Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Autt blað

Eftir að detta nokkrum sinnum inn í umræður um hverju fólk trúir - oftast í framhaldi af því að ég segist vera meðlimur í Vantrú og Siðmennt - er ég nokkuð sannfærður um að sárafáir ættu í rauninni að tilheyra ríkiskirkjunni.

Ég er alltaf jafn undrandi á þeim sem tilheyra ríkiskirkjunni en trúa í rauninni ekki á neitt af því sem aðgreinir kirkjuna eða kristnina frá öðrum trúarbrögðum – eða einfaldlega góðu almennu siðferði.

Rauði þráðurinn í því sem ég heyri er sá að siðferðis boðskapur kristninnar sé svo mikils virði og þess vegna sé eðlilegt að vera kristinnar trúar og tilheyra ríkiskirkjunni.

Ég þekki til dæmis ekki nema einn einstakling sem trúir á sköpunarsöguna og ekki man ég eftir neinum (öðrum) sem trúir á upprisuna, himnaríki eða helvíti - ekki í bókstaflegri merkingu að minnsta kosti. Flestir skauta fram hjá þessu með tali um að þetta séu nú bara dæmisögur og megi alls ekki skilja bókstaflega.

En það er auðvitað grundvallar misskilningur að kristnin eigi einkarétt á góðu siðferði. Að ég tali nú ekki um að halda að kristnin hafi hreinlega fundið upp siðferði, kærleika og ég veit ekki hvað.

Þetta styrkist svo kannski af nokkrum þáttum eins og;

  • vana
  • því að vilja forðast hugsanleg óþægindi af því að taka óhefðbundna afstöðu - sem er sem betur fer alls ekki svo óhefðbundin lengur
  • að vilja hafa vaðið fyrir neðan sig - en í því tilfelli ættu viðkomandi að játa öll trúarbrögð
  • hugsa sem svo að það hljóti að vera eitthvað sem við skiljum ekki - hvernig svo sem það tengist einni tegund af trú.

Þannig að ég velti fyrir mér hversu margir væru í ríkiskirkjunni ef allir byrjuðu með hreint borð. Ef enginn væri skráður í trúfélag á barnsaldri og börnum ekki innrætt að ein trú væri betri en önnur. Þess í stað væri gott siðferði lagt til grundvallar öllu uppeldi og menntun.

Hversu margir myndu velja kristna trú og skrá sig í ríkiskirkjuna? Ef við ímyndum okkur kannski þorp eða jafnvel land þar sem engin trúarinnræting á sér stað?

Til þess þyrfti fullorðinn einstaklingur að hafa mikla þörf fyrir að trúa á yfirnáttúrulega veru sem engar vísbendingar eru um að sé til. Síðan þyrfti hann að skoða þau trúarbrögð sem eru í boði og velja kristna trú út frá sérstöðu hennar og því sem aðgreinir hana frá öðrum trúarbrögðum.

Viðkomandi þyrfti þá væntanlega að minnsta kosti að trúa á;

  • sköpunarsöguna
  • meyfæðinguna
  • upprisuna
  • himnaríki og helvíti

Ofan á þetta þarf sá hinn sami að sætta sig við hégómagjarnan og hefnigjarnan guð.

Jafnvel þegar allt þetta er yfirstigið þarf að horfast í augu við allar mótsagnir og misvísandi skilaboð biblíunnar. Látum liggja á milli hluta á hvaða forsendum viðkomandi myndi svo velja ríkiskirkjuna fram yfir aðrar „bragðtegundir“ kristninnar.

Og já, ég veit að spurningin er fráleit – í þessu ímyndaða landi væri auðvitað engin ríkiskirkja.

