Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fráleitt frummælendaval hjá Stjórnarskrárfélaginu


Ég brá mér í gærkvöldi á fund hjá Stjórnarskrárfélaginu um aðskilnað ríkis og kirkju. Ég hafði þegar verið frekar undrandi á því að tveir fulltrúar kirkjunnar, þeir Kristján Björnsson prestur og Pétur Pétursson guðfræðiprófessor, væru á móti einum aðskilnaðarsinna, Matthíasi Ásgeirssyni frv. formanni Vantrúar. Hvers vegna ekki að fá fulltrúa Ásatrúarfélagsins, Fríkirkjunnar eða Múslima í stað seinni fulltrúa ríkiskirkjunnar?

Málið versnaði reyndar þegar sá fjórði, Ágúst Þór Árnason lögfræðingur, afhjúpaði sig líka sem andstæðing aðskilnaðar. Þannig urðu hlutföllin hjá frummælendunum 75% á móti aðskilnaði sem er akkúrat öfug við hlutföllin í samfélaginu. Nú er ljóst að Ágúst átti að vera hlutlaus fræðimaður en hann var það ekki. Reyndar hljómaði krafa hans um tíu ára umþóttunartíma áður en við myndum ákveða hvort aðskilnaður yrði helst þannig að hann vildi skaffa kollegum sínum og sjálfum sér vinnu við að rökræða um málin.

Pétur Pétursson hóf leik og honum þótti rétt - í ljósi þess nú átti að ræða um aðskilnað ríkis og kirkju - að fjalla fyrst og fremst um samband ríkis og kirkju... í Rómarveldi. Hann forðaðist eins og heitan eldinn að tala nokkuð um málið.

Ríkiskirkjupresturinn Kristján Björnsson taldi rétt að halda sig við nútímann... ef við tölum um nútímann sem tímaskeiðið sem hófst með falli Aust-Rómverska ríkisins og landafundi Kólumbusar. Hann taldi sumsé að siðskiptin skiptu lykilatriði í umræðunni í dag.

Um Ágúst Þór Árnason þarf ekkert meir að segja en Matthías Ásgeirsson stóð sig með prýði.

Þegar kom að pallborðsumræðunum kom í raun betur í ljós hvernig þetta vanhugsaða val á frummælendum skekkti allt. Þarna voru þeir þrír sem fengu að tjá sig sem voru andvígir því að aðskilnaður færi í gegn á stjórnlagaþingi en bara einn með því. Pétur og Kristján sögðu líka meira og minna það sama. Þeir reyndu báðir að hrekja orð Matthíasar um að kirkjan væri ekki leiðandi afl í mannréttindabaráttu.

Pétur gladdi fundarmenn með því að finna eitt dæmi um miðja nítjándu öld (sem snerist í raun helst um að tryggja völd kirkjunnar) og annað frá árinu 1909 sem sýndi frumkvæði kirkjunnar. Það hefur greinilega ekki verið auðvelt að finna dæmi síðustu hundrað árin.

Kristján lýsti því yfir að það hefðu aldrei verið neinar deilur um kvenpresta á Íslandi og sagði það dæmi um ósannindi Matthíasar. Presturinn ætti að lesa Vantrú oftar, til dæmis þessa gömlu grein. Kristján lýsti því líka yfir að kirkjan hafi tekið mjög vel á málum Ólafs Skúlasonar biskups frá upphafi. Merkilegt nokk sýndist manni salurinn ekki sannfærður. Raunar má þó segja að Kristján sjálfur hafi verið meðal þeirra presta sem á sínum tíma reyndu að taka á málinu.

Þessi fundur varð að glötuðu tækifæri til fá almennilega umræðu um aðskilnaðarmál. Reyndar virðist ljóst að kirkjunnar menn munu forðast það eins og þeir geta að ræða málin raunverulega. Stjórnlagaþing þarf að taka frumkvæðið og ýta þessu máli af stað.


Höfundur er fyrrverandi formaður Vantrúar og frambjóðandi til stjórnlagaþings.
[Heimasíða] | [Stuðningssíða á Facebook]

Óli Gneisti Sóleyjarson 18.11.2010
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Jói - 18/11/10 08:39 #

Ef ég hefði haft tækifæri á þessum fundi þá hefði ég spurt Pétur Pétursson um dylgjur hans um að einhver kynferðisbrotamál væru í gangi í fleiri trúfélögum en bara hjá Vottum Jehóva. Allavega talaði hann þarna eins og þau væru fleiri en eitt þessa sjálfstæðu trúfélög væru í vandræðum með slíkt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/11/10 10:19 #

Kristján lýsti því yfir að það hefðu aldrei verið neinar deilur um kvenpresta á Íslandi og sagði það dæmi um ósannindi Matthíasar.

