Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Umsögn um tillögu Árna Johnsen og félaga

Árni Johnsen

Vantrú var beðin um að veita umsögn um þingsályktunartillögu Árna Johnsen og félaga um mikilvægi fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð og lífsviðhorf. Tillagan er algjörlega út úr kú og erfitt er að gera málefnalegar athugasemdir við algjöra kúadellu. En við gerðum það samt. Hér er umsögnin einsog hún var send til Alþingis:

13. mars, 2011
Umsögn um:
Tillaga til þingsályktunar - um mikilvægi fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð og lífsviðhorf.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 316 — 273. mál.

Menntamálanefnd Alþingis
Til að unnt sé að fjalla um þessa tillögu þarf að feðra hana rétt. Greinargerðin, sem fylgir tillögunni, er nánast orðrétt og samhljóða pistli sr. Gísla Jónassonar er birtist á vefriti Biskupsstofu, http://www.tru.is, þann 7. desember sl. Þingskjalið er þó að sönnu lagt fram nokkrum dögum fyrr, en báðir eru sr. Gísli og 1. flm. tillögunnar stakir heiðursmenn með óflekkað mannorð og því útilokað að um ritstuld sé að ræða. Því verður að telja líklegt að þingsályktunartillagan sé unnin í nánu samstarfi við Þjóðkirkjuna og að hún sé jafnvel runnin undan rifjum hennar, enda samband þings og kirkju ákaflega náið og frjósamt eins og alkunna er.

Það skársta sem sagt verður um greinargerðina með tillögunni er það að hún er stutt. Annars er hún óljós, illa unnin og illa rökstudd, auk þess sem henni er ætlað að hindra hlutlaust skólastarf. Í þessari hroðvirknislega unnu greinargerð er stuðst mjög við hefðarrök og hreinan hræðsluáróður. Tillagan er augljóslega samin til höfuðs ályktun Mannréttindaráðs Reykjavíkur um trúmál og skóla og er með ólíkindum að flutningsmenn telji það í sínum verkahring að múlbinda skóla borgarinnar á klafa trúhelsis og mannréttindabrota. Engum dylst sem les tillöguna að hún er ekki lögð fram til að gæta réttinda minnihlutahóps trúfrjálsra einstaklinga, heldur er hún til þess ætluð að hygla einum trúarbrögðum umfram allar aðrar lífsskoðanir.

Flutningsmenn vitna bæði í Barnasáttmála SÞ og Toledo skýrslu ÖSE, en augljóst er að þeir skilja ekki, eða kjósa að mistúlka, það sem þeir vitna í. Þannig er því haldið fram að Barnasáttmálinn tryggi barni trúfrelsi, en hitt ósagt látið að jafnframt beri að virða skyldur foreldra og lögráðamanna að leiðbeina barninu um beitingu slíks réttar í samræmi við þroska þess. Það er jafnframt undarlegt að gera trúfrelsi barna að ásteytingarsteini í þessu samhengi því skólinn er menntastofnun og á ekki að vera vettvangur trúboðs eða trúarinnrætingar. Eins misskilja flm. Toledo skýrsluna – hún er leiðbeinandi um trúarbragðafræðslu og þar kemur m.a. fram að fræðsla um trúarbrögð skuli vera sanngjörn, nákvæm og byggð á áreiðanlegri fræðimennsku. Allir sem hafa til þess nennu að grennslast fyrir um vita að leiðbeiningar Toledo skýrslunnar eru að engu hafðar þegar kemur að ætlaðri fræðslu um trúarbrögð í grunnskólum og síst ástæða til að auka enn á þá hörmung. Dreifing Gídeon á Nýja Testamentinu í grunnskólum er svo sér kapítuli út af fyrir sig og það er dapurlegt til þess að vita að flm. tillögunnar sjái ekkert athugavert við slíkt.

Flutningsmenn tillögunnar ætla Þjóðkirkjunni greinilega stóra hluti í skólakerfinu og taka sérstaklega fram að: „Kirkjan hefur löngu lýst því yfir að hún viðurkenni og virði ólík hlutverk skóla og kirkju“. Þessa sér hins vegar hvergi stað í sívaxandi brambolti kirkjunnar innan skólakerfisins. Er skemmst að minnast hinnar svo kölluðu ‚Vinaleiðar‘ Þjóðkirkjunnar, en henni var ætlað að koma djáknum kirkjunnar varanlega inn í hvern skóla. Þar átti að draga grunnskólabörn í dilka eftir hentugleikum kirkjunnar, en þessi umbúningur dó drottni sínum eftir kæru til Persónuverndar. Forsvarsmenn og prestar Þjóðkirkjunnar hafa aldrei farið dult með áhuga sinn á grunnskólabörnum og því að ná til þeirra með öllum ráðum innan veggja leik- og grunnskóla. Þessa má víða sjá stað bæði í ræðu og riti og er þá lítt hugað að réttindum minnihlutahópa.