Valgarður Guðjónsson 04.11.2009
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 04/11/09 15:11 #

Fín grein hjá þér. Ég held að fólk sé í Þjóðkirkjunni af því að hún er samfélag og veitir þjónustu við tímamótaathafnir fjölskyldna. Fólk er orðið vant því að hlusta á guðsorðið án þess í raun hlusta eða taka mark á því. Á meðan það fær í grunninn til fallega athöfn sem allir virðast ánægðir með dugir það mörgum. Þetta er náttúrulega ákaflega "sloppy" og í raun móðgun við kristnina eins og hún er í bókinni mærðu. En flestum prestunum virðist nokkuð sama um þetta og á meðan kerfið þjónar þeim og fólkinu í megin dráttum er haldið svona áfram. Þetta ástand hræsni er svo greitt dýrum dómum af ríkinu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/11/09 15:28 #

Ég er alveg til í að gefa "kristnum" afslátt af sköpunarsögunni og helvíti en mér finnst fáránlegt að fólk kalli sig kristið ef það trúir hvorki á meyfæðinguna né upprisuna.


Jón Steinar. - 04/11/09 15:31 #

Fín og yfirveguð grein og mætti vera fyrirmynd í orðræðunni um þessi efni. Mér finnst hún nefnilega alltof oft leiðast út í ritningatúlkanir og stagl um hebreskar þýðingar, orðsyfjar eða út fyrir tíma og rúm bili milli miklahvells og maurþúfu. Það eru oftast hinir kristnu sem leiða þessar umræður frá meginefninu, því þeir geta ekki réttlætt grunndvöll trúar sinnar eða lýst honum af skynsemi. Til að trúa á ritningarnar og munnlega loftfimleika apologistanna, þarf maður að ofbjóða eigin synsemi og ganga þvert á allt sem þekking manns segir. Það er svipað og að ganga gegn eigin siðgæði og gera eitthvað skelfilegt, sem manni er þvert um geð. Það er gott að fólk er í auknu mæli farið að sjá þetta. Það er kannski ekki síður trúvarnarmönnum að þakka en trúlausum.

Það eina sem við höfum gert er að svæla þá út úr grenjunum svo þeir fái sýnt fáránleikann. Það er flestu skynsömu fólki nóg að sjá.


Jón Steinar - 04/11/09 15:34 #

Engan afslátt Matti. Það er allt eða ekki neitt, samkvæmt dogmanu. Þú virðist raunar vera að segja það undir rós. hehe


Þröstur - 04/11/09 15:38 #

Góð grein - það að eitthvað sé vani frá fæðingu verða hlutir seinna í lífi okkar okkar sem við hugsum nánast ekkert um og höfum í sjálfu sér enga hugmynd af hverju við gerum eða segjum þá.

Fullorðið fólk fer í kirkjur í fínasta outfitti og fer með bænir án þess að halda að einhver sé að lesa hugsanir þeirra. Síðan segir fólk "amen" í kór án þess að vita hvað það þýðir. Þetta finnst mér bæði kjánalegur þykjustuleikur af hálfu fólksins og einnig móðgangi fyrir prestana/trúnna.

Að vísu var ég sjálfur í þessum kjánalega þykjustuleik í mörg ár og veit ekki enn af hverju það tók mig svo langan tíma að hugsa aðeins um þetta.


Elías Halldór - 04/11/09 17:03 #

Það getur víst enginn kallast kristinn ef sá hinn sami trúir ekki á friðþægingarkenninguna, eða að Jesús Kristur hafi "frelsað" okkur frá "syndum" okkar með því að krossfestast.

Ég býst ekki við því að fleiri en 15% meðlima þjóðkirkjunnar geti skrifað undir þetta.


Halldór E. - 05/11/09 17:55 #

Sem kristinn einstaklingur þá get ég ekki tekið undir orð Valgarðs. Í raun er miklu betri færsla hér áður á Vantrú sem notar Trúarjátninguna sem mælikvarða.

Þannig er þetta ekki spurning um trú á sköpunarsöguna, heldur að Guð sé skaparinn. Þetta tvennt er gjörólíkt og bókstafshyggjan sem Mofi aðhyllist á t.d. fátt skylt við hefðbundin kristindóm.

