Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Miðborgartrúboði Reykjavíkurborgar

Séra Þorvaldur Víðisson
Séra Þorvaldur Víðisson miðborgartrúboði

Vísir segir frá því að Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi VG í borgarráði, hafi lagt til á fundi borgarráðs í síðustu viku að borgin hætti að greiða helming launa miðborgarprests.

Þorleifur telur ekki réttlætanlegt að borgin greiði 4,6 milljónir á ári fyrir hálft starf miðborgarprests á sama tíma og skera þarf niður hjá borginni. Hann telur að þeir peningar sem ríkiskirkjan fær frá skattgreiðendum á ári ættu að duga fyrir "meintri þörf á sálgæslu á svæðinu".

Tillaga Þorleifs var ekki samþykkt þar sem fulltrúar Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins greiddu atkvæði gegn henni.

Í fundargerð er hægt að lesa bókun VG.

Mikill niðurskurður í fjárhagsáætlun Reykjavíkur annað árið í röð setur mark sitt á nauðsynlega grunnþjónustu borgarinnar. Við þessar aðstæður er það ekki verjandi að leggja 4,6 milljónir í starf miðborgarprests. Í og við miðborgina er fjöldi presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar sem þiggja laun sín af skattpeningum borgarbúa en það fjármagn ætti að duga fyrir meintri þörf á sálgæslu á svæðinu. Af hálfu borgarinnar er öðrum þáttum í starfi miðborgarprests sinnt og má þar nefna starf Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, íþrótta- og tómstundasvið og velferðarsvið.

Hver er tilgangur Miðborgarprests?

Það hefur oft vakið furðu okkar hér á Vantrú hvað borgin hefur sett mikið fé í ríkiskirkjuna og félög henni tengdri. Þannig hefur borgin styrkt sumarbúðir ríkiskirkjunnar um milljónatugi og KFUM/K hafa einnig fengið verulega styrki frá borgarbúum. Duga milljarðarnir frá skattgreiðendum virkilega ekki?

Hver er eiginlega tilgangurinn með embætti Miðborgarprests sem séra Þorvaldur Víðisson gegnir um þessar mundir? Við Austurvöll er kirkja þar sem starfa tveir prestar í fullu starfi og tveir æskulýðsfulltrúar, þar á meðal Þorvaldur miðborgarprestur sennilega í hálfu starfi þegar hann er ekki að boða kristni í miðbænum utan Dómkirkju. Að auki hafa tveir prestar á biskupsstofu sérstakar skyldur við Dómkirkjuna. Ekki er langt að rölta frá Austurvelli að Hallgrímskirkju þar sem starfa tveir prestar til viðbótar auk fleiri starfsmanna. Allt er þetta í boði skattgreiðenda og ætti að duga til að sinna þörfum trúmanna sem vafra um miðbæinn.

Markmið miðborgarprests er meðal annars að kristna ungt fólk og það gerir hann í boði Reykjavíkurborgar. Sem útsvarsgreiðandi í borginni mótmæli ég þessu harðlega.

Forveri Þorvaldar vafraði stundum um miðbæinn um helgar og ræddi við ölvuð ungmenni. Sumum ungmennum þótti gaman að grínast í presti og ekki vil ég útiloka að einhverjum hafi séra Jóna Hrönn hjálpað í ölvímu. Mér finnst frekar vafasamt að iðka trúboð meðal fólks í áfengisvímu og veit ekki hvort séra Þorvaldur hefur stundað það.

Séra Þorvald hef ég tvisvar séð undanfarin ár. Fyrra skiptið var þegar ég mætti á bænagönguna árið 2007. Þegar ég rölti í miðbæinn prédikaði Þorvaldur yfir lýðnum um að auka þyrfti kristnifræðikennslu í skólum. Á eftir honum flutti ungur maður ræðu um að sparka þyrfti djöflinum frá Íslandi. Mér þótti þetta furðuleg samkoma sem Þorvaldur tók þátt í þá.

Seinna skiptið mættum við tveir í MR og ræddum um trú og skóla. Það var svo sem ekki eftirminnilegt fyrir utan það að Þorvaldur gerði engan greinarmun á trú og trausti - virtist telja það boðlegan málflutning að líkja saman trú sinni á Gvuð og trausti nemenda til kennara.

Hættum að mismuna

Þarf ég virkilega að greiða Þorvaldi, og þeim sem tekur við starfinu þegar Þorvaldur fær almennilegt brauð, laun gegnum gjöld mín til Reykjavíkurborgar? Fyrir þessar 4,6 milljónir sem presturinn fær á ári frá borginni fyrir hálft starf er eflaust hægt að greiða öðru fólki fyrir að gera eitthvað gagnlegt í fullri vinnu.

