Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aðeins um siðferði og trúleysi

Við erum lífrænar vélar sem hafa þróast á milljónum ára. Lífrænt markmið okkar er að lifa og tímgast. Hegðun okkar stýrist því að hluta af þessu markmiði lífrænu vélarinnar. Gott dæmi um það er hvað við hugsum óskaplega mikið um kynlíf - við höfum lítið val um það, líkaminn gerir bara kröfu til þess.

Að vilja lifa og búa svo um hnútana að afkomendur okkar lifi líka og tímgist er því vilji sem er kóðaður í okkur frá fæðingu - sem sést vel á því hvað börn eru kát og lífsglöð ef hlutirnir eru bara nokkurn veginn í lagi. Við erum bjartsýn og viljum lifa frá fæðingu - hvað svo sem flókin hugsun okkar gerir við þær hvatir þegar við eldumst.

Af þessum sökum viljum við t.d. "betri heim" og stefnum að honum. Það er ekki trúarleg hugmynd, það er líffræðileg krafa erfðaefnis okkar sem smitast út í meðvitund okkar. Það hvað betri heimur þýðir er hinsvegar háð þekkingarstigi okkar og menningu og getur hæglega falist í viðamikilli siðfræði sem dæmi.

Hugmyndir og hvatir

Það er því ekki trú að finna til hollustu við hugmyndir sem teljast líklegar til að stuðla að betri tilveru fyrir okkur sjálf og afkomendur okkar, það er eðlislæg hegðun.

En þegar við tökum þessar hvatir og persónugerum þær með hugsun okkar og gefum henni eiginleika sem við þekkjum ekki til, eins og þá að þeir séu óháðir efninu, algildir og tengdir upphafi alheimsins í formi guðs, erum við komin út í mjög merkingarrýran orðaleik sem á sér heilt tungumál sem við köllum trúarbrögð.

Þess vegna er það trú að fara út í þann leik, en trúleysi að gera það ekki.

Það sem trúleysinginn og sá trúaði eiga sameiginlegt er að hafa hvatir sem geta leitt til trúarbragða, því trúarbrögð eru ein viðbrögðin við að hafa þessar hvatir. Það skiptir því engu máli hvort siðfræði megi rekja til trúarbragða í sögulegu samhengi, eða hvort kristnin eða önnur trúarbrögð innihaldi einhvern huglægan sannleika um hvernig við erum. Sá sanneikur verður aldrei annað en lýsing á hvötum okkar, ekki trúnni sem sprettur stundum af þeim.

Við köllum ekki hvatirnar trú, það væri algjör afbökun á orðinu og því röng orðnotkun.

Siðferðisleg afstæðishyggja

Siðferðileg afstæðishyggja segir til dæmis að það sem þyki réttlátt í einu samfélagi þurfi ekki að þykja það í öðru, því réttlæti sé afstætt og byggi meðal annars á væntingum og venjum.

Afstæðishyggja um huglægar skilgreiningar gengur oft nokkuð vel upp. Hvað er réttlátt, ranglátt, gott eða slæmt? Það er afstætt.

En það að sannleikurinn sé afstæður á þennan hátt er hinsvegar flóknara verkfæri til að beita. Tveir menn á sitthvorri hlið jarðarinnar að segja til um hvort það sé dagur eða nótt er ekki gott dæmi um afstæði sannleikans. Þeir eru einfaldlega á ólíkum stöðum við ólíkar aðstæður. Annar hefði allt eins getað verið djúpt inni í myrkum helli og hinn í geimfari að detta inn í sólina, ólíkar og auðskiljanlegar aðstæður skýra ólíka upplifun þeirra.

Ég reyni alltaf að færa rök fyrir því að hlutirnir séu mis-afstæðir, en ekki bara afstæðir eða ekki afstæðir. Þannig er það til dæmis næsta lítið afstæð þekking að hoppi maður úr háum turni - án þess að vera græjaður fyrir slíkt - þá stórslasist maður eða deyr. Það er sáralítið afstætt og það á við um ansi marga þekkingu á hinu efnislega: að sannleikurinn er ekkert voðalega afstæður þegar menn eru að tala saman um svipaðar aðstæður á svipuðum tíma.