Meyfæðingin er vissulega óþægilegt mál, en að mínu mati auðvelt að skauta fram hjá því, enda aðeins nefnt einu sinni í guðspjöllunum og virðist ekkert atriði hjá Markúsi sem er elsta guðspjallið eða Jóhannesi, sem er það yngsta.

Upprisann er hins vegar grundvallandi í kristinni trú og ég get tekið undir með skrifunum hér að ofan og Páli postula að án upprisunnar er kristindómur marklaus.

Himnaríki og helvíti sem einhvers konar dualískur heimsendaveruleiki er að mínu viti ekki eitthvað sem er nothæft sem mælikvarði. Vissulega eru vísanir í dualisma til staðar í guðspjöllunum í einhverju mæli og Páll talar um tvíhyggju eins og enginn sé morgundagurinn. Hvort sú tvíhyggja tengist einhvers konar hefnd á efsta degi, hverjir nákvæmlega verði á hvorum stað fyrir sig, eða hvers konar tilraunir til að útskýra þessi hugtök í smáatriðum er brotthvarf frá almennum kristindómi í sértæka sértrúarhópa. Þannig líta sumir "liberal" kristnir svo á að þessi dualíski veruleiki um himnaríki og hel, eigi í jafnmiklum mæli við veruleikann hér og nú, eins og einhverja framtíðarheimsendahyggju.

Ef til er eitthvað sem heitir samkomulag kristinna manna um það sem í raun þarf til að kallar kristinn þá er það trú og/eða von á dauða og upprisu Jesú Krists. Allt annað er "adiaphora". Hvað nákvæmlega felst í upprisunni er síðan tæknilegt úrlausnarefni.


Halldór E. - 05/11/09 17:56 #

Hvaða rugl er í gangi á þessari síðu með greinarskil? Hver ber ábyrgð á þessu?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/11/09 18:24 #

...bókstafshyggjan sem Mofi aðhyllist á t.d. fátt skylt við hefðbundin kristindóm.

Ég held nú að "bókstafshyggja" Mofa sé nær t.d. Lúther (sem sagði að þegar Móses skrifaði dagur þá meinti hann dagur og ekkert annað) heldur en einhver nútíma frjálslyndis-túlkun.

Myndirðu ekki t.d. vilja segja að þrenningarkenningin sé líka nálægt því að vera úrslitaatriði?


Valgarður Guðjónsson - 05/11/09 20:43 #

Takk fyrir viðbrögðin...

Halldór, ég átti svo sem aldrei von á öðru en að það kæmu mismunandi skoðanir á því hvað þarf til að teljast kristinn og athyglisvert að fá fram mismunandi skoðanir. Ég tók samt það sem ég hafði skilið sem lágmarks samnefnara, kannski er í dag gefinn meiri afsláttur af bókstafnum en þegar ég var ungur..

En ég get ekki gert að því að spyrja hvers vegna upprisan sé svona mikilvæg? Breytti hún einhverju í sjálfu sér? Myndu kristnir haga sér öðru vísi dags daglega ef í ljós kæmi endanleg sönnun þess að hún hefði aldrei átt sér stað?

Eins, til að flækja málið, virðist upprisan ekki alveg á hreinu, þeas. hvort hann hafi einn risið upp eða fleiri með honum á sama tíma, jafnvel er sagt frá upprisu annarra einstaklinga nokkrum öldum fyrr. Þá virðist heldur ekki á hreinu hvort það var einungis andinn sem reis upp eða hvort hann fór til himna í eigin líkama.

Sem leiðir hugann að öðru vandamáli, ef Jesú reis upp, er ekki rétt skilið hjá mér að það hafi verið til himna? Og fylgir þá ekki að nauðsynlegt er að trúa á himnaríki?

Og, Halldór, hvað áttu við með ábyrgð á rugli á greinaskilum?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/11/09 20:48 #

Og, Halldór, hvað áttu við með ábyrgð á rugli á greinaskilum?

