Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hin sjálfstæða ríkiskirkja

Alþingi og dómkirkjan

Þegar rætt er um aðskilnað ríkis og kirkju segja starfsmenn ríkiskirkjunnar oft eitthvað á þá leið að það sé þegar búið að skilja að ríki og kirkju, kirkjan sé nú þegar sjálfstætt trúfélag og því er það bara “fráleitt”# að leggja til að skilja að ríki og kirkju.

Ótrúlegt sjálfstæði

Á heimasíðu ríkiskirkjunnar má sjá þesar fullyrðingu í kynningu á ríkiskirkjunni: “Þjóðkirkjan er frjálst og sjálfstætt trúfélag"#. Á vefriti ríkiskirkjunnar eru prestar duglegir við að endurtaka þetta, ummæli ríkiskirkjuprestsins Gunnlaugs Stefánnssonar í greininni Kirkjan er sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu er frábært dæmi:

Staða kirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu er mörgum óljós. Um það vitna yfirborðskenndar umræður um kirkjuna og spurningin sem endurtekin er í síbylju: Viltu aðskilnað ríkis og kirkju? Þegar nær er skoðað, þá er kirkjan sjálfstætt trúfélag að lögum, en með samninga við ríkið á ýmsum sviðum eins og gildir um fjölmörg frjáls félög. Spurningin um aðskilnað ríkis og kirkju er því tímaskekkja og gefur villandi skilaboð.

Undarlegt sjálfstæði

Nýlega var örlítið breyting gerð á ráðningu presta. Biskupnum var gefið vald til þess að fela presti að gegna embætti í allt að eitt ár í einu ef annar prestur forfallast. Þrátt fyrir allar fullyrðingarnar um sjálfstæði ríkiskirkjunnar, þá var það Alþingi sem þurfti að samþykkja þessar breytingar.

Í umræðum um viðkomandi frumvarp á Alþingi var einmitt bent á hversu undarlegt það væri að Alþingi væri að hlutast svona til um innri starfsemi trúfélags.

Já, það er svo sannarlega undarlegt. En svona er að hafa ríkiskirkju. Á Íslandi eru í gildi lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar þar sem Alþingi hefur sett ítarlegar reglur um starfsemi og uppbyggingu ríkiskirkjunnar.

Á eftir 62. grein stjórnarskrárinnar eru þessi lög ein skýrasta birtingarmynd þess að hér á landi er ríkiskirkja. Alþingi ætti auðvitað að afnema þessi lög, og ef ríkiskirkjuprestum er alvara í málflutningi sínum um sjálfstæði kirkjunnar, þá ættu þeir að vera fylgjandi því.

Hjalti Rúnar Ómarsson 20.06.2011
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Halla Sverrisdóttir - 20/06/11 13:11 #

Hvað sem sjálfsmyndarkreppu kirkjunnar í þessum efnum líður þá ætti eiginlega ekki að þurfa að leita lengra en í lög nr. 70 frá 1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins(mér vitandi enn í gildi, leiðréttið mig endilega ef svo er ekki), en þar er m.a. skilgreint hverjir teljast til embættismanna ríkisins - sjá lið nr. 4:

  1. gr. Embættismenn teljast samkvæmt lögum þessum einvörðungu þeir STARFSMENN RÍKISINS sem taldir eru upp hér á eftir:
    1. Skrifstofustjóri Alþingis, ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis.
    2. Forsetaritari, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í Stjórnarráði, sendiherrar og sendifulltrúar í utanríkisþjónustunni.
    3. [Hæstaréttardómarar, skrifstofustjóri Hæstaréttar og héraðsdómarar.]1)
    4. Biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar.
    5. Ríkissaksóknari, vararíkissaksóknari og saksóknarar.
    6. Ríkislögmaður, ríkissáttasemjari og umboðsmaður barna.
    7. [Sýslumenn, ríkislögreglustjóri, [aðstoðarríkislögreglustjórar, lögreglustjórar og aðstoðarlögreglustjórar],2) skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, [forstjóri Útlendingastofnunar]3) og lögreglumenn.]4)
    8. [Tollstjórinn í Reykjavík og tollverðir.]5)
    9. [Forstjóri fangelsismálastofnunar, forstöðumenn fangelsa og fangaverðir.]4) [10. [Ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri ríkisins og yfirskattanefndarmenn sem hafa það starf að aðalstarfi.]6)
    10. …7)
    11. [Yfirdýralæknir.]8)
    12. Forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, áður ótaldir.]4)

Það er sem sé morgunljóst að ríkisvaldið skilgreinir presta sem "embættismenn ríkisins". Hvort þeir gera það sjálfir eða ekki verður eiginlega að flokkast sem þeirra eigin sjálfsmyndarvandi. Og þann vanda verða prestar að leysa sjálfir, helst án þess að blanda okkur hinum of mikið í það. Að minnsta kosti þangað til ríki og kirkja verða aðskilin, þá mega þeir gera það sem þeim sýnist mín vegna :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.