Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af ávöxtunum skulið þið þekkja þá

Þúsund krónu seðill
Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup er stundum dálítið krumpaður

Segðu mér hverjir vinir þínir eru, þá veit ég hvern mann þú hefur að geyma.

Nýlega birtist áhugaverð frétt á vefsíðu breska dagblaðsins The Telegraph undir fyrirsögninni: Gay men 'can be identified by their Facebook friends'. Þar kom fram að tveir nemendur við MIT háskólann í Bandaríkjunum höfðu útbúið forrit sem skoðaði opinbera kynhneigð vina notanda á Facebook vefnum og gat síðan kveðið rétt upp úr með það hvort viðkomandi notandi væri samkynhneigður eða ekki.

Það er nefnilega ótrúlega margt sem hægt er að álykta um okkur út frá því hverja við umgöngumst, tengjum okkur við eða smjöðrum fyrir.

Undanfarið hafa stjórnmálamenn verið gagnrýndir harðlega fyrir að hafa þegið styrki frá fyrirtækjum, sitja í stjórnum þeirra, stjórnum banka og sjóða og fyrir það hverja þeir velja sem ráðgjafa sína í ferðum erlendis. Spurningar vakna; er stjórnmálamaður sem setið hefur í stjórn stórfyrirtækis líklegur til að ganga gegn hagsmunum þess, jafvel þó almannahagsmunir séu í húfi? Hvað með ef viðkomandi stjórnmálamaður er jafnvel hluthafi í fyrirtækinu?

Þessar spurningar eiga fullkomlega rétt á sér. Þú bítur ekki höndina sem fóðrar þig eða spenann sem þú sýgur.

Hagsmunategsl, styrkir, gjafir eða mútur

Grafarvogskirkja
Grafarvogskirkja
gunnsi skv. cc leyfi
Allt þykir þetta ákaflega varasamt núna þegar almenningur hefur vaknað til meðvitundar um hvað var í gangi hér á landi síðast liðin ár.

Hér eru nokkur dæmi um önnur hagsmunatengsl, aðra styrki og aðrar gjafir:

Hugsanlega hafa fleiri auðmenn og fleiri fyrirtæki styrkt einstaka kirkjur út um allt land eða jafnvel ríkiskirkjuna sjálfa. Getur verið að þessi óeðlilegu tengsl hafi haft einhver áhrif á málflutning kirkjunnar?

Hvað sagði kirkjan?

Kirkjan sem þegið hefur stórfé og gjafir frá auðmönnum brást þannig við hruninu að biskup tók heilshugar undir málflutning stjórnvalda um að ekki mætti persónugera vandann. Hann bað fólk um leita ekki sökudólga og blóraböggla!

Hvað ætli megi finna mörg dæmi um presta sem skauta framhjá gagnrýni á þá sem hafa áður gefið honum eða kirkjunni hans stórgjafir? Þeir hafa enda verið duglegir að taka á sig sökina á hruninu sjálfir. Birst hafa blogg eftir þá þar sem þeir opinbera sig sem breyska syndara sem keyptu sér sportbíla, flatskjái og jeppa.

Með þessum málflutningi eru þeir náttúrulega að ýta því að almenningi að hrunið sé fólkinu sjálfu að kenna en ekki auðmönnunum eða ríkisvaldinu. Þetta er varhugavert þar sem prestar eru málsmetandi menn í þjóðfélaginu (því miður) og gefa sig út fyrir að vera skoðanamótandi afl og jafnvel leiðandi í umræðunni í predikunum sínum.

Prestur – eða kirkja – sem þiggur rausnalegar gjafir frá auðmönnum fer í staðinn mjúkum höndum um þá í boðskap sínum. Þá er ekki verið að veifa sögunni af ríka manninum og nálarauganu heldur frekar kalvinískri nálgun um að velgengni í lífinu sé til marks um blessun og náð guðs.

Ríkiskirkjan

En kirkjan á Íslandi þáði ekki einungis óeðlilega fyrirgreiðslu frá auðmönnunum og fyrirtækjum þeirra. Kirkjan er rekin með peningum sem hún fær frá ríkinu og nýtur verndar þess umfram önnur trúfélög (skv. stjórnarskrá)! Hvaða gagnrýni fær ríkið frá stofnun sem rekin er með opinberu fé og biður fyrir ríkisstjórn og þingmönnum í hverri einustu messu. Kom fram gagnrýni frá ríkiskirkjunni á óeðlilega stjórnsýslu og græðgi ráðamanna á sínum tíma?

Þarna er um gagnkvæmt bakklór að ræða. Ríkið heldur kirkjunni uppi og fær blessun hennar og jafnframt einhvern siðferðilegan réttlætingarstimpil trúarinnar á sín verk og í staðinn fær ríkiskirkjan að fara fram með sína starfsemi sem oft á tíðum er verulega vafasöm.

