Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ágústínusarverðlaun Vantrúar 2008

Eftir að hafa legið yfir tilnefningum daga og nætur hefur dómnefnd Ágústínusarverðlaunanna loks valið tíu tilvitnanir sem keppa um hin eftirsóttu Ágústínusarverðlaun. Í ár verður hins vegar tekin upp sú nýbreytni að lesendur Vantrúar fá að kjósa á milli þessara tíu fleygu tilvitnana.

Hér eru tilnefningarnar í stafrófsröð hinna tilnefndu. Gefið tilvitnunum eina til fimm stjörnur eftir því hvort þau verðskuldi Ágústínusarverðlaun. Fjöldi stjarna á að vera í beinu samhengi við gæði tilvitnanna, bestu tilvitnarnir verðskulda fimm stjörnur, þær verstu eina. Munið að hér er öllu snúið á haus og sigurvegarinn, sá sem flestar stjörnur mun hljóta, er sú tilvitnun sem ögrar mannlegri skynsemi mest - þau orð sem einungis þrautþjálfur ríkiskirkjufræðingur gæti látið út úr sér að vandlega íhuguðu máli.

Athugið að gefa þarf öllum tilvitnunum stjörnu til að atkvæðið telji. Veljið að lokum Senda neðst á síðunni til að koma atkvæðum ykkar til skila.

Kosningu í Ágústínusarverðlaununum 2008 er lokið. Niðurstöður verða tilkynntar á morgun. Takk fyrir að hjálpa til.

  1. Bjarni Karlsson og Jóna Hrönn Bolladóttir, ríkiskirkjuprestar

    Þarna bregður fyrir óvæntum fleti á daglega lífið. Hvað er jú hægt að gera þegar maður hefur ekkert að gera? Ennfremur má segja um Ágústínusartillögu Bjarna og Jónu að lestur biblíunnar sé neðarlega í forgangsröð hins daglega amsturs. Járnaldarfabúlasjónir um ósýnilegar verur á himni passa kannski ekki beint inn í daglegt líf flestra, en what the hell.

    Hér erum við hópur fullorðins fólks á sunnudegi að hlusta á Biblíusögur. Hvers vegna notum við tíma okkar til þess að lesa Biblíusögur hvert fyrir annað? Höfum við ekkert þarfara við tímann að gera? #




  2. Davíð Þór Jónsson, guðfræðinemi

    Það má segja að á síðastliðið ár hafi einkennst af gífurlegri stórsókn í trúvörn kirkjunnar manna, í stórkostlegum Bakþanka bendir Davíð Þór á að boðskapurinn um helvítiselda sé í raun og veru afar fagur.

    Hitt sem er fallegt við þessa speki er að engum er áskapað að vera kastað í eld. #



  3. Gísli Jónasson, ríkiskirkjuprestur

    Ummæli Gísla Jónassonar ríkiskirkjuprests komast í úrslit Ágústínusarverðlauna Vantrúar vegna þess að í þeim kristallast hinn óumflýjanlegi árekstur trúar og skynsemi. Gísli segir beint út að skynsemi ætti að víkja þegar þessi svið skarast. -Og beitir fyrir sig skynsemi, eða hvað?

    Að trúa á Guð er að treysta Guði, án skilyrða. Að trúa á Guð er að taka hann á orðinu og hlýðnast honum, þrátt fyrir allt. Jafnvel þótt „skynsemi“ okkar, svo kölluð, kunni á stundum að mögla. #



  4. Guðbjörg Arnardóttir, ríkiskirkjuprestur

    Umræða um sókn ríkiskirkjunnar inn í leikskóla var áberandi á síðasta ári og því miður náðu þessi ummæli eins ríkiskirkjuprests ekki að vekja mikla athygli:

    Mér finnast það til dæmis forréttindi sem prestur að mega heimsækja leikskólann einu sinni í viku; þar sem ég er með kristnifræðslu, kenni börnunum bænir og við syngjum trúarlega söngva. Þetta er almennur siðaboðskapur sem allir hafa gott af að kynnast. Þessar stundir í leikskólanum eru afar dýrmætar. Þarna fæ ég tækifæri til að kynnast nánast öllum þeim sóknarbörnum mínum sem eru á leikskólaaldri og skapa traust þeirra til kirkjunnar sem þau geta treyst í gleði og sorg. [í auglýsingablaði með Mogganum 21.02.2008]



  5. Guðni Ágústsson, fyrrverandi Alþingismaður

    Þegar Guðni Ágústsson lét þessi orð falla í þingræðu um breytingar á grunnskólalögum, setti menn hljóða því sjaldan eða aldrei hafði slík speki hrokkið frá vörum Guðna Ágústssonar nema kannski þau sem hann hafði um stöðu konunnar back in the day. (Staða konunnar á að vera **bak** við eldavélina). Nokkuð var fjallað um orð Guðna meðal þeirra sem trúa ekki á að ósýnileg vera upp í himninum hafi nokkuð að gera með siðferði Homo Sapiens. Guðni reyndi síðar að breyta þessum orðum sínum í alþingistíðindum og fékk skammir fyrir úr öllum áttum.

