Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sunnudagsbréf

I

Fæstir tóku kannski eftir því en hér var smá ritstjórnarkreppa sökum aðstæðna starfandi ritstjóra frá því í febrúar til september. Þannig að birtingar á greinum voru dálítið stopular um tíma. Sá tími er liðinn og vefritið mun taka töluverðan kipp í nánustu framtíð. Ritstjórinn er mættur á svæðið. Minn tími er kominn, aftur.

En sökum þess að ég var frá þennan tíma og ætlunin var að hafa þennan tiltekna lið mánaðarlega þá verður þetta Sunnudagsbréf í aðeins lengra lagi en venjulega. Ég mun draga saman helstu greinar síðan í febrúar, benda á athyglisverða hluti er tengjast hindurvitnum, tala um ýmsar smávægilegar breytingar á vefritinu og máske rausa út í eitt um hitt og þetta. En fyrst, smá ítrekun um Vantrú.

Vefritið og félagið Vantrú

Vefritið Vantrú.is er ætlað sem málgagn fyrir róttæka, herskáa, opinskáa og málglaða trúleysingja hvar sem þeir finnast í hinu pólítíska litrófi.

Félagið og vefritið er auðvitað samtvinnað. En þó svo að maður sé félagi í félagsskapnum Vantrú þýðir það ekki endilega að maður sé sammála öllu sem fram kemur í vefritinu Vantrú. Nema það snerti það að yfirnáttúra og hindurvitni - í öllum sínum myndum - sé harðlega, stórlega og allsvakalega vafasöm, með gífuryrðum ef þess þarf og stóryrtum spurningum.

Hugsanaflutningur? Bull. Áruhreinsun? Kjaftæði! Englanudd? Wút!?! Guð? Hver af þeim? Kristur? Númer hvað? Fráfallinn ættingi að reyna spjalla við mann að handan? Fullt nafn og kennitölu, hvar átti hann heima og hvernig var höfuðfatið hans á litinn þegar hann dó?

Ritstjóri vefritsins Vantrú er Þórður Ingvarsson og aðstoðarritstjóri er Valdimar Björn Ásgeirsson. Formaður félagsins Vantrú er Óli Gneisti Sóleyjarsson. Í stjórn félagsins eru Gyða Ásmundsdóttir (gjaldkeri), Baldvin Örn Einarsson (ritari), Kristín Kristjánsdóttir og Valdimar Björn Ásgeirsson.

Helsta markmið félagsins er að berjast gegn boðun hindurvitna í samfélaginu. Þessu markmiði hyggst félagið ná með öflugri netútgáfu, blaðaskrifum, fyrirlestrum og rökræðum, hvar sem því verður við komið. Sjá nánar í Lögum félagsins.

Þetta er Vantrú!

Einhverjar spurningar?

Endilega viðrið þær í athugasemdakerfinu ef það á við, skráið ykkur á spjallið og spjallið við okkur eða sendið þær á ritstjorn@vantru.is.

Helgi Hóseasson

Það vita allir menn sem ekki hafa eintómt hey í hausnum að það er enginn guð til.

Mótmælandi Íslands og eini heiðursfélagi Vantrúar lést þann 6. september sl. 89 ára að aldri.Mörgum fannst þetta harmleikur að missa þennan merkismann sem svo sannarlega setti svip sinn á samfélagið. En það telst nú varla harmleikur að falla frá á níræðisaldri. Hann hafði meiri áhrif á þjóðfélagið en hann grunaði og það er nær ótrúlegt hversu mikinn stuðning hann hafði í raun - og hefur enn - en fékk því miður aldrei að kynnast almennilega á sinni löngu og sérstöku ævi.

En það má með sanni segja að harmleikur Helga Hóseassonar er hinn tandurtæri níðingsháttur ríkiskirkjunnar gagnvart honum, óréttlætið sem hann var beittur og ódrengilegar aðferðir til að reyna sópa honum og baráttumáli hans undir teppið með því að reyna stimpla hann í sífellu sem einhvern geðsjúkling, klikkhaus og sérvitring. Jafnvel skömmu eftir dauða Helga var þessum níðings- og dólgshætti haldið áfram.

Baldur McQueen hitti naglann á höfuðið í pistlinum sínum Helgi Hós og áherslurnar þar sem hann segir:

Ég myndi hins vegar vilja menn hættu að ræða fram og aftur hvað kunni hafa verið að Helga Hós - eða ekki að honum - og snúi sér heldur að því að ræða andlegt ásigkomulag þeirra æðstu manna í þjóðfélaginu sem gátu ekki, áratugum saman, orðið við sáraeinfaldri og réttmætri beiðni þessa manns.

