Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hverjir eru trúlausir?

Hópur

Trúleysi er ekki útbreidd afstaða í heiminum. Trúleysingjum fer þó fjölgandi, að minnsta kosti í Evrópu. En hverjir eru það helst sem bera ekki með sér trú á nokkurn guð, veru sem er yfir náttúruna hafin? Hverjir eru það sem ýmist hafna tilvist guðs, eða láta tilvist hans liggja milli hluta? Hvað einkennir þá?

Fyrir um tveimur árum var skrifuð yfirlitsgrein um þetta mál í tímaritinu Sociology Compass *, af félagsfræðingnum Phil Zuckerman. Sá tók saman mikla tölfræði sem fyrir lá og útbjó yfirlitið úr því. Að neðan eru nokkrar helstu niðurstöður Zuckermans, sem lesendum gætu þótt áhugaverðar**.

Í fyrsta lagi eru það helst íbúar ríkari landa sem trúa síður á yfirnáttúrulega veru. Í Afríku er trúleysingja vart að finna, á meðan trúleysi er útbreitt í Evrópu. Til dæmis er um helmingur Slóvena sem trúir ekki á guð og um þriðjungur Norðmanna gera slíkt hið sama. Í Suður-Ameríku er harla lítið um trúleysi. Í Norður-Ameríku er fleiri trúleysingja að finna. Einhversstaðar um 19-23% Kanadamanna segist ekki trúa á guð, en um 5-16% Bandaríkjamanna gera slíkt hið sama. Í Japan segjast tveir af hverjum þremur ekki trúa á guð.

Í öðru lagi eru það frekar karlar en konur sem trúa ekki á guð. Af þeim sem segjast kalla sig „atheist“ eða „agnostic“ í Bandaríkjunum, eru 70-75% af þeim karlar (58% þeirra sem segjast „hafa enga trú“ eru karlar). Alþjóðlegar kannanir sýna að karlar trúa síður á guð, en konur, þó tölurnar séu auðvitað mismunandi.

Í þriðja lagi er það frekar ungt fólk sem trúir ekki. Um tveir þriðju ungra Breta (18-24 ára) segjast ekki trúa á guð, á meðan aðeins einn af hverjum fimm þeirra sem eru eldri en 65 gera það. Í Bandaríkjunum finnst svipað mynstur.

Í fjórða lagi er meiri menntun tengd við trúleysi. Um 42% Bandaríkjamanna sem segjast „ekki trúa“ (og lægra eða svipað hjá þeim sem kalla sig „atheists“ eða „agnostics“) — hafa útskrifast úr háskóla. Til viðmiðunar hafa um 27% allra Bandaríkjamanna útskrifast úr háskóla.

Í fimmta lagi eru trúleysingjar boðberar góðra gilda, í mun meira mæli en trúmenn. Má þar nefna; þeir sem segjast „ekki trúa“ styðja frekar jafnrétti kynjanna en trúmenn, og trúleysingjar styðja mun frekar jöfn réttindi samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Þeir sem aðhyllast ekki trúarbrögð eða rækta þau ekki, eru síst líklegir til að vera samþykkir notkun ríkisstjórna á pyntingum.

Í sjötta lagi eru trúleysingjar álíka löghlýðnir og aðrir. Trú á guð virðist ekki skipta miklu máli, að því er rannsóknir sýna, til að hefta afbrot. Veraldarhyggjumenn, samanborið við trúmenn, brjóta vissulega frekar lögin þegar kemur að vægum afbrotum eins og áfengisneyslu ungmenna eða neyslu ólöglegra efna. Trúleysingjar eru hins vegar ekki líklegri til að fremja alvarlega glæpi (t.d. morð). Trúleysingjar skera sig hins vegar úr með að vera lítill minnihluti þeirra sem sitja af sér dóma í fangelsum í Bandaríkjunum; aðeins 0,2% af öllum föngum þar eru trúleysingjar. Höfum í huga að 5-16% Bandaríkjamanna eru trúlausir.

