Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Spor annarra

Sjá allt þetta öfgafólk!

Ég á fimmtán mánaða gamlan son. Á næsta ári fer hann væntanlega í leikskóla. Ég kvíði því. Það gæti nefnilega farið svo að ég þurfi að taka erfiðar ákvarðanir ef trúboð er stundað í leikskólanum sem hann fer í. Á ég að kyngja prinsippum mínum og leyfa það? Á ég að láta taka drenginn út úr hóp - láta refsa honum - vegna skoðana minna? Neyðist ég til að vera "erfiða foreldrið" sem er með "vesen"?

Mín staða er ekki einstök eins og allir sem hafa kynnt sér þessi mál vita. Ótal foreldrar hafa þurft að standa í stappi við leikskóla varðandi þessi mál. Ég tel að enn fleiri hafi einfaldlega tekið ákvörðun um að hunsa prinsip sín í stað þess að berjast fyrir sjálfsögðum rétti sínum og barna sinna.

Ég hef enga sérstaka löngun til þess að innræta syni mínum eitt né neitt varðandi tilvist guðs. Ég mun hins vegar reyna að kenna honum gagnrýna hugsun og vona að hann geti komist að niðurstöðu sjálfur. Ef drengurinn lendir í trúboði áður en hann er fær um að dæma sjálfur í þessum málum neyðist ég líklega til þess að ganga lengra í innrætingu skoðana en ég myndi vilja.

Umræðan sem hefur skapast um þetta mál sýnir ágætlega innræti þeirra sem vilja trúboð á leikskólum. Þeir afbaka rök andstæðinga sinna í stað þess að svara þeim og reyna þar að auki að spila á andúð fólks á innflytjendum til þess að vinna málstað sínum fylgis. Þeir telja greinilega að þeir skuli hlýða því þegar Jesús sagði þeim að gera allar þjóðir að lærisveinum sínum í stað þess að rifja upp að hann bað líka um fólk ætti að reyna að setja sig í spor annarra.

Vegna þeirra sérréttinda sem Þjóðkirkjan hefur í stjórnarskránni þá þykir sumum allt í lagi að líta okkur hin sem annars flokks. Sumir eru jafnari en aðrir. Sem betur fer er það ekki sjónarmið meirihluta þjóðarinnar. Í mörg ár hefur verið skýr meirihluti fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Þetta er líka meirihlutaskoðun meðlima Þjóðkirkjunnar sem vilja ekki forréttindi heldur jafnrétti og trúfrelsi. Það eru líka flestir sem skilja sjónarmið foreldra sem eru í sömu stöðu og ég þegar málin eru útskýrð fyrir þeim án þess að spunafólk tengt kirkjunni (s.s. ritstjóri Fréttablaðsins) komi þar að.


Greinin var send á Fréttablaðið þann 20. október, 2010, en hefur ekki en fengist birt

Óli Gneisti Sóleyjarson 02.11.2010
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Halla Sverrisdóttir - 02/11/10 09:31 #

Athyglisverð pæling varðandi það að þurfa að byrja fyrr en maður hefði kannski kosið að tala við börnin sín um trúmál. Börn ættu auðvitað að vera frjáls frá allri slíkri innrætingu eins lengi og þeim er unnt, þeim mun meira og betra tóm gefst þeim til að þroska eigin dómgreind og hugsun. Nú höfum við ekki bannað kirkjuferðir úr leikskóla, en ég hef fullan skilning á því að gera það. Ef ég þarf að gefa barninu mínu skýringar á því af hverju þá fær ekki að vera með hinum í einhverju (barnastarfi kirkjunnar inni á dagskrá frístundaheimilisins gæti verið eitt dæmi), t.d. með því að útskýra að pabbi og mamma fari ekki í kirkju og trúi ekki á Guð og þess vegna viljum við ekki að barnið fari í kirkju og sé sagt að trúa á Guð af því að það sé gott og hollt, eru fyrstu viðbrögð barnsins að taka afstöðu "með" pabba og mömmu og segja: Nú, þá trúi ég heldur ekki á Guð! Það er yfirlýsing sem barnið er allt of ungt til að setja fram en er eðlileg þar sem barninu er eiginlegt að samsama sig afstöðu foreldranna. Best væri auðvitað að börnin fengju frið fyrir þessu áreiti og bæði kirkjan og við foreldrarnir gætum látið hausana á þeim í friði eins lengi og unnt er!


Davíð Finnbogason - 02/11/10 09:39 #

En sem betur fer á að gera nýja stjórnarskrá bráðlega og ef þessar klausu um að íslendingar séu kristin þjóð verður ekki droppað þá er eitthvað mikið mikið mikið að.


Jón Pétur Jóelsson (meðlimur í Vantrú) - 02/11/10 10:35 #

Ég á sjálfur litla stelpu sem byrjar í leikskóla á næsta ári og hef haft af þessu áhyggjur.

Þetta með innrætinguna er mjög góður punktur.

Ég bara skil ekki af hverju þessi trúfélög þurfa að koma sínum viðhorfum að hjá börnum á opinberum vettvangi....af hverju dugar ekki fyrir trúfélög að fólk finni þessa þörf hjá sjálfu sér að koma til þeirra, af hverju þarf maður að hafa á tilfinningunni að trúfélög séu eins og hrægammar á sveimi yfir börnunum manns.

Mér hefur fundist að ef trúfélög ná ekki til fólks á unga aldri þegar fólk er sem móttækilegast fyrir slíku, þá verði það of seint...skynsemin verði búin að ná yfirhöndinni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.