Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Heilindi stjórnlagaráðs

Stjórnlagaráð

Í Fréttablaðinu er birtur kafli af netskrifum þeirra Valgarðs Guðjónssonar og Illuga Jökulssonar. Valgarður veltir fyrir sér hvort nokkur hætta sé á að prestur í stjórnlagaráði ætli að koma að afgreiðslu ráðsins á hugmyndum um tengsl ríkis og kirkju. Illugi spyr sig og aðra hvort ríkið eigi eða megi styðja og vernda eitt trúfélag umfram önnur og hvort nokkur ástæða sé til að fjalla um trúfélög í stjórnarskrá.

Presturinn í stjórnlagaráði er góðkunningi Vantrúar, séra Örn Bárður Jónsson, síðasti verðlaunahafi okkar árlegu Ágústínusarverðlauna. Kirkjan og þjóðin hlýtur að vera stolt af verðlaunaummælum þessa mannvinar í stjórnlagaráði. Auðvitað situr sérann í þeirri nefnd ráðsins sem tekur á tengslum ríkis og kirkju og verður fróðlegt að sjá hver útkoman verður.

Nú vilja þrír af hverjum fjórum landsmönnum aðskilnað ríkis og kirkju. Ætli sérann kyngi því svo glatt að vera í minnihluta?

Spurningu Illuga er fljótsvarað. Auðvitað nær engri átt að einu trúfélagi sé hampað umfram önnur í stjórnaskrá, að ríkinu beri að vernda það og styðja. Aðeins örgustu afturhaldsseggir og afdankaðir forræðishyggjumenn halda öðru fram, og þeir eru til (margir á launum hjá ákveðinni ríkisstofnun). Þetta er álíka heimskulegt og að ríkið skrái börn við fæðingu í trúfélag móður (á hvaða öld lifum við?).

Ríkið á ekki að koma nálægt hugmyndum manna í trúmálum. Þetta sáu stofnfeður Bandaríkjanna fyrir rúmlega tveimur öldum og þetta sjá flestar siðmenntaðar þjóðir. Það er fróðlegt að skoða félagsskapinn sem við erum í. Raunar þykir mönnum ástæða til að árétta sérstaklega í stjórnaskrám að fullur aðskilnaður skuli vera á milli ríkis og kirkju - það þykja sjálfsögð grundvallarsjónarmið, eftirsóknarverð og lofsverð í sjálfu sér. Af hverju ekki á Íslandi?

Hugmyndir um að ríkið eigi að styðja og vernda öll trúar- og lífsskoðunarfélög eru vissulega skömminni skárri en núverandi fyrirkomulag en þó eru þær litaðar sömu forsjárhyggju og það úrelta fyrirkomulag sem við þurfum að losna við. Fólk getur haldið uppi sínum trú- og/eða lífsskoðunarfélögum sjálft ef það hefur áhuga á. Sé áhuginn enginn á ríkið ekki að halda uppi stétt manna vegna þess að það er bundið í stjórnarskrá. Eru allar skoðanir manna í trúmálum verðugar ríkisstyrks? Hver getur skorið úr um það? Þetta er uppskrift að sukki og farsa en ekki jöfnuði og réttlæti.

Þetta mál er hvorki flókið né erfitt heldur einfalt og auðvelt. Tryggjum fullt trúfrelsi í stjórnarskránni og jafnræði en bindum enda á úrelta og rangláta sambúð ríkis og kirkju. Þó fyrr hefði verið.


Mynd fengin frá myndasíðu stjórnlagaráðs (cc)

Reynir Harðarson 31.05.2011
Flokkað undir: ( Stjórnlagaráð , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


gös - 31/05/11 10:28 #

Fyrsti fundur (þáverandi tilvonandi) stjórnlagaþingsmanna var í kirkjunni hjá Erni Bárði. Mörgum fannst það smávægilegt og ég er sammála því ef þú tekur það eitt og sér.

Stuttu seinna birtist grein eftir Þorvald Gylfason í fréttablaðinu þar sem hann taldi upp þó nokkur atriði sem meirihluti kosinna fulltrúa talaði fyrir í sínum kosningabaráttum (síðasta málsgrein í fréttinni). Af einhverri ástæðu sleppti hann alveg að minnast á aðskilnað ríkis og kirkju, þótt það hafi verið sterkur meirihluti með því meðal þeirra sem náðu kjöri. Hann skautaði einnig alveg framhjá þessu málefni í seinni grein, þar sem hann skoðar hvernig "almenningur" svaraði spurningum sem DV lagði fram í kosningabaráttunni til stjórnlagaþings.

Og svo situr Örn Bárður A-nefnd stjórnlagaráðs, sem fjallar um þann hluta stjórnarskránnar sem snertir samband ríkis og trúfélaga.

Ég er ekki bjartsýnn.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 31/05/11 11:20 #

Fyrirbærið séra Örn Bárður Jónsson er verðugt rannsóknarefni fyrir fræðimenn í samtíma og framtíð. Vantrú hefur stúderað það allt frá byrjun og velt fyrir sér eðli þess.

Við birtum fyrir hálfu öðru ári aðsenda grein sem vakti athygli á undarlegum málflutningi hans. En fyrirbærið vísaði þessum gagnrýnenda sínum á bráðamóttöku geðdeildar. Það má heita furðulegt hvað mulið er undir þennan stuðningsmann Ólafs Skúlasonar og samsæriskenningasmið.

Vissulega er forvitnilegt að hafa svona spesimen aftan úr fornöld lifandi á meðal okkar og fáir afhjúpa kristið siðgæði eða réttlætiskennd betur en þessi pokaprestur. Þótt okkur samtímamönnum hans sé lítið skemmt er ég viss um að þegar frá líður verður hann hneykslunar- og aðhlátursefni um langa hríð.


Jóhanna - 01/06/11 18:32 #

"Ríkið á ekki að koma nálægt hugmyndum manna í trúmálum."

Ég hefði einmitt haldið að það veitti ekki af aðhaldi ríkisins til að sporna við ýmsum ólögum og jafnvel mannréttindabrotum sem fólk fylkir sér gjarnan á bak við í krafti trúarsannfæringar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/06/11 18:42 #

Það er enginn að halda því fram að ríkið eigi að hætta að skipta sér af ólögum og mannréttindabrotum.

Það á ekki að skipta máli hvort slíkt fer fram í skjóli trúarbragða eða ekki.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/06/11 11:52 #

Séra ríkiskirkjunnar er varaformaður A-nefndar sem fjallaði um ríkiskirkjuna, svo smekklegt sem það nú er. Ég hvet menn til að horfa á umræður um störf nefndarinnar.

Hvort líkist þetta hrossakaupum eða hugsjónastarfi?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.