Aðalarkitektinn í þessari einkennilegu aðför að þessum sakleysingja var Sigurbjörn Einarsson sem virtist nýta hvert einasta tækifæri til sáttagjörða til að neita Helga um þá afskaplega einföldu bón að rifta skírnarsáttmálanum. Hvaða skaða hefði það svosum gert? Frá sjónarmiði kirkjunnar hafa þessi tilteknu afglöp Sigurbjörns einmitt valdið ríkiskirkjunni meira tjóni en minna því traust til þessarar stofnunar er mjög líklega í algjöru lágmarki.Fáum eflaust að sjá það á svart og hvítu eftir áramót þegar trúfélagskráningar Þjóðskrá verða uppfærðar.

Maður einmitt spyr sig, var Sigurbjörn veikur á geði? Svona í fullri alvöru? Það var margt meira en lítið vafasamt sem átti sér stað innan kirkjunnar á þeim tíma sem Sigurbjörn var biskup. Manngæska? Kærleikur? Fyrirgefning? Virðing? Voru þetta bara einhverjar innantómar upphrópanir hjá þessum mönnum á borð við fokk, sjitt og djísúskræst? Og eru enn? (Talandi um syndir feðranna)

Við birtum svo fjórar minningargreinar um Helga Hóseasson eftir Óla Gneista Sóleyjarsson, Reyni Harðarson, Gísla Gunnarsson og Þóru Fjeldsted.

Dagskrá Vantrúar

Í ágúst opnaði einn ósvífnasti vefur ríkiskirkjunnar til þessa. Barnartrú punktur is.

Við í Vantrú ætlum ekki að leggjast svo lágt að herja á börnin líkt og þessir fautar gera en þess í stað ætlum við að bæta við mánaðarlegum dagskrárlið er mun heita Foreldrahornið. Þar ætlum við að bjóða uppá upplýsingar, taka við spurningum og veita svör til foreldra sem finnst að verið sé að brjóta á rétti þeirra og barnanna af ríkiskirkjunni og öðrum hindurvitnafélögum.

Ef ykkur finnst t.d. að ríkiskirkjan sé að seilast heldur of langt inní leik- og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar með skýlausu trúboði og öðrum slíkum óskapnaði megið þið endilega láta okkur vita af því með því að senda okkur póst á ritstjorn@vantru.is.

Líklegast - auðvitað með ykkar leyfi - munum við nota innihald bréfsins eða hluta af því í Foreldrahornið. Stefnan er að upplýsa fólk hvernig þau ferli virka þegar um algjört brot á mannréttinda- og barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna er að ræða, hvert skal leita og hvað skal gera. Þessi þjónusta verður vitaskuld ykkur að kostnaðarlausu.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðana
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðana
Námskrá leikskóla
Námskrá grunnskóla

Svo má ég til með að minnast á hvernig þessu verður háttað næstu mánuðina. Greinar munu birtast á sunnudögum, miðvikudögum og föstudögum. Reynt verður að hafa fróðleg myndbönd, vísanir eða annað mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga, svo höldum við í hefðirnar og höfum eitthvað létt glens á laugardögum.

Fastir liðir í hverjum mánuði eru Sunnudagsbréfin sem birtast annaðhvort fyrsta eða annan sunnudag hvers mánaðar. Þar verður stiklað yfir mánuðinn á undan auk smá pústa frá mér. Bréfunum verður skipt í fjóra hluta; I. hluti er smá upprifjun, II. hluti er samantekt á greinum, III. hluti er efni víðsvegar af vefnum og IV. hluti er mitt persónulega ritstjóraraus.

Það má búast við dálítið sjálfhverfum lið sem líklegast mun heita Trúleysingi mánaðarins en þá ætlum við að kynna einhvern trúleysingja sem hefur sett sitt mark á söguna á einn eða annan hátt.

II

Tilgangur Sunnudagsbréfanna er fyrst og fremst að draga saman þær greinar sem birtust á Vantrú mánuðinn á undan og birta úr þeim smá úrdrátt. Eins og áður hefur komið fram gat ég ómögulega sinnt þessu þar til nú. Af því tilefni ætla ég að gerast svo frakkur og fara í gegnum allar þær greinar sem hafa birst síðan í febrúar.

Febrúar yfirlit

Þann 12. febrúar sl. var 200 ára afmæli Charles Robert Darwins - merkasta líffræðings sögunnar. Af því tilefni tileinkuðum við honum dagana 10.-14. febrúar.

Mannapinn hann Óli Gneisti Sóleyjarsson beinir orðum sínum að þeim sem eru að einhverjum ástæðum ósáttir við að vera hluti af apa-ættinni.