Eins og Zuckerman bendir á í þessu samhengi, að ef trúleysingjar væru siðleysingjar sem svífðust einskins — eða þá að trúin á guð hindraði glæpi, hefði maður ætlað að alvarlegir glæpir væru tíðastir í þeim löndum þar sem trúin er minnst, en alvarlegir glæpir fátíðari í löndum þar sem trúin er meiri. Þetta er ekki raunin, heldur þveröfugt: Eftir því sem trúin á guð er meiri, því fleiri morð eru framin (sem dæmi). Zuckerman, bendir líka á, að í þeim fylkjum Bandaríkjanna þar sem trúin á guð er einna sterkust (Louisiana og Alabama), er ein hæsta tíðni morða, en innan fylkja þar sem trú á guð er minni (Vermont og Oregon) sé tíðni morða einna lægst.

Zuckermann endar greinina á að tengja saman Biblíu-tilvitnanir sumra trúmanna um trúleysingja, en hann bendir sérstaklega á 14 sálm Davíðssálma. Þar segir meðal annars:

Heimskinginn segir í hjarta sínu:
„Guð er ekki til“
Ill og andstyggileg er
breytni þeirra,
enginn gjörir það sem gott er.

Eins og Zuckerman bendir á er þessi lýsing á trúleysingjum út í hött. Vísindin sýna okkur það, svart á hvítu. Trúleysingjar eru ekki heimskir, illgjarnir, andstyggilegir afbrotamenn. Trúleysingjar eru fjölbreyttur hópur fólks, sem almennt stendur sig vel í samfélagi manna. Þeir búa í ríkari samfélögum, eru frekar menntaðir, löghlýðnir og boðberar góðra gilda.

Víkjum nú frá grein Zuckermans og hugleiðum þessar niðurstöðurnar sem voru raktar að ofan. Er það kannski ekki trúleysi eða trú sem skiptir máli hvað varðar þessi atriði að ofan? Getur verið að það sé eitthvað annað sem kallar fram þessar niðurstöður? Til dæmis það að fólk sem býr við ríkidæmi (líkt og við hér á Íslandi og öðrum Norðurlöndum), leiti síður á náðir trúarinnar í leit að styrk og huggun, vegna þess að það þarf ekki lengur huggun í baráttunni við náttúruöflin? Og sú staðreynd að ungt fólk trúi síður, sé merki um að ungt fólk í nútímanum þurfi síður að leita til meints guðs, í leit að krafti til að halda áfram að berjast því það sé fátt að berjast við — en að þeir sem eldri séu, hafi þurft þess? Og að ástæðan fyrir því að trúlausir fylli ekki klefa fangelsanna sé að þeir þurfi engin afbrot að fremja til að sjá fyrir sér?

Getur verið að trúleysi sé einkenni á allsnægt? Við sjáum það kannski best á því, að þegar þeir fátækari fá aðstoð við að komast af, minnkar þörfin fyrir trúna, eins og sést á myndinni fyrir neðan. Þeir fátækari í samfélögunum, þurfa ekki lengur að leita til trúarbragðanna eftir huggun og styrk, því að velferðarkerfið veitir þeim þá hjálp sem þeir þurfa á að halda til að komast af — hlutverki trúarbragðanna sem haldreipi sé lokið í samfélögum allsnægtar.

Línurit

Myndin er fengin frá Gill, A. og Lundsgaarde, E. (2004). State Welfare Spending and Religiosity: A Cross-National Analysis. Rationality and Society, 16, 399-436.


* Zuckerman, P. (2009). Atheism, Secularity, and Well-Being: How the Findings of Social Science Counter Negative Stereotypes and Assumptions. Sociology Compass, 3/6, 949-971. — Greinina má nálgast hér.

** Í þessari grein er einkum sagt frá tölfræði fyrir þá sem segjast vera „atheist“, eða „agnostic“. Reynt var að fara eins nákvæmlega eftir grein Zuckermans eins og hægt var, þegar kom að notkun hugtakanna tveggja. Í greininni er lítið sagt frá tölfræði sem snertir veraldarhyggjumenn, en hún var þónokkur.

Guðmundur D. Haraldsson 13.06.2011
Flokkað undir: ( Efahyggja , Klassík )

Viðbrögð


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/11 12:07 #

Mjög góð samantekt og gott að hafa þetta við hendina.

Rifjar upp að ég heyrði á aðalfundi Siðmenntar (Guðmundur Ingi?) um bábiljuna að sterk ríkiskirkja kæmi í veg fyrir uppgang öfgatrúarhópa - það er hins vegar er fylgni á milli framlags til velferðarmála og öfgatrúarhópa - sem sagt neikvæð..


