Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Réttlæti og sjálfsfórn

Jörðin

Fyrir nokkrum dögum átti ég athyglisverðar samræður við góðan vin minn. Sameiginlegur vinur okkar hefur lent í röð erfiðleika sem hver um sig gæti fengið marga til þess að gefast upp. Við vorum sammála um að ef að einhver ætti ekki skilið að lenda í þessum erfiðleikum, þá væri það hann. Hann hefur ávallt lifað lífinu brosandi og hefur einstakan hæfileika til að smita fólk í kringum sig af gleði og bjartsýni.

Af hverju þurfti þetta að koma fyrir hann?

Staðreyndin er sú að það er ekkert svar. Ekki nóg með það, spurningin felur í sér hugsunarvillu. Þegar við spyrjum: „Af hverju þurfti?“ þá erum við að gera ráð fyrir að það þurfi eitthvað að gerast. Að einhver hafi þessa vondu hluti á valdi sínu og velji sér síðan fórnarlamb.

Það er tilhneiging hjá mörgum að hugsa sem svo að heimurinn sé réttlátur. Margir tala um „karma“ og nota það gjarnan þegar slæmt fólk lendir í slæmum hlutum. Staðreyndin er hinsvegar sú að heimurinn velur ekki. Það skiptir engu máli hvort þú ert góður eða vondur. Sjálfboðaliðar hjá Amnesty geta fengið krabbamein og nauðgarar geta orðið biskupar.

Ef heimurinn er svona óréttlátur, af hverju ætti maður að reyna að láta gott af sér leiða?

Það eru margar ástæður fyrir því að það þykir virðingarvert að hlúa að lífinu í kringum okkur og vera góður við náungann. Augljós ástæða er sú að með því að vera góður við náungann eru meiri líkur á að hann verði góður við okkur. Þessi hugsun er ekki einstök hjá okkur mönnunum. Blóðsuguleðurblökur hjálpa til dæmis hver annarri ef þær hafa ekki náð að drekka nóg blóð [1]. Einnig eru til einfrumungar sem að fórna sjálfum sér til þess að bjarga „samborgurum“ sínum þegar þrengir að.

Lengi vel var óeigingirni og sjálfsfórn lífvera talin vera helsta glufan í þróunarkenningu Darwins, en samkvæmt henni er megintilgangur lífsins sá að fjölga sér og tryggja þannig framgöngu gena sinna. Nú hafa vísindamenn hinsvegar margvíslegar sannanir fyrir því að þessi hegðun eigi sér þróunarlegar rætur enda til þess fallinn að tryggja arfleið tiltekinnar tegundar sem er jú mikilvægara fyrir heildina heldur en að hver hugsi um sig.

Heimurinn er svo sannarlega ekki réttlátur enda hefur hann engan vilja. Það er hinsvegar sýnt og sannað að sjálfsfórn og óeigingirni er ekki aðeins eitthvað hugtak sem maðurinn hefur búið til heldur eiginleikar sem við berum í genunum. Þessa staðreynd er gott að hafa í huga þegar fólk heldur því fram að mannskepnan væri alvond ef að ekki væri fyrir himnadrauginn.


[1] Bats, Biology and Behavior. Altringham, John D. s.l. : University of Leeds, New York, 1996, Oxford University Press.

Jónatan Einarsson 19.01.2011
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Ólöf Guðmunds - 19/01/11 15:56 #

Góður og þarfur vinkill í umræðuna um trúleysi.


danskurinn - 19/01/11 22:38 #

"..sannað að sjálfsfórn og óeigingirni er ekki aðeins eitthvað hugtak sem maðurinn hefur búið til heldur eiginleikar sem við berum í genunum."

Það er nauðsynlegt að velta því fyrir sér hvort kom á undan, hugtakið eða líffræðilegi eiginleikinn.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 20/01/11 08:41 #

Þessi eiginleiki er til staðar í dýrategundum sem hafa engar forsendur til að mögulega móta sér hugtök.

Þess vegna finnst mér afskaplega líklegt að eiginleikinn hafi komið til langt á undan hugtakinu.


danskurinn - 20/01/11 10:03 #

Áður en hinn líffræðilegi eiginleiki veður til þarf sem sagt að vera til staðar ósk um ákveðinn framgang.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 20/01/11 10:41 #

Nei, hvernig færðu það út?


danskurinn - 20/01/11 17:43 #

Annars verður þessi líffræðilegi eiginleiki til úr engu. Gengur það upp?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 20/01/11 20:31 #

Nei, hann verður ekki til úr engu.

Þetta er fölsk klemma hjá þér.

