Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

9 þáttaraðir sem Vantrú mælir með

Við höldum áfram að telja niður og í anda jólana þá höfum við útbúið enn einn listann fyrir ykkur kæru lesendur. Tilgangurinn með þessum lista er sá hinn sami og með bækurnar 13 sem við mæltum með, en það er að benda ykkur á áhugaverðar þáttaraðir sem gætu kannski vakið áhuga ykkar. Svo hvetjum við ykkur auðvitað til að stinga uppá einhverjum þáttaröðum í athugasemdakerfinu sem kynnu að vekja forvitni okkar og annara.

David Attenborough

[Heimasíða] [Wikipedia-grein]

David AttenboroughDavid Attenborough ætti að vera lesendum að góðu kunnur, en hann hefur séð um dýra- og náttúrulífsþætti í meira en hálfa öld og verið tíður gestur í íslensku sjónvarpi síðan á 8. áratug síðustu aldar. Það er í raun ekki hægt að vísa í einhverja eina þáttaröð með manninum enda er úr alveg gríðarlega miklu efni að velja. Við viðurkennum það að við höfum ekki séð allt með manninum, svo það má segja að verið sé að stytta sér leið með því einfaldlega að mæla bara með öllu sem maðurinn hefur gert. Nýjustu þáttaraðirnar hans; Life, Planet Earth, The Blue Planet, The Life of Mammals, hafa til að mynda notið gríðarlegra vinsælda undanfarin ár. Sömuleiðis má nefna The Private Life of Plants, The Trials of Life, The Living Planet og svona mætti lengi telja. Ef þú vilt dást af því sem náttúran hefur uppá að bjóða, þá er ekkert verra að fá að kynnast því í gegnum David Attenborough.

Penn & Teller's: Bullshit!

[Heimasíða] [Wikipedia-grein]

Bullshit!Töframannatvíeykið Penn &Teller fara í gegnum mýmargt kjaftæði sem finna má í Bandaríkjum Norður-Ameríku, en sumt kjaftæðið sem gegnumsýrir það þjóðfélag er nú líka búið að ná ágætum rótum hér á landi. Penn Jillette er málpípa tvíeykisins og er frekar hispurslaus í málflutningi og óhræddur við stóru orðin, en það er aðallega af lagalegum ástæðum þar sem þeir geta átt í hættu að vera kærðir fyrir að kalla spámiðla, kuklara, seiðskratta og aðra loddara sínum réttum nöfnum, s.s. fégráðuga lygara. En mega kalla þá t.d. "motherfucker", "scumbag" eða "asshole" ef þeir vilja sem og gera. Þættirnir hafa verið í gangi síðan 2003 og valdið töluverðu umtali ásamt því að vera ansi vinsælir.

[Umsögn um þættina eftir Birgi Baldursson]

Cosmos: A Personal Voyage

[Heimasíða] [Wikipedia-grein]

CosmosÞessi þrettán þátta sería var fyrst sýnd árið 1980 og naut gríðarlega vinsælda. Kynnirinn og aðalhugmyndasmiðurinn bakvið þessa þáttaröð var stjörnufræðingurinn Carl Sagan, en hann skrifaði þættina ásamt Ann Druyan og Steven Soter. Það sýnir á vissan hátt snilligáfu og framsýn Sagans að þegar þættirnir voru endurútgefnir árið 2000 að þá þurfti sama sem ekkert að uppfæra þær kenningar og tilgátur sem komu fram í þáttunum, svo það má með sanni segja að þessir þættir hafa vissulega staðist tímans tönn.

Father Ted

[Heimasíða] [Wikipedia-grein]

Father TedEfalaust með þeim fyndnustu þáttaröðum sem út hafa komið. Þessir írsku þættir fjalla um seinheppinn kaþólskan prest að nafni Ted Crilly, sem er sóknarprestur á uppdiktuðu eyjunni Craggy Island, sem er einhverskonar útnára-eyja einhverstaðar við Írland. Ted Crilly býr ásamt tveim öðrum prestum, hinum unga vitleysingi Dougal McGuire og ruglaða, drykkfellda gamalmenninu Jack Hackett. Svo er heimska heimilishjálpin fröken Doyle skammt undan. Þrjár seríur voru gerðar af Father Ted og voru þær sýndar á árunum 1996-98. Náðu þær gríðarlegum vinsældum. Húmorinn er nægilega aulalegur til að ná til sem flestra, trúaðra sem trúlausra.

