Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Harmleikur í Borgarfirði

stafholtskirkja
Stafholtskirkja í Stafholtsprestakalli.

Launþeginn Elínborg Sturludóttir er ósköp venjulegur Íslendingur. Hún er gift, á börn og er með vinnu. Vinnan er þó láglaunastarf1 og því ekki mikið aflögu, en Elínborg hafði treyst á það að með starfinu, sem hún tók við í fyrra, fylgdi einbýlishús. Vegna viðhaldsleysis og fjárskorts í kjölfar kreppunnar gat Elínborg þó ekki flutt inn í húsið, heldur neyddist vinnuveitandinn til að leigja íbúð fyrir hana2 - og það í Borgarnesi, sem er í margra mínútna akstursfjarlægð frá vinnustaðnum.

Svona er ólíðandi á Íslandi. Hvers á vesalings konan að gjalda? Hún lagði á sig langt og strangt háskólanám, hefur (að því við best vitum) alltaf greitt sína skatta, en neyðist þrátt fyrir það til að hírast í íbúð. Íbúð! Þetta er ekki mönnum bjóðandi, hvað þá prestum.

Já, Elínborg er nefnilega prestur, nánar tiltekið sóknarprestur í Stafholtsprestakalli, en Stafholt er staðsett u.þ.b. 25 km frá Borgarnesi.3

Sóknarbörnunum finnst skiljanlega ómögulegt að Elínborg sé svona langt í burtu - hvað ef halda þarf neyðarmessu? - og hafa því skorað á yfirmann hennar, Hr. Karl Sigurbjörnsson, að kippa málunum í lag. Undirskriftalista þess efnis var skilað til biskups í dag. Eins og einn aðstandandi listans sagði:

"Þetta var áfall fyrir Elínborgu og fjölskyldu hennar og heyrðist að hún væri farin að sjá eftir því að hafa sótt um þetta brauð." #

Við í Vantrú vonum að þessi mikli vandi Elínborgar leysist skjótt, enda ekki hægt að láta það berast út að Íslendingar séu svo harðbrjósta að láta sína minnstu bræður húka í íbúðarkytru í Borgarnesi þegar möguleiki er á að þjóðin öll komi saman og splæsi í veglegan bústað til handa þessum boðbera fagnaðarerindisins. Á svona stundum hefðum við gott af því að spyrja okkur einnar spurningar: hvað myndi Jesús gera?

1 Miðað við bankastjóra og biskupa, a.m.k.
2 Ég hringdi niður á Biskupsstofu og fékk það staðfest af gjaldkera að kirkjan pikki upp reikninginn.
3 Sirkabát?

Mynd af Stafholtskirkju fengin hjá wikimedia.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja 09.02.2010
Flokkað undir: ( Grín )

Viðbrögð


Kristinn - 09/02/10 18:01 #

Ég táraðist yfir þessum harmleik. Spenni ég nú greipar og bið heitt og innilega fyrir bættum hag þessarar ólukkulegu konu.


SS - 09/02/10 18:36 #

svo er nú önnur saga hvernig hún fékk embætti og vígslu, þökk sé pabba...


Andre - 09/02/10 18:40 #

Þetta er ekki einu sinni fyndið, þetta er bara grátlegt.


Jóhannes Proppé - 09/02/10 18:43 #

Hvað ætli ég þurfi mörg nöfn á lista til Reyjavíkurborgar til að redda mér íbúð í miðbænum?


Svanur Sigurbjörnsson - 10/02/10 00:17 #

Er brauðið þá myglað? Jesú boðaði lærisveinum sínum að skilja eftir eigur sínar og fjölskyldur og fylgja honum. Það er ekki minnst á "brauð" í þeim orðum, hvað þá einbýlishús. Læknar fá víða afnot af húsnæði í afskekktum héruðum, enda þarf gulrót til að lokka þá úr höfuðborginni. Það virðist þurfa svipaða gulrót til að lokka presta til að messa og jarða úti á landi.


Trausti Freyr (meðlimur í Vantrú) - 10/02/10 01:31 #

Ætli jesú hefði mikið kvartað? Eða bjó hann í villum?

En þetta eru auðvitað hræðilegar fréttir. Manneskja með hálfa milljón á mánuði á ekki að þurfa að búa í íbúð.


gudjon - 10/02/10 09:41 #

hvada grin er i gangi? ad búa 25 km frá vinnu út á landsbyggðinni legst út á hálftíma akstur, sem er sennilega aðeins skárra en að keyra úr grafarvogi niiður í miðbæ á háannatíma. Og jú íbúðin sem er jú á kostnað minn og þinn er allavega frítt þak yfir höfuðið á blessaðri konunni, það er gott betur en mér stendur til boða allavega.

aumingja ég segi ég nú bara.