Ég er ekki að tala um fólk sem afneitar þróunarkenningunni. Ég er að tala um fólk sem er jafnvel trúlaust en er einhvern veginn ekki tilbúið að sjá mannfólkið einungis sem enn eina tegund apa. Í huga þess er veggur milli apa og manna. Hann er til marks um hroka tegundarinnar. Ég vil rífa niður þennan vegg.

Í greininni Darwin um trú er birtur þýddur kafli sem datt úr sjálfsævisögu Darwins. Þessi kafli fjallaði um trúarviðhorf Darwins, þar sem hann sagði m.a.:

Með því að velta fyrir mér skýrustu sönnunum sem ógeðbilaður maður myndi krefjast til að trúa á kraftaverkin sem kristni byggist á, - að því meira sem við vitum um óbreytanleg lögmál náttúrunnar því ótrúlegri hljóma kraftaverkin, - að menn hafi á þeim tíma verið fáfróðari og trúgjarnari en við getum skilið, - að ekki verði sannað að guðspjöllin hafi verið samtímafrásögn af þeim atburðum sem sagt er frá, - að þau eru ósamhljóða í mörgum mikilvægum atriðum, alltof mikilvægum til þess að ég geti talið það venjulega ónákvæmni sjónarvotta.

Svo bentum við lesendum á myndbrot úr þáttum Carl Sagans, Cosmos, er fjallaði um uppruna mannsins

Að því sögðu vil ég bara ítreka Darwin-daga í Háskóla Íslands núna í október og nóvember.

Hvers vegna að einskorða sig við læknisfræði 18. aldar? Af hverju ekki að taka líka upp mataræði 18. aldar (skyr, harðfisk og smjör)? Hvers vegna sér maður ekki fleiri hómópata á hestum? Nú eða í skóm úr steinbítsroði?

Af hverju að takmarka sig við smáskammtalækningar? spyr Sverrir Guðmundsson. Og það réttilega. Það er dálítið hlægilegt að styðjast við einhverjar 200 ára gamlar furðulegar hugmyndir um læknisfræði sem standast ekki nokkra einustu nútímlega vísindalegu rýni.

Reynir Harðarson fordæmir útlendingahatur og forheimskun í svari sínu til Alberts Jensens, trésmíðameistara. En téður Albert skrifaði grein "þar sem hann fagnar því að moska hafi ekki verið byggð hér á landi" og fabúlerar svo eitthvað um siðinn í landinu, hvað kristni er æði og hvað múslímar eru ömurlegir.

Óli Gneisti gerir skrípamynd af trúleysingjum að umræðuefni í greininni Séra Baldur Kristjánsson og fordómarnir. En séra Baldur flengir gömlu góðu lummunni að þeir sem gagnrýna presta og störf þeirra séu "iðulega ungir kálfar með mikið fjör og mjóa leggi en litla reynslu af lífinu." Já, prestar eru nefnilega svo gríðarlega lífsreynd gáfumenni, sjáið nú til. Og feitir.

Í Af hverju gefiði Guði ekki séns? veltir Haukur Ísleifsson vöngum yfir því hví fólk vill troða gvuði í öll göt sem ekki er enn búið að útskýra og það vandamál sem því fylgir. Sæmilega hressandi umræða fylgir greininni.

Fyrr á þessu ári voru þingmenn beðnir um að lesa Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Óli Gneisti ítrekaði þá frómu ósk að trú og stjórnmál yrðu algerlega aðskilin, einsog hann segir sjálfur:

Ég vil frekar sanntrúaðan hvítasunnumann sem blandar ekki saman stjórnmálum og trú á þing heldur en trúleysingja sem liggur flatur fyrir kirkjunni í vinsældarleit.

Mars yfirlit

Hin árlegu Ágústínusarverðlaun voru veitt í mars. Ágústínusarverðlaunin eru á góðri leið með að verða að rótgrónni hefð og efalaust eru þónokkrir sem fagna því að vera tilnefndir. Þetta árið var sú nýbreytni höfð að lesendur fengu að kjósa um 10 fleygar tilvitnanir sem höfðum eftir ýmsum guðhræddum einstaklingum árið 2008. En sigurvegarinn var nú ekki af verri endanum, það var enginn annar en ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson sem virðist hafa kúkað á sig af hræðslu þegar maður klæddur í Svarthöfða-búning fótóbombaði prestagönguna árið 2008.

Reynir Harðarsson talar m.a. um kjaftæðið sem er hol jörð í greininni Undur jarðar og vísar í þáttaröð þar sem staðhæft er að helsta trú okkar Íslendinga sé einmitt téð hol jörð.

