Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Spegillinn bakvið fermingartjöldin!

Spegillinn 43. árg. 2. tbl. maí 1983

Spegilmynd

Eftirfarandi grín og glens (og guðlast) birtist upphaflega í 2. tölublaði af Speglinum þann 1. maí, árið 1983. Blaðið var gert upptækt mánuði seinna. Stuttu síðar var ritstjóri spaugritsins kærður fyrir klám og guðlast.

Þannig að við viljum ítreka að hér er á ferðinni stórvarasamt spaug er gæti sært almennt velsæmi. Af þeim ástæðum eru lesendur vinsamlegast beðnir um að lesa þessi skrif á eigin ábyrgð. Við krefjumst þess að þið gerið ykkur einnig fullkomna grein fyrir þeim hugsanlegu slæmu eða góðu afleiðingum er kunna að fylgja þessari vitneskju.

Forsíða Spegilsins

Þjóðhagslega hagkvæmt að stórauka fermingar

Eins og lesendur Spegilsins muna, þá sagði Alþýðublaðið frá því í frétt skömmu fyrir kosningar að þingflokkur Alþýðuflokksins ef einhver yrði, ætlaði að leggja fram á Alþingi næsta haust frumvarp til laga um stóreflingu ferminga á Íslandi. Sagði í fréttinni að frumvarpið gerði ráð fyrir því að þjóðhagsstofnun yrði falið að gera 10 ára áætlun er miðaði að því að auknar fermingar veittu um 15000 manns atvinnu á næstu 10 árum.

Betri leiðir bjóðast

Spegillinn hitti Jón Baldvin Hannibalsson á Broadway s.l. laugardagsmorgun þar sem þau hjónin voru að vaska upp frammi í eldhúsi, og sagði það rétt vera að Alþýðuflokkurinn hyggðist leggja þetta fram á næsta þingi.

"Eins og fram kom í kosningabaráttunni, þá erum við Alþýðuflokksmenn þeirrar skoðunar að landbúnaður sé mikill baggi á þjóðinni og brýna nauðsyn beri til að fækka bændum með hinni svokallaðri styttingaraðferð. Við höfum einnig barist gegn sjávarútvegi í nokkur ár einsog kunnugt er og teljum hann undirrót efnahagsöngþveitisins. Við höfum talið að íslenskur átöppunariðnaður komi ekki til með að leysa atvinnumál Íslendinga o.s.frv. Við bjóðum nýjar og betri leiðir. Frumvarpið um stóreflingu ferminga á Íslandi er liður í því. Að minni ósk er þjóðhagsstofnun um þessar mundir að reikna út áhrif stóraukinna ferminga á atvinnumál framtíðarinnar".

Hugmyndin mjög góð að áliti þjóðhagsstjóra

"Við erum að vinna að þessu máli núna," Sagði Jón Sigurðsson, þjóðhagsstjóri, þegar fréttamaður Spegilsins hitti hann í skrúðgöngu á sumardaginn fyrsta. "Það gefur auga leið að hinir hefðbundnu atvinnuvegir Íslendinga taka ekki við auknum mannafla á næstu áratugum. Við höfum oft velt því fyrir okkur á Þjóðhagsstofnun að finna einhverja sniðuga lausn á þessu vandamáli, þess vegna var það mjög kærkomið þegar okkur barst bréf í pósti frá Jóni Baldvini Hannibalssyni um daginn með þessari ágætu tillögu. Það sem kæmi helst til greina í þessu efni er eftirfarandi:

1. Fermingasjóður - Fermingabætur

Að allar fermingar standi yfir a.m.k. eina viku. Gjafir verði auknar um 17,5% á ársgrundvelli og að stofnaður verði fermingasjóður Íslands sem deildi í byggðasjóði, sem hafði það hlutverk að greiða niður fermingagjafir a.m.k. í ýmsum kjördæmum landsins, eða dreifa fermingabótum til fjölskyldna upp að ákveðnu tekjumarki. Í þessu skyni yrði tekið stórt erlent lán. 5 söluskattsstig yrðu hins vegar lögð á allar fermingagjafir og yrðu þær tekjur notaðar til að greiða niður hið erlenda lán. Með þessu áætlum við að þjóðarframleiðan muni aukast um 2%. Fjármunamyndun um 10% og þjóðartekjur um 12%.

