Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúarinnræting í skólum

Sem betur fer eru æ fleiri kennarar og skólastjórnendur að átta sig á þýðingu ákvæðis í aðalnámskrá þess efnis að skólinn á að vera fræðslu- en ekki trúboðsstofnun. En betur má ef duga skal.

Nýverið mátti sjá grein eftir Óla Tynes, „kristinn föður, afa og langafa“, sem kallaðist „Leyfið Kristi að koma í skólana“. Þar fellur fréttamaðurinn í þá gryfju að fullyrða „meirihluta kristinna foreldra sátta og sæla með KRISTNIBOÐ í skólum“. Þó svo að meintur meirihluti væri fyrir hendi (sem efast má um) réttlætir það undir engum kringumstæðum mannréttindabrot á minnihlutanum.

Óli er greinilega grunlaus um áðurnefnt trúboðsbann í aðalnámskrá sem og þær greinar grunnskólalaga og siðareglna kennara sem leggja blátt bann við mismunun nemenda vegna trúarbragða. Svo staðhæfir hann í þokkabót að allt tal um mannréttindabrot í þessu samhengi sé „náttúrulega út í hött“. En Óla má benda á mannréttindalög sem kveða á um skyldu hins opinbera til að virða rétt foreldra til þess að tryggja að menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra og alþjóðasamning um borgaraleg réttindi sem skyldar ríkið til að virða frelsi foreldra til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu. Ég hefði líka haldið að fréttamaðurinn hefði frétt af úrskurði Mannréttindanefndar SÞ og dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli norskra foreldra gegn ríki sínu vegna trúarinnrætingar í skólum þar í landi. Í barnasáttmála SÞ segir ennfremur að virða skuli rétt barns til frjálsar hugsunar, sannfæringar og trúar. Það ætti ekki að teljast út í hött að virða reglur, lög, sáttmála, úrskurði og dóma.

En í Morgunblaðinu 14. janúar sl. er önnur grein eftir Fjalar Frey Einarsson grunnskólakennara og hvítasunnumann sem hann kallar „Staðlausa stafi Siðmenntar“. Fjalar gerir starfs- og trúsystkinum sínum lítinn greiða þegar hann reynir, líkt og svo margir áður, að gera Siðmenntarmönnum upp andstöðu við fræðslu um ólíka trú og menningu þar sem slíkt hljóti að vera „trúboð að hálfu kirkjunnar“. Siðmennt hefur ávallt og ítrekað bent á að trúarbragðafræðsla ætti að vera sjálfsögð en trúboð ekki.

Að vísu má segja að kristinfræðikennsla sú sem tíðkast hefur í íslenskum grunnskólum til þessa sé lítt annað en ómengað trúboð því fyrstu árin í grunnskóla er það höfuðmarkmið að koma hugmyndum kristninnar inn í koll barnanna algjörlega gagnrýnislaust. Þetta er réttlætt með „kennslufræði“ klerksins og höfundar flestra kennslubóka í kristinfræði sem hann kallar „að láta kristnina tala fyrir sig“. Þegar gagnrýnislaust kennsluefni og jafnvel námskrá eru samin af presti eða starfsmönnum biskupsstofu geta menn ímyndað sér hver útkoman verður. Strax í fyrsta bekk læra börnin að guð hafi skapað heiminn á sex dögum, drekkt manni og mús nokkru síðar o.s.frv. En gagnrýni Siðmenntar hefur fyrst og fremst snúið að óviðeigandi trúboði presta í leikskólum, viðveru djákna og presta í grunnskólum og starfi kirkjunnar á skólatíma, svo sem messuferðum, fermingarfræðslu o.s.frv. Þá er ótalin allur sá óbeini áróður sem felst í því að börnunum eru kenndar bænir, trúarjátningar, sálmar, þau látin taka þátt í helgileikjum, enn koma Gídeon-menn í suma skóla til að afhenda Nýja-testamentið o.s.frv.

Menntasvið Reykjavíkur hefur mótað stefnu í samskiptum trúar- og lífsskoðunarhópa við skóla og í henni er lögð áhersla á að í skólum fer fram fræðsla um mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð en þar er ekki stunduð boðun trúar. Í engum tilfellum er skólastarfi og starfi trúar- og lífsskoðunarhópa blandað saman. Jafnframt skal forðast aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra.