Matthías Ásgeirsson ræðir ögn meira um menningarhús í Mosfellsbæ. Þetta er vægast sagt einkennileg deila þarna í sveitinni er varðar bein afskipti kirkjunnar af svokölluðu menningarhúsi, en kirkjan hefur engan áhuga á að deila þessu húsi með öðrum trúarhópum. Frekjan er yfirgengileg.

Kaþólska kirkjan í fréttum:

Níu ára stúlku í Brasilíu var nauðgað af stjúpföður sínum og varð ólétt af tvíburum. Það þarf ekki læknismenntun til að sjá að þungunin sjálf er stórhættuleg fyrir barnið. Fóstrunum var eytt til að vernda líf stúlkunnar. Kaþólska kirkjan hefur bannfært læknana og móðurina en ekki stjúpföðurinn.

Þarf þessi grein að vera lengri?

Greinin Óli Gneisti og biblíulegar fyrirmyndir skjaldarmerkis Íslands eftir séra Þórhall Heimisson birtist hér á Vantrú sem hluti af ritdeilu milli hans og Óla, þetta var í kjölfarið á því að greinin Öskubuskuævintýri sr. Þórhalls Heimissonar hans Óla var loksins birt í Morgunblaðinu mörgum mánuðum eftir að hún var send þangað.

Apríl yfirlit

Hið árlega Vantrúarbingó var haldið í blíðskaparveðri föstudaginn langa þetta árið. Um annað hundrað manns mættu á þennan viðburð "til að minna á að tengsl ríkis og kirkju á Íslandi eru óeðlileg." Bingóið verður auðvitað á næsta ári líka sem og þau næstu, eða þar til aðskilnaður ríkis og kirkju verður að veruleika.

Birgir Baldursson hlustaði á ríkisútvarpið einn sunnudagsmorgunin þar sem Jónas Jónasson ræddi við prest. Að lokum komst Jónas að þeirri niðurstöðu að upprisa Krists "væri merkilegasti atburður mannkynssögunnar!" Klerkaveldisstöðin væri frekar réttnefni vegna skorts á hlutleysi þar í bæ þegar kemur að trúarbrögðum. Lárus Viðar spyr:

Í hvaða sæti er þá þegar Óðinn tapaði auga sínu eða þegar Múhameð reið til himnins á svörtum hesti?

Undarlegustu versin í Nýja testamentinu samkvæmt Hjalta Rúnari Ómarssyni er Mt. 27.50-53 þar sem talað er um fjarstæðukennda atburði sem minna mann um margt á Dawn of the Dead eftir George A. Romero.

Steinunn Arnþrúður spinnur, steypir og hraunar um málefni kirkjunnar að mati Reynis Harðarsonar, og flestir ættu að geta tekið undir það sjónarmið miðað við málflutning Öddu Steinu "verkefnisstjóra á upplýsingasviði, sviði samkirkjumála og þvertrúarlegra mála" og starfsmaður á biskupsstofu.

Hjalti Rúnar Ómarsson segir frá því sem hann telur vera nýbókstafstrú biskupsins í kjölfarið á predikun Karls um greftrun Jesú.

Enn er verið að brenna fólk vegna nornahjátrúar, en nútíma nornabrennur er hægt að kvikmynda, sem gerir það verulega mikið óhugnalegra heldur en gömlu tréristurnar frá tímum rannsóknarréttarins.

Er hjátrú ekki bara krúttleg? spyr Reynir. Nei, það er hún sko alls ekki. Tilvitnunin hér að ofan var um myndband sem sýndi bona fíde nornabrennur í Afríku. Aldeilis krúttlegt það, eða hitt þó heldur.

Eftir prestastefnu 2009 skrifaði Matthías Ásgeirsson greinina Lögreglustjóri vor, frelsa oss frá illu þar sem hann furðar sig á lögregluviðbúnaði við prestagönguna. Að frátöldum einum ljósmyndara á vegum Vantrúar var aldeilis ekki mikið af áhorfendum.

Vissulega hafa borist fréttir af vafasamri framgöngu ríkiskirkjupresta undanfarið, siðleysi á Akureyri og full nærgöngul framkoma við unglingsstúlkur á Selfossi, en okkur í Vantrú þykir óþarfi að lögreglan fylgist svo náið með klerkunum.

Sigurður Ólafsson fylgdist með opnun opinberar stofnunar og fannst heldur betur hjákátlegt að sjá prúðbúinn prest vera blessa eina slíka stofnun.