Mér þótti þetta afskaplega furðuleg yfirlýsing frá Kristjáni því það er svo auðvelt að sýna fram á að hann hefur rangt fyrir sér. Ég gat náttúrulega ekki flett þessu upp á fundinum og ef ég hefði fullyrt að víst hefðu þessar deilur átt sér stað á sínum tíma hefðu þetta bara verið orð gegn orði!


Halla Sverrisdóttir - 18/11/10 11:03 #

Það var nú ekki meiri almenn sátt um vígslu kvenpresta á sínum tíma (á því fornsögulega tímaskeiði áttunda áratug síðustu aldar) að einhverjir töluðu um "andlega kynvillu". Það var ok.


Daði Ingólfsson - 18/11/10 12:55 #

Sælt veri fólkið

Ég er sá sem sá um að velja frummælendur - það var (og er alltaf) gert eftir eftirfarandi kríteríum:

1 löglærður 1 með akademíska þekkingu á málefninu 1 af gólfinu (í þessu tilfelli tveir, prestur og fulltrúi Vantrúar).

Við getum ekki borið ábyrgð á skoðunum frummælenda en reynum að fá fyrst og fremst hæfasta fólkið til að koma. Ég held reyndar að það hafi tekist hér. Fundirnir eru heldur ekki kappræðugrundvöllur, heldur umræðuvettvangur.

Tilgangurinn með fundinum var að hefja vitræna umræðu um þessi mál á víðum grundvelli. Umræðan á að snúist um málefni í stað karps, en þessi félagasamtök eru að gera sitt besta til að svo verði - ég vona að það fari ekki á milli mála.

Með virðingu Daði Ingólfsson


Þórður Grétarsson - 18/11/10 13:28 #

Sem fulltrúi Stjórnarskrárfélagsins vil ég þakka Óla fyrir þessar athugasemdir. Félagið stendur þessa dagana fyrir fundaröð um hin aðskiljanlegustu efni stjórnarskrár og hafa fundirnir verið settir upp sem fræðslufundir öllum opnir.

Við val á framsögumönnum á hverjum fundi hefur verið reynt að hafa a.m.k einn úr háskólasamfélaginu sem hefur sérþekkingu á viðfangsefni fundarins, einn sem hefur bein dagleg tengsl við viðfangsefnið og einn löglærðan. Hingað til hefur þetta gefist vel. Fundirnir hafa ekki verið hugsaðir sem kappræðufundir með og á móti einhverju tilteknu efni en á öllum fundunum hafa umræður á efir framsögu verið beinskeittar.

Varðandi fundinn í gær þá verður að viðurkennast að það er mjög erfitt að finna "akademíker" í guðfræði sem er jafnframt fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju og það hefði verið æskilegt að hafa þetta jafnara hjá okkur.

Þó okkur sem stöndum að félaginu séu örugglega mislagðar hendur við og við þá reynum við að vanda okkur við þetta og tökum gagnrýni Óla svo sannarlega til greina.

Um Stjórnarskrárfélagið vísa ég til heimasíðu félagsins http://stjornarskrarfelagid.is/

Með bestu kveðju.

Þórður Grétarsson


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/11/10 16:03 #

Þakka þér fyrir Þórður.


Júlía - 18/11/10 19:44 #

Ég varð enn eina ferðina fyrir vonbrigðum með kirkjunnar menn. Það er ömurlegt að hlusta á þá eigna sér siðfræði, sátt milli manna og nánast allt sem kallast má gott og réttlátt. Hvað er svona flókið við aðskilnaðinn, fer fólk ekki eftir sem áður í kirkjuna sína þessi "90%" þjóðarinnar og borga þeim sín sóknargjöld beint. Við hvað eru þeir hræddir sem hafa sannleikann og réttlætið sín megin. Svo spurði Jónína Bjartmarz hvað kæmi eiginlega í staðinn ef aðskilnaðurinn yrði að veruleika. Það verður náttúrulega almenn andleg örbirgð meðal þjóðarinnar þegar í ljós kemur hversu mörg prósent kjósa að kalla sig kristinn og borga í sinn kirkjubauk. Svo varaði Ágúst Þór við aðskilnaðinum og minnti menn á hvað hefði farið fram hjá Sóvétinu og Kína ef kirkjan hefði ekki tögl og haldir undir niðri. Sleppum bara þessari stjórnarskrá og notumst við boðorðin 10.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.