2. Ferming og afferming

Þá kæmi til greina að fjölga fermingum. Hugmyndin um að tví- eða þríferma alla íslenska unglinga virðist að mörgu leyti aðgengilegri. Með tvífermingunni er átt við að unglingar verði fermdir og affermdir með ársmillibili. Gjafir og veisluhöld yrðu lögskipuð í bæði skiptin og niðurgreiðslum eða fermingabótum beitt til að örva framboð og eftirspurn.

Breytingatillaga Seðlabankans í þessu sambandi er um svokallaða stigfermingu. Í henni felst að íslenskir unglingar verði fermdir í þrem áföngum, fyrsta stigi (sokkabandsstig eða hvíta beltið), öðru stigi (gelgjustig eða bláa beltið), og þriðja stigi (manndómsstig og/eða svarta beltið).

Fermingar af þessu tagi mundu sennilega bjóða upp á atvinnutækifæri sem mundu svara 10.000 mannárum á næstu 5 árum, kirkju- og guðsþjónustugeirinn myndi stækka verulega í þjóðarbúskapnum og allt trúar- og viðskiptalíf kæmist uppá miklu hærra plan.

3. Aðskilnaður foreldravalds og fermingavalds

Að lokum er verið að útfæra hugmynd Vilmundar Gylfasonar um aðskilnað foreldravalds og fermingavalds. Hugmyndin gengur út á það að þjóðkirkjan yrði sett undir Framkvæmdastofnun ríkisins og öll þjóðin yrði fermd á 5 ára fresti. Hver ferming héti sínu ákveðna nafni, t.d. fyrsta ferming, byrjendur, járnferming eftir 5 ár, eirferming eftir 10 ár, koparferming eftir 15 ár, silfurferming eftir 20 ár, gullferming eftir 25 ár o.s.frv. Í tillögunni er gert ráð fyrir að bundið verði í lögum að allir eyði a.m.k. 5% af ráðstöfunartekjum sínum í nýjar innfluttar gjafir. Áhrif af tillögu Vilmundar á efnahag landsmanna hafa ekki verið reiknuð út ennþá, en þau eru gífurleg," sagði Jón Sigurðsson, þjóðhagsstjóri að lokum.

Einn flokk til ábyrgðar

Spegillinn bar hugmyndir þjóðhagsstjóra undir Geir Hallgrímsson þar sem hann stóð í tröppum Bernhöftsbakarís fyrsta maí: "Það er alveg augljóst að í fermingarmálum verður að leiða einn flokk til ábyrgðar," sagði Geir Hallgrímsson. "Við vörum við haftastefnu kommúnista í fermingamálum, sem lýsa sér m.a. í hinum brjálæðislegu hækkunum á messuvíni í stjórnartíð Ragnars Arnalds, fjármálaráðherra,"


Spegilmynd

"Það er það"

Hálft annað viðtal við Guðsmenn

"Ég má ekki vera að því að tala við ykkur. Ég var búinn að segja ykkur það. Það er hávertíð. Ég á að ferma 135 stykki á morgun og er ekki hálfnaður að skrifa út kvittanirnar. Það er rúmlega 80 þúsund kall undir. 750 kall á kjaft. Komiði eftir helgina. Þá verða vertíðarlok. Þá liggja rúm 1200. En ekki núna. Alls ekki."

Þetta var dómprófasturinn í Reykjavík. Og við reyndum við fleiri. Sama sagan alls staðar.

