Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aðventuhugvekja


Nú þegar aðventan hefst, hið venjubundna upphaf biðar eftir jólahátíðinni, þykir mér rétt að varpa fram áskorun til ykkar. Og til þess ætla ég að tefla fram laginu Gleði og friðarjól, með Pálma Gunnarssyni:

Út með illsku og hatur
inn með gleði og frið.
Taktu á móti jólunum
með drottinn þér við hlið.

Stöðvum sönginn hér og skoðum innihaldið betur. "Taktu á móti jólunum með drottinn þér við hlið. Drottinn. Drottinn?!

Hvaða merkingu hefur þetta orð fyrir ykkur? Er ekki augljóst að þetta orð, drottinn, er dregið af sögninni að drottna? Drottinn er sá sem drottnar yfir þér. Af hverju ættum við að taka á móti jólunum ásamt einhverjum sem vill drottna yfir okkur?

Hún er dálítið furðuleg þessi þörf margra samferðamanna okkar til að láta drottna yfir sér, jafnvel svo mikið að fundin er til þess ímynduð vera, sem prestar (minni drottnarar en drottnarar þó) taka að sér að uppfræða þá um. Prestar vita sem er, að til þess á ná valdi yfir fólki þýðir ekki að setja sig sjálfur beint í drottnarahlutverkið. Slíkt myndi kosta ærna fyrirhöfn og margra ára vinnu, nema karismað sé þeim mun meira. Útgeislunarlausir einstaklingar með drottnunargirni geta því teflt fram þessum ósýnilega drottnara og gerst sjálfir fulltrúar hans og skrifstofustjórar.

Já, hún er furðuleg þessi undurlægjusýki margra samborgara okkar. Furðulegri er þessi árátta að taka sér drottnunarvald, sér í lagi í krafti upploginna goðmagna. Verst er þegar hinir valdasjúku svo stilla sér upp gagnvart fórnarlömbum sínum á þann veg að þeir skyggja á ímyndaða drottnarann og verða sjálfir miðpunktur aðdáunarinnar og undirlægjuháttar safnaðarmeðlima. Það gera menn eins og Gunnar í Krossinum.

Það er ekkert furðulegt við það að smásálir sem komast í valdamikla drottnunaraðstöðu gagnvart fólki í sjálfsniðurlægingarþörf, eða þörf fyrir drottnara og fyrirmynd, misnoti það vald sem þeir hafa tekið sér. Við hefðum öll getað sagt okkur það sjálf að líklegra væri en ekki að Gunnar í Krossinum færi að misnota vald sitt gagnvart undirlægjum sínum. Slíkt er gegnumgangandi hegðun költleiðtoga, sér i lagi þegar kemur að kynlífi. Settar eru strangar reglur um það og svo gengur foringinn á svig við þær í krafti þeirrar dýrkunar sem á honum er. Þið munið Guðmund í Byrginu. Þið munið Ólaf Skúlason. Þið munið alla þessa bandarísku költleiðtoga sem svona hafa hegðað sér.

Mér þykir verst að heyra að Sigríður Guðnadóttir hafi, eftir að hafa losað sig undan ægivaldi drottnara síns, strax leitað á náðir annars drottnara og annars söfnuðar. Ég hefði orðið mun ánægðari hefði ég séð hana lausa undan drottnurum þessa heims og annars, að hún gæti loksins upplifað að vera frjálsborin manneskja í lýðræðislegu samfélagi án þess að þurfa að leita í lítið ólýðræðislegt samfélag innan þess lýðræðislega. Hún má vita að í nýja söfnuðinum er líka lítill drottnari sem situr um heilabú hennar (en vonandi ekki aðra líkamshluta) í krafti valdsmunar. Sá litli karl er í sama bransa og Gunnar, þráir að vera göfugur leiðtogi, en notar drottnarann Jesúm Krist sem hækju þar sem hann hefur ekki burði til að skoðanakúga í krafti eigin máttar og útgeislunar.

Áskorun mín er þessi: Eigum við ekki öll, sér í lagi þau sem finna sig fangin í faðmi drottnara af einhveru tagi, að nota þessa aðventu til að losa sig úr þeim viðjum? Eigum við ekki að stefna að því öll að mæta jólunum sem frjálsir einstaklingar og án lotningar fyrir hvers kyns yfirvaldi? Eigum við það ekki öll inni hjá mönnum á borð við Gunnar í Krossinum að vald þeirra sé frá þeim tekið í eitt skipti fyrir öll?

Notum næstu fjórar vikur. Notum tímann vel.

Birgir Baldursson 28.11.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


danskurinn - 29/11/10 00:08 #

Eigum við ekki að stefna að því öll að mæta jólunum sem frjálsir einstaklingar og án lotningar fyrir hvers kyns yfirvaldi?

