Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sáttatillaga um 62. grein

Bann kristni

Þegar fólk heyrir tvö andstæð sjónarmið hefur það tilhneigingu til að telja að "sannleikurinn" liggi mitt á milli þeirra. Þegar tveir deila þarf að komast að samkomulagi þannig að báðir verði sáttir.

Föstudaginn 3. júní fjallaði stjórnlagaráð um 62. grein stjórnarskrár þar sem minnst er á Þjóðkirkjuna:

62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.

Fjölmargir hafa tjáð sig um þessa umdeildu stjórnarskrárgrein. Sumir telja að hún eigi að hverfa en aðrir að hún eigi að standa óbreytt. Áhugasamir geta dundað sér við að lesa ólík sjónarmið þeirra sem sendu stjórnlagaráði erindi:

Nokkur erindi til stjórnlagaráðs
Stuðningsmenn trúfrelsisAndstæðingar trúfrelsis
Um samband ríkis og kirkju Það er aðskilnaður milli ríkis og kirkju
Þjóðkirkjufyrirkomulagið og deilumálin Þjóð og kirkja
Aðskilnaður ríkis og kirkju Á Íslandi er kristin þjóð
Afnám ríkiskirkju og vernd lífsskoðana Endurskoðun á trúmálakafla
Jafnræði lífsskoðana Vernda kristna arfleifð

Eins og sjá má mætast tveir andstæðir pólar í þessu máli. Annars vegar eru það þeir sem telja að allir eigi að vera jafnir í stjórnarskrá og að þetta lykilplagg lýðveldisins Íslands eigi ekki að mismuna fólki út frá trúarbrögðum eða lífsskoðunum. Hins vegar eru það kristnir trúmenn sem telja rétt sinn meiri og mikilvægari en rétt hinna. Þeir óttast að siðurinn í landinu hverfi ef 62. greinin er ekki lengur til staðar og hanga í hefðarrökum.

Öfgaskoðanir

Í umræðum á föstudag var ljóst að fulltrúar í stjórnlagaráði hafa hlustað á þessi ólíku sjónarmið og komist að þeirri niðurstöðu að lausnin hljóti að liggja mitt á milli þessara "öfga".

Vandamálið nú sem fyrr er að í umræðu um trú og trúfrelsi á Íslandi hafa talsmenn trúfrelsis aldrei sett fram öfgaskoðanir. Málflutningur trúfrelsissinna hefur verið hógvær og málefnalegur. Það er hógvær skoðun að á Íslandi skuli allir vera jafnir óháð trúarskoðun eða lífsviðhorfi. Það er málefnalegt að halda því fram að ekki eigi að vera talað um eitt tiltekið trúfélag í stjórnarskrá. Það er ekkert öfgafullt að halda því fram að kristni eigi ekki að vera boðuð í leik- og grunnskólum. Trúfrelsissinnar hafa aldrei sett fram kröfur um að banna trúarbrögð eða að koma eigi í veg fyrir að trúað fólk getið iðkað trú sína.

Tillaga mín

Til að aðstoða stjórnlagaráð við að finna lendingu í málinu fylgir hér tillaga mín að breytingu á 62. grein nýrrar stjórnarskrár:

62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera bönnuð á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti ofsækja hana og kúga. Ekki má breyta þessu með lögum. Trúleysi skal vera hin opinbera lífsskoðun á Íslandi.

Ég skora á fulltrúa stjórnlagaráðs að finna milliveginn á milli tillögu þessa öfgafulla trúleysingja og tillagna andstæðinga trúfrelsis. Það væri hægt að gera með því að fella 62. grein alfarið niður og vísa ekki til nokkurs trúfélags í stjórnarskrá. Þess í stað mætti fjalla almennt um rétt fólks til trúar- og skoðanafrelsis eins og hógvært og málefnalegt fólk hefur ítrekað bent á.

Matthías Ásgeirsson 05.06.2011
Flokkað undir: ( Stjórnlagaráð , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 05/06/11 10:36 #

Mjög þörf og góð grein. Öfgarnir í trúmálum eru óendanlegur yfirgangur ríkiskirkjunnar á öllum sviðum samfélagsins. Með því að troða ríkiskirkju upp landsmenn erum við ekki lýðveldið Ísland heldur einveldið Ísland. Gvuð blessi danska kónginn hans kirkju!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 05/06/11 11:10 #

Öll dýr eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur.

Öll trúfélög eru jöfn en ríkiskirkjan er auðvitað alveg sér á báti.

Ég treysti á að fólk með réttlætis- og sómatilfinningu hafni stjórnarskrá sem hampar einni skoðun í trúmálum umfram aðra ef stjórnlagaráð ber ekki gæfu til að skilja hvað felst í frelsi og jafnrétti.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 05/06/11 13:49 #

Mjög góð framsetning, vonandi skýrir þetta hversu fráleit málamiðlun eða "miðpunktur" er..


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 05/06/11 23:35 #

Öll trúfélög eru dýr, en sum eru dýrari en önnur.


Sverrir Ari - 06/06/11 16:19 #

Ætlar stjórnlagaráð virkilega að klúðra þessu máli. Ef það verður niðurstaðan að ríkið haldi áfram að rukka mig um laun presta sem predika um hversu vondir trúlausir eru þá verðum við að krefjast þess að almenningur kjósi um málið.


Arnold - 07/06/11 07:24 #

Hlustið á þennann fulltrúa í Stjórnlagaráði. Sama málflutningur var hún með á Rás 2 í gær. Þetta snýst sem sagt um laun presta og þjóustu á landsbygðinni. Hún er algjörlega að miskilja tilgangin með þessu stjórnlagaráði. Alla vega eins og ég skil það. Alveg skelfilegt að horfa upp á þetta.

http://www.youtube.com/watch?v=hx_z4ZVOgaQ


Haukur - 07/06/11 21:34 #

Mér finnst þetta drepfyndið hjá Matta. En ég skil ekki alveg hvar málið stendur. Ég hélt að þessi A-nefnd væri á því að best væri að sérstaklega væri greitt atkvæði um þjóðkirkjuákvæðið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Er það misskilningur?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 07/06/11 21:45 #

Haukur, staða málsins verður útskýrð á vef okkar í hádeginu á morgun.

Þetta er ekki misskilningur hjá þér en þegar A-nefnd lagði fram tillögur sínar komu fram allsérstakar breytingartillögur frá nokkrum ráðsmönnum.


Haukur - 07/06/11 22:02 #

Ah, ég skil. Þakka þér fyrir það, Reynir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/06/11 12:04 #

Greinina um fundinn má lesa hér.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.