Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þjóðarpúlsinn

Capacent hefur birt nýjasta Þjóðarpúls um trúmál og útkoman er athyglisverð. Uppvaxandi kynslóð er mun trúlausari en sú eldri, trúleysi eykst með aukinni menntun, er meira á meðal karla en kvenna, meira í þéttbýli en dreifbýli og hefur jákvæða fylgni við tekjur.

"Í upphafi skapaði Guð himin og jörð", eru fyrstu orðin í grundvallarriti kristinnar trúar, heilagri ritningu, bók bókanna. Þessu trúa hins vegar aðeins 5% manna undir þrítugu en 14% þeirra sem eru milli þrítugs og fertugs. Þessu trúa líka aðeins 14% allra þeirra sem eru með háskólapróf. Einungis 22% allra landsmanna trúa að einhver "guð" hafi skapað heiminn.

Tilgangurinn með bænakvaki, trúariðkun og guðsdýrkun er að komast til himnaríkis og forðast að vera kastað í eldsofnin ógurlega. 80% þeirra sem eru undir þrítugu trúa hins vegar hvorki á himnaríki né helvíti. 11 % þeirra trúa á tilvist himnaríkis en 9% á hvort tveggja. En 60% allra landsmanna trúir hvorki á tilvist himnaríks né helvítis.

Af þessu er ljóst að kristni á hreint ekki upp á pallborðið hjá landanum í sinni einföldu mynd. En þegar spurt er hvort menn trúi á guð eða önnur æðri máttarvöld snýst dæmið við og 71% landsmanna svara játandi. En því miður vitum við ekki hver þessi "æðri máttarvöld" eru og ljóst er að aðeins 22% í þessum hópi trúa á guð sem skapaði heiminn, guð Biblíunnar. Hver eru þessi æðri máttarvöld eða guð sem skapaði ekki heiminn?

Svo trúa 67% Íslendinga á einhvers konar framhaldslíf, svo það eru 27% landsmanna sem stefna greinilega eitthvert annað en til himnaríkis að þessu lífi loknu. Kannski búast þeir við endurholdgun eða lífi á öðrum hnöttum en líklega eru hugmyndir flestra eitthvað óljósari.

Á RÚV var greint frá könnuninni með sanngjörnum hætti en á Morgunblaðinu var fyrirsögnin Íslendingar trúa á Guð . Árið 1996 sló Morgunblaðið því hins vegar upp að 87% væru trúuð eða mjög trúuð, nú segja þeir "mikill meirihluti". Á þessum 15 árum virðast 16% landsmanna því hafa misst trúna.

En ef segja má að 71% landsmanna séu trúaðir hljóta 29% að vera trúlausir landsmenn, samkvæmt sömu skilgreiningu. 29% landsmanna eru u.þ.b. 92.000 manns. Það þætti mikið fjölmenni á götum Reykjavíkur (og hversu margir lesa Morgunblaðið?).

Okkur finnst merkilegasta fréttin í þessu kannski sú að 55% þeirra sem eru undir þrítugu trúa ekki á guð eða æðri máttarvöld. Þetta eru foreldrar barnanna á leikskólum. Og aðeins 5% þeirra trúa að guð hafi skapað heiminn! Þó er það fyrsta sem börnum þeirra er kennt í grunnskólum einmitt að í upphafi hafi "Guð" skapað himin og jörð.

En svo er eitt að segjast trúa og annað að trúa. Trúmenn ættu kannski að rifja upp orð Jesú um trúaryfirlýsingar:

Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Mk. 7:6

Ritstjórn 07.06.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Vísun )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 07/06/11 14:48 #

Ef við framlengjum hugsunarhátt Morgunblaðsmanna hefði fyrirsögn þeirra getað verið:

55% landsmanna undir þrítugu eru ekki Íslendingar.


Steindór J. Erlingsson - 07/06/11 15:14 #

Góðar niðurstöður. Vantrú á örugglega einhvern þátt í þessari jákvæðu þróun.


Reynir Örn - 07/06/11 16:56 #

Soldið klaufaleg könnun. Ég hefði viljað sjá spurt um "guð kristninnar" og "önnur æðri máttarvöld" í sitthvoru lagi.

Einnig hefði ég gjarnan viljað sjá niðurbrotið á þeim sem trúa á helvíti og himnaríki í sitthvoru lagi.

BTW skarplega athugað þetta með foreldra barnanna í leikskólum og grunnskólum.


G. - 07/06/11 17:14 #

Í könnun sem gerð var í febrúar og mars árið 2004 fyrir Biskupsstofu, Guðfræðideild Háskóla Íslands og Kirkjugarða Reykjavíkur var þetta að einhverju leyti brotið niður. Þá var spurt „Telurðu þig vera trúaða(n) eða ekki?“ og 69,3% svöruðu játandi, 19,1% svöruðu neitandi og 11,6% svöruðu að þau gætu ekki sagt hvort þau væru trúuð eða ekki. Síðan voru þeir sem sögðust vera trúaðir (þ.e. þessi 69,3%) beðnir að velja einn af fjórum möguleikum, sem þau töldu eiga best við sig: (a) „Ég játa kristna trú“; (b) „Ég trúi á minn persónulega hátt“; (c) „Ég játa aðra trú en kristna“; (d) „Engin af ofantöldum fullyrðingum á við trúarafstöðu mína“. Hér völdu 76,3% fyrsta valkostinn.

Sem sagt tveir af hverjum þremur voru trúaðir og af þeim voru þrír af fjórum tilbúnir að velja kostinn „Ég játa kristna trú“. Þetta var þá rétt rúmlega helmingur þjóðarinnar (52,9%).

Mig grunar að ef sömu spurningar yrðu lagðar fyrir í dag kæmi í ljós að kristnum (þ.e. þessum sem telja sig í fyrsta lagi trúaða og í öðru lagi velja fyrsta kostinn af þessum fjórum í næstu spurningu) hafi fækkað svolítið og væru e.t.v. í minnihluta (þ.e. innan við helmingur þjóðarinnar). A.m.k. er það sennilegri tilgáta en sú að þeim hafi fjölgað, svona miðað við hvað hefur gengið á m.a. í þjóðkirkjunni. Svo getur líka verið að það sé ekki marktækur munur. En Gallup hefði auðvitað átt að spyrja þessara sömu spurninga aftur. Þá hefðum við vitað svarið við þessu.


Eiríkur Kristjánsson - 07/06/11 18:56 #

Er ég að misskilja eða getur verið að um fólk undir þrítugu gildi:

5% trúa að Guð hafi skapað himin og jörð

9% trúa bæði á himnaríki og helvíti

Er þetta ekki soldið skrítin heimsmynd?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.