Hér nægir að nefna hina umdeildu Vinaleið og aðkomu ríkiskirkjunnar að trúboði í skólum (kristinfræði). Kirkjan neitar reyndar að hafa nokkuð með kristinfræðikennslu í grunnskólum að gera en þó er kennsluefni skrifað af prestum og kirkjan átti fulltrúa í þeim hópi sem skrifaði námskránna.

Um Vinaleið hefur verið fjallað mikið hér á Vantrú og óþarfi að fara nánar í þá umfjöllun hér en þó má benda á að úrskurður Evrópudómstólsins í Strassborg tekur af öll tvímæli um að starfsemi trúfélaga innan skólakerfisins stenst ekki almenn mannréttindaákvæði.

Starfsmenn ríkiskirkjunnar hafa ítrekið, í ræðu og riti, staðfest að Vinaleið sé trúboð og biskupinn taldi hana „sóknarfæri fyrir kirkjuna“. Það þarf því ekki að velkjast í vafa um að hún stangast á við lög um grunnskóla, siðareglur kennara, stjórnarskrá og ýmsa þá alþjóðasamninga um mannréttindi sem Ísland á aðild að.

Allt þetta kemst kirkjan upp með fyrir það eitt að gagnrýna ekki þá sem fóðra hana og veita þeim trúarlega réttlætingu á gjörðum sínum. Í staðinn fær hún styrk frá ríkinu langt umfram önnur trúfélög.

Auk þessa má benda á að ríkiskirkjan er líka dugleg að sækja í sjóði sveitarfélaga til að, m.a. lagfæra kirkjubyggingar sínar sem hún þarf ekki einu sinni að borga nein gjöld af.

Ríkisstyrkt trúarbrögð

Mannkynssagan færir okkur heim sanninn um það hve hættulegt það er að blanda saman trúarbrögðum og ríkisvaldi. Krossferðirnar eru e.t.v. skelfilegasta dæmið sem hægt er að benda á en Sharíalög og samkrull trúar og ríkisvalds í mörgum íslömskum ríkjum eru líka víti til varnaðar.

Þó engum detti í hug að ríkiskirkjan fari að senda Íslendinga unnvörpum í krossferðir til landsins helga þarf ekki að leita langt aftur til að sjá óæskileg áhrif hennar á réttindabaráttu samkynhneigðra, hjónabönd þeirra og rétt til ættleiðingar, eða á kvennabáráttuna á upphafsárum hennar.

Þessi sterku tengsl ríkis og kirkju þarf að rjúfa og það sem fyrst. Sérmeðferð ríkiskirkjunnar er oft réttlætt með því hve stórt hlutfall landsmanna eru þar skráðir meðlimir (flestir reyndar ómeðvitaðir um það strax við fæðingu og þetta hlutfall fer lækkandi). En það réttlætir ekki ranglæti að meirihlutinn njóti þess. Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup frá 2008 er líka meirihluti landsmanna á móti þessari sérmeðferð en þá vildu 51% Íslendinga aðskilnað ríkis og kirkju.

Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur,
en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.
Orðskviðirnir 13:20

Daníel Freyr Jónsson 14.10.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 14/10/09 13:54 #

Svo sanngirni sé gætt, þá töluðu prestar nú oft um græðgina og þannig, ef ég man rétt, og vöruðu við henni.

En orð eru ódýr, og þeir létu þau duga.

Sýndu mér trú þína af verkum þínum, sagði karlinn.

Samstaða geislegra og veraldlegra valdamanna er nefnilega regla fremur en undantekning í sögunni. Eða á ekki að gjalda keisaranum það sem keisarans er?

Það þarf því ekki að velkjast í vafa um að [Vinaleið] stangast á við lög um grunnskóla, siðareglur kennara, stjórnarskrá og ýmsa þá alþjóðasamninga um mannréttindi sem Ísland á aðild að.

Því má bæta við að í sambandi við Gunnar "þukl" Björnsson, Selfossprest, þá vildi siðanefnd kirkjunnar ekki að hann tæki aftur við, þótt hann hefði verið sýknaður, vegna þess að kirkjan ætti að leyfa sér að gera hærri siðferðislegar kröfur heldur en landslög skylda hana til. Heyr á endemi! Tækifærismennskan alveg skínandi þarna!


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 19/10/09 17:57 #

Svo sanngirni sé gætt, þá töluðu prestar nú oft um græðgina og þannig, ef ég man rétt, og vöruðu við henni.

En orð eru ódýr, og þeir létu þau duga.

Gerðu eins og ég segi, en ekki eins og ég geri.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.