Eins og flm. benda á er kveðið á um í Aðalnámsskrá að starfshættir grunnskóla skuli m.a. mótast af kristinni arfleifð. Það er vandséð hverju þessi tillaga á að skila því til viðbótar utan aukinni ásókn Þjóðkirkjunnar inn í grunnskólana. Kirkjan hefur aldrei haft jafn mikil tækifæri og aðstöðu og nú í eigin ranni til að ná til þeirra sem það vilja með boðskap sinn. Félagið Vantrú hefur aldrei verið því mótfallið að grunnskólabörn séu frædd rækilega um trú og siði sinnar eigin þjóðar og annarra. Félagið gerir hins vegar þá kröfu að slík fræðsla sé sanngjörn, nákvæm og byggð á áreiðanlegri fræðimennsku.

Þessi þingsályktunartillaga er þarflaus, illa ígrunduð og ósvífin. Með henni ætla flm. að ganga í berhögg við mannréttindi og eðlilega samfélagsþróun. Grunnskólabörnum, foreldrum þeirra og forráðamönnum er enginn greiði gerður með þessari tillögu og er vandséð hverju hún á að skila öðru en sundrungu og úlfúð.

Heimildir:
1. http://tru.is/pistlar/2010/12/athugasemdir-vid-tillogur-mannrettindarads (sótt 7. mars 2011).
2. http://www.humanistfederation.eu/index.php?option=comcontent&view=article&id=165 (sótt 7. mars 2011).
3. http://www.barn.is/adalsida/barnasattmalinn/barnasattmalinn
i_heild/ (sótt 7. mars 2011).
4. Einar Ómarsson og Þorsteinn V. Einarsson. Greinargerð með kennsluhugmyndabanka fyrir trúarbragðafræði. Háskóli Íslands. Menntavísindasvið – Kennaradeild ( grunnskólakennarafræði). Lokaverkefni til B.Ed. –gráðu. Apríl 2010.

Ritstjórn 17.03.2011
Flokkað undir: ( Gídeon , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Gunnar Hallberg - 21/03/11 20:56 #

Kirkjan berst í bökkum og þetta er henni ekki til framdráttar. Trúboð á ekki heima í skólum og skammarlegt að lagst sé svo lágt að reyna með þeim hætti að ná til barna og innprennta heilaþvott.


Jón Ferdínand - 22/03/11 14:39 #

Það var laglegt drengir!!


Benjamín - 24/03/11 08:17 #

Alltaf jafn kurteisir og "málefnalegir" sé ég...


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 24/03/11 08:32 #

Takk fyrir "gott" og "upplýsandi" innlegg "Benjamín".


ArnarG (meðlimur í Vantrú) - 24/03/11 10:40 #

Ég hvet Benjamín eindregið til að rökstyðja mál sitt og benda á hvar ókurteisi Vantrúar og ómálefnanlegaheit liggja. Eða átti þetta ekki að vera hæðni annars hjá þér Benjamín?


Valur - 24/03/11 16:50 #

Mjög góð umsögn.


Jóhann - 24/03/11 20:43 #

http://www.bbc.co.uk/news/science-environment-12811197


Benjamín - 25/03/11 00:03 #

Haha, takk fyrir svarið Trausti =).

ArnarG: Jú, þetta var víst hæðni. Það gæti verið vitleysa í mér en mér fannst vera falið leiðindaskot í setningunni "en báðir eru sr. Gísli og 1. flm. tillögunnar stakir heiðursmenn með óflekkað mannorð og því útilokað að um ritstuld sé að ræða."

Kannski er ég bara svona vitlaus en síðan þegar ég les fullyrðinguna "Því verður að telja líklegt að þingsályktunartillagan sé unnin í nánu samstarfi við Þjóðkirkjuna..." þá finnst mér þetta afar.... ömm... athyglisverð ályktun. Nú veit ég að margir hér á Vantrú eru betur að sér í rökvillum o.þ.h. en ég, en er ekki eitthvað athugavert við að segja "Jón leggur þetta til, Jakob segir opinberlega skoðanir sínar sem að eru mjög líkar og þar af leiðandi er líklegt að Jón og Jakob voru að vinna saman?" Er þetta dæmi mitt allt allt öðruvísi? Mér finnst þetta ekki beint málefnaleg rök (né góð eða rökrétt ef út í það er farið). Í minni fávisku finnst mér allavega alveg eins að Sr. Gísli hafi séð tillöguna og skrifað pistilinn undir áhrifum frá tillögunni. Eða er það alveg fáranlegt að telja að svo gæti verið?