Ég lagaði athugasemd Halldórs, hann klúðraði hennii alveg sjálfur og notaði ekki "Skoða" takkann ;-) Hér er stuðst við Markdown rithátt og því þarf tvö greinarskil.


Halldór E. - 05/11/09 22:27 #

Valgarður, það er rétt hjá þér að það er nokkuð misræmi í upprisufrásögnum guðspjallanna. Hversu mikið það misræmi er byggir hins vegar á því hvernig við nálgumst textann.

Svo ég taki ófullkomið en vonandi hjálplegt dæmi. Eftir 2000 ár, rekur einhver augun í eintak af Fréttablaðinu annars vegar og Morgunblaðinu hins vegar í rannsóknum sínum á lífinu á Íslandi árið 2009. Ég geri ráð fyrir að viðkomandi myndi fljótlega sjá af lestri þessara blaða að það varð einhvers konar fjármálakrísa á Íslandi. En það gæti orðið honum nokkur vandi á höndum að sjá hvað gerðist nákvæmlega. Hvað var orsök og afleiðing.

Upprisan er forsenda þeirrar vonar kristinnar trúar að dauðinn sem tákn fyrir illsku og óréttlæti hafi ekki síðasta orðið. Táknmynd fyrir þá fullvissu að illskan sigri ekki að lokum. Án þessarar fullvissu er kristin trú marklaus, að sögn Páls postula.

Þegar þú spyrð hvort Jesús hafi ekki risið upp til himna, þá ertu að blanda saman tveimur hugmyndum. Annars vegar upprisunni frá dauðum, og hins vegar uppstigningunni, þegar Jesús steig upp til himna.

En jú, það er rétt hjá þér að himnaríki, vonin um ríkið þar sem illskan er ekki lengur til staðar, er mikilvægur þáttur hjá flestum kristnum mönnum. Hins vegar felur vonin um himnaríki ekki sjálfkrafa í sér tilvist helvítis, eins og mér fannst framsetning þín í greininni í upphafi gefa til kynna. Ríki án illsku, þýðir ekki endilega að til sé ríki sem inniheldur bara illsku. Trúað fólk hefur nálgast þessi hugtök á ýmsan hátt í gegnum tíðina og vissulega hafa þessi hugtök verið notuð innan kirkjunnar sem stjórntæki í valdabaráttu.

Varðandi hegðun kristinna manna, þá held ég að hugmyndir um kristið siðferði eins og eru kynntar m.a. í orðum Guðna Ágústssonar hér á undan séu vitavitlausar. Þannig hef ég fært rök fyrir því í rannsóknarverkefni um 4. kafla 1Þess.bréfs að Páll postuli benti söfnuðinum í Þessalonikíu að þeim beri að hegða sér eins og Epíkurianar, sem n.b. voru atheistar. Munurinn á kristnum og epíkuriönum sé ekki, að mati Páls fólgin í siðferðislegum yfirburðum kristinna manna, því slíkir yfirburðir eigi alls ekki við, enda beri kristnum mönnum að hegða sér eins og atheistar. Munurinn felist í þeirri fullvissu kristinna að dauðinn hafi ekki síðasta orðið.

Spurningin hvort kristnir menn myndu hegða sér öðruvísi án upprisutrúar er að mínu viti marklaus vegna þessa.

Þessi hugmynd um að gott siðferði sé kristið siðferði og að kristið fólk hafi betri siðferðilega mælikvarða en aðrir er einfaldlega léleg guðfræði, og alls ekki í samræmi við hugmyndir Páls postula í elsta riti Nýja Testamentisins eða megnið af skrifum Lúthers svo dæmi sé tekið.

Það er svo sem auðvitað. Matti kennir mér um þegar vantrúarsíðan virkar ekki. :-)


Halldór E. - 05/11/09 22:30 #

Vísunin í Guðna Ágústsson var vísun í þetta hér: http://www.vantru.is/2008/05/22/16.00/


Halldór E. - 05/11/09 22:56 #

Afsakið þriðju færsluna í röð. Þegar ég tala um upprisuna sem meginþátt, þá er það viðbrögð við upptalningu Valgarðs í færslunni í upphafi.