House MD

[Heimasíða] [Wikipedia-grein]

House MDÞættirnir um ofurlækninn geðilla, Gregory House, hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár og hefur einn ástsælasti grínisti Breta, Hugh Laurie, þótt sýna snilldartakta í hlutverki þessa grimma, en rökfasta læknis sem í hverjum þætti reynir að sjúkdómsgreina sjúkling sem þjáist af dularfullum sjúkdómi ásamt handvöldu liði unglækna. House reytir af sér brandarana, jafnan á kostnað annara og fá bæði sjúklingar hans og samlæknar að kenna á nöpru háði og miskunnarlausri rökfræði. House er harður trúleysingi og lætur trúaða heyra það nánast í hverjum þætti. Hér eru nokkur skondin dæmi

Mythbusters

[Heimasíða] [Wikipedia-grein]

MythbustersÞeir félagar Adam Savage og Jamie Hyneman skoða, athuga og sannreyna ýmsar sögusagnir sem þeir hafa heyrt eða fengið sendar frá áhorfendum. Þeir einbeita sér að vinsælum flökkusögum. Hver þáttur er oftast byggður upp með einhverri spurningu, t.d. Getur þotuhreyfill skotið leigubíl uppí loftið? Getur spil úr spilastokki drepið mann ef því er fleygt með nógum miklum krafti? Hafa píramídarnir einhverja sérstaka krafta? Er hægt að stöðva byssukúlu með því að stinga puttanum í byssukjaftinn? Er það mögulegt fyrir buxur að springa uppúr þurru? Og svo framvegis. Mantrað þeirra, ef svo má segja, er "[replicate the circumstances, then duplicate the results]." Eftir nokkrar tilraunir er hverri mýtau gefin einn af þremur stimplum eftir því sem við á: Busted (ekki hægt), Plausible (möguleiki) og Confirmed (staðfest). Þættirnir hafa verið í gangi síðan 2003.

QI (Quite Interesting)

[Heimasíða] [Wikipedia-grein]

QIQI eru breskir spurningaþættir undir stjórn hins fjölhæfa Stephen Fry, sem við minntumst á í gær. QI stendur þarna fyrir Quite Interesting, eða Einkar áhugavert og eru þættirnir óvenjulegir að því leytinu til að svör keppenda -sem eru yfirleitt þrír þekktir aðilar auk fastagestsins Alan Davies- þurfa ekki endilega að vera rétt, heldur fyrst og fremst áhugaverð. Hver þáttaröð hefur sinn einkennisbókstaf, og hefur hver þáttur þema sem hefst á þeim staf. Síðasti hluti hvers þáttar heitir svo General Ignorance, eða Almenn vanþekking, og eru þar lagðar fram spurningar sem allir geta svarað - rangt.

Scooby-Doo, Where are you?

[Heimasíða] [Wikipedia-grein]

Scooby Doo, Where are you?Teiknimyndirnar um Scooby-Doo þarf varla að kynna fyrir nokkru mannsbarni, en þær hafa skemmt bæði börnum og fullorðnum í heila fjóra áratugi. Hundurinn Scooby-Doo og félagar hans rannsaka í þáttunum allkyns "yfirnáttúrulega" atburði sem - eins og í raunveruleikanum - eiga sér jafnan afar jarðbundnar skýringar. Reyndar eru þeir félagar Shaggy og Scooby alltaf jafn hræddir um að nú sé alvöru draugur á ferðinni, en rödd efahyggju og skynsemi, hin nördalega Velma, sér oftast um að koma þeim á sporið. Á seinni árum bar meira á "alvöru" draugagangi í þáttunum, enda eru þeir taldir mun lakari en hin upprunalega, skeptíska, útgáfa.

South Park

[Heimasíða] [Wikipedia-grein]

South ParkEins og allir sem horft hafa á South Park vita þá er hér um snilldarþætti að ræða. bandarískt þjóðfélag er gagnrýnt frá öllum hliðum, út frá pólitík, trúarlífi, kynflokkahatri, og hommahatri svo eitthvað sé nefnt. Stan, einn af piltunum fjórum, er sýndur sem mikill skeptíker og frægt er þegar hann tók fyrir háttlestur miðla. Faðir hans er mikill sökker fyrir hvers kyns kjaftæði og iðulega kemur í hlut sonarins að koma vitinu fyrir pabba. En það eru ekki bara hindurvitni og afleit sjónarmið sem fá á baukinn hjá sköpurum þessarar frábæru seríu, heldur hafa þeir gefið áköfum trúleysingjum á kjaftinn líka. Og það er auðvitað hið besta mál.

Ritstjórn 15.12.2009
Flokkað undir: ( Listi )

Viðbrögð


FellowRanger - 15/12/09 19:33 #

Svo eru það t.d. The Root of All Evil? og The Enemies of Reason eftir Dawkins, A Bit of Fry and Laurie, eftir Stephen Fry og Hugh Laurie og Blackadder með Rowan Atkinson og Laurie í tvem strærstu hlutverkunum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.