    Það er ekki til neitt siðgæði í rauninni nema kristið siðgæði. [Á Alþingi 22.05.2008]



  6. Karl Sigurbjörnsson, æðsti biskup ríkiskirkjunnar

    Það er undarlegt að maður sem berst „hatrammlega“ gegn réttindum samkynhneigðra og segir guðleysi vera mannskemmandi og sálardeyðandi skuli nefna „Kristsfælni“ þegar hann nefnir dæmi um „orðræðu haturs of hleypidóma“.

    Já, og hvert sem litið er, í gömlu Evrópu, og fyrir botni Miðjarðarhafsins, í Írak, já og víða um heim virðist orðræða haturs og hleypidóma eiga aukinn hljómgrunn. Við þurfum reyndar ekki að skyggnast langt um sviðið til að koma auga á vaxandi tortryggni gegn útlendingum, kynþáttafordóma, Íslamófóbíu, Gyðingahatur, Kristsfælni. Svo verða ýmsir til að fullyrða að trúin sé sökudólgurinn, trúarbrögðin séu það afl sem einatt blási að glæðum haturs og hleypidóma og skuli því rutt út úr upplýstu og menntuðu samfélagi. #



  7. Magnús Erlingsson, ríkiskirkjuprestur

    Í pistli sínum *Apartheid eilíðarinnar* kvartar Magnús Erlingsson undan því að sumt fólk sé svo dónalegt að vilja ekki láta grafa sig í vígðum reitum ríkiskirkjunnar:

    Ég á mér draum að geta gengið um kirkjugarða á Íslandi og séð þar hlið við hlið legsteina með krossum, búddalíkneskjum, mánasigð, þórshamri eða hvaða öðru tákni, sem vera skal. #



  8. María Ágústdóttir, ríkiskirkjuprestur

    Það er alltaf spennandi að lesa það sem María Ágústsdóttir setur á blað. Fræg eru orð hennar að "erfitt séð að elska án trúar". Þar með taldir eru fjölskyldumeðlimir þeirra vantrúuðu. Í Ágústusartillögu Maríu að þessu sinni eru hugleiðingar hennar um söguna af Gosa og tengsl hennar við guðinn sem hún og aðrir ríkiskirkjuprestar trúa á.

    Saga Gosa er sagan mín og sagan þín. Og hún er saga upprisunnar, hinnar yfirnáttúrulegu snertingar Guðs, sem birtist á sviðinu í líki bláklæddu Óskadísarinnar. Snerting hennar gefur Gosa lífið, raunverulegt líf, sem laun þess að hann fórnaði spýtulífinu sínu fyrir ástina til pabba #



  9. Þorgerður Katrín, Alþingismaður

    Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður og þáverandi menntamálaráðherra lét þessi sérkennilegu orð falla í Silfri Egils. Gaman er að setja mannkynssöguna í samhengi við þessi orð Þorgerðar og þá sérstaklega sögu annara menningarheima en þess vestræna.

    Ég trú því að kærleikurinn komi frá kristninni [Silfur Egils 30.12.2007]



  10. Þórhallur Heimisson, ríkiskirkjuprestur og Wikipediu-fræðingur

    Þegar Svarthöfði ákvað að taka þátt í furðufatagöngu ríkiskirkjunnar héldu flestir að um saklaust grín væri að ræða. Þórhallur uppgötvaði hins vegar að þetta væri stríðsyfirlýsing trúleysingja, sem myndu innan skamms ráðast á börn sem væru á leiðinni í sunnudagaskólann!

    Ein spurning sem vaknar varðar til dæmis friðhelgi, öryggi og trúfrelsi einstaklingsins. Hingað til hefur trúað fólk getað gengið til kirkju hér á landi án þess að að því sé vegið með ógnunum eða hæðni fyrir trú sína. Það sama á við um alla aðra trúarhópa – almennt virða menn rétt fólks til að stunda trú sína í friði.

    Nú er slík friðhelgi rofin. Þó tilburðir Vantrúarmannsin í gerfi Svarthöfða hafi verið hlægilegir, þá réðst hann að friðhelgi og trú yfir 90% landsmanna þegar hann hæddist að krossinum og brá fyrir hann sverði sínu. Og geta menn treyst því að næst verði ekki vegið að prestum og kirkjufólki með alvarlegri hætti? Eða fólki úr öðrum söfnuðum? Eiga múslímar á hættu aðkast við föstudagsbænir sínar? Verður sumarblóti ásatrúarmanna hleypt upp?

    Er á það hættandi að senda börnin ein í sunnudagaskólann næsta haust?

    Verður setið fyrir þeim? #





Slagorð

Movable Type
knýr þennan vef