Vinur minn sem er kristinn hafði á orði við mig af fyrra bragði að þessi seremónína væri nú svolítið furðuleg svo ekki væri meira sagt og ætti alls ekki heima á þessar annars skemmtilegu opnunarathöfn.

Maí yfirlit

Kvikmyndanördar hoppuðu eflaust hæð sína af kæti þegar fréttist að David Lynch væri á leiðinni á klakann. En efalaust urðu margir þeirra fyrir töluverðum vonbrigðum þegar ástæða komu hans hingar var að kynna innhverfa íhugun.

Eins furðulegar og margar myndir hans geta verið þá var David Lynch gjörsamlega í ruglinu er þetta varðar. Kristján Lindberg sótti þennan sölufund Lynch og var ekki uppnuminn, þetta lyktaði svo af költisma að hálfa væri nóg. Einar Steinn Valgarðsson varð líka frekar vonsvikin með þennan mæta leikstjóra.

Þögn er sama og samþykki eftir Hjalta Rúnar Ómarsson fjallar að mestu um viðhorf villutrúarmannsins Markíon um að guð gamla testamentsins er ekki guð kristninnar, enda "var guð kristinna manna kærleiksríkur, en honum fannst augljóst að guð Gamla testamentisins væri það ekki."

Við þingsetningu í vor voru fjórir þingmenn sem neituðu opinberlega að taka þátt í guðsþjónustu fyrir setningu. Óli Gneisti Sóleyjarsson skrifaði Að blóta á laun og vanvirða kirkjur er fjallaði um þetta mál og viðbrögð vissra einstaklinga við þessari ákvörðun þingmannanna.

Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun gerir kraftaverk, samkvæmt þeim sem iðka þetta, s.s. "að lækna allt frá minniháttar kvillum til flókinna og illviðráðanlegra vandamála eins og mænuskaða." Teitur Atlason fer rækilega í gegnum þetta nýaldarhúmbúkk, enda er þetta angi af sama meiði og orkusteina og áruhreinsun svo eitthvað sé nefnt.

Pollurinn hans Douglas Adams er grunnurinn að grein Daníels Freys Jónssonar, Pollagallinn. Pollurinn sem vaknar einn morgunin og gufar upp í lok dagsins er frumleg myndlíking fyrir mannkynið og þeirri tilhneigingu að halda því fram að allt hafi sérstaklega verið skapað fyrir okkur.

Hvað er svona hræðilegt við það að standa frammi fyrir heiminum og viðurkenna að við vitum ekki allt um hann? Að það sé enn svo margt að uppgötva og kanna? Að e.t.v. sé ýmislegt sem við eigum aldrei eftir að skilja?

Óli Gneisti talar um jábræður sína og Davíðs Þórs. Davíð Þór á nefnilega við eilítið vandamál að stríða. Hann er guðfræðinemi - sem fokkar sumu fólki upp í almennri rökhugsun. T.d. að halda því fram að Óli Gneisti haldi að hann sé talsmaður 49% þjóðarinnar þegar kemur að trú(leysis)málum og viðlíka þvættingi.

Við stöndum og föllum með málflutningi okkar en ekki jábræðrum okkar. Þetta er prófið sem Davíð fellur á.

Hvað borgar þú í fasteignaskatt? er réttmæt spurning frá Guðmundi Guðmundssyni - og í raun þörf áminning á þessum áhugaverðu tímum. Guðmundur bendir t.d. á fasteignamat 16 kirkna í austur- og vestur-Reykjavíkurprófastsdæmum er metið á rúmar 6 milljarða og lóðamatið er um 600 milljónir, en "af því að gvuð á allt saman er ekki greidd ein einasta króna af öllu klambrinu."

Óli Gneisti reynir að brjóta hina helgu skel sem umlykur hans heilagleika Dalai Lama er hann kom til landsins og bendir á þann algenga misskilning að "stuðningur við Tíbeta sé einhvern veginn háður stuðningi við Dalai Lama." Sem er rangt.

Frjálslynt fólk sem sér galla kaþólskrar trúar og páfans er alltof gjarnt á að líta framhjá göllum búddisma og Dalai Lama.

Reynir Harðarson dró upp nokkur ummæli Dalai Lama og biskupsins sem sýndi svo ekki verður um villst fram á hina andlegu fátækt Karls Sigurbjörnssonar.

Sumar YfirlitJúní-Júlí-Ágúst

Séra Gunnar Jóhannesson, er afspyrnu skrítin skrúfa. Honum finnst svo furðulegt að fólk geti verið trúlaust. Hann lítur á það þannig að trúleysi jafngildi tilgangsleysi, volæði, eymd og auðvitað að allt sé leyfilegt. Óli Gneisti ræðir aðeins um tilgangsleysi prestsins í kjölfarið á smá deilu milli Gunnars og Kristins Theódorssonar um tilgang og tilgangsleysi.

