Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aðalfundur Vantrúar

Á innra spjalli Vantrúar fer nú fram aðalfundur félagsins sem stendur í nokkra daga og því beinast kraftar okkar dálítið inn á við þessa dagana. Við lítum yfir farinn veg og leggjum línurnar fyrir næsta ár. Einn fyrsti dagskrárliður aðalfundar er skýrsla stjórnar og hér er útgáfa af henni fyrir almenning:

Furðukennsla í HÍ

Fyrsta verk stjórnarinnar var að skipuleggja viðbrögð við þeirri skrumskældu mynd sem dregin var upp af trúleysingjum og Vantrú í Guðfræði og trúarbragðafræðideild í Háskóla Íslands. Bréf voru skrifuð til deildarstjóra Guð- og trúarbragðafræðideildar, rektors og siðanefndar Háskóla Íslands. Í kjölfarið birtum við síðan gagnrýni okkar á þessa fádæma fáfræði og fordóma, lið fyrir lið, á forsíðu. Þótt viðkomandi "kennara" hafi verið sérstaklega boðið, með formlegu bréfi, að verja heiður sinn og standa fyrir máli sínu var því ekki einu sinni svarað.

Kynningarfundur í HÍ

Um sama leyti þrömmuðu þó formaður og tveir fyrrverandi formenn Vantrúar upp í Háskóla Íslands og stóðu þar fyrir kynningu á félaginu á vegum málfundafélags guð- og trúarbragðafræðinema (eða eitthvað í þá áttina). Við vissum hins vegar sem var að það var aðeins einn maður í þessu félagi og deild sem stóð að þessum fundi, Þorri Jóhannsson, við litla hrifningu stjórnar félags Stóri-góði-pabbi-uppi-í-loftinu-deildar Háskóla Íslands. „Kennarar“ við þá deild þorðu ekki að mæta okkur í pallborðsumræðum á þessum fundi og létu ekki einu sinni sjá sig. (Það aftraði þeim þó ekki frá því að stæra sig af velvilja sínum í garð Vantrúar þegar þeir tilkynntu siðanefnd HÍ að deildin hefði boðið Vantrú að kynna sig í skólanum.) Svo voru það aðeins tveir eða þrír nemar við þessa voluðu deild sem sóttu fundinn, þrátt fyrir að fyrirlestur okkar hafi slegið öll aðsóknarmet og sprengt utan af sér stofuna (nokkrir áheyrendur þurftu að standa í dyragættinni). Fundurinn var hinn ágætasti ef frá er talin spurning eins guðslambsins þess efnis hvort Vantrúarmenn vildu virkilega að lítil fátæk börn syltu í hel fremur en að fá mat og heilaþvott í boði ABC-barnaþvottastöðvarinnar.

ABC

Raunar gerðum við nokkuð veður út af framgangi ABC-kristniboðssamtakanna (sem kalla sig veigrunarheitinu Barnahjálp) vegna þess að skólar gerðu hreinlega ráð fyrir að nemendur þeirra um allt land væru gerðir út til að betla fé til samtakanna. Auk þess að birta greinar um efnið á forsíðu bentum við skólastjórum allra grunnskóla á landinu á hveru hæpið þetta væri.

Fjölmiðlar og kynningar

Nokkrir Vantrúarmenn lögðu líka land undir fót og kynntu félagið fyrir nemendum Menntaskólans á Laugarvatni og formaður hélt erindi á vegum SÁÁ um alkóhólisma og guð ásamt Davíð Þór. Matti var í símaviðtail vegna siðanefndar-málsins á Harmageddon og formaðurinn fór þangað síðar vegna Ágústínusarverðlaunanna. Haukur var svo fulltrúi ungliða-hreyfingar Vantrúar í þættinum Mánafjöll. Formaður kom fram í þættinum Okkar á milli á sömu rás. Sænski sálfræðingurinn Hákon Jarve fór líka í viðtal á Harmageddon fyrir fyrirlestur á okkar vegum í HÍ, sömuleiðis heillakarlinn James Randi, sem kom líka fram í fréttum Sjónvarpsins. Trausti hélt uppi heiðri okkar í viðtali á Útvarpi sögu og formaðurinn ræddi bæði á Harmageddon og á Rás 2 um útkomu bókarinnar Ranghugmyndin um guð. Formaður átti líka í orðaskaki við Gunnar á Krossinum á Bylgjunni, áður en glóðir hrönnuðust að höfði hans. Í Mogganum birtist gein eftir formann um trúarinnrætingu í skólum, DV sagði frá aðfinnslum okar vegna kennslu um Vantrú í HÍ (Trúleysingjar beygja guðfræðinga), Fréttablaðið greindi frá umfjöllun okkar um vígða menn sem skrifuðu ekki undir lista um ein hjúskaparlög, Smugan sagði frá máli okkar fyrir siðanefnd HÍ, Pressan sagði frá fyrirlestri James Randi og Moggin birti opnuviðtal við kappann. Áskorun okkar til lithimnulesara hlaut líka umfjöllun í Pressunni og í Harmageddon. Í stóru kirkjuhneykslismálunum rataði áminning og bending okkar á presta sem vildu ekki virða tilkynningarskyldu til barnaverndar líka í svo til alla fjölmiðla með einum eða öðrum hætti og í gegnum Pressuna komst mál Helga Hróbjartssonar líka fyrir sjónir almennings. Afhjúpum minnisvarða Helga Hóseassonar voru líka gerð skil í blöðum, útvarpi og sjónvarpi.

