Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Mál "Félaga Jesú" 1978

blíblí
Frá vinstri: Svava Jakobsdóttir, forsíðan á Félaga Jésús, Ragnhildur Helgadóttir


Árið 1978 kom út þýðing Þórarins Eldjárns á bókinni "Félagi Jesú" eftir Sven Wernström. Skemmst er frá því að segja að heljar fár greip valda og viðkvæma aðila í þjóðfélaginu einsog Ragnhildi Helgadóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins. En guðlast var henni mjög hugleikið.

Ragnhildur kom fram með miklu offorsi og krafðist að útgáfufélag bókarinnar, Mál og menning, yrði kært fyrir brot á 125.gr hegningarlaga. Svava Jakobsdóttir (1930-2004) alþingismaður varði bókina og rétt rithöfunda. Hún ásamt Vilmundi Gylfasyni bentu Ragnhildi réttilega á að málið ætti ekkert heima í sölum Alþingis.

Helstu klerkar og safnaðaleiðtogar Íslands höfðu uppi hástemdan bannfæringarvaðal og lýstu bókinni sem ólyfjan. Brambolt trúmanna í þessu máli skilaði sér í roksölu bókarinnar, þannig að áróður þeirra hafði þveröfug áhrif á landann sem hafði mikla þörf fyrir að kynnast þessum forboðna ávexti.

Um þetta mál er fjallað í Öldinni okkar:

Umræður um Félaga Jesú á Alþingi

“Útgáfu slíkrar bókar á ekki að styrkja af almannafé”

8/12. Mjög harðar umræður urðu utan dagskrár á fundi Sameinaðs Alþingis í gær, er Ragnhildur Helgadóttir kvaddi sér hljóðs og gerði að umtalsefni styrkveitingu úr Norræna þýðingasjóðnum til útgáfu bókarinnar “Félagi Jesú”. Fjölmargir þingmenn úr öllum flokkum tóku til máls.

Ragnhildur Helgadóttir sagði, að hér væri um að ræða barnabók, þar sem fjallað væri um líf og kenningar Krists með þeim hætti, að óþolandi væri fyrir alla, er vildu kenna börnum sínum kristileg lífsviðhorf. Hér væru málefni kristinnar trúar meðhöndluð á þann hátt, að sennilega varðaði bæði við 62. grein stjórnarskráinnar og 125. grein hegningarlaganna, sem bannaði að dregið sé dár að trúarbrögðum eða þau smánuð. Gagnrýndi Ragnhildur sérstaklega, að bók af þessu tagi skyldi hafa hlotið styrk úr Norræna þýðingarsjóðnum. Gæti slíkt eyðilagt þann grundvöll, sem sjóðsstofnunin byggði á.

Er kynlíf andstyggð?
Svava Jakobsdóttir sagði að sótsvart afturhald hefði stjórnað málflutningi Ragnhildar. Hún vildi helst koma í veg fyrir frjálsa bókaútgáfu og bæri fram svipaðar röksemdir og yfirvöld í þeim ríkjum, sem vildu ráða útgáfu bóka. Í stjórnarskrá Íslands segði, að ritskoðun megi aldrei í lög leiða. Þess beri og að minnast, “að ríkiskirkjan hefur ekki forræði yfir hugsunum manna og hugmynda.” Svava lagði áherslu á, að hér væri um skáldsögu að ræða, en ekki sagnfræðirit eða kennslubók. Hér væri fyrst og fremst um það að ræða, að höfundur skáldrits hefði sett söguna í pólitískt samhengi, auk þess sem Jesús væri í bókinni gæddur mannlegum tilfinningum. Ef bókin væri andstyggð, þá mætti eins að því spyrja hvort kynlíf væri andstyggð.

“Bækur dæma sig sjálfar”
Vilmundur Gylfason sagði í þessum umræðum: Alþingi er ekki rétti vettvangurinn til að deila um, hvort bækur eru góðar eða vondar. Þar ræður smekkur manna. Um slíkt geta menn deilt í dagblöðunum. Bækur dæma sig sjálfar og Alþingi þarf ekki að hafa áhyggjur af því, hvort þær eru góðar eða slæmar. Hér eiga þessar umræður ekki heima, þar sem hvorki höfundur né þýðandi geta borið hönd fyrir höfuð sér.

Yfirlýsingar biskupanna
Loks hefur sá einstæði atburður gerst, að birst hefur í blöðum, útvarpi og sjónvarpi sameiginleg yfirlýsing frá biskupunum yfir Íslandi, biskupi kaþólskra manna á Íslandi, forstöðumanni aðventista og forstöðumanni Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavík. Í yfirlýsingunni fordæma þeir bókina “Félagi Jesú” og hvetja alla heilbrigða menn til samstöðu gegn þessari og annarri ólyfjan í prentuðu máli.

Roksala
Frá bóksölum berast þær fréttir, að eftir að hneykslunarumræður hófust um bókina “Félagi Jesú”, hafi brugðið svo við, að bókin tók að rokseljast, en áður var salan næsta dræm. Er bókin nú uppseld hjá forlagi og víða í bókaverslunum.