Að lokum vil ég rétt hafa skilgreingu mína á "málefnalegu". Í mínum huga þá er málefnalegt svar eitthvað sem færir góð rök fyrir því sem sagt er auk þess sem að það fjallar um málefnið af virðingu við málefnið OG andmælendur. Þegar ég les skrifin hér hjá sumum Vantrúarmönnum upplifi ég oft að litið sé niður á þá sem hafa aðrar skoðanir en þeir, og að hinir hljóti að vera svo vitlausir að sjá ekki heiminn jafn skýrt og þið. Eins og ég segi þá er þetta upplifun mín og tilfinning sem ég fæ þegar ég les margt hér. Þið megið alveg vera ósammála mér sérstaklega í ljósi þess að ég efast um að ég hafi tíma eða áhuga á að rökstyðja þetta frekar.

p.s. þess má geta að ég efast um að ég flokki þetta svar mitt sem málefnalegt en ég vona að ábendingar mínar í fyrri hluta útskýri að einhverju leyti fyrra innlegg mitt.


Kristján (meðlimur vantrú) - 25/03/11 01:09 #

Mér langar að færa mitt svar við þér Trausti þó ég sé varfærinn á að koma fram sem fulltrúi Vantrúar með því (þó þetta séu samtök sem aðhyllist skoðanir meðlima sinna virðast skoðanir eins þeirra á tímum vera dregnar fram sem skoðanir allra).

Nú er ég núna yfirlýstur líkt og þú ekki sérfræðingur í rökvillum eða rökfræði. Það sem fellur undir málefnaleg rök að mínu mati eru þau rök sem eru svar við eitthvað sem varðar málefnið beint, en þar er engin krafa á virðingarvotti gagnvart mótaðila.

Mér fannst vísunin í að báðir séu með óflekkað mannorð fullkomnlega ásættanlegt, sérstaklega í ljósi þess að Árni var sakfelldur og var með flekkað mannorð (braut tvö boðorð í það minnsta í leiðinni), þangað til að þingið eyddi því með pennastriki.

Nú er ég að vísu sammála þér að það er heldur sterk fullyrðing að segja að bæði Árni og Gísli séu í samráði vegna þess að þeir gáfu út sömu greinargerðinna (á sitthvorum tíma). Þó vil ég benda á það að á þeim pólitíska vettvangi sem báðir aðilar eru að tjá sig á, má vissulega segja að um samstarf sé að ræða, þó að óljóst sé um hvort þeir hafi haft beint samráð um hvað skyldi segja eða ekki.

Þetta er pólitískt mál og virðist því óhjákvæmilega leiða til pólitískra umræðna. Sama hversu hlutlaust apparat þú kunnir að hafa litið á Vantrú sem, er það samt sem áður pólitískt af því leyti að samtökin vilja hafa áhrif á samfélagið og samkvæmt því er það pólitískt sama hversu vísindalega þenkjað það sé. Því vil ég persónulega gefa bréfinu það svigrúm að leyfa sér að vera pólitískt.

PS: Það að vera kaldhæðnislega auðmjúkur, gefur mann bara út fyrir að vera svakalega hrokafullur. Yfirleitt virðist slíkt (að mínu mati) fullkomnlega í lagi hérna, en þetta selur samt sem áður ekki málstað þinn. Taktu hærri veginn og láttu rökin tala án skreytingar.


Kristján (meðlimur vantrú) - 25/03/11 01:29 #

Fyrirgefið þið, þessu var beint til Benjamín.


Benjamín - 25/03/11 02:17 #

Sæll Kristján,

Ég get tekið að vissu leyti undir það sem þú segir að "Það sem fellur undir málefnaleg rök að mínu mati eru þau rök sem eru svar við eitthvað sem varðar málefnið beint, en þar er engin krafa á virðingarvotti gagnvart mótaðila." Ástæðan fyrir því að ég bæti oft hinu inní í mínum huga er að þegar ég les eitthvað sem að inniheldur vanvirðingu gagnvart mótaðila þá einhvern veginn beinist athyglin stundum að því frekar en rökunum sjálfum.

"PS: Það að vera kaldhæðnislega auðmjúkur, gefur mann bara út fyrir að vera svakalega hrokafullur. Yfirleitt virðist slíkt (að mínu mati) fullkomnlega í lagi hérna, en þetta selur samt sem áður ekki málstað þinn. Taktu hærri veginn og láttu rökin tala án skreytingar." Fullkomlega sammála þessu! Ég biðst því afsökunar á þessum "leiðindastælum" í skrifum mínum því þau voru vissulega hugsað að einhverju leyti sem skot sem að voru óþarfi og óviðeigandi. Afsakið.