Erla - 10/02/10 13:28 #

Þetta er nú varla það mikil íbúð... http://fasteignir.visir.is/fasteignir/eign/119176/


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 10/02/10 13:34 #

Hva, þetta nær ekki einu sinni 200fm ...

Alveg skammarlegt að fólk þurfi að búa við þessi skilyrði á Íslandi í dag!


Tinna G. Gígja (meðlimur í Vantrú) - 10/02/10 13:44 #

200? Íbúðin sjálf nær ekki einu sinni 150 fermetrum!

Þetta er verra en ég hélt.


ArnarÞ - 10/02/10 13:44 #

einbýlishús /pallahús, ásamt innbyggðum bílskúr, byggt 1962. Íbúðin er 147,8 ferm. og bílskúr 43,1 ferm.

Ha? Er þetta of lítið pláss fyrir hana?

Svefnherbergi:4

Hvað er konan með stóra fjölskyldu?


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 10/02/10 15:09 #

Er þetta of lítið pláss fyrir hana?

Hún er nú prestur!!

Það er ekki hægt að ætlast til þess að meðlimur í mestu forréttindaelítu landsins búi í íbúð eins og sauðsvartur almúginn, ósnertur af heilögum anda!


Skúli - 10/02/10 16:49 #

Af hverju er vantrú að skipta sér af málefnum kirkjunar, Elínborg sinnir sínu starfi vel og er vinnsæl meðal sinna sóknarbarna hún er ef eithvað er föðurbetrungur og fullverðug þess að sitja sem prestur í Stafholti. Þeir sem setja út á húsnæðismál presta þurfa að byrja á því að þekkja söguna.


Helgi Þór - 10/02/10 17:05 #

Skúli: Hvað kemur sagan þessu við og að hún sé að sinna sínu starfi vel? Er ríkiskirkjan hafin yfir gagnrýni?


neitakk - 10/02/10 17:05 #

Á þetta að vera eitthvað sjúkt grín? Eða eruð þið bara ógeðsleg hræsnaragerpi?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/02/10 17:06 #

Af hverju er vantrú að skipta sér af málefnum kirkjunar,

Vegna þess að þetta er ríkiskirkja.

Þeir sem setja út á húsnæðismál presta þurfa að byrja á því að þekkja söguna.

Það er rétt.

Vissir þú að presti stóð til boða að búa í prestbústaðnum eins og hún samdi um en svo reyndist hann ekki uppfylla kröfur hennar og hún vildi betra hús! Gamli prestsbústaðurinn ku vera ágætis hús þó það sé frekar gamalt.

Pétur (neitakk), þetta er vissulega grín en mér finnst það ekkert sérlega sjúkt.


Birgir Hrafn Sigurðsson - 10/02/10 18:18 #

"Af hverju er vantrú að skipta sér af málefnum kirkjunar"

Vegna þess að við þurfum að borga laun kirkjunnar manna.


ÁsaBjörk - 10/02/10 20:49 #

ein pæling... er þetta grín ?


Brynjólfur - 10/02/10 21:02 #

Prestbústaðurinn í Stafholti sem þið talið um sem ágætisíbúð var dæmd óíbúðarhæf af heilbrigðisfulltrúa eftir að búið var að ráða í stöðu sóknarprests. þegar prestakallið var auglýst laust til umsóknar var því lýst yfir að það ætti að byggja nítt hús, útfrá því gengu allir umsækjendur. Elínborg samdi EKKI um að flytja í óíbúðarhæft húsnæði, hún sótti um starf sóknarprests eins og fleiri og reiknaði með því að staðið yrði við yfirlýsingar opinberra aðila um að það yrði byggt nýtt hús í Stafholti.


ArnarÞ - 10/02/10 22:15 #

"Elínborg samdi EKKI um að flytja í óíbúðarhæft húsnæði, hún sótti um starf sóknarprests eins og fleiri og reiknaði með því að staðið yrði við yfirlýsingar opinberra aðila"

Enda er hún ekki í óíbúðarhæfu húsnæði. Hún er í fullkomlega fínu 143fm eibílíshúsi,

Herbergi:5 Svefnherbergi:4 Baðherbergi:2 Stofur:1

Er þetta óíbúðarhæft? Það er kreppa. Ríkið getur ekki spannað út einhverjum tugum milljóna fyrir óþarfa prestbústað. Hér eru myndir af þessu "óíbúðarhæfa" einbílishúsi

http://fasteignir.visir.is/fasteignir/eign/119176/myndir/

Og eitt en það getur ekki hafa verið í samningi hennar ef að hún var þegar ráðinn í starfið. Þar sem eins og þú segir

"Prestbústaðurinn í Stafholti sem þið talið um sem ágætisíbúð var dæmd óíbúðarhæf af heilbrigðisfulltrúa EFTIR að búið var að ráða í stöðu sóknarprests."