Auðvitað er grundvallandi þáttur kristinnar trúar að Guð er skapari alls, þó sögurnar tvær í upphafi Biblíunnar séu ekki tilraun til að lýsa hvernig sköpunin átti sér stað. Eins skiptir máli að Guð er með okkur í heilögum anda. Af þeim sökum er þrenningarkenningin hjálpleg, hins vegar er þrenningarkenningin byggð að mestu á því sem þrenningin er ekki, fremur en að hún sé útskýrð á forsendum þess sem hún er. Áhugaverð tilraun til að útskýra þrenninguna á forsendum þess sem hún er, má reyndar sjá hjá Leonardo Boff.

Ég heyri í ummælum hér tilhneigingu til að telja skilning okkar á kristninni sem einhvers konar fasta. Raunin er hins vegar sú að með meiri þekkingu á menningu í fornöld, auknum skilningi á mismunandi bókmenntaformum og að sjálfsögðu uppgötvunum á öðrum heimildum en Biblíunni, þá fáum við skýrari mynd af því sem sagt er, við lærum hvernig hugtök voru notuð á ritunartíma Biblíunnar. Stundum veldur það því að við öðlumst dýpri skilning á þeim Guði sem bókin segir frá.

Önnur hlið á þessu er að stundum sjáum við í endurliti hvernig Biblían hefur vísvitandi verið misnotuð af kirkjunni til kúga og niðurlægja fólk. Tilraun kirkjunnar til að horfast í augu við misnotkun á meintu orði Guðs til að kúga og særa, er stundum kallað að gefa afslátt af trúnni. Ég hef tilhneigingu til að sjá það sem tilraun til að treysta á orð Guðs, snúa frá villu til vegar.


Valgarður Guðjónsson - 05/11/09 23:32 #

Takk fyrir áhugaverð svör Halldór.

Þetta er nálgun sem ég hef ekki heyrt áður, amk. ekki svona hreinræktaða, heldur oftast blandaða amk. siðferði og jafnvel öðrum atriðum.

Hugmyndin um himnaríki án helvítis er athyglisverð, nokkuð sem ég hef ekki heyrt síðan í kristnifræði í skóla - fylgist kannski svona illa með - en hugmyndin um helvíti sem ófrávíkjanlega andstæðu himnaríkis er svo sem ekki mín.

En ef ég má halda áfram að forvitnast, því mér finnst þetta athyglisverð afstaða...

Ef við höldum áfram nálguninni við að skilja bankahrunið, hversu vonlaust yrði ekki að fá haldgóðar upplýsingar ef ekkert yrði skrifað niður fyrr en eftir nokkra áratugi eða aldir (mig minnir að fyrstu ritaðar heimildir séu frá ca. 375, aftur kristnifræðin úr skóla)? Gæti ekki að ansi margt myndi skolast til?

Ég geri mér grein fyrir muninum á upprisu og uppstigningu, var að einfalda textann of mikið, en eftir stendur kannski spurningin um hvort hann hafi verið sá eini eða ekki.

Og, meiri forvitni, er upprisan nauðsynleg forsenda til að trúa á framhaldslíf og himnaríki? Hvað með þá sem lifðu fyrir tíma Jesú, áttu þeir þá ekki von?

Og, ég velti fyrir mér samt, jafnvel þó við gefum okkur þessar forsendur, ef við skoðum aftur ímyndaða dæmið sem ég tók um auða blaðið, myndi viðkomandi velja þessa nálgun við kristnina?

Ég vil ítreka, til að forðast misskilning, að mér finnnst þetta forvitnileg skoðun og er alls ekki að gera lítið úr henni með þessum áframhaldandi spurningum.