Kannski var það bara af því að mér var minnisstætt brot Árna að mér fannst þetta vera óþarfa skot að minnast á þetta þó að vissulega sé rétt að þeir séu báðir í dag með óflekkað mannorð (að því er ég best veit).

Mér finnst orðið samstarf í svari þínu bjóða upp á frekar opnar skilgreiningar. Helstu rökin um samstarf sem ég sá í umsögninni þegar ég leit yfir hana voru að báðir hafi gefið út mjög líka greinargerð. Þjóðkirkjan er einn af þeim hópum sem tillagan mun snerta og því ekkert óeðlilegt við það að þeir tjái sig um þetta hvort sem er að taka undir eða andmæla. Það eitt og sér lít ég ekki á sem gild rök fyrir að það hafi verið "líklegt samstarf".

Bréfið má að sjálfsögðu vera pólitískt, en mér fannst rökin fyrir feðrun tillögunnar vera veik.

Í ljósi svipaðra vangaveltna má velta fyrir sér hvort að upphaflegu tillögur mannréttindaráðs hefðu átt að vera feðraðar Siðmennt og auðveldara að færa rök fyrir að þeir hafi haft óbeint samráð um orðun tillögunnar þar sem að varaformaður Siðmenntar sat í mannréttindaráði þegar hún var fyrst sett fram.

Að lokum vil ég geta þess að skoðanir mínar á tillögum Mannréttindaráðs (sem þessi tillaga er svar við) er sú að í upphaflega forminu voru ýmsir stórir vankantar á þeim sem má kannski rekja til framsetningu þeirra, en síðar voru tillögurnar bættar mjög og gerðar mun málefnalegri.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 25/03/11 09:53 #

Helstu rökin um samstarf sem ég sá í umsögninni þegar ég leit yfir hana voru að báðir hafi gefið út mjög líka greinargerð. Þjóðkirkjan er einn af þeim hópum sem tillagan mun snerta og því ekkert óeðlilegt við það að þeir tjái sig um þetta hvort sem er að taka undir eða andmæla. Það eitt og sér lít ég ekki á sem gild rök fyrir að það hafi verið "líklegt samstarf".

Greinargerðirnar eru ekki aðeins líkar heldur eru þær orðrétt samhljóða á mörgum stöðum og uppbygging og efnistök eru eins. Þegar staðreyndirnar blasa við er óþarfi að fara Fjallabaksleiðir að ályktunum.


Baldur - 25/03/11 14:09 #

ArnarG: Ég hvet Benjamín eindregið til að rökstyðja mál sitt og benda á hvar ókurteisi Vantrúar og ómálefnanlegaheit liggja.

Svakalega er Benjamín tekið af fúlustu, það telst til dæmis seint málefnalegt að uppnefna tillögu ‚kúadellu‘. Annars er miklu púðri varið í greinargerðina og þá sem að henni stóðu frekar en í málefnið sjálft; hún kölluð óljós, hroðvirknislega unnin, illa unnin, illa rökstudd, illa ígrunduð, þarflaus og ósvífin — að viðbættu því undirförula hrósi að hún sé þó stutt..

Margir hlutar hennar eru niðrandi, barnalegir eða hreinlega væna höfunda um lygar:

  • „[...] en augljóst er að þeir skilja ekki, eða kjósa að mistúlka, það sem þeir vitna í.“
  • „en hitt ósagt látið“
  • „Eins misskilja flm. Toledo skýrsluna[sic] [...]“
  • „Allir sem hafa til þess nennu að grennslast fyrir um [...]“

Jeminn var það nú málefnalegt, eins og ég er sammála málstaðinum þá þætti mér ómerkilegt að fá þetta í hendurnar.

(fjandann kemur orðspor Árna Johnsen málinu við?)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/03/11 14:24 #

, það telst til dæmis seint málefnalegt að uppnefna tillögu ‚kúadellu‘.

Enda er það ekki hluti af umsögn Vantrúar.

Margir hlutar hennar eru niðrandi, barnalegir eða hreinlega væna höfunda um lygar:

Höfundar segja ósatt og eiga að vita betur.


Baldur - 25/03/11 15:17 #

Allsubbulegri hlutir voru látnir falla í umsögninni


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/03/11 15:26 #

Ég er ekki sammála því.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 25/03/11 15:33 #

Baldur, hefur þú lesið greinargerðina með þingsályktunartillögu háttvirts 1. flm.?