En algjör afstæðishyggja, þar sem mikill efi er talinn ríkja um allan sannleik er hinsvegar þess háttar hugmyndafræði, að byggi menn afstöðu til lykilatriðis í rökræðum á henni geta þeir heldur ekki fullyrt að neitt sé á einn veg en ekki annan, því þeir byggja rök sín einmitt á því að slíkt sé ekki hægt að vita eða fullyrða. Þannig er ekki hægt að fullyrða að trúleysi sé trú, ef ein forsenda þeirrar afstöðu er sú að allt sé svo afstætt að engin afstaða sé sannari en önnur.

Skynsemi og siðferði

Siðfræði og siðferði má útskýra á skynsamlegum nótum með samkennd og þekkingu á þróun á búsetu mannsins. Siðfræðilegar, lagalegar og trúarlegar hugmyndir tóku kipp meðal manna þegar þeir hættu að vera safnarar og gerðust bændur og fóru að búa í hnapp og eiga langtímaeigur. Þess vegna er engin ástæða til að rekja siðfræði til trúarbragða.

Það sem trúlausir halda um heiminn halda trúaðir líka - vel flestir allavega. Hinn almenni Íslenski trúmaður trúir öllu sem trúleysinginn trúir, heimsmyndin er sú sama, nema hvað sá trúaði bætir við einu lagi af trú, sem fellst í tvíhyggjunni. Þ.e.a.s. að hann geti fullyrt eitthvað um eitthvað óefnislegt og yfirnáttúrulegt - að hann hafi t.d. sál sem sé ekki háð heilanum sem líffæri.

Þannig að þegar tveir menn mætast úti á götu á Íslandi, annar trúaður, hinn ekki, þá búa þeir að sömu upplýsingum um næstum alla daglega hluti og trúa sömu hlutunum um þróun lífs og eðlisfræðilögmálin. Nema hvað sá trúaði trúir auk þess á guð (hvað sem hann svo segir að það orð þýði).

Flest höfum við auk þess samkennd og margt bendir til þess að hana sé að finna í dýrum allt niður í nagdýr, en hún virðist okkur flóknari og meiri hjá greindustu spendýrunum. Það er því ekki trúarleg hugmynd að finna til samkenndar þegar annað fólk slasast eða á um sárt að binda. Það er eðlislæg hegðun. Siðgæði er flókið framhald af samkenndinni og hagsmunum okkar af að hafa virka siðfræði.

Trúleysi er ekki trú

Sá trúlausi trúir hinsvegar engu sem hinn trúir ekki, t.d. trúir hann því ekki að guð sé ekki til, eða að yfirnáttúra geti ekki verið möguleg. Eða að Jesús hafi ekki verið guð, heldur veit hann það bara ekki og tekur ekki aðra afstöðu til þess en þá að það virðist ólíklegt og órökrétt miðað við reynslu manna af að vera til og því ekki réttlætanlegt að gefa sér að það sé satt.

Það hefur því augljóslega meiri og skýrari merkingu að kalla það trú að bæta einhverju ofan á sameiginlegu hugmyndir manna um heiminn, því annars er verið að kalla alla sameiginlega þekkingu okkar á tilverunni trú, sem er ekki það sem orðið á að fyrirstilla.

Það er ákafi og áhugi sem fær menn til að kynna sér málin í þaula til að geta átt um þau vitræn samtöl. Sá sem les mikið, skrifar, talar og bloggar um trú er ákafamaður um trúmál. En ekkert endilega trúaður, því þekking, áhugi og ákafi er ekki það sem gerir menn trúaða, heldur trúin á yfirnáttúru, hið ótrúlega.

Maður með doktorsgráðu í sögu kínversks kommúnisma sem talar um lítið annað og fyllir heimili sitt af rauðum fánum og spakmælum Maó þarf ekkert að vera kommúnisti, hvað þá kínverskur kommúnisti. Rannsóknarlögreglumaður sem kynnir sér peningafölsun í þaula er ekki peningafalsari og glæpamaður þótt hann velti slíkum málum fyrir sér allan daginn alla daga. Hundur sem hegðar sér eins og hæna er hundur sem hegðar sé eins og hæna. Hann verður ekki hæna nema hann láti erfðabreyta sér í hænu og geti átt afkvæmi með hænum. Og svo framvegis.