Er ekki tímabært að Reykjavíkurborg hætti að mismuna borgarbúum eftir trúarskoðunum?

Matthías Ásgeirsson 02.02.2010
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 02/02/10 12:20 #

Miðborgartrúboðinn ullar bara á okkur.

Tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna felld með 6 atkvæðum gegn 1. Samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1 að styrkja verkefnið áfram með þeim hætti sem fram kemur í erindinu, kostnaður færist af liðnum ófyrirséð útgjöld.

Var þetta svo ófyrirsjáanlegt?


Sigurlaug - 02/02/10 13:24 #

Og þetta á sama tíma og velferðarþjónusta er skorin niður, ekki bara í borginni, heldur allsstaðar. Forkastanlegt..


Valdís - 02/02/10 13:40 #

Það mætti t.d. kaupa þrautreyndan grunnskólakennara í fullt starf og eiga afgang, nú eða tæplega tvo byrjendur.


Sverrir - 02/02/10 14:19 #

Rétt að nöfn fundarmanna fylgi með svo lesendur sjái hverjir vilja styðja þetta trúboð:

„Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson.“


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/10 14:48 #

Takk fyrir Sverrir, þetta á að sjálfsögðu að fylgja með.


Líf - 02/02/10 14:56 #

Já - þetta er bara algert rugl. Borg og ríki eiga að vera óháð trúarbrögðum - hvers kyns sem þau eru. Sveitarfélög eiga ekki að taka þátt í að borga laun presta. Og ef út í það er farið þá á auðvitað ríkið ekki að gera það heldur.


Orri - 02/02/10 20:02 #

hvernig væri bara að nýta þetta til að fá einhvern menntaðann félags- eða sálfræðing til að sinna þessaðri meinntri "sálgæslu"


Örninn - 03/02/10 08:29 #

Þetta er æðislegt í raun. Því það er árið 2010 en ekki 1610. Hver ætli séu rökin fyrir svona bulli? Ég er sáttur við VG að standa vörð um þetta sem og fleiri mál er varða þessa ríkiskirkju. En segið mér eitt sem ég hef stundum velt fyrir mér (ef þið vilduð vera svo vænir). - Hvers vegna er svona mikil tenging milli hægri manna og kristninnar trúar?


Birgir Hrafn Sigurðsson - 03/02/10 08:45 #

Þegar ég les greinina á Visi þá finnst mér eins og hann sé með 4,6 á ári en ÞG vill lækka það niður í 2,3. Er ég bara að rugla ?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/02/10 08:48 #

Ef þú skoðar fundargerðina sérðu að þetta snýst um að borgin greiði 4,6 milljónir fyrir hálft stöðugildi miðborgarprests.

14. Lagt fram bréf formanns sóknarnefndar og sóknarprests Dómkirkjunnar frá 15. f.m. þar sem óskað er eftir því að Reykjavíkurborg greiði áfram helming launa miðborgarprests á árinu 2010, eða 4,6 m.kr. R08090085


Soffía - 03/02/10 11:14 #

Góðar pælingar. Það þarf að nota peningana í eitthvað annað á þessum síðustu og verstu. Annað: Getur einhver hérna sagt mér hvort ég geti ekki hafnað því að barninu mínu sé kennd kristinfræði í grunnskóla? Ég er mjög ósátt við það dulda og ekki svo dulda trúboð eftir að hafa lesið kennslubók sonarins.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 03/02/10 11:55 #

Soffía, undanþága er flóknara mál en sýnist í fyrstu en þú getur þó lesið þetta.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/02/10 12:48 #

Hvers vegna er svona mikil tenging milli hægri manna og kristninnar trúar?

Þetta er út fyrir efnið, en það er a.m.k. ein grein hér á Vantrú þar sem þessu er velt upp.


baddi (meðlimur í Vantrú) - 03/02/10 18:05 #

Hann Þorleifur er komin í álit hjá mér, fyrst þetta með sumarbústaðinn og nú þetta. Synd að aðrir í borgarstjórn eru ekki eins þenkjandi


Örninn - 04/02/10 09:59 #

Þakka Birgi vísunina. En nei, mér finnst þetta ekki út fyrir efnið þar sem taldir voru hér upp hægri menn er vilja hafa óbreytt ástand.


Sigmar - 03/06/10 12:08 #

Nú er tækifæri til að reyna að hafa áhrif á málið.

Vona að með nýju fólki komi ný hugsun.

www.betrireykjavik.is

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.