Annars er miklu púðri varið í greinargerðina og þá sem að henni stóðu frekar en í málefnið sjálft; hún kölluð óljós, hroðvirknislega unnin, illa unnin, illa rökstudd, illa ígrunduð, þarflaus og ósvífin — að viðbættu því undirförula hrósi að hún sé þó stutt..

Hvað á svo þessi athugasemd að þýða? Hvaða púðri er eytt í flutningsmenn? Ég fæ altént ekki betur séð en allt sem þú tínir til fjalli um greinargerðina en ekki flutningsmennina.

Ert þú e.t.v. einn af þeim sem telur að virða beri skoðanir fólsks, hversu vitlausar sem þær kunna að vera og að gagnrýni á þær jafngildi því persónuárásum?


Benjamín - 25/03/11 18:54 #

Takk Baldur fyrir þín viðbrögð.

Ég mun líta betur á þetta aftur eftir nokkrar klst en langar rétt að segja að ég er fullkomlega sammála þér og er þetta einmitt hluti af því sem ég var að hugsa um með að málefnaleg umræða fjallar af virðingu við efnið og andmælendur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/03/11 21:17 #

málefnaleg umræða fjallar af virðingu við efnið og andmælenda.

Ekki endilega.


Benjamín - 25/03/11 23:28 #

G2: Þú skrifar: "Greinargerðirnar eru ekki aðeins líkar heldur eru þær orðrétt samhljóða á mörgum stöðum og uppbygging og efnistök eru eins. Þegar staðreyndirnar blasa við er óþarfi að fara Fjallabaksleiðir að ályktunum."

Ég hef ekki lesið í gegnum alla greinargerð Sr. Gísla en rennt í gegnum hluta hennar. Ég sá eitthvað sem var samhljóða og einstakar setningar sem voru mjög líkar en í minni stuttu yfirferð varð ég ekki var við að sjá setningar sem voru alveg orðrétt. Endilega birtu hér dæmi ef eitthvað var alveg orðrétt. En til skýringar vil ég líka benda á að Pistlar á Trú.is eru einmitt bara það. Pistlar! Þessu má líkja við bloggfærslu þar sem að kirkjunnar menn birta sínar hugleiðingar um hin ýmsu málefni og taka sínar hugmyndir frá mörgum mismunandi stöðum án þess að vísa endilega alltaf í einhverjar heimildir nema þeir telji þeim mun ríkari ástæðu til.

Staðreyndin er sú að þau "rök" sem þið færið fyrir þessum ályktunum um meint samráð eru einfaldlega ekki rökrétt. Þetta er því ekki spurning um hvort verið sé að fara fjallabaksleið að ályktunum. hvort að verið sé að búa til tengingu því að það hentar ykkar málstað. Eins og þetta er sett fram í greinargerð Vantrúar þá er þetta "óljós, illa unnin og illa rökstudd" ályktun (svo maður nýti sér orðalag ykkar).

Rétt í lokin þá vil ég endurtaka vangaveltuna um hvort að tillögur Mannréttindaráðs hefðu ekki átt að vera feðraðar Siðmennt? Sérstaklega þar sem að þrátt fyrir að verið var að "byggja tillögurnar á" skýrslunni um samband kirkju og skóla voru sumir hlutar tillögunnar sem höfðu enga stoð í skýrslunni og gengu jafnframt þvert á niðurstöður skýrslunnar. Sumar þeirra tillagna voru í meira samræmi við Trúfrelsisstefnu Siðmenntar og það vildi svo skemmtilega til að varaformaður Siðmenntar sat í nefndinni. Ég er þá sérstaklega að hugsa um upphaflegar tillögur sem snertu fermingarnámskeið.


Benjamín - 25/03/11 23:36 #

Matti: Ef þú lest í gegnum svör mín sérðu að þetta var eitthvað sem ég setti í mína skilgreiningu á "málefnalegri umfjöllun" og var meira til að upplýsa ykkur um þau viðmið sem ég nota. Ef þú skoðar skrif mín enn betur þá sérðu vonandi að ég hafði skrifað í svari mínu til Kristjáns:

"Ég get tekið að vissu leyti undir það sem þú segir að "Það sem fellur undir málefnaleg rök að mínu mati eru þau rök sem eru svar við eitthvað sem varðar málefnið beint, en þar er engin krafa á virðingarvotti gagnvart mótaðila." Ástæðan fyrir því að ég bæti oft hinu inní í mínum huga er að þegar ég les eitthvað sem að inniheldur vanvirðingu gagnvart mótaðila þá einhvern veginn beinist athyglin stundum að því frekar en rökunum sjálfum."