Þannig að ég skil ekki alveg hver vandinn er. Hún er í flottu húsi(frítt), 20-30mín akstur í vinnuna.

Hver er vandinn Brynjólfur?


gimbi - 10/02/10 23:17 #

...er ekki tilvalið að Birgir og Hjalti taki svona "innanfrá" viðtal við klerkinn?


Brynjólfur - 10/02/10 23:36 #

Þegar opinberir aðilar auglýsa starf eins og sóknarprests og setja þá kröfu að viðkomandi flytji á staðinn, lofa nothæfu húsnæði. þá hlýtur að vera reiknað með því að staðið sé við það. það er rétt að íbúðarhúsið í Borgarnesi er íbúðarhæft, þarf kannski að klæða sig vel þegar er kalt, sem betur fer hefur tíð verið góð. Elínborg greiðir væntanlega sína leigu af Stafholti, þar sem hún getur ekki búið,kannski ætlast einhverjir til þess að hún greiði líka leigu af íbúð í Borgarnesi.


gimbi - 10/02/10 23:43 #

Alveg er það makalaust að þessi vettvangur, ca. 120 meðlima, þykist ekki einasta geta sagt fyrir um hvað megi teljast tilhlýðilegt fyrir klerka á landsbyggðinni, heldur leitast hann við að eiga vinalegar samræður við aðra klerka.

Er það ekki mismunun?


Tinna G. Gígja (meðlimur í Vantrú) - 10/02/10 23:46 #

Þurfa prestarnir nú að leigja prestsbústaðina? Ég dreg það stórlega í efa að Elínborg þurfi að borga leigu af Stafholti, en ef þú hefur gögn um annað væri gaman að sjá þau.

"það er rétt að íbúðarhúsið í Borgarnesi er íbúðarhæft, þarf kannski að klæða sig vel þegar er kalt, sem betur fer hefur tíð verið góð."

Er húsið ekki upphitað?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/02/10 01:52 #

Alveg er það makalaust að þessi vettvangur, ca. 120 meðlima, þykist ekki einasta geta sagt fyrir um hvað megi teljast tilhlýðilegt fyrir klerka á landsbyggðinni,

Hér talar hver á eigin forsendum. Ertu að segja að enginn megi opna á sér munninn í þessu samfélagi öðru vísi en hafa á bak við sig lágmarksfjölda meðmælenda?


Örninn - 11/02/10 07:10 #

Góður punktur Birgir. Ég er einn af þeim sem er í raun í Vantrú þó ég sé ekki skráður félagsmaður og ég get fullvissað ykkur öll um að ég er fjarri því sá eini. Allt tal um 120 manneskjur er því fjarstæða. Annars legg ég til að Kalli biskup og félagar taki sig saman í andlitinu og láti reisa höll handa konunni því þetta er auðvitað ekki boðlegt. Efnið skal helst vera úr marmara.


Óttar G.B. - 11/02/10 09:13 #

Gimbi: Það eru u.þ.b. 500 aðdáendur Vantrú.is á facebook. http://www.facebook.com/pages/Vantru/42991914947?ref=ts

Til samanburðar eru 690 Votta Jehóvar á Íslandi (þar með talin börn), 404 Baháí-ar (þar með talin börn) og 11 í heimakirkjunni.

Og já: Það eru rúmlega 10.000 Íslendingar skráður utan trúfélaga.

http://www.hagstofa.is/?PageID=632&src=/temp/Dialog/varval.asp?ma=MAN10001%26ti=Mannfj%F6ldi+eftir+tr%FAf%E9l%F6gum+1990%2D2009+++%26path=../Database/mannfjoldi/Trufelog/%26lang=3%26units=Fj%F6ldi


ArnarÞ - 11/02/10 17:04 #

"Þegar opinberir aðilar auglýsa starf eins og sóknarprests og setja þá kröfu að viðkomandi flytji á staðinn, lofa nothæfu húsnæði. þá hlýtur að vera reiknað með því að staðið sé við það. það er rétt að íbúðarhúsið í Borgarnesi er íbúðarhæft"