Bréfasendingar

  • Til rektors HÍ, forseta GT-deildar og siðanefndar HÍ vegna áróðurs Bjarna Randvers.
  • Til verkfræðingafélags Íslands vegna jarðskjálftahúsa Láru miðils.
  • Til Lyfjastofnunar og heilbrigðiseftirlitsins vegna MMS.
  • Til skólastjóra 100 skóla vegna ABC-söfnunar.
  • Til samtaka sveitarfélaganna vegna styrks til að búa til fyrirlestur um trúboð í skólum.

Fastir liðir

Hið árlega bingó á föstudaginn langa á Austurvelli klikkaði ekki, þrátt fyrir ábendingar til lögreglu sem varð vitni að þessu lögbroti (þeir þóttust ekki þekkja lögin sem banna bingó daginn sem Hussein var hengdur (eða eitthvað þarna suður frá)).
Kosið var um Ágústínusarverðlaunin á forsíðunni. (Þau heita hæðnisverðlaun á fræðimennsku.)
1. apríl var bjór í boði Vantrúar á krá í miðbænum – en þeir sem trúðu ekki eigin eyrum þennan dag misstu því af gleðinni. (Alltaf er níðst á trúleysingjum!)
Þegar haustaði hittumst við á Horninu og héldum nokkru síðar árshátíð í húsnæði hernaðarandstæðinga. Þar fengum við dýrindismáltíð eldaða af meistarkokki félagsins.

Lausir liðir

Engin leið er að telja upp allt það sem bar á góma í starfsemi félagsins en þó er ekki hægt að fjalla um liðið ár án þess að minnast á kosningar til stjórnlagaþings. Fleiri en einn og fleiri en tveir Vantrúarmenn buðu sig fram en náðu ekki kjöri, kannski vegna þess að þeir komu hreint og beint fram, ólíkt ákveðnum fulltrúa þjóðarinnar á stjórnlagaþingi sem engin þörf er á að nefna. Þjóðfundur lagði línurnar fyrir stjórnlagaþingið og ein sú skýrasta var að skilja bæri að ríki og kirkju. Matti minnti á það á fundi vegna stjórnlagaþingsins þar sem hann mætti andskotum okkar. Á komandi ári þarf Vantrú að hamra á þessu og afhjúpa lygar og benda á blekkingarnar í málflutningi spenabarnanna á ríkistúttunni.

Heimsóknir

Sænski sálfræðingurinn Hákon Jarve kom til landsins á eigin vegum en hélt fyrirlestur á okkar vegum í HÍ, með Siðmennt og Sálfræðinemum, um heilaþvott sértrúarsafnaða. Hann fór líka í útvarpsviðtal á Harmageddon, eins og áður er getið.

Koma James Randi til Íslands var kannski hápunktur ársins í hugum margra. Randi hélt velheppnaðan fyrirlestur í HÍ á vegum Vantrúar og Siðmenntar, tæplega 300 manns mættu og margir þurftu frá að hverfa. Randi stoppaði stutt við, tvær nætur, en lét vel af landi og þjóð og marglýsti yfir að hann kæmi aftur. Frétt um þetta birtist á Pressunni, viðtal á Rás 2 og í Harmageddon. Opnuviðtal í Morgunblaðinu og RÚV tók upp sjónvarpsviðtal. Við kostuðum komu Randis og aðstoðarmanns hans og hóteldvöl þeirra en Randi gaf alla vinnu sína. Vegna frábærrar aðsóknar varð hagnaður af fyrirtækinu, sem við deildum með Siðmennt (sem varð 20 ára á árinu).