Ég vona að þetta útskýri afstöðu mína og ástæðu fyrir því að ég skrifaði þetta.


tommi - 26/03/11 00:32 #

"málefnaleg umræða fjallar af virðingu við efnið og andmælenda." Ég held að þetta sé mjög rangt. Hvað ef umræðuefnið er t.d. talíbanar, barnanauðgarar eða bókstafstrúar fólk og fávitar. Ekki segja mér að ég þurfi að koma fram af virðingu við þetta fólk svo að ég geti verið málefnalegur.


Kristján (meðlimur vantrú) - 26/03/11 03:01 #

Aftur til Benjamíns:

Ég skal gefa þér það að fullyrðing um samráð/samstarf Gísla og Árna fylgi ekki sönnunum né hafi nægilega sönnunarbyrði til þess að geta talist fyllilega réttmæt. Bréfinu til stuðnings nefndi ég að þetta væri pólitískt mál og því væri bréfið af sumu leyti (að mínu mati) afsakanlegt í þeim skilningi.

Hins vegar verð ég að benda þér á að samlíkingu þinni er hægt að hrekja samstundis. Það sem borgarstjórn Reykjavíkur var að framfylgja með sinni ákvörðun var aðeins copy/paste ákvörðun í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu. Því getur Siðmennt tæplega verið gert ábyrgt fyrir ákvörðun mannréttindaráðs, né getur ákvörðun mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar talist sem einhver sjálfstæð árás á þjóðkirkjuna. Sama er að segja um 95% þingsályktanna sem varðar EES eða Evrópusambandið, en þau eru yfirleitt samþykkt og framfylgt án nokkurs vesens.

Hvað segir það um pólitísk tengsl kirkjunnar á Íslandi? Er eðlilegt að trúarstofnun sem á að vera utan stjórnmálaafla, sé svona virk hjá okkur?

Ég bara spyr.

Bottom line,


Benjamín - 26/03/11 05:05 #

Sæll aftur Kristján:

Mig langar að byrja á að svara því sem þú segir í lokin: "Hvað segir það um pólitísk tengsl kirkjunnar á Íslandi? Er eðlilegt að trúarstofnun sem á að vera utan stjórnmálaafla, sé svona virk hjá okkur?"

Ég þekki ekki nógu vel til annarra landa hvað varðar hvort að það sé Þjóðkirkja til staðar en ég gæti vel trúað því að það sé orsök þessara pólítísku tengsla kirkjunnar á Íslandi. Það réttlætir þessi tengsl ekki og persónulega væri ég fullkomlega sáttur við aðskilnað ríkis og kirkju og hallast meira að segja frekar í þá átt frekar en að halda tengslunum. Held að það gæti verið gott fyrir báða aðila (ríki og kirkju).

"Hins vegar verð ég að benda þér á að samlíkingu þinni er hægt að hrekja samstundis. Það sem borgarstjórn Reykjavíkur var að framfylgja með sinni ákvörðun var aðeins copy/paste ákvörðun í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu. Því getur Siðmennt tæplega verið gert ábyrgt fyrir ákvörðun mannréttindaráðs, né getur ákvörðun mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar talist sem einhver sjálfstæð árás á þjóðkirkjuna. Sama er að segja um 95% þingsályktanna sem varðar EES eða Evrópusambandið, en þau eru yfirleitt samþykkt og framfylgt án nokkurs vesens."

Í fyrsta lagi þá tel ég ekki að um beint samráð hafi verið milli Siðmenntar og Mannréttindaráðs um tillögurnar þó að ég telji að upphaflegu tillögurnar geta hafa litast af skoðunum Siðmenntar í ljósi þess að einn af upphaflegu flutningsmönnum tillögunnar er eða var allavega varaformaður Siðmenntar.

Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér mannréttindasáttmála Evrópu og þekki því ekki að hvaða leyti þetta var copy/paste ákvörðun í samræmi við það. Það gæti verið löng lesning til að finna þau atriði og myndi ég meta það að vera leiðbeint á hvaða greinar sáttmálans er verið að hugsa um hér.

En nú fór ég svo sem ekki djúpt í af hverju ég taldi vera mögulegt að tengja Siðmennt við upphaflegu tillöguna í fyrri innleggum mínum hér en ætla nú að bæta úr því:

Vantrú fjallaði eitthvað um þetta mál á sínum tíma og má meðal annars sjá umfjöllun þeirra á eftirfarandi tengli: http://www.vantru.is/2010/10/19/12.00/

Nú vitna ég orðrétt í tengilinn hér að ofan þar sem stendur: "Þessi drög byggja á vandaðri skýrslu Menntasviðs Reykjavíkur(.pdf) frá árinu 2007."