Ótrúlegt!

Þegar menn spyrja hvort aðrir séu trúaðir, þá vita allir með nokkurri vissu að átt er við eitthvað örlítið meira en daglega vísindahyggju eða efnishyggju, yfirleitt einhverja sannfæringu um eitthvað óskilgreint gott og máttugt.

Sá sem spyr á aldrei von á því að hinn svari "já", en eigi þá við að hann sé svo ofboðslega ákveðinn trúleysingi að sannfæringin minni á trúarjátningar. Eða að hann sé svo mikill frjálshyggjukarl að ekkert geti hnikað trausti hans til þeirrar hugmyndafræði.

Trú hefur skýra daglega merkingu. Til að halda öðru fram þarf að þvæla merkingu orðanna, sem hlýtur að vera rangt.

Kristinn Theódórsson 25.07.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Kristján Friðjónsson - 25/07/10 21:37 #

Ég er nokkuð sammála þér alveg þar til kemur að kaflanum Skynsemi og siðferði. Ekki alveg en nóg til að láta það liggja á milli hluta. En í þegar að þessum kafla kemur er ég hreinlega ósammála þér og ég held að margir fræðimenn á sviði mannfræði, heimspeki og fleiri greina hljóti að vera það líka. Hellaristur og hellamálverk sem eru frá árdaga mennskunnar og mun eldri heldur en akuryrkja benda eindregið til átrúnaðar hins forna manns og tilrauna hans til að ná valdi á náttúrunni með göldrum og þar sem galdrar eru viðhafðir þar er trú. En ég er sammála um að siðfræði þarf ekki að vera sprottin af trúarbrögðum. En mér sýnist á greininni að þú fallir í þá gryfju að setja samasem merki á milli trúar og trúarbragða sem ég held að því miður sé of algengt.

Í næsta kafla greinarinnar, Trúleysi er ekki trú, ertu farinn að nota tvöfalda neitun á ansi hreint frjálslegan hátt. Tvöföld neitun er afar vandmeðfarin og mér finnst þú ekki nota hana á sannfærandi hátt og í raun ansi hreint klúðurslega því það er mjög erfitt að skilja hvað þú ert að fara. Ég skora á þig að endurskrifa þennan kafla og reyna að komast hjá því að nota tvöfalda neitun. Og þegar kemur að niðurlagi kaflans þá ertu nú hreinlega farinn að bulla.

Ég tel að þurfi ekkert guð-veru (hvk) eða Jésúkarakter til að vera trúaður. Ég tel sjálfan mig vera trúaðan en ég afneita hinum hefðbundnu trúarbrögðum (öllum) fyrir mig og tel nóg að trúa að sólin muni rísa á morgun til að geta sagt og meint að ég sé trúaður. Eins vil ég benda á að við upplifum öll hlutina á mismunandi hátt og það er eitthvað sem mörgum hættir til að gleyma. Það er einmitt það sem gerir fólki kleift að upplifa eitthvað sem styrkir trú þeirra hvort sem það aðhyllist einhver trúarbrögð eða ekki. Sem segir mér að ég eigi ekkert með það að segja við manneskju sem heldur því fram að hún hafi hitt Maríu mey að hún hafi rangt fyrir sér. Ekkert frekar en ég eigi eitthvað með það að segja einhverjum að það sé rangt að honum finnist lasagna gott. Ef þú velkist í einhverjum vafa með hvort fólk skynji hlutina á mismunandi hátt skaltu endilega finna þér einhvern vísindamann á cognitisku sviði og fá hjá honum tölur um málið.

Í stuttu máli þá vil ég taka niðurstöðuna úr greininni þinni og snúa henni upp á þig og segja að þú þvælir merkingu orðanna, og það hlýtur að vera rangt. Trú er nefnilega ekki það sama og trúarbrögð.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 25/07/10 22:42 #

Sæll Kristján Firðgeir, takk fyrir innleggið.