Trausti Freyr - 06/11/09 00:04 #

@ Halldór E. Ég vil nota tækifærið og þakka þér fyrir áhugaverð og málefnaleg svör. Ég vona að við heyrum meira frá þér á þessari síðu.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 06/11/09 01:01 #

Önnur hlið á þessu er að stundum sjáum við í endurliti hvernig Biblían hefur vísvitandi verið misnotuð af kirkjunni til kúga og niðurlægja fólk.

Örlítil athugasemd. Mér finnst rangt að segja að þetta sé "misnotkun" á biblíunni. Þetta er eflaust noktun sem þér líkar ekki við, en það er engin "rétt noktun" á biblíunni eins og það er t.d. "misnotkun" að nota hamar til þess að reyna að klippa pappír.


Halldór E. - 06/11/09 02:37 #

Hjalti, ég get samþykkt að athugasemd þín á vissulega rétt á sér.

Ég þakka góð orð í minn garð. Varðandi orð Trausta Freys, þá hef ég nú skrifað eitt og annað misgott í ummælum á Vantrú síðan alla vega 2004, þannig að ég er ekki nýkomin til leiks. Þrátt fyrir að ég sé ekki daglegur gestur þá kíki ég stundum við.

Það er rétt að taka fram hér að Biblíufræði er ekki mitt fræðisvið. Hins vegar er talið að elstu skrif Nýja Testamentisins sé öðru hvoru megin við árið 50. Það má t.d. færa rök fyrir því að Galatabréfið sé skrifað í kringum 48 e.Kr. þó flestir dagsetji það mun síðar. En hitt er almennt viðurkennt að 1 Þessaloníkubréf sé 51-53. Hvað Guðspjöllin varðar er yfirleitt talað um Markús í kringum 60-70+, það fer eftir fræðimönnum.

Elstu textabrotin eru að ég held rétt eftir 100, en það eru ekki fullburða textar, aðeins brot. Reyndar eru kenningar um brot úr Markúsarguðspjalli frá því rétt um 60, en ég tæki því varlega.

Á undanförnum árum hafa þessi ártöl breyst, fram og til baka í hugum fræðimanna, enda erfitt að fullyrða með vissu um eitt eða neitt. Hins vegar eru ártöl frá 4. öld frekar tengd endanlegri ákvörðun um hvaða rit áttu að tilheyra Nýja testamentinu og hver ekki, heldur en ritunartíma. Ég held að það finnist varla fræðimaður sem myndi halda fram ritunartíma á Nýja Testamentisritum eftir 150 og í dag eru fáir sem myndu tímasetja Jóhannesarguðspjall (yngsta guðspjallið) mikið eftir árið 100, en vissulega eru 70 ár langur tími í munnlegri geymd (alla vega í okkar huga).

En ég vil nefna á ný, Biblíufræði og -rannsóknir eru ekki mitt aðalfræðisvið, þannig að það getur verið að það séu skekkjur í því sem ég segi hér að ofan. Annars er ágætt að líta til tveggja fræðimanna sem má nota sem efri og neðri mörk í tímasetningum, þ.e. Bart Erhman sem hefur tilhneigingu til að telja rit yngri, og N.T. Wright sem hneigist að því að ritin séu eldri. Flestir aðrir halda sig á milli þeirra tveggja.

Varðandi spurninguna um upprisu sem forsendu framhaldslífs, þá er svarið nei. Fjölmörg trúarbrögð (ekki öll þó) ganga út frá hugmyndum um framhaldslíf án þess að gera ráð fyrir upprisu líkt og kristindómur.

Svar mitt varðandi þá sem lifðu fyrir Krist, þá gildir það sama í mínum huga um þá sem hafa ekki heyrt um Krist eða hafa ákveðið að hafna upprisunni. Trú mín er á Guð sem er meiri og margbrotnari en ég. Ég trúi og treysti því að hann sé réttlátur gagnvart öllum, ekki bara þeim sem hafa haft raunverlegt tækifæri til að mæta honum í lífi sínu.