Styrkir

Við sendum umsókn um styrk til Endurmenntunarsjóðs sveitarfélaga ásamt Siðmennt og Ásatrúarfélaginu til að hanna fyrirlestur um trúboð í skólum fyrir skólastjórnendur og kennara. Við fengum vilyrði fyrir 150.000 kr. en til að hann fáist afhentur þarf að sýna fram á hverjir sóttu fyrirlesturinn og hvar. Þótt öllum skólastjórnendum á höfuðborgarsvæðinu (og víðar) hafi verið boðin þessi fræðsla sá enginn ástæðu til að þiggja boðið. Fyrirlesturinn er þó klár og efnið greinilega þarft, sbr. Mannréttindaráð. Ef fram fer sem horfir fáum við styrkinn ekki greiddan.

Minnisvarði Helga Hóseassonar

Skömmu eftir lát Helga Hóseassonar spratt upp hópur manna á Facebook sem vildi reisa honum einhvern minnisvarða. Þrátt fyrir að 30.000 manns væru í hópnum varð ekkert úr verk, jafnvel þótt Vantrú hefði bent forsprakka hópsins á að steinsmiðja nokkur byðist til að gefa bæði efni og vinnu við minningarhellu. Það var ekki fyrr en Vantrú gekk í málið að eitthvað þokaðist og vegna góðrar fyrirgreiðslu hjá borginni og höfðingsskapar steinsmiðjunnar tókst að afhjúpa minningarhelluna á horninu hans Helga á dánardægri hans. Fréttir um málið birtust bæði í blöðum, útvarpi og í sjónvarpi.

Ranghugmyndin

Öll erum við sögð lærisveinar heilags Dawkins (friður sé með honum) og vissulega stóð Vantrú að komu hans til landsins 2006 á ráðstefnuna Jákvæðar raddir trúleysis. Í september kom bók hans The God Delusion út á íslensku sem Ranghugmyndin um Guð í þýðingu formannsins. Það kemur því kannski ekki á óvart að í eftirmála þýðanda er talað fallega um Níels Dungal, Helga Hóseasson, Siðmennt og ekki síst Vantrú. Einhverra hluta vegna stendur þó enn á bókadómi félagsins um ritið. Kannski vill enginn styggja formanninn.

Hneykslismálin

A Mannréttindaráð Reykjavíkur

Auðvitað er það ekkert annað en hneyksli að hugmyndir Mannréttindaráðs Reykjavíkur um takmörkun trúariðkunar og trúboðs í skólum var tekið eins og stríðsyfirlýsingu af sauðum ríkiskirkjunnar. Gamla platan um afnám litlu jólanna, jólaskrauts og þjóðsöngsins var spiluð linnulaust, og hljómar enn.

B Herra Ólafur Skúlason biskup og barnaníðingur

Fljótlega eftir að furðulegar fréttir tóku að berast af þöggunartilburðum Biskupsstofu í garð Guðrúnar Ebbu, dóttur Ólafs, og síðar af fundi hennar með Kirkjuráði lögðu Vantrúarmenn saman 2 og 2 og komust að því að biskupinn hefði misnotað hana sem barn (um það leyti sem hann var útnefndur fyrsti Æskulýðsfulltrúi Þjóðkirkjunnar). Mál þetta rak sig nokkuð sjálft en þó er víst að vel valdar ábendingar Vantrúar í málinu (um aðkomu fyrirmanna að Ólafsmálinu á sínum tíma og svo um þagnarskylduna) á hárréttum tíma juku mjög á það bál sem logaði lengi í fjölmiðlum landsins um málið. Geir Waage kom fram í því máli fyrir hönd Vantrúar og biskup átti auðvitað stórleik sem skilaði sér í fjöld úrsagna úr ríkiskirkjunni.

C Helgi Hróbjartsson trúboði og barnaníðingur

Upp komst um afbrot Helga í hempunni gegn ungum drengjum fyrir fjölda ára en þegar málið virtist vera að koðna niður bættum við gráu ofan á svart fyrir ríkiskirkjuna með því að vekja máls á enn einu tilvikinu. Mikilvægast var þó að með því átti Vantrú þátt í að tala máli fórnarlambs sem féll fyrir eigin hendi skömmu eftir ódæðisverk þessa drullusokks.