Ég ætla að fá að afsaka mig aðeins. Þessi grein er nefnilega samantekt annars aðila úr athugasemdum mínum við ákveðna bloggfærslu á mínu bloggi, en ekki heilsteypt grein og því kannski ekki að undra að hún sé ekki nógu tær. Að því sögðu vil ég gjarnan skoða þetta með þér eins og þú sérð þetta.

Ég ætlaði alls ekki að halda því fram að trú og trúarbrögð hefðu orðið til við upphaf landbúnaðar, ég var bara að vísa í algengar kenningar um að það hafi verið við þær breytingar sem heimspeki laga og siðfræði tóku kipp, og það vitaskuld í samneyti við trú, sem einmitt átti sér forsögu.

Mér þykir hinsvegar rangt að gefa sér að trúin og siðfræðin séu á einhvern hátt háð hvort öðru, nema að því leytinu til að í árdaga voru það kannski sömu mennirnir sem messuðu trúarlegar hugmyndir og lagalegar og því skapaðist hefð fyrir slíku sem á enn eftir að gufa upp að fullu.

Ég þykist þó ekki vera að setja samansem merki milli trúar og trúarbragða, en ég er að skilgreina trú sem trú á yfirnáttúru og leyfi mér að kalla allar fullyrðingar um þá yfirnáttúru trúarbrögð.

Endilega skýrðu betur hvað þú átt við með að eitthvað ami að tvöföldu neitunar hlutanum. Niðurlagið þar var svar við nokkru sem viðmælandi minn á blogginu hélt fram, en hann talaði um að trúleysingjar sem töluðu um trú væru trúaðir, því hegðunin væri eins. Ég var bara að benda honum á að það er ekki fullnægjandi skilgreining.

Ég tel sjálfan mig vera trúaðan en ég afneita hinum hefðbundnu trúarbrögðum (öllum) fyrir mig og tel nóg að trúa að sólin muni rísa á morgun til að geta sagt og meint að ég sé trúaður.

Þú ert þá að notast við orðið trú í víðustu merkingu. Það er ekkert að því, en viðmælandi minn vildi meina að orðið ætti við um trúleysi í þrengri merkingu einnig og því áttu þessi orð við í því tilfelli.

Sem segir mér að ég eigi ekkert með það að segja við manneskju sem heldur því fram að hún hafi hitt Maríu mey að hún hafi rangt fyrir sér. Ekkert frekar en ég eigi eitthvað með það að segja einhverjum að það sé rangt að honum finnist lasagna gott. Ef þú velkist í einhverjum vafa með hvort fólk skynji hlutina á mismunandi hátt skaltu endilega finna þér einhvern vísindamann á cognitisku sviði og fá hjá honum tölur um málið.

Þetta Þykir mér vera dæmi um dálítið losaralega hugsun. Þarna nefnir þú í sömu andra persónubundinn smekk á mat og það að hitta framliðna einstaklinga.

Hvernig sem við snúum hugsun okkar í hringi þá verður það ekkert minni staðreynd að annað er mjög líklegt (að viðkomandi hafi skoðun á bragði á lasagna) en hitt er ómögulegt í flestum daglegum skilningi og krefst mikilla útskýringa (að hitta Maríu Mey).

Staðreyndin er náttúrulega sú að á hverjum degi segjum við öll hluti sem við meinum mismikið og sumt er vanhugsað bull. Ég hef til dæmis misst út úr mér við mann sögu sem ég áttaði mig síðar á að var lýgi, eitthvað sem mig hafði dreymt.

Sú hugmynd að við eigum ekki að efast um sannleiksgildi þess sem aðrir segja er af og frá. En það kann að vera "rétt" í félagslegum skilningi að jánka öllu, svona til að heimurinn sé friðsælli. En ég er ekki viss um að það sé gáfulegt í þeim tilgangi heldur.

Í stuttu máli þá vil ég taka niðurstöðuna úr greininni þinni og snúa henni upp á þig og segja að þú þvælir merkingu orðanna, og það hlýtur að vera rangt. Trú er nefnilega ekki það sama og trúarbrögð.