Slakaðu á. Jólin eru bara gott partí. En auðvitað er engin leið að komast til þroska eða ná umtalsverðum árangri öðruvísi en að hafa „gúrú“. Sjálfur gætir þú sagt okkur hverjir þínir áhrifavaldar hafa verið í tónlistinni. Hvert hefðir þú komist án þeirra?

Það er auðvitað slæmt að lenda á lélegum „gúrú“ en að sama skapi gott að ná í skottið á góðum. Sumum tekst jafnvel að komast upp að sínum „gúrú“ eða taka framúr og verða betri, en engin kemst spönn frá rassi ef hann hefur ekkert til að miða við og ekkert til að stefna að.

Og samkvæmt þróunarkenningunni hefði átrúnaður á yfirskilvitlegan gúrú ekki átt að lifa lengi án nokkurs gagnsemi.


Tommi - 29/11/10 00:23 #

Fyrsta sinn sem ég sé öfgatrúleysi á þessari síðu. Finnst þetta algjört bull. kv. trúlaus.


Trúlaus - 29/11/10 16:51 #

Já, takk fyrir. Mér hefur hingað til þótt þetta lag bæði hátíðlegt og fallegt þar sem boðskapurinn textans hefur fyrst og fremst snúist um að minna okkur á að vera góðar manneskjur. Aldrei hefur það truflað mig að orð eins og Drottinn og Guð skuli koma þarna fyrir.

Nú hef ég áttað mig á að þetta er viðbjóðslegt lag með texta sem höfðar eingöngu til undirlægjusjúkra í þjóðfélaginu og er líklega ætlað að halda við heilaþvotti þeirra.

Ætti Vantrú ekki að krefjast þess af Ríkisútvarpi allra landsmanna að þar verði þegar hætt að spila lög þar sem minnst er á Guð, Jesú, Drottinn og aðrar slíkar mannskemmandi bábiljur og þær tengdar við jólin, sem eins og allir vita er heiðinn siður sem kristnir stálu til eigin nota?

Það liggur í augum uppi að það er skýlaust brot á mannréttindum okkar trúlausra að útvarpa texta sem gefur í skyn að Guð, Jesú og Drottinn eða hvað þessir trúardelar heita allir saman, séu til í alvörunni og hafi eitthvað með jólin að gera.

Okkar börn eiga líka rétt á að hlusta á útvarpið án þess að eiga það á hættu að verið sé að troða ofan í þau trúarlygum eins og um sannleik sé að ræða.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/11/10 18:42 #

Trúlaus, þykistu vera að enduróma skoðanir mínar á einhvern hátt með þessum útúrsnúningi? Ég hef á engan hátt sett mig upp á móti þessum texta, heldur aðeins notað hann til hugvekju um hina raunverulegu merkingu orðsins "drottinn", merking sem við höfum flest fyrir löngu tapað tilfinningu fyrir, ef við höfum þá nokkurn tíma velt henni fyrir okkur.

Það er afskaplega auðvelt og einfalt að finna öfgar og ofstæki í hvaða rituðum texta sem er, ef menn leitast við að snúa út úr upprunalegri merkingu hans. Eða er það kannski bara svona sárt að vera vakinn til vitundar um eitthvað sem maður aldrei leiddi hugann að fyrr? Ekki hengja sendiboðann.


Trúlaus - 29/11/10 19:24 #

Hvaða viðkvæmni er þetta Baldur? Ég var bara að taka undir með þér. Segi ekki að það hafi beint verið sárt en auðvitað vakti þessi stórkostlegi pistill mig til vitundar um það mannréttindabrot sem felst í því að útvarp allra landsmanna sé að útvarpa trúartengdum lögum og textum yfir okkur trúleysingjana í heilan mánuð á ári.

Af hverju eigum við, sem borgum sama nefskatt og trúaðir, að sætta okkur við að útvarpið skuli dag og nótt í desember troða einhverjum trúarljóðum ofan í börn okkar gegn okkar vilja? Ljóðum þar sem gefið er í skyn að Guð sé til og að allt heila trúarklabbið sé hinn eini sannleikur mála?

Nei, mér finnst að Vantrú eigi að skrifa bréf til stjórnar rúv og krefjast þess á grunni mannréttinda og trúfrelsis að allri útvörpun á lögum og textum sem innihalda trúboð verði hætt nú þegar.

Þetta trúaða lið getur bara spilað þessa trúartónlist fyrir börnin sín sjálft heima hjá sér í stað þess að láta opinberar stofnanir sem allir landsmenn eiga um það. Það er ekki hlutverk rúv að sjá um trúarlegt uppbeldi.