Það þarf enga ósk um eitthvað til að það verði.

Það sem þarf til að eiginleikinn komi fram er að einhver breytileiki sé milli einstaklinga að þessu leyti og að þeir einstaklingar sem meira hafa af viðkomandi eiginleika eigi betra með að koma genum sínum áfram en þeir sem hafa minna af viðkomandi eiginleika.

Það þarf engin ósk, vitneskja eða skoðun á eiginleikanum að koma til.


danskurinn - 21/01/11 00:16 #

Fyrir tíma kristni, þegar Grikkir td klúðruðu sínum málum, voru óréttlátir eða siðlausir, kenndu þeir guðum sínum um. Guðir Grikkja tóku þannig á sig sökina á siðleysi og óréttlæti sinna manna. Kristni guðinn náði svo yfirhöndinni með því að taka á sig refsinguna fyrir óréttlæti og siðleysi sinna manna, en skildi okkur eftir með sektarkenndina, sem er reyndar eins og hver önnur geðveiki hjá sumu fólki.

Framvindan er drifin áfram af mekanískri ósk um, að það sem á að verða, verði. Þannig verða eiginleikar okkar til á löngum tíma. Það gengur ekki upp að tala um „eiginleika[r] sem við berum í genunum“ án þess að leitast við að útskýra tilurð þeirra.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 21/01/11 00:31 #

Ósk okkar hefur akkúrat ekkert að gera með phenótýpu okkar (birtingarmynd gena okkar).

Það er sjálfsagt að velta fyrir sér tilurð eiginleika okkar, en óskir og væntingar hafa einfaldlega ekkert með það að gera.

Lífverur þurfa engan skilning á eiginleikum sínum til að þessir eiginleikar þróist. Það eina sem þarf til er að eiginleikarnir geri einstaklingana betur hæfa til að skila genum sínum áfram til næstu kynslóðar.

Framvindan er þannig drifin áfram af breytileika erfðaefnis milli einstaklinga og erfðum milli kynslóða. "Mekanísk ósk um, að það sem á að verða, verði" kemur þar hvergi inn í. Reyndar veit ég ekki hvað í ósköpunum þú átt við þegar þú talar um "mekaníska ósk".

Svo skil ég ekki heldur hvað það kemur málinu við að fólk hafi lengi búið sér til goðsögur til að fría sig ábyrgð gjörða sinna (nú eða fría sig ímyndaðri bölvun ættaðri úr eldri goðsögnum).


danskurinn - 21/01/11 09:16 #

"Það eina sem þarf til er að eiginleikarnir geri einstaklingana betur hæfa til að skila genum sínum áfram til næstu kynslóðar."

Varla, því einhvernveginn verða "eiginleikarnir" til.

"Reyndar veit ég ekki hvað í ósköpunum þú átt við þegar þú talar um "mekaníska ósk"."

Rökrétt framvinda er mekanísk í eðli sínu.

"Svo skil ég ekki heldur hvað það kemur málinu við að fólk hafi lengi búið sér til goðsögur til að fría sig ábyrgð gjörða sinna (nú eða fría sig ímyndaðri bölvun ættaðri úr eldri goðsögnum)."

Jú, það tengist efni greinarinnar.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 21/01/11 09:46 #

Eiginleikarnir verða upphaflega til sem lítilsháttar breytileiki milli einstaklinga. Úr þessum breytileika veljast úr þær útgáfur sem gera einstaklinginn hæfari til að koma genum sínum áfram. Með því móti ýkist eiginleikinn smám saman og þróast.

Þróunin á sér ekkert takmark. Það er engin ósk eða vitneskja um heildarástandið eða eitthvað ídeal heildarástand sem unnið er að. Það eina sem skiptir máli er að genin komist áfram og þeim fjölgi.

Eins og ég sagði áður, þá er sjálfsagt að velta fyrir sér hvernig eiginleikarnir, erfðaefnið og lífið sjálft kom til. Það er hinsvegar ekki spurning sem þróunarkenningunni er ætlað að svara.

Óskir hafa samt alveg örugglega ekkert með það að gera vegna þess að ósk krefst hugarstarfsemi. Án lífs er engin hugarstarfsemi og án hugarstarfsemi er engin ósk. Óskhyggja getur því ekki mögulega orðið til þess að líf myndist. Vélræn ferli geta ekki óskað sér eins eða neins. "Mekanísk ósk" er því innantómt og merkingarlaust orðasamband, að mínu viti.