Ég hef, ólíkt sjónvarpinu mínu, engan fyrirfram gefinn tilgang. Það ákvað enginn hvað ég ætti að gera með líf mitt eða þá til hvers. Þetta hefur engin áhrif á mig og, eftir því sem ég best veit, er ég hamingjusamari en sjónvarpið mitt. Ytri tilgangur skiptir líklega flesta guðleysingja engu máli.

Matthías Ásgeirsson gerir trúarhegðun fótboltamanna í greininni Gvuð er alltaf í boltanum að umtalsefni eftir að Brazilíska landsliðið sigraði það Bandaríska í álfukeppni sem haldið var í sumar. Honum - einsog svo mörgum öðrum - finnst hegðun, atferli og framkoma trúmanna afskaplega undarleg, sérstaklega þegar kemur að þakka gvuði og jesú fyrir allan andskotann.

Svanur Sigurbjörnsson varar við rassaskolun Jónínu Ben í greininni Hvers vegna EKKI detox!. Þar fer hann lið fyrir lið hvers vegna þetta er ónauðsynlegt að öllu leyti útfrá læknisfræðilegum grundvelli.

Ein allra lélegasta blaðamennska átti sér stað um miðjan júlí þegar pennar hjá Vikunni pikkuðu upp einhverja litla frétt í Dagskránni er fjallaði um einhvern "spámiðill" að nafni Lára Ólafsdóttir og þar sem hún básúnaði um einhvern gríðarstóran jarðskjálfta sem átti að hefjast á Krýsuvíkarsvæðinu þann 28. júlí klukkan 23:15. Auk þess fabúleraði hún um ýmislegt misviturlegt sem aðeins getur komið frá afskaplega ímyndunarveikri konu.

Birgir Baldursson gerðist kræfur í Það gerist (ekki) í kvöld! og spáði fyrir að það yrði ekki skjálfti á þessu svæði á þessum tíma. Hans spá var mun betri en hjá sölumanni óttans, en fyrir þá sem misstu af því þá var engin skjálfti á þessum degi og þessum tíma. Svo rifjaðist upp fyrir honum Birgi önnur Lára sem hann greinir frá í Æ, þessar Svika-Lárur.Þeir félagar í Harmageddon tóku svo útvarpsviðtal við þennan sjáanda og tóku hana allharkalega á beinið.

Ágústínusarverðlaunahafinn Þórhallur Heimisson fékk heila viku sem var algjörlega tileinkuð honum og hans vafasömu pælingum og staðhæfingum. Maðurinn - eins menntaður og hann þykist vera - virðist ekki stíga almennilega í vitið og það er nær ógjörningur fyrir nokkurn mann að ræða við hann nema maður sé sammála honum. Hann er - einsog Vésteinn Valgarðsson orðaði það fyrir skemmstu - rökberserkur. Nema að raunin sé sú að hann fái duglega borgað fyrir að vera þverhaus.

Presturinn er einn af nýjustu meðlimum hins smávaxna klúbbs er þolir eigi að líta á fíflafæluna Eric. Það eru tveir í þessum merka klúbbi, hann og Jón Valur Jensson. Í Þórhallur Heimisson og níðingsskapurinn eftir Óla Gneista skín svo í gegn að þetta er maður sem er gríðarlega ósamkvæmur sjálfum sér. Hann varar við alhæfingum en alhæfir sjálfur. Í nýlegri færslu talar hann um þöggunarstjórnun en stundar grimmt ritskoðun og lokar á suma notendur sem hafa ekki gert neitt annað en að vera ósammála honum.

Þórhallur heldur því fram að Jesús hafi bara verið - þúst - rólegur gaur sem var bara alveg sama um kynhneigð fólks, einsog lesa má í Jesús og skoðanaleysið. Maður getur svosem gengið skrefinu lengra og sagt að Jesús Kristur var alveg skítsama um allt og alla, hann var bara í þessu fyrir tussurnar, monníngana og blíngið. Það er ég nokkuð viss um, ef hann var á annað borð til.

Ein merkilegasta bók síðara ára er eflaust Orðabók leyndardómana sem séra Þórhallur styðst við. Hjalti Rúnar Ómarsson komst yfir eintak og varð uppnuminn af innihaldinu. Þar má víst finna ýmsa fróðlega gullmola einsog "guðleysingi I. sá sem trúir ekki á tilvist guðs II. nasisti sem trúir á tilvist guðs" og að íslenska orðið "trú" er í raun þýðing á enska orðinu "faith". Yndislegt, alveg hreint yndislegt.