Þú ætlar þó ekki að segja mér Baldur að þú sért ekki sammála?


Trúlaus - 29/11/10 20:05 #

Afsakaðu nafnarugl. Ég meinti að sjálfsögðu Birgir, en ekki Baldur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/11/10 20:59 #

Ágæti "trúlaus", vertu ekki með stæla. Segðu skoðun þína, gagnrýndu það sem þú vilt gagnrýna og andmæltu því sem þú ert ekki sammála en slepptu stælunum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/11/10 21:09 #

Ég var bara að taka undir með þér.

Nei, það varstu ekki. Þú varst að gera mér upp skoðanir.


Jón Steinar - 29/11/10 21:19 #

Ég vitna hér bara áfram í ljóðið:

"Víða mætt ivera meira um kærleika og ást."

Veit ekki alveg hver munurinn er á þessu tvennu, en það hnykkir allavega á. :D


Jón Steinar - 29/11/10 21:33 #

Fyrir Hann gervitrúlausa hér að ofan þá vil ég vekja athygli á að orðið Jól er strangheiðið og eldra í menningu okkar en kristindómurinn. Það er end varla nokkuð, sem minnir á kristindóminn í Jólahaldinu. Þetta veit hann náttúrlega, en lætur þó eins og jólakötturinn.

Nú... af því að ég er af Gilsbakkaætt, þá skil ég hér eftir link á kvæði einhvers langalangalangalangaafa míns. Þar er ekki minnst á Jesú og guð, en stanslaust stuð!

http://jol.ismennt.is/jol96/gilsbakki.htm


Jón Steinar - 29/11/10 22:12 #

Hér er ekta Jólalag, sem ætti að koma öllum í kærleiksmóð:

http://www.youtube.com/watch?v=N1ZpAp8-ILo&feature=more_related

Þið verðið að hlusta á það til enda.


Trúlaus - 29/11/10 23:11 #

Matti >>> Er ekki mál- og tjáningafrelsi í gildi á þessari síðu? Má ég ekki segja það sem býr mér í brjósti á þann hátt sem ég vil segja það?

Birgir >>> Nei, ég var hvergi að gera þér upp skoðanir góði, ég var að segja mínar.

Jón Steinar >>> Það hefur greinlega farið fram hjá þér að ég sagði: "jólin eru eins og allir vita heiðinn siður sem kristnir stálu til eigin nota"

En hvað segið þið um MÁLEFNIÐ strákar? Finnst ykkur ekki óþolandi þessi trúarlög í rúv? Sumir textarnir eru ekkert annað en rakið trúboð. Þarf ekki að stöðva þetta áður en börnin hljóta alvarlegan skaða af? Það verður a.m.k. að mótmæla þessum aðgangi þeirra kuflklæddu í gegnum rúv?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 29/11/10 23:33 #

Nei, það er ekkert endilega boðun falin í því að flytja tónlist með trúarlegum textum. Enda mörg mjög góð tónlist sprottin úr jarðvegi fantasíu.

T.d. fíla ég í drasl tónlist eftir ítalska power-metal bandið Rhapsody en textar þeirra eru nánast undantekningalaust um fantasíu sem farið er með eins og "um sannleika væri að ræða". Það myndi þó enginn heilvita maður segja að þeir væru að boða Emerald Sword Saga sem sannleika. Eða hvað?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/11/10 23:51 #

Nei, ég var hvergi að gera þér upp skoðanir góði, ég var að segja mínar.

Núnú. Þú þóttist vera að taka undir með mér. En ég hef einfaldlega ekki þær skoðanir sem þú viðrar hér og því getur þú ekki verið að taka undir með mér nema hafa áður gert mér upp þá skoðun að hafa haldið einhverju svipuðu fram.

Það gerði ég ekki.

Já, að málefninu. Greinin fjallar um drottnara og undirlægjur. Hvað hefurðu um það að segja?


Jón Steinar - 30/11/10 00:45 #

Trúlaus, þú last kannski ekki restina af kommentinu.

"Það er end varla nokkuð, sem minnir á kristindóminn í Jólahaldinu. Þetta veit hann náttúrlega, en lætur þó eins og jólakötturinn."

Ég er einfaldlega að velta því fyrir mér hvert erindi þitt hérna er. Mér sýnist það raunar vera ódulinn tröllsháttur.


Jon Steinar - 30/11/10 01:20 #

Annars gæti mér ekki verið meira sama um hvern Grefillinn þú ert að fara. ;)


Rebekka - 30/11/10 08:01 #

Áhugavert ad sjá ad "Trúlaus" gefi í skyn ad Vantrú aetti ad berjast fyrir tví ad jólalög séu tekin úr útvarpinu. Í Andfaetlingalandi var einmitt nýlega frétt um mótmaeli kristinna gegn "trúleysingjalagi" sem var á geisladiski aetludum til styrktar Hjálpraedishernum.

