Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Í raun er enginn trúaður

Einu sinni sagði vinur minn mér sögu. Hann var að fara í helgarferð í sumarbústað en á föstudeginum þegar hann var að fara þá fann hann hvergi köttinn sinn. Hann leitaði að honum út um allt án árangurs. Að lokum ákvað hann að kötturinn hlyti að hafa sloppið út og þyrfti bara að bjarga sér sjálfur yfir helgina. Hann fór því í sumarbústaðinn með kunningjum sínum og skemmti sér vel.

Þegar hann kom heim á sunnudagskvöldið var einn kunningi hans með honum því þeir ætluðu að fara saman í tíubíó. Þeir settust inn í eldhús þar sem klukkan var bara rúmlega átta og tæpur klukkutími þangað til þeir þurftu að fara af stað. Kunninginn spurði hvort vinur minn ætti eitthvað að borða, snakk, kex eða því um líkt. Þá mundi vinur minn eftir því að hann átti harðfisk í neðstu skúffunni í eldhúsinu og sagði kunningja sínum frá því. Sá fór og opnaði skúffuna og fann köttinn í henni.

Kettinum virtist ekki hafa orðið meint af vist sinni í skúffunni enda hafði hann haft nægan harðfisk til að gæða sér á alla helgina. Svo virtist sem skúffan hefði staðið opin og kötturinn fundið lyktina af harðfiskinum. Hann hafði því hoppað ofan í skúffuna og krafturinn í stökkinu orðið til þess að hún lokaðist. Því hafði vinur minn ekki fundið köttinn á föstudeginum þegar hann fór og ekki látið sér detta í hug að kíkja í skúffuna.

Hvað er satt og hvað er logið?

Þetta er skemmtileg saga og þegar vinur minn sagði mér hana sá ég enga ástæðu til að draga hana í efa. Hvaða ástæðu gæti vinur minn svo sem haft til að ljúga að mér? En núna þegar ég hugsa um hana finnst mér margt skrýtið við hana. Gefum okkur að krafturinn í stökki kattarins hafi nægt til að loka skúffunni, án þess að kötturinn klemmdi á sér skottið, þá hlýtur skúffan að hafa verið einstaklega laus eða vel smurð.

Hreyfingar kattarins hefðu því átt að nægja til að opna skúffuna aftur ef hann reyndi að komast upp úr henni. Þar að auki á ég kött sjálfur og veit að ef hann lokast inni einhvers staðar þá mjálmar hann ámátlega og það er undarlegt að vinur minn hefði ekki heyrt í kettinum ef hann hefði verið að leita að honum. Enn fremur veit ég að enginn köttur kemst af í heila tvo sólarhringa án þess að þurfa að létta á sér. Lyktin úr skúffunni hefði því átt að vera skelfileg og ástand kattarins, sem varð að liggja hreyfingarlaus í þröngri skúffu, vægast sagt bágborið.

Hverjir segja ósatt og af hverju?

Í raun held ég að ef einhver annar en vinur minn hefði sagt mér þessa sögu þá hefði ég ekki trúað henni, enda kom í ljós að vinur hans hafði sagt honum hana og hann síðan sagt mér hana um sjálfan sig því hún var skemmtilegri þannig. Eins og ég hafði hann ekki séð nokkra ástæðu til að efast um sannleiksgildi hennar enda hafði vinur hans enga ástæðu til að ljúga þessu að honum. Ekki frekar en hann hafði ástæðu til að ljúga þessu að mér.

Hvers vegna trúum við?

Það skiptir því líklega mjög miklu um það hvort við trúum einhverju hver það er sem segir okkur það og þá kannski ekki síður hvenær okkur er sagt það. Síðan höfum við eflaust þar að auki enn síður ástæðu til að efast um eitthvað sem allir í kringum okkur virðast vera sammála um að trúa.

Rétt eins og ég trúði vini mínum hef ég ekki haft nokkra ástæðu til að efast um það sem mínir nánustu samstarfsfélagar segja mér, fjölskylda mín eða foreldrar, nema það sé því ótrúlegra. Líklega hefði ég einnig haft mun minni ástæðu og getu til að efast um það sem mínir nánustu sögðu mér þegar ég var barn.

Barn er nefnilega ekki í nokkurri aðstöðu til að líta gagnrýnum augum á það sem foreldrar þess, afi og amma, kennarinn eða presturinn, segja því. Þegar samfélagið síðan viðheldur trúnni á það sem börnunum var innrætt í æsku er lítil von til þess að þau átti sig á því sem fullorðið fólk að það sem það var frætt um í upphafi sé líklega ekki satt.

Hvers vegna eru börn alin upp í trú?

Ég leyfi mér að fullyrða að enginn maður sem ekki hefði heyrt minnst á guði í sinni æsku eða trúarlegar hugmyndir myndi geta lagt nokkurn trúnað á slíkt heyrði hann fyrst af því sem fullorðinn einstaklingur. Til þess eru hugmyndirnar einfaldlega of óraunsæar, of galnar, of ótrúverðugar.