Auk þess vísa ég, aftur orðrétt, í fundargerð Mannréttindaráðs frá 26. október 2010 (fundur 58, aðgengilegt á vef Reykjavíkurborgar) þar sem að stendur: "Fulltrúar Samfylkingar, Besta Flokks og Vinstri Grænna óska bókað: Meirihlutinn byggir tillögu sína á skýrslu starfshóps um samstarfs kirkju og skóla frá 2007 þar sem óskað var eftir skýrum reglum um hvernig samstarfi skóla og trúfélaga skuli háttað. Mannréttindaráði ber að standa vörð um réttindi minnihlutans."

Athugið að ekki er minnst á Mannréttindasáttmála Evrópu hér heldur þessa blessuðu skýrslu og þar sem að flutningsmenn töldu þarft að vísa í skýrsluna sem grundvöll tillögunnar og óþarft að bóka neitt tengslum við Mannréttindasáttmála þá ætla ég að leyfa mér að styðjast eingöngu við skýrsluna núna.

Í skýrslunni (sem er vísað í á Vantrúartenglinum hér að ofan) á bls. 18 kemur fram spurningin: "Fer fermingarfræðsla fram á skólatíma?" 37 af 38 skólum svöruðu nei. Síðasti skólinn svaraði ekki svo að ekki er hægt að fullyrða, byggt á skýrslunni, að svo sé þar.

Ef marka má bloggfærslu sr. Bjarna Karlssonar um tillögurnar sem má finna hér: http://blog.eyjan.is/bjarnikarlsson/2010/10/18/skoli-og-kirkja/ þá var einn hluti (og hugsanlega fyrsti hluti) tillögunnar eftirfarandi: "Fermingarfræðsla Þjóðkirkjunnar og annara trú- eða lífsskoðunarfélaga skal fara fram utan skólatíma. Undanfarin ár hefur skólastarf í öllum skólum farið úr skorðum í a.m.k. 2 daga á hverju hausti vegna þessa. Slík truflun á skólastarfi er óæskileg auk þess sem hætta er á að börn sem eftir verða teji sig útundan." Miðað við fréttir um tillöguna á Vísir.is sem að er vísað í á Vantrúartenglinum hér að ofan þá passar það að þetta hafi verið hluti af upphaflegu tillögunni.

Ef þessi skýrsla er grundvöllur tillögunnar, og athugið að það hefur komið fram bæði hér á Vantrú.is og í bókun Mannréttindaráðs, þá fæ ég ekki séð hvaða þörf sé á þessari tillögu. Sú fullyrðing sem kemur fram í tillögunni er meira að segja í beinni mótsögn við það sem fram kemur í skýrslunni og því er erfitt að trúa því að skýrslan sé hinn raunverulegi grundvöllur hér eins og haldið var fram.

Ef maður vill hins vegar leggja fram "samsæriskenningar" um að a.m.k. þessi hluti tillögunnar gæti verið undir áhrifum frá Siðmennt eða aðila þaðan (og ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að það sé líklegt heldur bara að það sé möguleiki) þá stendur þar í Trúfrelsisstefnu þeirra sem má finna á eftirfarandi tengli: http://sidmennt.is/trufrelsi/trufrelsisstefna/ Jafnframt kemur fyrir að fermingarfræðslunni svokölluðu sé komið fyrir inni í miðri stundaskrá nemenda þannig að ferming lítur út fyrir að vera hluti af eðlilegu skólastarfi. Til að mynda eru farnar dagsferðir með krakkana á skólatíma fyrir fermingarfræðslu. Þetta er bæði óréttlátt og líklegast brot á grunnskólalögum sem kveða á um fjölda kennsludaga.

Óháð því hvort að það sé hægt að rekja þessi rök auðveldlega eða hvort að þau séu góð yfirhöfuð tel ég þau þó vera betri en rökin að sr. Gísli birti pistil nokkrum dögum seinna og því hlýtur Þjóðkirkjan að hafa verið með í ráðum. Ég met það að þú sért tilbúinn að gefa mér það að þau rök höfðu ekki nægilega sönnunarbyrði til að fullyrðingin um samráðið/samstarfið hafi talist fyllilega réttmæt. Óháð því hvort að þetta hafi verið afsakanlegt út af því að þetta er pólítískt mál þá tel ég það ekki hafa áhrif á hversu málefnalegt þetta var.

Varðandi hvort að ákvörðun Mannréttindaráðs hefði getað talist sjálfstæð árás á Þjóðkirkjuna þá hef ég svo sem ekki beinar skoðanir á því. Hins vegar má velta fyrir sér hvort að þar hafi verið "skot" á Gídeonfélagið þar sem að sérstaklega var minnst á Nýja testamentið í upptalningu trúarrita í stað þess að minnast á Biblíuna sem er trúarrit kristinna en Nýja testamentið er einungis hluti þess...