Á jólum fékk ég gjöf frá 9 ára barni mínu sem það hafði búið til í skólanum þar sem stóð meðal annars að „drottinn sjálfur“ sendi son sinn á jólum „í líking manns“. „Brátt kemur gesturinn og allar þjóðir þurfa að sjá að það er frelsarinn.“ Þetta var föndur með teikningum og leirburði um aðventukertin. Hvert erindi byrjar á orðunum „Við kveikjum kertum á“. Þennan texta hefur barnið raunar áður komið með heim úr skólanum og marga álíka, t.d. „við höldum páska vegna þess að...“ og „guð gerði“ þetta og hitt.

Ekki fagna allir komu „frelsara“ á jólum. Barni sem elst ekki upp í kristni hlýtur að finnast undarlegt að vera ekki í þessum „við“ hópi. Er það annars flokks eða foreldrarnir? Og er það fræðsla eða boðun þegar „skólinn segir“ að allar þjóðir þurfi að sjá að „það er frelsarinn“? Vera má að Óli, Fjalar eða aðrir rumskuðu ef þeir læsu aftur og aftur af blöðum barna sinna úr skólanum: „Allah er mikill og Múhammeð spámaður hans.“

Börn eru viðkvæm og dropinn holar steininn. Eitt og eitt dæmi kann að virðast „meinlaus“ dropi í hafið en ef dropar eru látnir drjúpa aftur og aftur á enni sama mannsins eru það ekki smávægileg óþægindi heldur þekkt pyntingaraðferð.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. feb. 2010

Reynir Harðarson 23.02.2010
Flokkað undir: ( Gídeon , Skólinn )

Viðbrögð


Jóhann - 23/02/10 09:55 #

Sammála hverju einasta orði. Trúarbragðarfræðsla er að hinu góða, þetta er í raun og veru sama fag og saga. En kristinfræði er liðin tími. Afhverju má ekki kenna börnum jafnt um öll trúarbrögð svo þau geta valið sér eitt seinna meir eða bara alls ekki? Þau eiga að læra virðingu fyrir öllum trúarbrögðum og hinu guðlausu eða trúlausu. En mestu máli skiptir að hinir trúðu haldi trú sinni fyrir sig og þvingi henni ekki upp á aðra. Ef fólk er andlega leitandi þá á að hafa frelsi til að velja þá trú sem því hentar eða bara enga trú yfirhöfuð. Þetta er frelsi. Það var ótrúlegt að lesa guðlastarvefinn ykkar, að það eru ekki nema 13 ár síðan Spaugstofumenn voru teknir á teppið hjá biskup fyrir "guðlast". Hvað varð um tjáningarfrelsið?. Og Malt auglýsingin sem tekin var úr dagskrá vegna þrýstings frá kirkjunnar mönnum af því að það var úr passíusálmunum. Eru þessir menn steingeldir? Árið 1993 þegar þessi auglýsing var til umræðu, var við völd flokkur sem kennir sig við frelsi, þ.e. sjálfsstæðisflokkurinn. Afhverju varði hann ekki frelsið og sló á puttana á þessum kirkjunnar mönnum og lét þá ekki komast upp með svona frekju og yfirgang?. En jæja ég ætlaði ekki að skifa svona mikið. Passa mig næst :=)


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 10:21 #

Myndarleg grein Reynir. Vonandi lesa þetta sem flestir og koma með athugasemdir ef þeir eru ekki sammála.

Ég skrifaði fyrir tilviljun grein um sama efni rétt í þessu um málið.

Mína grein er að finna hér: Vangaveltur um trúboð í skólum


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 10:37 #

Sömuleiðis, Kristinn. Góð vísa og allt það.


Ívar Blöndahl - 23/02/10 13:56 #

Hvar má sjá þessa grein Óla Tynes sem þú vitnar í?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 14:14 #

Ívar, grein Óla birtist í Morgunblaðinu 14. jan. sl.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 14:14 #

Hún er einungis aðgengileg í gagnasafni Morgunblaðsins. Ætli sé ekki best að skella henni hingað fyrst greinin er til umfjöllunar.

Leyfið Kristi að koma í skólana
ÞEIR sem ekki eru kristinnar trúar eiga auðvitað að fá að rækta sína eigin trú eða trúleysi. Og ala börn sín upp í samræmi við það. Það styð ég heilshugar.

Ég er hinsvegar orðinn dálítið þreyttur á látlausum árásum samtakanna Siðmenntar á kristna kirkju fyrir að boða kristna trú í skólum. Siðmennt segir það vera mannréttindabrot. Það er náttúrlega út í hött.

Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er kristinnar trúar. Það er því bæði sjálfsagt og eðlilegt að kristin fræði séu kennd og/eða boðuð í skólum.

