Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Blá epli og bleikar appelsínur

Epli og appelsínur

Sá ágæti og vandaði maður, Hjalti Hugason, skrifar enn eina greinina um trúfrelsi í Pressuna 1. júní sl. og kallar hana Bleikt eða blátt trúfrelsi. Greinin er eflaust vel meint en illa hugsuð, því miður. Í stað þess að tala um jákvætt trúfrelsi og neikvætt, líkt og hann hefur gert áður, talar hann nú um bleikt og blátt, sem er vissulega til bóta. En Hjalti fellur í þá gryfju að bera saman epli og appelsínur. Eflaust áttar hann sig ekki á því og því er fagnaðarefni að geta leiðrétt þessa hugsanavillu.

Svona skilgreinir Hjalti bleikt og blátt trúfrelsi:

Bleikt trúfrelsi felst í því að staðinn er vörður um rétt fólks til að játa hvað trú sem er, iðka hana í einrúmi eða með öðrum, boða hana, bera tákn og klæðnað sem henni kann að heyra til, viðhafa matarvenjur sem henni fylgja og tjá hana að öðru leyti eins og samviskan býður hverjum og einum.

Í bláu trúfrelsi felst að réttur einstaklingins til að vera laus undan trúarlegum skuldbindingum eða jafnvel áreiti er varinn til hins ítrasta. Segja má að það feli í sér frelsi frá trú.

Stendur valið virkilega á milli þessara tveggja kosta? Auðvitað ekki. Þeir eru fáir sem mæla mót algjöru trúfrelsi í landinu, enda er það grundvallarmannréttindi. Fullkomið trúfrelsi felst í því að hver sem er má hafa sína trú, iðka hana og tileinka sér (bleikt trúfrelsi) en líka að enginn er neyddur til að takast á hendur trúarlegar skuldbindingar (blátt trúfrelsi). Orðin um varnir gegn trúarlegu áreiti eru hins vegar eins álfur út úr hól þarna en skýrast betur í nánari skilgreiningu Hjalta á bláu trúfrelsi:

Í friðhelgu rými einkalífisns ræður hver og einn sjálfur hvaða áreitum hann hleypir að sér. Skyldur samfélagsins eða ríksivaldsins taka við í opinbera rýminu eða á almannafæri. Þar ríður á að takmarka notkun trúartákna og og leitast við að það sé sem allra „hreinast“ af því sem dregur athyglina að trú. Markmiðið er opinbera rýmið sé algerlega veraldlegt.

Því er leitast við að setja stöðugt skýrari reglur um hvað sé leyfilegt og hvað bannað. Múslimskar konur mega ekki bera blæjur, kristnar mega ekki bera kross sem fer yfir ákveðna stærð og hættir þar með að vera hlutlaus skartgripur.

Í þessum skilgreiningum er blandað saman eplum og appelsínum og allt sagt epli. Eitt er að hið opinbera sé ekki að hyggla ákveðnum trúarbrögðum eða trúartáknum en allt annað að meina einstaklingum að bera sín trúartákn. Skilur Hjalti það ekki eða vill hann slá ryki í augun á fólki með falsvali?

Falsval (false dichotomy) felst í því að stilla upp aðeins tveimur kostum þegar fleiri eru í boði eða kostirnir eru ranglega skilgreindir. Hjá Hjalta verður valið svona:

Jákvætt trúfrelsi eða neikvætt trúfrelsi
Bleikt trúfrelsi eða blátt trúfrelsi
Frelsi til að trúa eða frelsi frá trú
Íslenskt eða franskt
Tjáningarfrelsi eða skerðing á tjáningarfrelsi
Ríkisstyrkt trúarbrögð eða haftahyggja

Afstaða manna til efri liðanna fer auðvitað eftir skilgreiningu, þótt óneitanlega hljóti jákvætt trúfrelsi að láta betur í eyrum en neikvætt trúfrelsi (eins og Hjalti viðurkennir). En síðustu liðirnir eru falsval. Frá því mælingar hófust hefur mikill meirihluti landsmanna viljað aðskilnað ríkis og kirkju. Síðast voru það þrír af hverjum fjórum. Það er alrangt að túlka afstöðu þeirra sem stuðning við bönn gegn blæjum eða krossum um háls fólks. Afstaða þjóðarinnar til aðskilnaðar ríkis og kirkju er skýr eftir umræður og vangaveltur í áratugi. Afar lítil umræða hefur hins vegar farið fram um bönn við trúarlegum táknum sem fólk kýs að hlaða á sig sjálft.