Þessi maður hefur bara svo furðulega afstöðu til lífskoðana að það nær engri átt. Maðurinn heldur að það sé ekki hægt að hafa skoðun án trúar. Ég trúi því að Þórhallur sé bara að bulla, þ.a.l. er ég trúaður. En hvernig öðruvísi er hægt að útskýra þessi skrif frá viti bornum manni? Ég á allavega bágt með að trúa því að hann sé virkilega að meina þetta. Ergo, ég er trúlaus. Skammtaguðfræði einsog hún gerist best.

Óli Gneisti sýnir svo ágætlega þessa barnslegu viðleitni Þórhalls að gera alla trúaða jafnvel þó þeir séu trúlausir í pistlinum Af trúleysi og netleysi.

Þórhallur, ef það vill svo til að þú sért að lesa þetta þá vil ég endilega minna þig á þessi orð þín:

Þetta verður örugglega spennandi ár og ég hlakka til að halda áfram að pirra mesta ofsatrúarhóp á íslandi í dag, bókstafstrúaða trúleysingja hvar sem þeir nú halda sig. Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 15:00

Segir allt sem segja þarf um meint umburðarlyndi, sáttfýsi og kærleika sem prestar reyna að stæra sig af. Ekkert nema lygin ein. Líkt og Gvuð og Jésús.

September yfirlit

Matthías Ásgeirsson ræðir um kirkjur og kirkjulóðir í kjölfarið á tveim fréttum um þetta tiltekna efni. Fyrir það fyrsta var gamalli kirkju á Stöðvafirði breytt í gistiheimili, en ekki áður en einhver vúdú-athöfn var framkvæmd af ríkisstyrktum töfralæknum. Svo var frétt um að ríkiskirkjan vilji eignast þæri lóðir sem kirkjur standa á þrátt fyrir þau fríðindi að stofnunin þarf ekki að borga krónu í fasteignaskatta eða annað.

Hvað þarf til að sæmilega óbrjálaður einstaklingur fremji geðveikislegt ódæðisverk? Það þarf bara smá trú. Haukur Ísleifsson veltir þessum þætti fyrir sér og þeim hryllilegu voðaverkum sem framin hafa verið - og eru enn framin í Jesús-nafni -, amen og Allah akhbar.

Óli Gneisti rýnir örlítið í kennsluefni Sunnudagaskóla ríkiskirkjunnar, en þar kemur fram - í grófum dráttum - að sex ára börn eiga skilið helvítisvist fyrir syndir okkar allra. En Jesús kom og bjargaði hinum illu sunnudagaskólabörnum.

Gvuð fyrirgefur allt, nema einn hlut og aðeins einn, sem Reynir bendir á í Heimskinginn segir í hjarta sínu..., barnanauðganir, mannrán og morð, hryðjuverk í nafni guðs, allt þetta getur Gvuð umborið. En að trúa ekki? Það er algjörlega ófyrirgefanlegt

Persónulega hef ég alltaf gaman af því þegar Birgir Baldursson mundar pennann og í greininniDekrað við heimskuna er það engin undantekning, enda er hispursleysið gríðarlega hressandi.

Ríkiskirkjupresturinn Ólafur Jóhannsson er í hópi þeirra presta sem hafa yndi af að fegra Jesús. Hjalti Rúnar Ómarsson hefur sömuleiðis yndi af því að benda á vitleysuna sem fyrirfinnast í opinberu rausi prestanna og þessi tiltekna prédikun er engin undantekning.

Ágústínusarverðlaunahafinn og þverhausinn Þórhallur Heimisson stærir sig af þvílíkri heljarins massa-messusókn í Hafnarfirði en Matthías Ásgeirsson gerði smá gúgl-rannsóknarvinnu varðandi þessar þvílíku messusókn hjá rökberserknum og komst að undarlegum leyndardómum.

Sjálfkrafa skráningu hvítvoðunga í trúfélög verður að öllum líkindum breytt í náinni framtíð þökk sé meðal annars Reyni Harðarsyni sem er búinn að vera soddan mannréttindafasisti að berjast fyrir þessum umbótum.

Nýr nafnleysingi bættist í hóp greinahöfunda Vantrúar í mánuðnum sem leið. Hlýða eða hýða er fyrsti pistill Birtu sem fjallar um vægast samt vafasama uppeldisfræði úr Biblíunni. Kannski kannast sumir við uppeldisaðferðina "sparaðu ekki vöndinn."