Spurningin um auða blaðið er áhugaverð. Að vera alinn upp án trúar í BNA er líklega það sem kemst næst því að vera autt blað. Þó vissulega séu trúarkenningar á hverju horni, þá eru þær ekki í skólakerfinu og trúarkenningarnar á götuhornunum eru oft nokkuð fjarri því sem ég hef skrifað hér. Samt sem áður á ég nokkra vini í BNA sem hafa ekki trúarlegan fjölskyldubakgrunn, tóku trú á fullorðinsárum en hafa um margt svipaðar trúarskoðanir og þær sem ég lýsi hér að ofan. En ég þekki svo sem aðra sem hafa tekið trú á fullorðinsárum sem hafa farið í allt aðra átt.

Vandamál við svona svör eins og ég gef hér, eru ýmislegt.

i. Fyrir það fyrsta þá er íslenska ekki lengur það mál sem ég nota við guðfræðilegar vangaveltur.

ii. Í annan stað er stundum erfitt að gera grein fyrir guðfræðilegum atriðum, án þess að birta fyrirvara um merkingu hugtaka. Þetta á sér í lagi við þegar pælingarnar eru á jaðri játninga kirkjunnar og auðvelt að falla í villukenningapittinn.

iii. Í þriðja lagi þá er um að ræða efni sem mótar heimsmynd mína og hefur haft gífurleg áhrif á allt líf mitt. Þannig er erfitt að vera ekki viðkvæmur fyrir gagnrýni eða mistúlkunum. En hvað, ef ég væri aumingi, þá myndi ég varla hanga á vantru.is.

iv. Fjórði og síðasti fyrirvarinn felst síðan í því að mikið af viðbrögðum mínum hér eru formaðar "on the go" þar sem ég sit í sófanum mínum og velti fyrir mér hvernig heimsmynd mín bregst við þeim ummælum sem ég sé hér. Ummæli mín eru ekki kerfisbundin í þeim skilningi að ég setjist niður með skrif Boff, Peters og Evans, og móti svör mín. Þannig að þó ég vonist til þess að vera einlægur og heiðarlegur, þá er alveg ljóst að svör mín geta auðveldlega innihaldið ósamræmi og rangfærslur.


Davíð - 06/11/09 12:39 #

@Halldór E. "Meyfæðingin er vissulega óþægilegt mál, en að mínu mati auðvelt að skauta fram hjá því, enda aðeins nefnt einu sinni í guðspjöllunum og virðist ekkert atriði hjá Markúsi sem er elsta guðspjallið eða Jóhannesi, sem er það yngsta."

Hvað var þá svona merkilegt við Jesú ef hann er bara fullkomnlega eðlilega getið barn? Er hann ekki sonur Guðs?? (Ég hef þó aldrei fengið það á hreint hvað Jesú á að vera enda er þetta heilaga þrenningardæmi mjög dúbíus)

Að auki finnst mér mjög basic að ef það er til himnaríki verður að vera til e-ð helvíti (hvernig sem það er) því hvað er gott ef ekki er til vont? Ef bara Guð væri til og engin ill andstæða hans ætti þá ekki allt að vera gott? (sem það er ekki)

Jesús talar um að fólk komist til himnaríkis en hvað verður um fólkið sem kemst ekki?

Plotholes dauðans í gangi hjá þér félagi! Eða kannski er ég í ruglinu :P

Pældu í þessu

Takk annars fyrir góðar athugasemdir. Mér finnst það eigi að ríkja gagnkvæm virðing milli trúaðra og trúlausra. Þótt þeir beri kannski ekki mikla virðingu fyrir skoðunum hvors annars í þessum málum þá er skítkast og ólæti algjörlega óþarfi.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 06/11/09 23:54 #

Halldór: Þó ég hafi ekkert efnislega að segja við athugasemdir þínar, þá finnst mér gaman að lesa þær og hvet þig endilega til að skrifa meira inn á þennan vef. (Þó ég viti að það sé ekki endilega vinsælt í kirkjunni.)

Annars, varst þú ekki foringi í Vatnaskógi á tíunda áratugnum? Ég var þar þá. :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.