Þjóðin kýs frelsi og jafnrétti, fullt trúfrelsi og algjört jafnræði trúfélaga/lífsskoðunarfélaga. Samkvæmt því er óverjandi að ríkið styðji og verndi eitt trúfélag en af því leiðir auðvitað ekki að konur megi ekki bera blæjur eða krossa um hálsinn eins og Hjalti þykist leiða í ljós. Ríkisvaldið á að vera hlutlaust í trúmálum en í því felst engin skerðing á tjáningarfrelsi borgaranna.


Mynd frá Here's Kate, skv. CC-skilmálum

Reynir Harðarson 06.06.2011
Flokkað undir: ( Stjórnlagaráð , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/06/11 10:52 #

Hjalti segir í grein sinni:

Á síðustu misserum hefur hópur fólks í Reykjavík verið upptekinn af því að okkur beri að yfirgefa hina bleiku trúfrelsishefð og taka upp hina bláu. Þetta yrði m.a. gert með því að byggja eldveggi milli hins andlega og trúarlega sviðs að hætti Frakka og útrýma trúartáknum af almannafæri.

Hver er þessi hópur fólks í Reykjavík sem vill banna blæjur og krossa um háls kvenna?

Vantrú er hópur fólks um allt land og víðar sem setur fram sanngjarnar og sjálfsagðar kröfur um jafnræði trúfélaga og hlutleysi ríkisins.

Í skemmtilegri grein um öfgafulla trúleysingja var ekki minnst einu orði á krossa eða blæjur. Þetta er "non-issue", eins og menn segja.


Gutti - 06/06/11 23:12 #

Hjalti líkur reyndar greininni á því að segja að valið standi ekki á milli bleiks og blás trúfrelsis, hérna er hann held ég frekar að lýsa mismunandi hefðum í útfærslu á trúleysi og flokkar þær svona.

Hann hefur lýst því yfir að lagaleg skilgreining þjóðkirkjunnar sem ríkiskirkju sé ekkert endilega lykilatriði í hans huga og væri í hans skilning aðeins á grundvelli hennar sem meirihlutatrúar (sem gæti þá breyst).

Þar er ég ekki endilega sammála honum en það sem hann heldur fram er að án einhverskonar formlegrar stöðu trú- og lífsskoðunnarfélaga muni trúfrelsi þróast í átt til Fransk-Bandarískrar hefðar þar sem trúartákn eru fjarlægð af opinberum vettvangi.

Þó ég sé trúlaus er ég ekki mjög hrifinn af þvílíkum pólitískum rétttrúnaði. Það er ekki þar með sagt að ég telji þjóðkirkjuna einhverja forsendu fyrir því að svo fari ekki en sömuleiðis er kannski ágætt að hafa einhvern fyrivara á því að hreinsa út allar tilvísannir til trúarbragða úr stjórnarskránni ef lífsskoðunarfélög eins og siðmennt eru talin með.


Halla Sverrisdóttir - 07/06/11 09:42 #

Það sem Hjalti gerir því miður í þessari grein er að meira en ýja að því að "hópur fólks í Reykjavík", sem hlýtur að lesast sem annars vegar meirihlutinn í Mannréttindaráði og borgarstjórn og hins vegar þau okkar hér í Reykjavík (eru engir trúleysingjar á landsbyggðinni?) sem aðhyllast ályktunina, vilji fara "bláu leiðina" og banna t.d. trúarleg tákn í skólum og opinberu rými. Þetta er rangt, enda ekkert í ályktuninni sem bendir til slíks vilja og afar sjaldgæft að sjá slíku haldið fram í opinberri orðræðu um málefnið, og mér þykir miður að lesa þetta í málflutningi Hjalta, sem annars hefur yfirleitt reynt að forðast aðdróttanir og rangfærslur um hneigðir og fyrirætlanir trúlausra.


Hjalti Hugason - 07/06/11 21:25 #

Þakka málefnaleg viðbrögð. Leitt ef ég hef farið yfir mörkin en viðbrögðin skýra línurnar. Ég hef hugsanlega verið í full miklum debatt við frönsku linuna. Gott að sjá að hún á ekki við hér!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.