En biskupinn hafði smugu. Enda að mestu hættur að ferma. Aðeins ein og ein altarisganga fyrir spottprís.

"Fermingin er dásamleg athöfn," sagði hann. "Dásamleg athöfn. Bæði fyrir gerendur og þolendur, prest og barn. Og hvorir tveggja hafa nokkuð fyrir sinn snúð. Á fermingardaginn hefur margur unglingurinn komist í álnir og því er ekki að leyna að fermingartekjur presta, sem eru skattfrjálsar, hafa og sitt gildi. Þetta er örugg tekjulind, en ekki eins ótrygg og jarðafarabransinn. Það er aldrei að vita hversu margir drepast ár hvert. Sjálfur hef ég orðið fyrir því að fá ekki einu einustu jarðaför í eitt og hálft ár. En fermingin er árviss.

Hin guðrækilega hlið fermingarinnar hefur áreiðanlega sitt að segja líka. Og ekki má gleyma hagfræðinni. Flestir prestar kenna biblíusögur í skólum og geta nýtt þá tíma til fermingarundirbúnings. Af því er ágæt hagræðing. Nú þá hleypir fermingarvertíðin lífi í sjóði Hins íslenska biblíufélags. Það er hreint ótrúlegt hvað selst af sálmabókum og Nýja Tementinu þennan tíma.

Loks er að geta ríkissjóðs. Hann fær einnig sitt. Það er ekki dropateljararnir í messuvíninu nú til dags. Enn síður að lokinni altarisgöngunni," sagði biskupinn og flissaði.

"Loks er svo það sem aldrei má gleymast," sagði hann að lokum. "Guð er nær. Sá sem tekur trú, hina sönnu kristnu trú, eykur með sér þröngsýni, sem sannarlega er ekki vanþörf á í þeirri galopnu víðáttu hins tryllta fjölmiðlaþjóðfélags nútímans. Sá sem er svo heppinn að næla sér í guðstrú við fermingu, honum er allvel borgið; það fólk er yfirleitt hæfara til að einangra sig frá lífsins lostasemdum og getur betur einbeitt sér að því að koma sér upp þaki yfir höfuðið, eignast bíl, sumarbústað, safna fyrir Útsýnisferðum og reyndar til hvers eina sem máli skiptir. Sá sem trúir á Guð föður almáttugan og hans einkason, sá hinn sami getur óhikað látið þá sjá um sín mál. Og hann gerir það. Og þeir gera það. Það er það."


Spegilmynd
Tilkynning frá biskupsstofu
Þjóðkirkjan verður lokuð í 40 daga og 40 nætur frá kl. 14:45 annan dag hvítasunnu. Þeir sem nauðsynlega þurfa að ná í prest - og þá eingöngu vegna dauðsfalla - eru beðnir að snúa sér til Ferðaskrifstofu ríkisins, sem í nauðvörn gefur upplýsingar um verustaði presta.
Biskupsritari.
Allt til ferminga
Takið fermingu hjá þjóðkirkjunni sjálfri. Ferðadiskó. Vasadiskó. Leynigestur, ef óskað er. Trúbadorar. Forðist eftirlíkingar.
Þjóðkirkjan.
Hrífandi lesning
Munið biblíuúrvalið. Bók fyrir alla fjölskylduna. Stríð og stormar. Ástir og örlög. Hrífandi lesning.
Hið íslenska biblíufélag.
Hagstæð kaup
Prestar! Prelátar!
Kaupið messuvínið hjá okkur. Seljum uppskriftir og það sem með þarf. Fljót og góð afgreiðsla.
Áman. (Undanþegin söluskatti).
Einstætt tækifæri
Látið ekki happ úr hendi sleppa. Síðustu forvöð að láta mig ferma. Er röskur. Fer að hætta. (Loforð).
Sigurður Haukur Guðjónsson
Varnir og verjur
Fermingarbörn athugið!
Eigum landsins mesta úrval af P-pillunni. Seljum einnig hettur, smyrsl og froðu; kítlismokka og hina heimsfrægu Sultan-smokka í öllum stærðum og mörgum litum.
Landssamband apótekanna.
Fermingarþjónustan
Geng í hús og fermi. Hagstæð greiðslukjör ef samið er strax. Fjölskylduafsláttur. Hef full réttindi.
Ólafur Skúlason
Hver bíður betur?
Bíð hagstæðustu greiðslukjörin á markaðnum. Tek víxla, verðbréf, ávísanir fram í tímann, hvað sem er, bara ef ég fæ að ferma.
Þórir Stephensen.
- Skipti - Skipti
Vil býtta á skíðum og fótanuddtæki. Á ennfremur auka gærur. Tek hvað er uppí.
Dóra.