Major Neil Venables said the organisation was disappointed by the song, which was at odds with its Christian ethos, but hoped people would still buy it.

Tetta lag sem um raedir er fyrst og fremst um hamingjuna sem faest af tví ad dvelja í fadmi fjölskyldunnar. Er tad andstaett anda kristinnar trúar? :P

Svo er líka minnsta málid ad slökkva bara á útvarpinu ef madur vill ekki hlusta á tad, engin mannréttindabrot tar á ferd. Ég t.d. slekk alltaf tegar Justin Bieber fer ad gaula!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/11/10 08:14 #

Matti >>> Er ekki mál- og tjáningafrelsi í gildi á þessari síðu? Má ég ekki segja það sem býr mér í brjósti á þann hátt sem ég vil segja það?

Þetta eru meiri stælar. Hér máttu tjá þig (innan ákveðinna marka) en þú ert vinsamlegast beðinn um að vera ekki með stæla. Ef þú ræður ekki við að vera ekki með stæla bið ég þig um að sleppa því að skrifa athugasemdir. Ef þú vilt tjá þig um eitthvað annað en efni greinarinnar skaltu gera það á spjallborðinu.


Árni Árnason - 30/11/10 12:46 #

Málið snýst einfaldlega um að leggja út af texta sem um hver einustu jól glymur í eyrum okkar.

Þetta er að mínum skilningi gert í því augnamiði einu að benda okkur á hvað búið er að normalisera hlutina hrikalega, svo mikið að við erum hætt að heyra merkinguna. "Með Drottinn þér við hlið" er voða voðfellt og kósí, en stenst í raun ekki, þar sem drottinn, drottnunargjarn drottnari sem drottnar eins og miskunarlaus lánadrottinn, er aldrei þér við hlið, heldur ávallt fyrir ofan og að eilífu hangandi yfir þér eins og þrumuský.

Það sem Birgir er að benda á er einfaldlega það að þegar jafnvel orð eins og "drottinn" sem eru í eðli sínu yfirþyrmandi og ráðrík, eru orðin að einhverju viðkunnanlegu og ljúfu sem við viljum hafa okkur við hlið, erum við búin að týna kjarnanum.

Í þessum sama texta segir einnig: "Gleymdu ekki guði, hann son sinn okkur fól."

Við erum auðvitað búin að heyra þetta með þessum eða öðrum orðum af munni prestanna í ótal ár. Af þeirra vörum setjum við ákveðna varnagla vegna hagsmuna þeirra af því að við trúum þessu, en í sakleysislegum dægurtexta er þetta normaliserað og verður svona by the way staðreynd. Þegar börnin heyra Pálma hjakka á þessu árum saman er ekki það fyrsta sem þeim dettur í hug að þetta sé í besta falli hæpin fullyrðing en þó frekar líklega uppdiktuð lygi frá rótum. Þar liggur meinið.


Einar (meðlimur í Vantrú) - 01/12/10 21:50 #

"Trúlaus"

afhverju skrifarðu ekki undir nafni ?


Ásta Elínardóttir - 02/12/10 22:51 #

Þið hafið vakið upp forvitni mína. Nú mun ég þjást alla daga yfir því að þið vitið eitthvað sem ég veit ekki en ætti augljóslega að vita. Pirrandi.

En ég verð að segja að mér finnst þessi pistill, þessi aðventuhugvekja ekki eins góð og hún hefði getað orðið. Hún angar aðeins af "trúboði" with pun intended. Þó svo að drottnunar umræðan er alltaf skemmtileg þá er ég eitthvað ekki að fíla þetta.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/12/10 03:19 #

Eigum við ekki frekar að segja að hún angi af áróðri. Trúargagnrýni þarf ekki að vera af trúarlegum toga og ég lít svo á að mín sé fullkomlega á veraldlegum forsendum. Slíkt getur ómögulega flokkast undir trúboð, eða trúleysi undir trú. Sjá hér.


Ásta Elínardóttir - 03/12/10 11:32 #

Já mig vantaði þetta orð, áróður, það er rétt. Hefði að sjálfsögðu átt að nota það.

En hinsvegar var þetta alltsaman í mjög miklum húmor í gær með svefngalsanum. Svo ég segi afsakið að ég notaði orðið trúboð. Það var ljótt af mér. Afsakið. Ég geri þessi grundvallar mistök ekki aftur. Húmor er betur geymdur í heimahúsum heldur en á netinu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.