Flott mál. Við erum þá sammála. Hún ætti ekki að heimta að bygður sé nýr prestaskáli þar sem það mundi kosta tugi milljóna. Og það er kreppa, og hún er í góðu húsnæði sem hlítur nú eins og Tinna segir að vera upphita. 20-30 mín í vinnu mundi ég nú segja á staðnum. Ef hún á börn hlítur að vera þægilegra að búa í borgarfyrði. Og segðu mér hvers vegna vantar henni þennan prestaskála nær kirkjunni? Er eins og í greininni er sagt stundum nauðsind að halda neiðarmessur?


Arnar Pálsson - 12/02/10 16:04 #

Stórkostleg satíra. Hræðileg frekja. Sorgleg kirkja. Sofandi þjóð.


Ronnzo - 16/02/10 15:29 #

þetta er stórkostlega lollað atvik ég kenni í brjósti með þessum vanvitum sem vilja ekki gefa henni a.m.k upphitaða íbúð..bara algjört bull. og til að láta aðra vita þá hef ég ekki hugmynd um hvað þetta snýst!


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 16/02/10 15:40 #

til að láta aðra vita þá hef ég ekki hugmynd um hvað þetta snýst!

Nei, það er greinilegt ...


Helgi - 16/02/10 15:50 #

Það er enginn að fara að segja mér að við séum ekki umburðarlynd þjóð, það er víst.

Af hverju býður hún samt ekki bara hinn vangann og byggir örk?


Birna - 17/02/10 03:45 #

Heil og sæl öll! Það er nokkuð athyglisverð umræða sem hér hefur átt sér stað en í henni gætir nokkurs misskilnings. Áður en lengra er haldið vil ég nefna það sem hér stendur neðst á síðunni að fólk eigi að sleppa öllum ærumeiðingum, það þarf að vera svo í allri umræðu.

Til að byrja með þá snýst þetta mál alls ekki um sr. Elínborgu Sturludóttur heldur bústað sóknarprests í Stafholtsprestakalli, hver sem presturinn er. Núverandi prestur gerði engar kröfur um farið yrði af stað með undirskriftir, og vissi ekkert af því fyrr en eftir á, það kom alfarið frá sóknarbörnum í prestakallinu. Það sem vitnað er í hér að ofan er haft eftir talsmanni undirskriftasöfnunarinnar.

Svo er það varðandi prestssetur úti á landi. Svo ég taki dæmið sem hér hefur verið til umræðu þá er Stafholt jörð í Borgarfirði. Þar hefur verið kirkja síðan ja líklega um 1100. Þar hefur einnig búið prestur. Sóknarbörnin vilja hafa það þannig áfram. Prestar á landsbyggðinni greiða leigu fyrir jörðina sem þeir búa á, það er líka svo í Stafholti. Upplýsingar um þetta má líklega finna inn á kirkja.is Þeir peningar renna væntanlega til kirkjumálastjóðs, án þess að ég viti það alveg. Núverandi íbúðarhús í Stafholti var byggt árið 1930. Það er ónýtt. Það er allt myglað á neðri hæðinni, heilsuspillandi og því varð presturinn að flytja út. Það hús sem hann býr í núna er einnig barn síns tíma og kannski ekkert sérstaklega vel byggt. Því er oft kalt þar, þótt ekkert sé að kyndingunni.

Jörðin Stafholt nýtur hlunninda vegna staðsetningar sinnar. Hún fær tekjur af laxveiðiám. Þessar tekjur renna að hluta í kirkjumálasjóð. Það sem sóknarbörnin voru að biðja um var að tekjurnar sem jörðin aflar sjálf rynnu í að byggja nýtt íbúðarhús á staðnum í stað þess að vera notaðar á öðrum stöðum. Það var ekkert verið að biðja um peninga til framkvæmda sem aðrir afla eða úr einhverjum sameiginlegum sjóðum. Svona er málið vaxið. Ég vona að þetta skýri eitthvað.

Með góðum kveðjum úr Borgarfirðinum


ArnarÞ - 17/02/10 09:46 #

Jamm þannig er nú það. Vonandi breita vantrúarmenn þá þessu. Annars breitir þetta ekki staðreindinni að það er kreppa, og ef beðið væri með þessa biggingu í svona 3-4 ár þá mundi það kosta mun minna. Að byggja hús er ekkert easy verk. Það kostar mikinn pening(nema hún kannski vilji búa í sumarbústað) að byggja. Hún er í íbúðarvænu húsi, og getur ekki verið að hún borgi leigu af hinum bústaðnum á meðan. Þessi sóknarbörn hennar ættu kannski aðeins að fara að hugsa sig um?