Það kemur mér því stanslaust á óvart þegar ég heyri fólk fullyrða að það sé ekki hægt að vera trúlaus. Allir hljóti að trúa á eitthvað. Því mér finnst einmitt hið gagnstæða svo augljóst. Það getur enginn verið trúaður. Allir hljóta að sjá hvað það er galið.

Hvers vegna er því haldið fram að í raun séu allir trúaðir?

Reyndar held ég að hér komi margt til. Í fyrsta lagi eru eflaust mjög margir sem rugla saman hugtökunum að trúa á eitthvað og að trúa einhverju. Ég trúi mjög mörgu í þeirri merkingu að ég held að það sé satt. Ég held til dæmis að það sé satt að lífið hafi þróast. Ég trúi sem sagt Þróunarkenningunni en ég trúi ekki á Þróunarkenninguna.

Í öðru lagi held ég að mjög margir sem segist trúa og vera trúaðir séu það ekki í raun hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Þeir hafa með öðrum orðum annað hvort blekkt sjálfa sig til að trúa því að þeir séu trúaðir, t.d. vegna þess að þeir telja það æskilegt að vera trúaður vegna samfélagslegra gilda eða einhvers þess háttar. Þeir gætu meira að segja margir hafa búið sér til einhverja einkahugmynd um hvað það þýðir að vera trúaður sem þeir ná að uppfylla, s.s. að trúa á hið góða í manninum.

Svo eru sjálfsagt einnig til hinir sem vita fullvel að þeir eru ekki trúaðir en munu aldrei viðurkenna það fyrir öðrum og þá jafnvel af sömu ástæðum eða vegna þess að þeir eiga hagsmuna að gæta. Það gæti komið illa við marga að viðurkenna trúleysi sitt. Sérstaklega þá sem eiga lífsviðurværi sitt undir trúnni. Þessir einstaklingar segjast oft eiga sína barnatrú, sem þýðir væntanlega að þeir trúðu einhverju sem börn sem þeir trúa ekki lengur vegna þess að þeir hafa komið auga á hversu óskynsamleg sú trú var.

Barnatrú er eingöngu það sem við viðurkennum að var barnalegt að trúa og við trúum ekki lengur þegar við komumst á fullorðinsár.

Í raun er enginn trúaður

Það er þess vegna augljós niðurstaða þessara vangaveltna að í raun sé enginn trúaður. Hinn trúaði maður er einfaldlega ekki til, a.m.k. ekki í hinu vestræna nútímasamfélagi. Að sjálfsögðu verður að undanskilja þá sem vegna andlegrar vanheilsu eða fötlunar hafa ekki getu til að greina á milli raunveruleika og ímyndunar. Vel getur verið að einhver þeirra sé í raun trúaður.

Daníel Freyr Jónsson 27.11.2009
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Guðmundur Ingi Markússon - 02/12/09 21:59 #

Skemmtilegar vangaveltur. Ég varð fyrir vonbrigðum með köttinn - ég hélt strax að hún væri táknræn fyrir kenningu Dawkins um trúarbrögð: ilmurinn af fisknum tælir köttinn ofan í skúffuna (eins og t.d. falleg tónlist í kirkju), þegar hann er kominn ofan í lokast hún (eins og heimsmynd trúaðra), en hann er sæll og glaður því nægur er harðfiskurinn (eins og hamingjan sem fylgir óskhyggju trúarinnar).

Ég veit ekki hvort það stenst að segja "í raun er enginn trúaður" - virkar svolítið á mig eins og þegar fólk segir hið gagnstæða, að enginn sé í raun trúlaus.

Datt í hug að þér gæti fundist hugræn trúarbragðafræði (cognitive science of religion) áhugaverð, en hún skýrir tilurð og viðgang trúarbragða á grunni kenninga og rannsókna á því hvernig hugur mannsins er skrúfaður saman. Í stuttu og einföldu máli er niðurstaðan sú að mannenskjan hafi trúartilhneiginu (nb. ekki trúarþörf).

Í ljósi útbreiðslu trúarbragða finnst mér þetta mun líklegri skýring heldur en kenning Dawkins um trúgirni barna (sem skýrir frekar yfirborðið).

Ef einhver hefur áhuga bendi ég á þessar grein: http://www.raunvis.hi.is/~steindor/gliman3.pdf

Skrifaði líka krítik um God Delusion i Journal of cognition and culture 2007 en finn ekki link á hana ...


Jón Arnar Magnússon - 04/12/09 08:58 #

Þetta er spurning um skilgreiningu á orðinu trú. ef ég trúi á sjálfan mig að ég sé til hvað er ég að segja

Hvernig get ég verið vissum að þú sért til, eru þetta ekki bara ofskynjun sem ég er að skynja í umhverfinu og í raun og veru er ekkert til.

Það er margt í umhverfinu sem er mjög erfitt að sanna. Ég get sagt ég trúi á geimverur og ég trúi á geimverur. Því ég er sjálf geimvera.

Í þeirr skilgreiningu að geimvera sé lifandi vera sem býr á plánetu í geimnum.

Hvað er trú yfirhöfuð? Hvað er merking á bakvið þetta orð trú?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.