D Holy shit

Jónína Benediktsdóttir, eða öllu heldur skottulækningar hennar, hafa löngum verið okkur til nokkurrar skapraunar. En við glöddumst þegar hún gekk að eiga Gunnar í Krossinum (nú Gunnar á Krossinum) á boðunardegi Maríu á árinu. Níu mánuðum síðar kom í ljós að Gunnar stundaði mjög að áreita ungar konur, og jafnvel börn, og það í eigin fjölskyldu, árum og áratugum saman. Við sýndum fórnarlömbunum auðvitað stuðning á forsíðunni. Eins og við mátti búast hefur Jónína ekki látið sitt eftir liggja í þessu máli til að afhjúpa eigið eðli og kristilegt siðgæði.

Siðanefnd HÍ

Við héldum að erindi okkar til siðanefndar HÍ yrði fljótafgreitt, þar sem það fjallar aðeins um nokkrar glærur og er alveg borðleggjandi óbrjáluðum mönnum. Með einstökum klaufagangi hefur andstæðingum okkar þó tekist að flækja málið svo mjög og belgja út að nú horfir það til stórra vandræða fyrir þá sjálfa og Háskóla Íslands í heild. Í fyrsta lagi mistókst dr. dr. Pétri Péturssyni forseta Stóri-góði-pabbi-uppi-í-lofti-deildarinnar að sjattla málin með því ræða við okkur og viðurkenna yfirsjón Bjarna Randvers. Með kennarafundi tókst honum að koma í veg fyrir meinlausar sættir. Stuðningsmenn Bjarna Randvers gerðu sig svo seka um fádæma dómgreindarleysi og afskiptasemi með því að setja út á „niðurstöðu“ siðanefndar áður en nokkur umfjöllun, hvað þá niðurstaða, nefndarinnar lá fyrir. Saga þessa máls hefur raunar verið ævintýri líkust eða lygasögu en af tillitssemi við Háskóla Íslands verður sú saga ekki rakin frekar hér fyrir allra augum (í bili a.m.k.).

Forsíðan og innra spjallið

Andlit okkar og tilvera skilgreinist einna helst af því sem birtist á forsíðu vefritsins okkar. Eins og öll fyrri árin birtust margar snjallar, fyndnar, áhugaverðar og sígildar greinar á forsíðunni. Sérlegt ánægjuefni er að margir félagsmenn fengu sína fyrstu grein birta á forsíðunni á liðnu ári. Gömlu jálkarnir hafa róast en eiga þó til að koma með stöku bombur.

Ef forsíðan er andlit okkar er innra spjallið hjartað. Á það hópumst við eins og dýr að vatnsbóli (eða mý á mykjuskán) og sækjum þangað félagsskap, stuðning og styrk (eða nýjasta slúðrið og hneykslið í heimi bullukollanna). Innra spjallið lýtur eigin lögmálum sem ekkert okkar hefur stjórn á en hver sem þau eru er ljóst að þau svínvirka. Við erum fyrst með fréttirnar, fátt fer fram hjá okkur og okkur tekst með furðulegum hætti að stilla svo vel saman alla okkar ólíku strengi að unun er á að horfa. Hér er skemmtilegt fólk, vel að sér og klárt, og því er útkoman oft aðdáunarverð. Við getum verið stolt af Vantrú.

Ritstjórn 18.01.2011
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Steingrímur - 08/02/11 20:50 #

Fyrst þið Vantrúarmenn minnist á að hafa talað máli eins fórnarlambs Helga Hróbjartssonar finnst mér rétt að eitt komi fram.

Einum manni öðrum fremur er það að þakka að mál Helga kom fram í dagsljósið á síðasta ári. Einn maður safnaði saman þremur fórnarlömbum Helga og hvatti þá með ráðum og dáð til að kæra, hafði samband við fagráð kirkjunnar og lagði mikið undir til að sanmnleikurinn kæmi í ljós. Sá maður heitir Bjarni Randver Sigurvinsson. Án mikillar vinnu hans og allnokkurar áhættu (allnokkurar verandi varlega orðað) hefði Helgi að öllum líkindum sloppið frá málinu í gröfina. Mér finnst rétt að það komi fram.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/02/11 21:10 #

Flott hjá Bjarna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.