Pétur Björgvin Þorsteinsson - 13/06/11 13:58 #

Takk fyrir þessa grein. Mér þykir til fyrirmyndar að sjá greinar sem þessa hér á vefnum. Upplýsingar eins og þessar eru til þess fallnar að hefja umræðuna úr skotgröfum í átt að samtali.

Eina spurningu hefði ég í framhaldinu og varðar hún innihald greinarinnar (sem ég hef ekki lesið ennþá): Er gerður greinarmunur á þeim sem trúa á guð(i) eða þeim sem trúa t.d. á álfa og huldufólk eða álíka? Þ.e. er verið að horfa fyrst og fremst á guðstrú?


Guðmundur D. Haraldsson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/11 17:00 #

Pétur: Trúin á Guð er aðalatriðið í grein Zuckerman.


Steindór J. Erlingsson - 13/06/11 23:35 #

Fín grein Guðmundur. Í grein sálfræðiprófessorsins Benjamin Beit-Hallahmi, sem birtist í The Cambridge Companion to Atheism (2006), segir hann algengustu trúleysingjanna á Vesturlöndum

birtast okkur sem minna ráðríkir og áhrifagjarnir, minna kreddufastir, minna fordómafullir, meira umburðalyndir gagnvart öðrum, löghlýðnir, samúðarfullir, og vel menntaðir. Þeir hafa miklar gáfur, og margir helga sig fræðilegri umræðu og menntakerfinu. Í stuttu máli sagt, það er gott að hafa þá sem nágranna.

Ég hef stuðst við rannsókn Gills og Lundsgaardes í nokkrum greinum. Það sem er athyglisverðast við þessi tengsl milli ríkisrekins velferðarkerfis og aukins trúleysis er að hér fæst viss staðfesting á hugmyndum Marx um tengsl trúar og óhefts kapítalisma.


Steindór J. Erlingsson - 13/06/11 23:52 #

Tengslin milli minnkaðs trúaráhuga og ríkisrekins velferðarkerfis grafa undan s.k. trúarbragðahagfræði*, sem sett hefur verið fram til þess að skýra muninn á trúaráhuga í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu.

*trúarbragðahagfræðin felur í sér að í samfélögum sem hvorki hafa þjóðkirkju né ráðandi trúarbrögð sé almenningur áhugasamari um þátttöku í trúarbrögðum en þar sem ríkisstyrkt trúareinokun ríkir.


Pétur Björgvin Þorsteinsson - 14/06/11 08:21 #

Takk Guðmundur fyrir svarið, staðfestir það sem mig grunaði,Zuckerman er semsagt að fjalla um guðleysi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/06/11 08:30 #

Ég man ekki eftir því að Pétur eða aðrir kirkjumenn hafi gert athugasemd við greinarmuninn á trúleysi/guðleysi í kringum Þjóðarpúls Gallup - og var tilefnið þó ærið.


Pétur Björgvin - 14/06/11 11:15 #

Sæll Matti. Ég er nú ekki að stressa mig á því hvort munur sé á þessum hugtökum, ég var bara að reyna að skilja samhengið - en alveg rétt hjá þér, það er miður að fáir tóku sér tíma til að rýna af alvöru í viðkomandi þjóðarpúls Gallups og rýna í hann til gagns.


Guðmundur D. Haraldsson (meðlimur í Vantrú) - 14/06/11 20:48 #

Takk fyrir þetta Steindór.

Grein Beit-Hallahmi ætla ég að líta á við tækifæri.


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 15/06/11 15:23 #

Mér finnst skringilegur þessi greinarmunur á trúleysi og guðleysi.

Er ég álfleysingi? Einhyrningsleysingi? Galdraleysingi? Kristallaheilunarleysingi? Smáskammtalækningaleysingi? Draugleysingi? Geimveruheimsóknaleysingi?

Guðir eru bara eitt af mjög mörgum yfirnáttúrulegum fyrirbærum sem hafa ekkert á bak við sig annað en hjátrúnna og engin ástæða til að gera þeim hærra undir höfði en tröllum eða drekum.


Death to the Old World Order - 19/07/11 13:17 #

[ athugasemd færð á spjallborð )

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.