Séra Örn Bárður skaut sig allskemmtilega í fótinn þegar hann vitnaði í lagatexta í einni prédikun þar sem hann reyndi að vara við að menntun er einskis virði án þess að hafa Ésú í hjarta sínu. Óli Gneisti skrifaði í kjölfarið greinina Menntuðu predikaraflónin um þessa allskemmtilegu flónsku prestsins.

Valdimar Björn Ásgeirsson kemur með hugljúfa hugleiðingu í Af helgun reita er fjallar um grafreiti.

III

Ég vil ólmur benda lesendum á aðrar innlendar vefsíður sem hvetja til gagnrýnnar hugsunar og innihalda afskaplega fróðlegar greinar og önnur skrif. Má þar nefna Vísindin sem, líkt og nafnið bendir til, fjallar um nýjustu vísindi og tækni. Stjörnufræðivefurinn sérhæfir sig í himingeimnum, Húmbúkk er kjaftæðisvefur sem virðist hafa farið í gríðarlega langt sumarfrí, vonandi að aðstandendur síðunnar fari nú að hefja sig til flugs á nýjan leik. Má svo til með að ítreka trúarlegar pælingar Kristins Theódorssonar sem hélt úti blogginu Trúarbrögð eru kostuleg, en hann hefur nú flutt sínar spekúleringar í Gruflað og pælt.

IV

Í nær ár hefur umræðan í landinu snúist um bankahrunið, kreppuna, spillingu og græðgi. Það kemur þó ekki við Vantrú nema að vissu leyti, það er þegar spillinginn og græðgin er tengd hindurvitnageiranum, enda kraumar kuklið (LifeWave-plástrarnir t.d.) í kreppunni og sjaldan hefur verið jafnmikil þörf á félögum og vefritum á borð við Vantrú til að spyrna á móti kjaftæðinu.

Maður tekur sem dæmi hræsni biskups sem á sér engin takmörk og þegar hann gagnrýndi fjárglæframenn í páskaprédikun sinni þá náði hræsnin vissu hámarki. Þetta er maðurinn sem nýtti sér nákvæmlega sömu orðræðu og útrásarvíkingarnir þegar hann talaði um Vinaleið sem "sóknarfæri" fyrir kirkjuna. Og ekki fúlsaði hann við öllum þessum ölmusum og milljónagjöfum frá stórfyrirtækjum og auðmönnum. Onei, hann fagnaði þeim.

Ég tel ríkiskirkjuna vera eitt mesta meinsemdarafl í þessu þjóðfélagi. Þetta er stofnun sem beinlínis elur á lygum, heimsku, fordómum og tortryggni í samfélagi sem þarf alls ekki á svoleiðis löstum að halda á þessum athyglisverðu tímum.

Við munum halda áfram að berjast gegn boðun hindurvitna með öllum þeim aðferðum sem lítið félagið með stórar hugsjónir og takmarkað fjármagn getur beitt. Eins og er þá eru greinarskrif okkar öflugasta vopn.

Til að reyna sýna fram á það, svart á hvítu, hvað ríkiskirkjan hefur takmarkaðan stuðning, munum við halda áfram með okkar trúfélagsleiðréttingar. Þegar sá dagur rennur upp að rúmlega 50% þjóðarinnar eru skráð í ríkiskirkjunna er nákvæmlega engin forsenda fyrir því að halda þessari stofnun á spena ríkisins.

En vonandi að núverandi dóms- og mannréttindaráðherra sjái að sér sem fyrst með harkalegri aðgerðum en þeirri sem var tekin í vor.

Þórður Ingvarsson 11.10.2009
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð


Bjössi - 11/10/09 11:57 #

meiri áhrif á samfélagið en HANN grunaði á maður að segja


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/10/09 12:01 #

Þakka þér fyrir Bjössi.


Davíð - 11/10/09 22:28 #

Ég sendi e-mail fyrir mörgum mánuðum um verða meðlimur en hef ekki fengið nein svör enn :/


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 12/10/09 00:47 #

Endilega sendu annan póst, Davíð, og ég skal ganga í málið.


Kristinn Theódórsson - 12/10/09 11:38 #

Glæsilegt. Ánægður með ykkur.

Smá vangaveltur um þessi mál frá mér hér.


Jón Steinar - 12/10/09 12:19 #

Heitir drengurinn ekki Hjalti Rúnar Ómarsson? Þarna stendur Hjalti Ómar Rúnarsson.

Annars var þetta hressileg yfirreið og skemmtilestur. Kann vel við þennan militant anda, en rökhyggjan verður þó alltaf að vera með í för.

Ég útnefni DoctorE trúleysingja mánaðarins og ætti hann raunar að fá heiðurstitil fyrir ötult og afkastamikið starf.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.