Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þröngsýni og dýrkun

Um daginn átti ég áhugavert spjall við kunningja sem vildi spyrjast fyrir um vantrúarmenn og skoðanir þeirra. Umræðuefnið var í fyrstu fullyrðingar sumra um meinta skaðsemi bólusetninga.

Auðvitað gat ég ekkert fullyrt um skoðanir allra vantrúarmanna en taldi líklegt að meginþorri þeirra teldi þessar hugmyndir um skaðsemi bólusetninga hæpnar, svo ekki sé meira sagt. Kunninginn taldi líklegt að vantrúarmenn vísuðu í rannsóknir sem sýndu fram á að skaðsemin væri smávægileg miðað við þann hag sem af bólusetningu hlýst.

Hins vegar benti hann á að þær rannsóknir væru oftar en ekki kostaðar af lyfjafyrirtækjum og til væru aðrar rannsóknir sem sýndu fram á hið gagnstæða. Kunninginn taldi skrítið að vantrúarmenn stylltu sér upp sem varðhundar „stofnunarinnar“ þegar þeir hreykja sér annars af sjálfstæði í hugsun og gagnrýni á ríkjandi skoðanir. Hann gaf sterklega í skyn að við „dýrkuðum“ menn í hvítum sloppum á rannsóknarstofum (vísindahyggjuna).

Án þess að fara nánar út í þá sálma varð þetta til þess að ég fór að velta fyrir mér eigin hugmyndum og fordómum ekki síður en eðli Vantrúar. Vantrú er ekki „anti-establishment“, þ.e.a.s. á móti viðteknum hugmyndum í einu og öllu. Ef svo væri fylktum við okkur náttúrulega um gagnrýni á bólusetningar, lyfjatökur, hefðbundnar lækningar o.s.frv.

Þegar ég leit í eigin rann sá ég að ég hafna fyrirfram ótalmörgum hugmyndum og tilgátum að lítt athuguðu máli. Það hljóta að teljast fordómar og þröngsýni. En meinið er að það er gjörsamlega útilokað að ætla að kanna sérhverja hugmynd í hörgul til að mynda sér skoðun á henni því þá gerði maður lítið annað. Líkt og flestir vantrúarmenn hef ég kafað ofan í kjölinn á nógu mörgum hugmyndum og sannfærst um fánýti þeirra til að ég þykist fær um að flokka aðrar og svipaðar hugmyndir (sem kjaftæði) þótt ég hafi rétt rekið tána ofan í þann poll eða pytt.

Þegar þetta flokkunarkerfi er orðið hálfsjálfvirkt og hugsunarlítið er auðvitað hætta á að í einhverjum tilvikum sjáist manni yfir sannfærandi gögn. Sé dæmið um meinta skaðsemi bólusetninga tekið upp aftur viðurkenni ég fúslega að ég hef lítinn sem engan áhuga á því. Ég hef ekki kynnt mér frumgögn og rannsóknir, með og á móti. Ég fylgi straumnum, fjöldanum og yfirvaldinu svo til hugsunarlaust og lái mér hver sem vill.

En þegar ég hugsaði málið fagnaði ég hins vegar að til væru menn sem nenntu að hella sér út í þetta og gagnrýna kerfið. Gagnrýni er alltaf nauðsynleg. Hins vegar hefur þessum gagnrýnendum orðið allágengt í sínum málstað, svo mjög að nú hafa margir foreldrar ákveðið að sleppa að bólusetja börn sín. Þegar fjöldi óbólusettra barna eykst aukast líkurnar á faraldri þeirrar pestar sem bólusetningin átti að kveða niður. Er þá ekki verr farið en heima setið?

Ætli það sé ekki einhvern veginn svona sem margir trúmenn líta á málflutning Vantrúarmanna í trúmálum? Gagnrýni er vissulega góð en ef of margir fara að taka mark á henni er grafið undan einhverju sem er svo mikilvægt að ef ákveðnu marki er náð má búast við skelfilegum afleiðingum. Ekki vantar varnaðarorð eða hræðsluáróður presta í þá veruna, t.d. þessi orð biskups:

Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.

