íslenska tungu og menningu og tryggja öllum landsmönnum atvinnu og grunnþjónustu óháð búsetu. #

Í kafla um mannréttindi mátti sjá:

Að kirkjan heyri áfram undir ríkið. Aðskilnaður ríkis og kirkju. Ekkert trúboð í skólum heldur aukin trúarbragðafræðsla. Trúfélög fái ekki opinbera styrki.

Í kafla um siðgæði:

Að trúboð sé bannað í opinberum stofnunum svo sem leikskólum og öðrum skólum. Að tryggt sé að öll trúfél[ö]g séu aðskilin frá ríkinu. Halda í það að hin evangelíska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi.

Þá var ákveðið að efna til "Stjórnlagaþings" og kjósa 25 fulltrúa á það samkvæmt sérstökum lögum. Kosningafyrirkomulagið var furðulegt en kosningaþátttakan hneyksli, tæp 36%. Ýmsar skýringar á því hafa verið reifaðar. Svo syrti heldur í álinn þegar í ljós kom að kosningin var ólögleg í þokkabót. Samt sem áður ákvað Alþingi (með 30 atkvæðum) að "virða" úrslit þessara ólöglegu kosninga, fella úr gildi lög um Stjórnlagaþing en koma á fót "ráðgefandi stjórnlagaráði". Athygli vakti að aðeins einn "kjörinn" fulltrúi á Stjórnlagaþing ákvað að þiggja ekki sæti í Stjórnlagaráði, Inga Lind Karlsdóttir. Hún sagði:

Nú hefur verið samþykkt á Alþingi að skeyta ekki um úrskurð Hæstaréttar frá því í janúar, um að kosningar til stjórnlagaþings skyldu ógildar teljast, og skipa þessa 25 í stjórnlagaráð sem á að sinna því sama og stjórnlagaþinginu var ætlað. Undirrituð mun ekki ganga á svig við úrskurð Hæstaréttar og þiggur því ekki boð Alþingis um að taka sæti í stjórnlagaráði. #

Enginn veit hvað "ráðgefandi stjórnlagaráð" þýðir en samt situr það nú í "krafti" ólöglegra kosninga sem aðeins þriðjungur kosningabærra manna tók þátt í. Samkvæmt könnun Eyjunnar, sem birtist í dag, hafa 55% þeirra sem tóku afstöðu litlar væntingar til þessa ráðs. Í ljósi framvindunnar í máli "Þjóðkirkjunnar" virðist það skynsamleg afstaða.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 27/06/11 09:35 #

Katrín Fjeldsted er ljósið í myrkri stjórnlagaráðs. Á 14. fundi lagði hún fram breytingartillögur sem hljóða svo:

Fella brott setninguna: Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

Og um "Þjóðkirkjuákvæðið":

Ákvæðið falli brott.

Myrkrið er hins vegar svartast í málflutningi Daggar Harðardóttur og hún teygir það líka í borgarmálin.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.