Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ekki skíra börn

Sorgmætt barn

Af hverju í ósköpunum ætti ég að hafa skoðun á því hvort fólk skírir börnin sín eða ekki? Ég hef hvort sem er enga trú á þessari athöfn og því er í raun fáránlegt að ég sé að tjá mig um skírnina.

Vandamálið er að þó fólk taki skírnina mis alvaralega, ótal dæmi eru um að trúlaust fólk láti skíra börnin sín hefðarinnar vegna, þá tekur kirkjan skírnina alvarlega.

Hvaða máli skiptir það eiginlega? Kirkjan er bara stofnun sem fólk getur skráð sig úr hvenær sem er.

Það skiptir máli vegna þess að ríkiskirkjan skilgreinir kristniboð ekki sem trúboð ef það er búið að skíra börnin. Þá heitir þetta "skírnarfræðsla" og er einfaldlega þjónusta sem fólk hefur í raun samþykkt þegar það lét prest sulla galdravatni á kollinn á barninu.

Ég er ekki að grínast.

Þegar prestur mætir í leikskóla og kennir börnunum að tala við Gvuð er það ekki trúboð vegna þess að börnin eru (næstum því öll) skírð. Þeir sem eru skírðir eru kristnir. Nei, ég er heldur ekki að grínast núna, þetta er skilningur starfsfólks kirkjunnar. Þessi sárafáu börn trúvillinga mega svo éta það sem úti frýs (ekki orðrétt haft eftir prestum en næstum því).

Þess vegna vil ég biðja foreldra að sleppa því að skíra börnin sín, því barnaskírn er stuðningur við barnatrúboð ríkiskirkjunnar. Nema náttúrulega ef foreldrar eru stuðningsmenn slíks barnatrúboðs, þá er skírnin við hæfi.

Haldið bara nafngiftaveislu, það er ekkert mál. Bjóðið fólki í heimsókn, útbúið veitingar, haldið smá tölu og tilkynnið nafn barnsins. Sleppið því að hafa ríkiskirkjuna sem hluta af þessu því þá eru þið um leið að viðurkenna allt það sem hún stendur fyrir.

Ég vona að þeir sem hafa látið skíra börnin sín taki þessu ekki persónulega, væntalega gerði fólk sér ekki grein fyrir afleiðingum gjörða sinna og vissi ekki að það væri að styðja barnatrúboð ríkiskirkjunnar.

Matthías Ásgeirsson 11.11.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Skólinn )

Viðbrögð


Steindór J. Erlingsson - 11/11/09 14:20 #

Ég og eiginkona mín héldum nafngiftarveislur skömmu eftir að bæði börnin okkar fæddust, enda vildum við ekki blanda kirkjunni í þessa athöfn. Ættingjum okkar fannst þetta mjög vel heppnað, jafnvel þeim sem fyrirfram voru með efasemdir um að sniðganga kirkjuna.


gös - 11/11/09 15:06 #

Ég vildi gjarnan fá references.

Nánart til tekið fyrir þessu

Það skiptir máli vegna þess að ríkiskirkjan skilgreinir kristniboð ekki sem trúboð ef það er búið að skíra börnin. Þá heitir þetta "skírnarfræðsla" og er einfaldlega þjónusta sem fólk hefur í raun samþykkt þegar það lét prest sulla galdravatni á kollinn á barninu.

og þessu

Þegar prestur mætir í leikskóla og kennir börnunum að tala við Gvuð er það ekki trúboð vegna þess að börnin eru (næstum því öll) skírð. Þeir sem eru skírðir eru kristnir. Nei, ég er heldur ekki að grínast núna, þetta er skilningur starfsfólks kirkjunnar.

Ég er ekki að rengja þig - mig langar að geta bent fólki á nákvæmlega hvar þetta kemur fram þegar ég segi því frá þessu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/11/09 15:48 #

Þetta byggir á ýmsum heimildum og samtölum við presta og aðra ríkiskirkjumenn. Hér er eitt dæmi (það fyrsta sem ég fann þegar ég leitaði á Vantrú)

Ég lít svo á að ekki sé um trúboð að ræða ef um er að ræða skírða einstaklinga. #

Og í athugasemd á mínu bloggi þar sem rætt var um leikskólatrúboð skrifaði þáverandi ríkiskirkjuprestur:

Skv. skilgreiningunni og skilningi kirkunnar verða börn kristin þegar þau eru borin til skírnar. #

Úr sömu umræðu:

Lútherska Þjóðkirkjan eins og fleiri kirkjur teljast til barnaskírenda. Skírn er m.a. viljayfirlýsing foreldranna til að ala börn upp í kristni. #

Í umræðum á trú.is benti ég á það sjónarmið að margir foreldrar skíra börn fyrst og fremst vegna hefðar, að afhöfnin sé ekki trúarleg í þeirra hug. Því var mótmælt.

Ég hef fleiri dæmi, m.a. úr plöggum kirkjunnar en verð að játa að ég nenni ekki að fletta því upp núna.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/11/09 16:19 #

Steindór, ég hélt líka nafngiftarveislu fyrir miðdóttur okkar. Það var ósköp huggulegt og ég varð ekki var við að nokkur saknaði kirkjunnar. Svo verð ég að játa að yngsta dóttirin fékk enga veislu, kannski þess vegna sem hún er svona sorgmædd á myndinni :-)


Logo - 11/11/09 20:04 #

Nú!!! Má fólk ekki lengur skíra fyrir þessum trúleysingjum. Aðra eins rökleysu hef ég ekki séð. Það má segja að núna hafi Vantrú bitið í skottið á sér rækilega


Þröstur Hrafnkelsson - 11/11/09 20:23 #

Sælir,

ég hef nú spurt vini mína sem eru að fara að skíra hvort þeir viti hvað athöfnin tákni í augum kirkjunnar, þ.e. þeim sem framkvæma sjálfa athöfnina. Svarið er ætíð nei! Einn vildi nú bara skíra til að fá brauðtertur og gotterí - semsagt, fólk skírir ekki vegna trúarinnar heldur veislunnar og það að hafa hitting með fjölskyldunni.

