Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tvö þúsund ára mistök

Harold Camping

Heilsíðuauglýsingar frá bandarískum söfnuði Harolds nokkurs Campings um að heimsendir hefði átt að vera í gær, 21. maí 2011, vöktu mikla athygli. Flestu, ef ekki öllu, kristnu fólki landsins fannst þessi auglýsing líklega vera hlægilegt bull og að fólk sem falli fyrir þessu sé vorkunnarvert. Ég get að vissu leyti alveg tekið undir það.

Stóri bjálkinn

En þetta fólk er sjálft í einmitt svona söfnuði. Kristni byrjaði nákvæmlega eins og þessi hópur manna í Bandaríkjunum. Nýja testamentið er fullt af auglýsingum um að heimsendir sé í nánd, þó svo að þær gefi ekki upp jafnhárnákvæma dagsetningu.

Ef það er eitthvað að marka guðspjöllin, þá var Jesús sannfærður um að heimurinn hefði átt að enda fyrir tvö þúsund árum:

Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans. Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu. (Matt 16.27-28)

Allir þeir sem stóðu þarna dóu auðvitað fyrir tvö þúsund árum, og enn bólar ekkert á heimsendi.

Breski trúvarnarmaðurinn og rithöfundurinn C.S. Lewis kallaði aðra svipaða heilsíðuauglýsingu frá Jesú „örugglega vandræðalegasta versið í biblíunni”[1] og þá er nú mikið sagt:

Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram. (Mark 13:30)

Ef maður les það sem á undan kom, til að komast að því hvað „allt þetta” er sem átti að eiga sér stað þegar samtímamenn Jesú voru uppi, þá var það meðal annars þetta:

Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð. Og hann mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta. (Mark 13.25-27)

Já, það er erfitt að neita því að þetta er afskaplega vandræðalegt. Í guðfræðideildinni er meira að segja bent á hvað þetta vers er vandræðalegt. Í einni kennslubókinni viðurkennir Einar Sigurbjörnsson að í þessu versi „virðist” Jesús „ [ganga] út frá því” að endurkoma hans væri „yfirvofandi”. [2]

Minni bjálkar

Jesús er alls ekki sá eini í Nýja testamentinu sem sagði svona vandræðalega hluti. Sjálfur Páll postuli ráðleggur fólki sem er gift „að vera eins og þau væru það ekki” af því að „tíminn er orðinn naumur” og að „heimurinn í núverandi mynd líður undir lok” (1Kor 7.29). Hann talar einnig um að „endir aldanna er kominn yfir” hann og þá sem hann ávarpar (1Kor 10:11). Öðru fólki tilkynnti hann: „Drottinn er í nánd!” (Fil 4.5)

Í öðrum bréfum Nýja testamentisins er svipaður tónn. Höfundur Hebreabréfsins talar um að hann sé uppi á hinum síðustu dögum (Heb 1.2) og að Jesús komi „innan harla skamms” og að hann myndi ekki tefjast (Heb 10.37). Höfundur Jakobsbréfsins var sammála og segir: „Því að koma drottinns er í nánd!” (Jak 5.8). Höfundur fyrra Pétursbréfsins segir að Jesús hafi opinberast „í lok tímanna” (1Pét 1.20) og sér líklega eftir því að hafa skrifað: „En endir allra hluta er í nánd!” (1Pét 4:7). Höfundur fyrsta Jóhannesarbréfsins klúðraði líklega mest af öllum: „Börn mín, hin síðasta stund er runnin upp. Þið hafið heyrt að andkristur kemur og nú eru líka margir andkristar komnir fram. Af því vitum við að það er hin síðasta stund.” (1Jóh 2:18)

Það kemur líklega engum á óvart að Opinberunarbókin er uppfull af svona heimsendaauglýsingum. Það sem bókin segir frá á að gerast „innan skamms” (1.1 og 22.6) og „tíminn er í nánd” (1.3). Svo kemur Jesús víst skjótt (3:11), Jesús kemur skjótt (22:7), Jesús kemur skjótt (22.12) og loks kemur Jesús skjótt (22.20).

Sagan endurtekur sig

Nú þegar 21. maí er kominn og farinn og enn hefur Jesús ekki látið sjá sig, enda eru dauðir menn ekki mjög líklegir til stórafreka, þá munum við líklega byrja að heyra afsakanirnar. Frumkristni og Harold Camping eru nefnilega ekki þeir einu sem stunda þá iðju að spá heimsendi og viðbrögðin eru nokkuð þekkt.

Fólk á afskaplega erfitt með að viðurkenna að það hafi haft rangt fyrir sér. Það verður enn erfiðara þegar það hefur fórnað miklu vegna einhverrar skoðunar. Sumir fylgjendur Campings hafa hætt í vinnu og skuldsett sig, svo að þau geti varað fólk við heimsendi. Í Nýja testamentinu segir Pétur að hann og lærisveinar Jesú hafi yfirgefið allt sem þeir áttu, og Jesús svarar með því að lofa fólki sem yfirgefur heimili sín og fjölskyldu að það muni fá það margborgað aftur í himnaríki (Mk 10.28-29). Til þess að komast hjá því að horfast í augu við það að það hafi rústað lífi sínu vegna einhverrar vitleysu, þá er fólk í svona aðstæðum gjarnt á að gleypa við alls konar fáránlegum afsökunum.