blíblí

"Stóð undir sér"

Að skógarseli 13 í Reykjavík hittum við að máli hjónin Guðrúnu Guðmundsdóttur og Guðstein Guðvarðsson, rétt í þann mund er fermingarveislu dóttur þeirra Guðlaugar var að ljúka.

"Þetta tókst afspyrnu vel," sagði Guðsteinn. "Mér sýnist að við höfum haft upp í kostnaðinn. Mestu ráða græurnar sem stelpan fékk. Djöfull góðar með fjórföldum 2050 Watta hljómburði. Já, ég held að þetta hafi sloppið."

"Þetta var svo sem engin stórveisla hjá okkur miðað við það sem gerist og gengur," sagði Guðrún. "Ætli þetta hafi ekki verði rúmlega sjötíu manns, fyrir utan okkur. Mest skyldmenni. Annars voru þarna tvenn hjón, sem ég kannaðist ekki við, ... þekktir þú þau, Guðsteinn?"

"Þessi dökkleitu," svarar hann. "Nei, þegar þú nefnir það, ... nei, það veit ég ekkert um. En þau komu með hrærivél."


"Skítapartí"

"Ertu ánægð með að vera komin í kristinna manna tölu?"

"Tölu hvað?"

"Kristinna manna tölu. Það þýðir..."

"Góði besti ruggaðu'ðér. Hvuddn djöfulan viltu?"

"Ég ætlaði að spyrja þig út í ferminguna."

"Huuu," sagði Guðlaug. "Bara það. Þetta var skítapartí. Og hallærislegt. Mamma löngu útfríkuð á tauginni. Pabbi með eitthvert hallærislegt kallpungagrobb yfir mér af því að ég er ekki dóttir hans. Hann er ónýtur, þú skilur. Svo fékk ég bara þetta venjulega. Fótanuddtæki, steríó, sjónvarp, skíði, oohhh þú veist, allt þetta sem allir eiga. Það er munur eða hún Gunna, sem ég var í partíinu hjá; pabbi hennar og mamma eru sko arminileg; þau fóru með prestinum og leyfðu henni að halda partí. Hún fékk líka allt mögulegt; Nuddara, pilluna, og pabbi hennar gaf henni graðfola. Gráan gradda. Flippað, finnst þér ekki?"

Og okkur fannst það.

Og fórum.

Ritstjórn 21.06.2011
Flokkað undir: ( Grín , Guðlast )

Viðbrögð


Halldór L. - 21/06/11 15:22 #

Snilldar grein, komnir næstum þrír áratugir og allt á bak við þetta enn þá jafn steikt.


Þossi - 24/06/11 21:56 #

"Sá sem tekur trú, hina sönnu kristnu trú, eykur með sér þröngsýni, sem sannarlega er ekki vanþörf á í þeirri galopnu víðáttu hins tryllta fjölmiðlaþjóðfélags nútímans."

Gullfallegt - og sennilega satt, líka.


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 14/07/11 15:19 #

Kemur mér á óvart að sýslumaður hafi ekki haft samband við Vantrú til að láta taka greinina niður.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.