Benjamín - 26/03/11 05:07 #

Ég sé að ég gleymdi að setja gæsalappir við tilvitnunina í trúfrelsisstefnu Siðmenntar. Ég hafði reynt að nota quote í stað blockquote sem að virkaði víst ekki... ojæja


G2 (meðlimur í Vantrú) - 26/03/11 13:51 #

Dæmi fyrir Benjamín.

Gísli:

Í þessu sambandi má einnig benda á það, að í ritinu Toledo Guiding Principles on Teaching about Religions and Beliefs in Public Schools, sem gefið var út af Office for Democratic institutions and Human Rights og Organization for security and Co-operation in Europe er meðal annars hvatt til samstarfs menntastofnana og trúar- og lífsskoðanafélaga við gerð námskrár, námsefnis, kynningu á trúarbrögðum og notkunar á kynningarritum frá viðkomandi aðilum, að því gefnu að þau standist fræðilegt mál.

Árni & Co.:

Í ritinu Toledo Guiding Principles on Teaching about Religions and Beliefs in Public Schools, sem gefið var út af Office for Democratic institutions and Human Rights og Organization for Security and Co-operation in Europe er meðal annars hvatt til samstarfs menntastofnana og trúar- og lífsskoðanafélaga við gerð námskrár, námsefnis, kynningu á trúarbrögðum og notkunar á kynningarritum frá viðkomandi aðilum, að því gefnu að þau standist fræðilegt mat.

Gísli:

Þá er lögð mikil áhersla á umburðarlyndi milli ólíkra trúar- og lífsskoðanahópa og að mismunur sé sýnilegur, svo hægt sé að temja nemendum virðingu fyrir einstaklingum sem hafa aðra lífsskoðun en þeir sjálfir. Og í því sambandi skal á það bent, að umburðarlyndi lærist ekki í tómarúmi eða með þöggun, eins og gæti orðið afleiðingin af tillögum mannréttindaráðs, yrði þeim hrint í framkvæmd

Árni og Co.:

Það er einnig mikilvægt að skólastarfið stuðli að umburðarlyndi og tillitssemi. Þess vegna er nauðsynlegt að mismunur sé sýnilegur, að hægt sé að temja nemendum virðingu fyrir einstaklingum sem hafa aðra lífsskoðun eða aðra siði en þeir sjálfir. Umburðarlyndi lærist ekki í tómarúmi. Það er skylda skólanna að leggja rækt við íslenskan menningar- og trúararf, en jafnframt er það skylda skólanna að taka tillit til nemenda sem tilheyra minni-hlutahópum.

Gísli:

Ef kynning á hvers konar æskulýðsstarfi eins og t.d. íþróttafélögum eða skátum er heimil, þá eru m.ö.o. engin rök fyrir því að banna kynningu á kirkjulegu starfi. Eða hafa börn og foreldrar ekki annars rétt á að vita hvað í boði er fyrir börnin? Og hafa börnin og foreldrar ekki rétt til að velja sjálf úr þeim tilboðum sem til boða eru á vettvangi æskulýðsstarfs í borginni? Eigi með þessari grein, að koma á slíku banni innan skólans, sem aðeins nái til kynningar á kirkjulegu og trúarlegu félagsstarfi, þá er um að ræða ofríki undir merkjum misskilins „trúfrelsis“. Því trúfrelsi er m.a. fólgið í því að fá að velja. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á að tryggja rétt barna til að velja, félagslega og trúarlega.

Árni & Co.:

Ef kynning á hvers konar öðru æskulýðsstarfi, t.d. íþróttafélaga, er heimil, hvers vegna þá ekki kynning á kirkjulegu starfi? Hafa börn og foreldrar ekki rétt á að vita hvað er í boði fyrir börnin og velja sjálf úr? Verði tekið fyrir þessa kynningu er um að ræða ofríki undir merkjum trúfrelsis. Trúfrelsi er m.a. fólgið í því að hafa tækifæri til að velja. Barnasáttmálinn á t.d. að tryggja rétt barna til að velja


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 26/03/11 20:09 #

Það að Gísli viti ekki hvert íslenska nafn evrópsku stofnunarinnar sem hann vísar í heitir er eitt en að hópur þingmanna viti það ekki er fáránlegt.

Líklegasta skýringin að mínu mati er sú að þetta sé tekið frá Gísla og reyndar líka að hinir þingmennirnir hafi varla nennt að lesa yfir greinargerðina. Þeir hafa allavega mjög augljóslega ekki kynnt sér málið vel því að niðurstaða Toledo-skýrslunnar er þeirra málstað ekki í hag.


Benjamín - 27/03/11 00:21 #

Þakka þér G2 fyrir þessi dæmi.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?