Þegar heimsendir kom ekki árið 1844, þá sögðu aðventistar að spádómurinn hefði bara misskilist, hann fjallaði ekki um heimsendi, heldur að Jesús væri að fara inn í hof í himnaríki! Þegar heimsendir kom ekki 1914, þá sögðu vottar Jehóva að Jesús hefði komið, það var bara ósýnilegt!

Sama gildir um kristni almennt. Þegar bent er á heimsendaspádómana í Nýja testamentinu, þá eru svörin ýmist þau að þegar það stendur eitthvað eins og „heimsendir er í nánd”, þá annað hvort þýðir „heimsendir” alls ekki heimsendir, heldur sé verið að tala um umsátur Rómverja á Jerúsalem. Eða þá að „í nánd” þýði þúsundir ára.

Að viðurkenna mistökin

Ég held að flestir séu sammála því að það væri fylgjendum Campings fyrir bestu að fylgja ekki svona misheppnuðum heimsendaspámanni. Það sé vissulega sorglegt að það hafi fórnað einhverju út af svona vitleysu, en það sé ekki gagnlegt að viðhalda vitleysunni.

Það sama hlýtur að gilda um kristni. Kristni er bara tvö þúsund ára gömul afneitun á því að Jesús var ekkert skárri en Harold Camping. Það er tímabært að hætta að eyða tíma og peningum í að viðhalda þessari vitleysu.


[1] The World’s Last Night and Other Essays (*.pdf), bls 98
[2] Einar Sigurbjörnsson, Credo. Kristin trúfræði, bls 457

Hjalti Rúnar Ómarsson 22.05.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/05/11 13:19 #

Öll þessi tvö þúsund ár hafa menn svo smám saman verið að þróa flókna "guðfræði" kringum þennan költleiðtoga. Skefjalaust trúboð hefur svo séð til þess að þessi hjátrú er ofurvoldug og sums staðar tekur ríkið þátt í að kosta þetta. Kirkjan er eins og mafía sem fjárkúgar heilu þjóðfélögin.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/05/11 20:09 #

"Rómverjar eru klikk."

En auðvitað er einstaklega gáfulegt og jafnvel göfugmannlegt að trúa þessari vitleysu. Að halda öðru fram er auðvitað bara mannvonska.


JohannV - 22/05/11 23:19 #

Flott grein

Þeir trúuðu fengu þó eitt prump frá "skrattanum eða andkristi" til að minna á sig. Biblían tryggir það ;)


Einar - 23/05/11 11:47 #

Það var vægast sagt fyndið að lesa viðtal við Snorra í Betel þar sem hann þóttist voða hneykslaður á þessum spám og talaði eins og það sem frá þessum söfnuði kæmi væri vitleysa og allt í þeim dúr. Gat ekki annað en brosað út í annað. Kemur nefninlega úr hörðustu átt ... frá einum mesta trúarnöttara landsins. Það er enginn munur á Snorra og síðan þessum söfnuði. Enginn.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 23/05/11 19:54 #

Og þá byrjar þetta, Camping ætlar bráðum að láta í sér heyra í þættinum sínum, en fygljendur hans eru strax farnir að koma með afsakanir:

Gunther Von Harringa, who heads a religious organization that produces content for Camping’s media enterprise, said he was "very surprised" the Rapture did not happen as predicted, but he and other believers were in good spirits.

"It hasn’t shaken my faith, and we’re still searching the Scriptures to understand why it did not happen," said Von Harringa, president of EBible Fellowship, which he operates from his home in Delaware, Ohio. "It’s just a matter of OK, Lord, where do we go from here?"

Family Radio’s special projects coordinator, Michael Garcia, said he believed the delay was God’s way of separating true believers from those willing to doubt what he said were clear biblical warnings.

"Maybe this had to happen for there to be a separation between those who have faith and those who don’t," he said. "It’s highly possible that our Lord is delaying his coming."


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/05/11 00:43 #

Camping er í beinni á heimasíðunni sinni núna að útskýra þetta. Svo virðist sem Jesús hafi komið til baka, bara ósýnilega. Og að heimsendir verði 21. október 2011, en hann hafði áður minnst á þá dagsetningu sem daginn sem heimurinn myndi farast, en 21. maí var bara dagurinn sem Jesús átti að koma aftur, hrífa á brott sankristna fólkið og hræðilegur jarðskjálfti að rústa samfélaginu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/05/11 00:53 #

Shit


Arnar - 24/05/11 08:54 #

Jesú kom, fann engan verðugan og fór aftur.

Ef ég væri kristinn myndi ég vera virkilega áhyggjufullur.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 24/05/11 09:35 #

Hmmm.. en einhvern veginn er eins og mig minni að það hafi nú meira átt að gerast en bara upplyfting þeirra sanntrúuðu, rámar óljóst í jarðskjálft, jörð að opnast eyjur að sökkva.


Jón Ferdínand - 27/05/11 06:46 #

''Shit''

Hahahaha, drepfyndið myndband.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.