Frelsarinn 22.06.2011
Flokkað undir: ( Guðlast )

Viðbrögð


Valtýr Kári Finnsson - 22/06/11 11:30 #

Um hvað snérist þetta mál allt saman? Hvað var svona voðalega "óþolandi"?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/06/11 13:42 #

Af nafninu að dæma sett í samhengi við að "[...]hér væri um skáldsögu að ræða, en ekki sagnfræðirit eða kennslubók. Hér væri fyrst og fremst um það að ræða, að höfundur skáldrits hefði sett söguna í pólitískt samhengi[...]" að hér hafi Jesús líklegast verið gerður að einhverskonar kommúnista. Það leiðréttir mig bara einhver ef ég hef rangt fyrir mér.


Halla Sverrisdóttir - 23/06/11 10:56 #

Það er gaman að rifja þetta rifrildi upp! Ég man vel eftir þessari umræðu, las bókina (þá átta ára gömul), hún var til á heimilinu og það var fylgst vel með umræðunni heima. Málið snerist, minnir mig, aðallega um þrennt.Í fyrsta lagi að "bylting" Jesú var gefið mjög alþýðlegt, ´68 yfirbragð, þ.e. hann sýndur sem byltingarforingi á mjög hippalegan hátt, maður fólksins - og ef ég man þetta rétt (ég hef ekki séð bókina í þrjátíu ár eða svo) var atriðið þar sem hann ruddi um koll söluborðunum í musterinu skrifað með mjög and-kapítalískri nálgun - osfrv. Í öðru lagi var samband hans við Maríu Magdalenu mjög augljóslega kynferðislegt - það er talað um að þau hafi legið í faðmlögum, án þess að lýsingarnar séu mjög grafískar - þetta er nú barnabók:). Og í þriðja lagi er Jesú sýndur sem mjög mannlegur, breyskur og oft hikandi - sem er raunar alveg í samræmi við frásagnir guðspjallanna. En karakter Jesú í bókinni kallast mjög á við myndina sem er dregin upp í Súperstar, finnst mér oft. Hann er oft reiður, sár, hikandi, hræddur. Höfundur bætir svo um betur og Jesú kemst að þeirri lokaniðurstöðu að hann hafi brugðist fólkinu með því að bíða eftir guðlegri aðstoð í stað þess að kalla fólkið sjálft til vopna, færa því sjálfu tækin til að ljúka ætlunarverkinu (að losna undan kúgun Rómverja) - í stað þess að treysta á engla Guðs. Þetta er athyglisverð nálgun og hún verkaði mjög stuðandi á kirkjunnar menn - eins og sjá má t.d. hér:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=227843&pageId=3081788&lang=is&q=F%E9lagi%20Jes%FA

Sven Wernström er afbragðs rithöfundur og gaf út fjölda bráðskemmtilegra bóka fyrir börn og unglinga - bækur sem mætti að ósekju endurútgefa. Leikhúsmorðið, bókaflokkurinn um Þrælana (sögulegur bókaflokkur í þremur bindum - þau eru fleiri á sænsku - sem lýsir lífi ófrjálsra á fyrri öldum) og Ævintýraleg útilega, sem er ef ég man rétt eins konar Lord of the Flies í sænska skerjagarðinum :)

Hér má sjá smá sýnishorn úr prýðilegri þýðingu Þórarins Eldjárn á Félaga Jesú:

http://www.bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/categories-1699,2012/RSkra-116/tabid-3397/5787_read-3841/


Halla Sverrisdóttir - 23/06/11 11:11 #

Þegar farið er að nördast á timarit.is finnst margt skemmtilegt - og fyrir áhugasama um þessa bók er hér ágætt innlegg frá höfundinum sjálfum um bókina og nálgun hans á efnið:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=272703&pageId=3923957&lang=is&q=F%E9lagi%20Jes%FA


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 23/06/11 15:11 #

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=227843&pageId=3081788&lang=is&q=F%E9lagi%20Jes%FA

Þetta er alveg ótrúlega fyndið:

...skrifuð í þeim tilgangi að bólusetja börn fyrir kristnum trúaráhrifum.

Og þeir hneykslast á þessu blessaðir karlarnir, Sigurbjörn biskup og sonur hans Einar. Sjálfir sjá þeir ekkert athugavert við kristnar barna-áróðursbækur.


Barbarella - 23/06/11 21:19 #

Halla, var það ekki þessi grein sem þú ætlaðir að setja inn?

timarit.is

Svo fann ég e-n tímann á Tímarit.is hresst viðtal við kallinn; finn það því miður ekki aftur. :(

Og já, ég las líka bækurnar hans sem krakki (og eitthvað var líka lesið fyrir okkur í skólanum). Þarf að fara að lesa þær aftur (ef þær eru þá enn fáanlegar á Borgarbókasafninu), er mikið til búin að gleyma þeim.

Annars er sá gamli víst enn á lífi samkvæmt sænsku Wikipedia, orðinn 86 ára gamall.

Sven Wernström


Halla Sverrisdóttir - 24/06/11 09:42 #

Takk Barbarella, það var hárrétt hjá þér!

Það er úr nógu að moða þegar maður dettur í að rifja upp þessa umræðu - og timarit.is er dásamlegur vefur :)

Ég rakst á Ævintýralega útilegu á aðalsafni Borgarbókasafnsins nýlega og hrundi bókstaflega ofan í hana. Hrikalega skemmtileg bók! Leikhúsmorðið er líka til.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.