Þessu vil ég fá að vísa til baka til þín, Kristján. Það er einfaldlega þannig að vel flestir vita vel hvað orðin "trú" og "trúaður" þýða og þú ert í miklum minnihluta með að kalla það trú að ætla sólinni að rísa eftir nóttina.

Ef við leyfum okkur að segja að venjan stýrði því hvað rétt sé að nota hugtökin vítt eða þröngt, þá ert þú að þvæla hugtökin, ekki ég. Því þegar menn fylla út lista yfir hvort þeir séu trúaðir eða ekki, þá vita þeir alveg hvað átt er við, hvort sem þeir hafa einhverjar persónulegar heimspekilegar nálganir við þær hugmyndir eða ekki.

Trú í daglegri þrögnri merkingu er að trúa á eitthvað óútskýrt spennandi eitthvað sem er einhvernveginn handan hinnar daglegu efnishyggju sem stýrir því hvernig við beitum hníf á brauð og hvort við tökum skarpa eða mjúka beygju á mölinni á leið út í sveit.

Endilega segðu mér þína meiningu á þessu.

mbk,


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 25/07/10 22:54 #

Trú í daglegri þrögnri merkingu er að trúa á eitthvað óútskýrt spennandi eitthvað sem er einhvernveginn handan hinnar daglegu efnishyggju sem stýrir því hvernig við beitum hníf á brauð og hvort við tökum skarpa eða mjúka beygju á mölinni á leið út í sveit.

Til öryggis, þá átti ég við að það væri efnishyggjan sem stýrir því hvernig við tökum beygju eða beitum hníf, ekki trúin. Trúin er meira í því að vera okkur hvatning og huggun.


danskurinn - 26/07/10 13:04 #

Maðurinn er eina dýrið sem takmarkar ekki vitundarstafsemi sína við líffræðilega mekanískar starfseindir. Önnur dýr eru sem sagt þrælar eðlishvata sinna á meðan maðurinn getur í raun gengið gegn eðilshvötun sínum með því sem hefur verið kallað „frjáls vilji“.


Guðjón Eyjólfsson - 26/07/10 15:17 #

Sæll Kristin Ég er sammála þér um að á þessum vettvangi er ekki rétt nota orðið trú um þá skoðun að ekkert yfirnáttúrlegt sé til. Hugsum okkur nú að tveir menn taki tal saman annar er heimskasti trúleysingi allra tíma og hinn er vitrasti, gáfaðisti og menntaðist trúmaður allra tíma. Trúleysingi þessi sem er nánast þrosaheftur en er ákaflega hændur að vini sínum sem er eðlilegur og hefur ákaflega sterkar skoðanir um trúmál og aðhyllist róktækt trúleysi í anda Sam Harris. Auðvita segir það okkur eitthvað um skoðanir þessara manna að annar er trúlaus þó hann hafi ekki vitsmunalegar forsendur til þess að gera skynsamlega grein fyrir trúleysi sínu, en hinn er trúaður og hefur skrifað nokkrar bækur þar sem hann færir heimspekileg og guðfræðileg rök fyrir máli sínu. Í þessu hugsaða dæmi er hinn trúlausi ekki með betur grundvallað lífskoðun en trúmaðurinn. Trú og trúleysi eru tvær gerðir lifskoðana sem byggja á ólíkum forsendum. Ég get vel fallist á það að íslenska orðið trúleysi útilokar eiginleg að hægt sé að tala um trúleysi sem trú. Það sem fólk sem talar um trúleysi sem trú á væntaleg við er að trúleysingjar byggi afstöðu sína til trúarlegra spurning á forsendum sem þeir geta ekki vitað hvort séu rétt eða ekki. Sjálfum finnst mér engin ástæða til þess að tala um trú sem trúleysi hér enda leiðir það vætanlega einugis til karps um skilgreiningu orða.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 26/07/10 16:57 #

Sæll danskur

Mér finnst eðlilegra að hugsa þetta þannig að maðurinn sé líka leiksoppur eðlis síns, rétt eins og dýrin, en ákvarðanatökuferlið bara orðið svo flókið að stundum endar ákvörðunin með því að vera gegn augljósum markmiðum okkar - eins og við meðvitað upplifum þau.