Enn annars finnst mér myndin sem fylgir fréttinni over the top og óþarfi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/11/09 20:24 #

Var ég virkilega að banna fólki að skíra börnin sín? Hélt ég hefði skrifað:

Nema náttúrulega ef foreldrar eru stuðningsmenn slíks barnatrúboðs, þá er skírnin við hæfi.

Ég er einfaldlega að benda á að barnaskírn er stuðningur við barnatrúboð ríkiskirkjunnar í leikskólum, grunnskólum og víðar.

Enn annars finnst mér myndin sem fylgir fréttinni over the top og óþarfi.

Það þykir mér afskaplega merkilegt.


Hanna Lára - 11/11/09 20:25 #

Allt sem hægt er að segja um skírn: http://www.youtube.com/watch?v=pg5UNxOmTIY Hitchens er auðvitað bara snillingur. Og úr því við erum að skoða bönd: Sjáið þennan fáránleika þar sem breskur 'miðill' fær sjálfan Michael Jackson 'í heimsókn'. Þessi náungi hefur reyndar verið með draugagang á dagskrá, á íslenskri sjónvarpsstöð og alltaf jafn yfirmáta hallærislegur. http://www.msnbc.msn.com/id/26852192/vp/33858581#33858581 góða skemmtun.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 11/11/09 22:57 #

Nú!!! Má fólk ekki lengur skíra fyrir þessum trúleysingjum. Aðra eins rökleysu hef ég ekki séð. Það má segja að núna hafi Vantrú bitið í skottið á sér rækilega

Já, ríkisstjórn Vantrúar hefur komið því máli í gegnum þingið að hér eftir verði skírnir bannaðar.

Nei, í alvöru. Þú ert nú ljóti andskotans beinasninn. Þessi grein fjallar um hvaða augum kirkjan lítur skírnina og biður fólk um að hugsa málið og velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað sem það er sammála. En nei, þetta er of erfitt fyrir þig að skilja, það eina sem þú sérð er að „fólk megi ekki lengur skíra fyrir þessum trúleysingjum“. Ef þú værir sæmilega læs hefðirðu kannski komið auga á þetta strax og sleppt því að gera þig að algjöru fífli og opinbera hversu mikill formyrkvaður helvítis bjáni þú ert, höfuðsóttargemlingurinn þinn.

Og já, ég var orðljótur. Ég meika bara ekki svona heimsku.


Logo - 11/11/09 23:35 #

[ athugasemd flutt á spjall - Matti Á. ]


Björn Ómarsson - 12/11/09 00:07 #

Við þessa annars ágætu grein má að sjálfsögðu bæta að barnaskírnin er kjánaleg seinnitíma uppfinning valdgráðugra páfa. Bókstafstrúarmenn eins og Gunnar í krossinum benda t.d. á að "iðrun [sé] forsenda skírnar, en barnaskírnarmenn hafa kosið að líta framhjá því vegna veraldlegra hagsmuna" (hér).

(Ég vill líka hrósa Ásgeir fyrir frumlegar formælingar. Það er gott að sjá að Baggalútur er víða.)


Davíð - 13/11/09 01:11 #

Ég er algjörlega þér Matti þó mér finnist myndin efst vera frekar asnaleg.

(Varðandi þennan Logo þá held ég að það væri betra bæði fyrir hann og ykkur að reyna frekar að koma vitinu fyrir hann með öðrum aðferðum en að fara strax að æsa sig um uppnefna, þó það sé vissulega mjög freistandi. En þið hljótið að sjá að það hefur ekkert uppá sig.)


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 13/11/09 09:04 #

Það er ákveðin forsaga að því máli sem kemur ekki nógu vel fram hér.

Í stuttu máli sagt þá var búið að reyna ýmislegt til að koma vitinu fyrir manninn, eins og þú segir, þegar þetta var skrifað.


Guðlaugur Örn (meðlimur í Vantrú) - 15/01/10 00:03 #

Já skírnin... úff..

Við frúin héldum nafnapartý þegar við gáfum stúlkunni okkar nafn. Kökur og kaffi. Voða næs og ömmurnar gáfu thumbs up!

Svo giftum við okkur hjá sýslumanni- á þorláksmessu - okkur fannst það afar kosý dagur enda erum við ekki týpískt jóla-stress-fólk... sú athöfn kom virkilega á óvart og var miklu hátíðlegri en ég bjóst við - ömmur, afar, vinir og systkini - allir sammála um að þetta hefði verið svaka flott. Svo var bara hörkupartý nokkrum dögum seinna.

Fólk verður að þora að gera það sem það vill. Við vorum einmitt að vona að með því að gera soldið mikið úr þessu - halda veglegar veislu og svona - að við myndum ýta við einhverjum til þess að þora.. og ekki festast í einhverjum venjum sem það gerir sér oft ekki grein fyrir hvað merkja.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/06/11 10:16 #

Gísli bendir á að langflest íslensk skólabörn séu skírð til kristinnar trúar. Því telji hann eðlilegt að trúin fái sinni sess í lífi þeirra jafnt innan skóla sem utan. #

Trúleysingjar, í gvuðanna bænum, ekki láta skíra börnin ykkar. Prestar halda í alvörunni að þá séuð þið að samþykkja kristniboð í skólum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.