Kristnir halda að trú þeirra sé einhver bólusetning gegn helsi, hatri og dauða. Í Vantrú erum við hins vegar sannfærðir um að kristin trú sé einmitt helsi og reynslan af valdaskeiði kristninnar í Evrópu og islam í arabaheiminum sé ólygnust.

Ég hef látið bólusetja börnin mín því mér er sagt að það sé þeim fyrir bestu og líkur á skaða séu smávægilegar. Flestir foreldrar láta skíra börn sín og ferma því þeim er sagt að það sé þeim fyrir bestu og líkur á skaða (t.d. trúarofstæki eða ranghugmyndum) séu smávægilegar.

Ég skil ekki menn sem nenna að velta sér upp úr gagnrýni á bólusetningum og ég veit að fæstir skilja hvernig ég nenni að velta mér upp úr gagnrýni á trúarbrögðum. Fólk getur ekki kafað ofan í allt til að komast að því hverju á að trúa, um nóg annað er að hugsa. Fordómar ráða meiru en við kærum okkur um að viðurkenna.

Reynir Harðarson 21.10.2009
Flokkað undir: ( Bólusetningar , Efahyggja )

Viðbrögð


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 21/10/09 11:45 #

Þetta bólusetningarmál er allt hið undarlegasta.

Í meira en heila öld hafa bólusetningar verið notaðar með gríðarlega góðum árangri og nánast engum aukaverkunum. Milljónum ef ekki milljörðum mannslífa hefur verið bjargað.

Af hverju kemst allt í einu á flug sá kvittur að bólusetningar séu hættulegar, þvert ofan í heillrar aldar reynslu milljarða manna og þúsundir klíniskra rannsókna sem aldrei hafa leitt í ljós neina hættu af þeirra völdum?

Skýringarnar eru af margvíslegum toga. Fyrst og fremst er væntanlega um að kenna að á internetinu geta hvaða rugludallar og blaðurskjóður haft jafn hátt og þeir sem vit hafa á málum og erfitt er að kanna þekkingarbakgrunn viðkomandi.

Tveir hópar fólks eru hatrammastir í baráttu sinni gegn bólusetningum. Annars vegar eru hægri sinnaðir og sköpunartrúar. Þeim er í mun að sýna að vísindi séu meira og minna samsæri gegn kristninni. Hinn hópurinn eru nýaldarsinnað fólk sem trúir á alls kyns galdra svo sem smáskammtalækningar, heilun og fornar bábiljur frá ýmsum heimshornum. Þessi hópur tortryggir líka allar rannsóknir "Vestrænna" vísinda og læknisfræði, þeas þeirra sem byggja á staðreyndum og rannsóknum en ekki göldrum og hjátrú.

Báðir hóparnir eru gríðarstórir og vel skipulagðir, enda stjarnfræðilegar peningaupphæðir í spilinu

Hér er góð yfirlitsgrein úr tímaritinu Wired um andbólusetningarbóluna og stríðið milli hjátrúar og vísinda:

An Epidemic of Fear: How Panicked Parents Skipping Shots Endangers Us All

Hér eru margvíslegar greinar um bólusetningar á vefritinu Science Based Medicine


Sveinn Þórhallsson - 21/10/09 17:04 #

Ég mæli líka með að fólk fletti upp á notandanum C0nc0rdance á Youtube ef það hefur áhuga á þessum debat um meinta skaðsemi bólusetninga. Hann er mjög fróður um þau mál og vídjóin hans eru upplýsandi og skemmtileg.


Þór Friðriksson - 21/10/09 21:40 #

Takk fyrir góða grein.