Annars er eitt sem ég var að pæla. Hversu stóra fjölskyldu er konan með.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 17/02/10 09:59 #

Ekki varð annað ráðið af fréttaflutningi um málið en að það snerist einmitt um núverandi prest og þá hneisu að hún skyldi þurfa að búa í leiguhúsnæði í Borgarnesi.

Það er auðvitað allt annað mál að láta tekjur kirkjujarðarinnar standa undir byggingu prestsbústaðar á jörðinni, og sjálfsagt mál að mínu viti.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 17/02/10 14:25 #

Birna. Hafa skal það sem réttara reynist og ef þinn skilningur á málinu er réttari en umfjöllunin á mbl (sem ég tel mjööög líklegt:) þá lítur málið aðeins öðruvísi við.

Til að byrja með þá snýst þetta mál alls ekki um sr. Elínborgu Sturludóttur heldur bústað sóknarprests í Stafholtsprestakalli, hver sem presturinn er

Sammála, þetta er ekkert persónulegt út í þennan prest.

Núverandi prestur gerði engar kröfur um farið yrði af stað með undirskriftir, og vissi ekkert af því fyrr en eftir á

Enda er hvergi ýjað að því í greininni.

Það sem sóknarbörnin voru að biðja um var að tekjurnar sem jörðin aflar sjálf rynnu í að byggja nýtt íbúðarhús á staðnum í stað þess að vera notaðar á öðrum stöðum. Það var ekkert verið að biðja um peninga til framkvæmda sem aðrir afla eða úr einhverjum sameiginlegum sjóðum

Þetta kom nefninlega ekki fram í umfjöllun mbl og gerir undirskriftalistann skiljanlegri. Ef þetta hefði fylgt umfjölluninni þá hefði þessi grein væntanlega aldrei verið skrifuð.

En ef ég má aðeins kryfja þetta mál betur þá kemur það í raun í sama stað niður hvort sem sóknin bæði um aukafjárveitingu eða fengi tekjuarnar af ánni beinnt. Því eitthvert fara þessar tekjur í dag og ef þær yrðu teknar þaðan í burtu þá þyrftu þeir staðir að fá auka fjárveitinu. Ekki satt?

Baldvin:

Ekki varð annað ráðið af fréttaflutningi um málið en að það snerist einmitt um núverandi prest

Ef ég skil Birnu rétt, þá er hún að tala um að þetta er ekkert persónulegt út í Elínborgu. Greinin hefði verið skrifuð sama hvaða prestur ætti þar í hlut.


SS - 18/02/10 14:02 #

Vanþakklátu frekjudósir, er það mikill harmleikur að þurfa að keyra í hálftíma til vinnu, þetta er það súrasta sem ég hef lesið lengi. Góð laun og frí íbúið, hún er enginn helvítis láglauna manneskja, bara vanþakklát frekjudós.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 18/02/10 14:47 #

Vanþakklátu frekjudósir, er það mikill harmleikur að þurfa að keyra í hálftíma til vinnu, þetta er það súrasta sem ég hef lesið lengi. Góð laun og frí íbúið, hún er enginn helvítis láglauna manneskja, bara vanþakklát frekjudós.

Ef þú lest fyrri innleg mín SS, þá sérðu að ég get ekki tekið alveg undir þessa skoðun þína.

Við skulum heldur ekki gera henni upp skapgerðarbresti þar sem hún stóð ekki fyrir undirskriftalistanum.


nafnlaus - 25/02/10 22:39 #

á þetta að vera djók ? , mér finnst bara ekkert af því að þurfa að keyra í 30 min í vinnuna fyrir 500 þús kall á mánuði , það er fullt að fólki sem keyrir svo langt og jafnvel lengra fyrir 150 þús kall á mánuði og þau er ekki með frítt húsnæði


Jon Steinar - 11/04/10 17:51 #

Kirkjan getur byggt 300fm villu fyrir 1% af ársbudgeti sínu. Eru þeir að efna til söfnunar meðal vandalausra til að fjármagna þetta? Skil ég það rétt?


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 11/04/10 18:50 #

Nei mér skilst að söfnuðurinn hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að safna handa prestinum því þau voru búin að heyra að presturinn sæi eftir að hafa tekið við svona skítabrauði.

Eða svipað drama.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.