Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

SoS: Siðareglur trúfélagsleiðréttingaherferðar Vantrúar

Markmið

Með trúfélagsleiðréttingum stuðlar Vantrú fyrst og fremst að því að trúfélagsskráning landsmanna endurspegli raunveruleg lífsviðhorf þeirra betur. Það kemur heim og saman við tilgang félagsins, sem er að vinna gegn útbreiðslu hindurvitna. Trúfélagsleiðrétting hefur almennt þau áhrif að minnka alhliða vægi ríkiskirkjunnar og þar með grafa undan sníkjulífi hennar á íslenska ríkinu. Um leið vekur herferðin athygli á því hvað það er óeðlilegt að ríkið haldi utan um trúfélagsskráningu og innheimti sóknargjöld.

Framkvæmd

Sjálfboðaliðar úr hópi Vantrúarfélaga, velunnara eða bandamanna bjóða fólki að fylla út eyðublöð Þjóðskrár og koma þeim svo til skila fyrir það. Sjálfboðaliðarnir sýna fólki kurteisi hvort sem það þiggur þjónustuna eða ekki, og beita ekki fortölum við fólk sem hefur ekki áhuga. Vantrú heldur tölu yfir fjölda úrskráðra, sú tala samanstendur annars vegar af þeim sem hafa þegið beina aðstoð og hins vegar þeim sem hafa sjálfir skráð sig úr kirkjunni og sjálfir látið Vantrú vita að áskorun Vantrúar þess efnis hafi rekið þá af stað. Talan er uppfærð jafnóðum og eyðublöðum er skilað inn til Þjóðskrár.

Endurgjald

Leiðréttingarstarf Vantrúar er unnin í sjálfboðastarfi og af hugsjón einni. Sjálfboðaliðar Vantrúar eiga ekki persónulegra hagsmuna að gæta og hafa ekki fjárhagslegan ábata af starfinu. Félagið Vantrú þiggur frjáls framlög sem því eru boðin að fyrra bragði.

Hverjum býðst þjónustan?

Þjónusta Vantrúar er óháð því úr hvaða trúfélagi eða í hvað fólk vill skrá sig. Vantrú aðstoðar ekki fólk sem er sýnilega undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Heldur ekki fólk sem af einhverjum öðrum ástæðum er ekki fært um að bera ábyrgð á eigin skráningu. Til dæmis ekki kornabörn eða fólk sem er í örvilnan, sturlunarástandi eða annarri alvarlegri geðshræringu.

Trúnaður

Þær upplýsingar, sem Vantrú safnar í herferð sinni, er farið með sem trúnaðarmál. Sjálfboðaliðar Vantrúar koma þeim til Þjóðskrár en aðrir aðilar fá ekki að sjá þær eða nota á neinn hátt.

Vésteinn Valgarðsson 29.11.2009
Flokkað undir: ( Spurt og svarað )

Viðbrögð


Sigurður E. Vilhelmsson - 29/11/09 10:18 #

Mikið væri nú gaman að sjá þjóðkirkjuna koma sér upp sambærilegum siðareglum, t.d. hvað varðar káf á sóknarbörnum, trúboð í leikskólum og útbreiðslu óhróðurs um ákveðna þjóðfélagshópa, s.s. þá sem ekki trúa á himnafeðga.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/11/09 13:46 #

Ég vil aðallega sjá þetta lið hætta að ljúga. Þar tel ég með dylgjur um að Vantrú herji á drukkið fólk skemmtistaðanna með eyðublöð sín.

Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum, siðlausi prestur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.