Það er auðvitað jafn sjálfsagt og eðlilegt að börn sem aðhyllast aðra trú eða enga þurfi ekki að sitja undir þessum messum. Það er auðvelt að komast hjá því með því einfaldlega að skilgreina skýrt hvað fellur undir kristin fræði. Þeir foreldrar sem ekki vilja slíkt þiggja geta þá undanþegið börn sín. Valgreinar eru orðnar algengar í skólum.

Sjálfsagt er að börn viðkomandi foreldra fái þá eitthvað annað við að vera. Til dæmis kennslu í öðrum trúarbrögðum eða lífsskoðunum. Varaformaður Siðmenntar sagði í grein í Mogganum á dögunum að hann „hafi heyrt“ að algengasta kvörtun foreldra í skólum sé vegna trúmála. Er það virkilega svo?

Hvað með þann margfalda meirihluta kristinna foreldra sem er sáttur og sæll með kristniboð í skólum? Hér þýðir ekkert að koma með tölur úr könnunum á viðhorfi manna til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Ég er til dæmis hlynntur formlegum aðskilnaði ríkis og kirkju. Ég vil hinsvegar að kirkjan starfi áfram í skólunum enda ekkert sem segir að það sé ekki hægt.

Við eigum auðvitað að taka tillit til minnihlutahópa og sýna þeim alla virðingu. Það er hinsvegar engin ástæða til að láta þá ráða.

Það virðist vera eitthvert tískufyrirbrigði að háværir minnihlutahópar berji meirihlutann til hlýðni í krafti slagorða eins og mannréttinda og jafnræðis. Það á að bera vott um eitthvert umburðarlyndi að lúffa.

Lúffa jafnvel þegar ekki hefur verið óskað eftir því. Kjánalegt dæmi um það er þegar skólastjóri í Reykjavík ákvað að taka svínakjöt af matseðlinum af því er hann taldi vera tillitssemi við börn múslima.

Ágætur kennimaður múslima sagði að það væri alger óþarfi. Ef múslimabörnum væri gefinn annar valkostur, svosem lambakjöt eða fiskur gerðu þau engar athugasemdir við mataræði sinna kristnu vina.

Trúlaust fólk á rétt á því að börnum þess séu ekki kennd kristin fræði. Það á engan rétt á að taka þá kennslu frá öðrum.

Höfundur er fréttamaður, kristinn faðir, afi og langafi.


Guðmundur Ingi Markússon - 23/02/10 21:14 #

Grein Óla ætti að ramma inn sem skólabókardæmi um hve vitlaus þessi umræða getur verið, og virðist endalaust ætla að vera. Hvað þarf eiginlega til þess að snúa þessu við? Það versta við þetta er að til eru lausnir sem allir ættu að geta sætt sig við.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 21:51 #

Já, grein Óla Tynes er skólabókardæmi um skilnings- og virðingarleysi kristinna fyrir öðrum mönnum.

Það BESTA við þetta er að til eru lausnir sem allir ættu að geta sætt sig við. Þær eru helst að virða mannréttindi, lög og reglur og tryggja fagmennsku í skólum.

Er ekki deginum ljósara hver stendur í vegi fyrir því að lausnin verði ofan á? Það eru sömu draugar og héldu aftur af eðlilegri þróun í Evrópu á myrkum miðöldum, börðist gegn réttindum þræla, kvenna og berjast enn gegn réttindum samkynhneigðra, og ætla sér að afvegaleiða líffræðikennslu víða um heim og koma í veg fyrir stofnfrumurannsóknir o.s.frv. o.s.frv., Kirkja og kristni.


Guðmundur Ingi Markússon - 23/02/10 22:03 #

Auðvitað er það það besta - átti bara við að það er sorglegt að berjast við þetta í ljósi þess að til eru augljósar lausnir.

Það hefur af einhverjum orsökum tekist að mála okkur sem viljum breytingar sem öfgafólk. Þarna liggur sjálfsagt líka undir landlæg andúð á yfirlýstum trúleysingju, sem því miður er einnig hér í okkar norræna velferðarríki.

Það er auðvitað deginum ljósara að forsvarsmenn kirkju og kennslu á kristnum fræðum hafa engan áhuga á breytingum, og vilja því ekki ræða málið.


Andrea Gunnarsdóttir - 24/02/10 01:21 #

Mér finnst það að maður sem titlaði sína eigin grein á visir.is um hryðjuverkaárás á leikskóla í Bagdad "Leikskólabörn sprengd í tætlur í Bagdad" skrifi einnig grein um að "leyfa Kristi að koma í skólanna" alveg viðbjóðslega fyndið.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?