En nú erum við komnir inn á kunnuglegt svæði í þrætum okkar. Ætli það sé ekki best að færa þetta yfir á spjall svæðið. Ef það þjónar þá einhverjum tilgangi ræða þetta einu sinni enn...


Kristján (meðlimur vantrú) - 23/01/11 00:32 #

Svo ég komi sem leiðinlegi gaurinn með ,,mjúku" vísindalegu nálgunina þá finnst mér tæpt að tala um genin sem algeran áhrifavald á sjálfsfórn. Jú ég kaupi það að genin valdi því að við fórnum okkur fyrir skyldmenni okkar. En hvað með fórnir einstaklinga fyrir fólk sem það þekkir ekki? Hvað með einstaklinginn sem fórnar sér fyrir einhverja réttlætiskennd sem hann hefur með hjálp umhverfis síns skapað sér? Genin koma þar lítið við. Hugur okkar og viðbrögð við ýmis konar áreiti er merkilega óútreiknanlegt og ég tel að fyrirbæri eins og sjálfsfórn krefjist ákveðinnar dualism milli líffræði og félagsfræði (líka mannfræði). Það hefur reynst illa t.d. fyrir mannfræðinni að reyna að útskýra mannlegt atferli frá forsendunni að það markist einungis af aðlögun mannsins að umhverfi sínu. Þó það hafi rík áhrif, stenst það ekki sem alger orsakavaldur, ef svo væri værum við ekki að tjá okkur á þessum vef því blind trú væri ekki til. Þetta fyrirbæri hjá mönnum, þ.e. að geta meðvitað tekið ákvörðun um sjálfsfórn bæði fyrir skyldmenni sitt sem og aðra, bæði aðra menn og dýr er eitthvað sem genarannsóknir eða annars konar líffræði verður í erfiðleikum með að skýra í bili án hjálpar annars konar sjónarmiða.

Hegðun hefur áhrif á gen og gen hafa áhrif á hegðun, því er að mínu mati spurningin um hvort kemur á undan, hugtakið eða genið vera sama spurning og hvort kom á undan, hænan eða eggið.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 23/01/11 06:22 #

Auðvitað er erfitt að greina hvað er erfðafræðilegt og hvað ekki. En aftur á móti þá er það nokkuð víst að ef ákveðinn eiginleiki er almennur í ákveðinni tegund þá sé um að ræða eitthvað sem erfist. Ef að á annað borð er hægt að tala um að einhver eiginleiki hafi þróast þá hlýtur hann einfaldlega að hafa erfst á einhvern hátt.

En svo er annað mál að ýmsir eiginleikar sem eru einstaklingnum tæknilega séð til vansa geta erfst ef þeir eru aukaafurðir annarra eiginleika sem eru til bóta. Þannig gæti sjálfsfórn fyrir einhvern sem er alls ekkert skyldur manni til dæmis verið aukaafurð þess að fórna sér fyrir þá sem eru í sama hópi eða hjörð. Þetta er auðvitað bara hypothetical dæmi hjá mér en það gæti til dæmis verið vegna þess að fyrir langa löngu hafi verið mjög miklar líkur á því að einhver sem þú umgekkst reglulega væri náskyldur þér þá hafi genunum verið betur borgið með strategíunni "björgum öllum í nánasta hópnum" heldur en strategíunni "björgum bara þeim sem við vitum fyrir víst að eru skyldir okkur". Svo hefur þessi "nánasti hópur" auðvitað breyst í hugum okkar mun hraðar en nokkur þróunarfræðileg breyting getur átt sér stað. Og hver veit kannski er það einmitt besta mögulega strategían að allir séu tilbúnir til að fórna sér fyrir alla...

Margt af því sem við tökum okkur fyrir hendur og margt af pælingum okkar gæti líka bara verið aukaafurð þess að við höfum stóran heila. Við hugsum út í hina ótrúlegustu hluti einfaldlega vegna þess að við getum það. Þessi hæfileiki gerir okkur kleyft að sigrast á ótrúlegum praktískum vandamálum, en veldur því líka að við pælum í hlutum sem skipta engu máli.

Svo gæti það til dæmis verið þannig að forvitni og óvissufælni (hvoru tveggja eiginleikar sem geta verið þróunarfræðilega hagstæðir) geti valdið því að við krefjumst endanlegra svara við spurningum sem við höfum ekki forsendur til að svara. Þá eru kominn með grunn að trúarbrögðunum.

Ef að einhver eiginleiki hefur á annað borð erfst og þróast þá hlýtur það sem erfist að hafa komið á undan hugtakinu um það sem erfist. Einfaldlega vegna þess að hugtök eru svo spánný í þróunarsögulegu samhengi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.