Það kann að vera sami hluturinn og það sem þú sagðir, en æsir ekki eins upp hugmyndir um tvíhyggu.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 26/07/10 19:01 #

Þetta er ágætur punktur, Guðjón Eyjólfsson

Auðvitað eru margir trúaðir og trúlausir án þess að hafa nokkra getu til að segja frá því hvernig komist var að niðurstöðu um trúarafstöðu sína (lífsskoðun).

En það er fallegt af þér að ætla okkur í Vantrú að geta það. Takk fyrir traustið.

En að sama skapi kjósa flestir stjórnmálaflokka án þess að vita neitt um pólitík og halda með fótboltaliði án þess að þekkja hin liðin í þaula, nú eða sitt eigið lið.

Alla þessa hegðun gætum við kosið að kalla trú og að vera trúaður. En þá væru þeir sem virkilega hafa lagt sig eftir því að vita einmitt ekki trúaðir og þá þyrftum við annað orð fyrir það fólk, auk þess sem sú skilgreining aðgreinir ekki trú á yfirnáttúru frá trú á annað.

Menn vilja hinsvegar sjaldnast viðurkenna slíka skiptingu upp á heiminn og setja því C.S. Lewis undir sama hatt og sjáfan sig þegar kemur að trú og Sam Harris og sjálfan sig þegar það kemur að trúleysi. Skilgreiningin á trú/leysi þarf því að vera lýsandi fyrir vanvitana og hetjurnar, allar í senn (þar sem við í Vantrú erum kannski mitt á milli).

En þetta er komið út um allt hjá mér, enda margbúið að trufla mig á meðan ég skrifaði þetta. Við virðumst allavega vera nokkuð sammála.


danskurinn - 26/07/10 22:59 #

Mekaníkin stefnir ævinlega að ákveðinni leið eða niðurstöðu. Það eru aðeins svokallaðar stökkbreytingar sem breyta ferðinni. Til að hafna hugmyndinni um tvíhyggju verður að líta á stökkbreytingarnar sem raunveruleika sem þó er ekki hluti ef mekaníkinni. Annars væri hægt að segja að þróunin væri fyrirfram ákveðin. En það er auðvitað tvíhyggja samt sem áður.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 28/07/10 07:45 #

Danskur

Ég legg til eina pælingu til viðbótar þessu hjá þér. Köllum hana bara rangar ákvarðanir. Ef forrit er hannað til að láta róbót komast frá A-B er svo flókið og látið taka mið af svo mörgum þattum að ákvarðanatakan verður mjg þvæld er ekki ólíklegt að fottirið geri mistök og festi róbótinn á leiðinni.

Ég held að það megi líta á frjálsa viljann okkar sem þess háttar forrit. Það fer bara eftir dagsforminu hvort manneskja ákveður að láta stakan regndropa sem lendir á nefi hennar hafa áhrif á það hvort hún ætli til hægr eða vinstri og svo koll af kolli þangað til að ákvörðun um stríð gegn Afganistan er tekin.

Við erum með öfgaþvælt stýrikerfi!


danskurinn - 28/07/10 19:43 #

Jú jú einmitt. Þetta er hugmyndin um vængjaslátt fiðrildis sem leiðir til epískra atburða einhverntíma seinna, langt langt í burtu. Hefur ekkert með þróun mannsins að gera eða öfgaþvælt stýrikerfi hans.

Reyndar er ágætt að nota orð eins og stýrikerfi til að lýsa vitundarástandi og þróun mannsins. Það er svona líkt og UNIX kerfið. Sett saman úr öllum stýrikerfum sem áður hafa verið til. Spurning hvar harði diskurinn er?


aphex - 10/08/10 06:08 #

takk fyrir ad svaefa mig med thessu vanhugsada fafroda rugli =) tru er ekki thad sama og truarbrogd og sama hvad thu reynir ad sannfaera sjalfan thig mundu fa feitan skell einn dagin! eg er allavega sammala thvi ad brenna alla presta a bali tho.. Asamt ollum villutrum i verold okkar! en tru er eithvad sem kemur fra hjartanu og ef thid sjaid ekki sannleikan nuna munud thid aldrei vakna!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.