Ég hef aldrei skilið fólk sem efast um gagnsemi bólusetninga. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi bólusetninga. Ég held þó að flestir hafi þó meiri áhyggjur af skaðsemi bóluefna en lélegri virkni. Í þeim tilfellum finnst mér mjög mikilvægt að gera greinarmun á því að öll bóluefni séu skaðleg og að eitthvað tiltekið bóluefni sé skaðlegt. Slíkan greinarmun gera því miður ekki allir og hópur fólks telur bólusetningar vera af hinu illa komnar og geri engum gott. Þetta er augljóslega kjaftæði enda búið að rannsaka fjöldann allan af bóluefnum, bæði af lyfjafyrirtækjum og óháðum rannsóknarstofum og á þeim er mikil og góð reynsla. Sum bóluefni geta valdið þó alvarlegum aukaverkunum, en þær aukaverkanir eru svo miklu miklu sjaldgæfari en alvarlegir fylgikvillar sjúkdómsins sem bóluefnið hindar að réttlætanlegt er að nota þau.

Nú er svínaflensan og bólusetning við henni töluvert í umræðunni og byrjað er að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi. Árið 1976 var bólusett gegn H1N1 í USA og í kjölfarið komu fram mörg tilfelli af Guillain-Barré syndrome (GBS), sjaldgæfum taugasjúkdómi sem veldur lömun og enda sumir í öndunarvél. Flestir jafna sig alveg en sumir ná aldrei fullum styrk á ný. Í kjölfarið var bólusetningum við H1N1 hætt. Þá voru fá þekkt tilfelli af H1N1 smitum í þjóðfélaginu og ekki jafn brýn ástæða til bólusetninga og nú, þegar heimsfaraldur er yfirvofandi. Ekki er víst að H1N1 bólusetningin árið 1976 hafi valdið GBS en GBS gerir oftast vart við sig eftir sýkingar (camphylobacter, inflúensu) og er talið að um ofvirkt sjálfsofnæmiviðbragð sé að ræða. Óvíst er hvort inflúensubólusetningar valdi GBS og þarf frekari rannsóknir til að skera úr um það. Í algjöra andstöðu við paranojuna um að bólusetningar valdi GBS hefur verið stungið upp á því að beita bólusetningum sem vörn gegn GBS þar sem sjúkdómurinn kemur gjarnan í kjölfar inflúensusýkinga. Ég velti því sjálfur fyrir mér hvort æskilegt væri að fá svínaflensubóluefnið og sérstaklega hvort búið væri að gera nægilega miklar rannsóknir á því. Eftir minni bestu vitund er bóluefnið búið til á svipaðan hátt og hefðbundin inflúensubóluefni sem góð reynsla er komin á og notuð eru til bólusetningar á hverju ári. Ég las nokkrar greinar um tengsl GBS og inflúensu sem ég fann gegnum PubMed. Ég rakst á eina áhugaverða grein eftir lækni sem fékk GBS eftir campylobacter sýkingu sem veltir því fyrir sér hvort hann eigi að fá bólusetningu núna við svínaflensunni. Mæli með að áhugasamir kíki á hana, hún er aðgengileg gegnum landsaðgang hér: http://www.bmj.com/cgi/content/full/339/sep09_1/b3577?view=long&pmid=19740925. Fyrir aðra þá birtist hún í British Medical Journal í sept 2009. Eftir Laura Claire Price og nefnist "Should I have an H1N1 flu vaccination after Guillain-Barré syndrome?". Í lok greinarinnar má einnig finna ágætar heimildir um bólusetningarnar árið 1976.


FellowRanger - 21/10/09 22:18 #

Svo má bæta því við að þegar ég sé einhverja dólga skrifa um bólusetningar eins og það sé hryðjuverk, má alloft rekast á eitthvað á borð við: "mainstream science". Þetta hefur valdið hjá mér forvitni, hvað meina þeir með þessu? Er slæmt að meirihluti vísindasamfélagsins sé á einu máli, eða eru þeir að ýja að því að þetta sé skipulögð starfsemi?


Haukur Ísleifsson - 22/10/09 20:47 #

Ég ætla rétt að vona að vísindasamfélagið stundi skipulagða starfsemi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.