Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Helgi Hóseasson og staðfestar ógildingar

Baráttumál Helga Hóseassonar hafa oft verið illa misskilin. Fáir hafa í raun reynt að skilja hvers vegna hann vildi ógilda skírnarsáttmála sinn. Flestum þykir skírnin innihaldslaus gjörningur og velta til dæmis ekkert fyrir því að þeir sem framkvæma hana telja, allavega samkvæmt kenningum ríkiskirkjunnar, að saklausa litla barnið sé syndugt. Jón Valur Jensson Moggabloggari náði nýlega að innsigla réttmæti málflutnings Helga Hóseassonar. JVJ sagði: "En hversu mjög sem einhverjum kynni að vera í nöp við t.d. fyrrverandi maka, þá er ekki leyfilegt að þurrka út færslu um hjónavígslu þeirra í embættisbókum, þó að viðkomandi hafi fengið lögskilnað. Það sama gildir um skráningu kirkjubókar á skírn,"

Það sem Jóni Vali yfirsést er að fólk sem á fyrrverandi maka hefur væntanlega fengið skilnað sinn skráðan á opinbera pappíra til að staðfesta að fyrri skráning eigi ekki lengur við. Helgi Hóseasson vildi einmitt álíka viðurkenningu en fékk aldrei. Af öllu er ljóst að það voru kirkjuyfirvöld sem stöðvuðu það.

Ólíkt fólki sem hefur gengið í hjónaband þá var Helgi ekki í þeirri stöðu að geta tekið upplýsta afstöðu til skírnarsáttmálans þegar hann var gerður og þegar hann var staðfestur. Fólk sem er skráð í hjónaband án þess að hafa fengið að taka til þess upplýsta afstöðu fær ógildingu. Það sama hefði átt að gilda um skírnarsáttmála Helga.

Frá sjónarhóli Nýja testamentisins er ljóst að ólík afstaða ríkiskirkjunnar til skírnarsáttmálans annars vegar og hjónabandssáttmálans hins vegar ákaflega vafasöm. Jesús hafnaði skilnaði alfarið en ríkiskirkjan þykist vita betur en hann. Jesú datt ekki í hug að skíra ungabörn sem ekki gátu tekið upplýsta afstöðu til boðskaps hans en ríkiskirkjan þykist líka vita betur þar. Ef ríkiskirkjan þykist geta ógilt hjónabandssáttmála þá ætti það að vera hægur vandi að ógilda skírnarsáttmála.

Helga tókst ekki að fá helsta baráttumál sitt í gegn en honum tókst að afhjúpa prestana og biskupana sem monta sig af "góðverkum" sem þeir vinna á launum hjá almenningi. Kirkjan gat ekki einu sinni leyft Helga að fá lausn sinna mála þegar hann var orðinn gamall maður. Það hefði ekki kostað neitt. Þetta fólk hafði ótal tækifæri en situr núna eftir með skömmina. Tvískinnungurinn er afhjúpaður.


Birtist í Fréttablaðinu þann 24. september

Óli Gneisti Sóleyjarson 09.10.2009
Flokkað undir: ( Helgi Hóseasson , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Bjarki M - 09/10/09 09:16 #

Hvað ef nýfætt barn væri þvingað í hjónaband og svo látið staðfesta geringinn þrettán árum síðar eftir stanslausa misnotkun „makans“? Dæmi Helga er sambærilegt. Svar yfirvalda var þessi: þetta hjónaband er órjúfanlegt, misnotaða barninu skal aldrei frá lögskilnað. Krafa Helga var aðeins krafa um slíkan skilnað. Nær hefði þó verið að krefjast fullrar ógildingar. Auk þess væri eðlilegt að þeir biskupar og dómsmálaráðherrar sem lögðu stein í götu Helga hefðu fengið að dúsa í steininum fyrir níðingsskap sinn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/10/09 12:31 #

Helstu rök kirkjunnar manna fyrir að neita Helga um riftun voru þau að aðeins guðinn sjálfur gæti séð um það og best að snúa sér til hans í þeim efnum. En sjálfir þykjast þeir geta gert þessa samninga fyrir hans hönd.

Er ekki eitthvert misræmi þarna. Væri ekki best að láta guðinn líka sjálfan um að gera þessa samninga, fyrst kirkjan er ófær um að rifta því sem hún hefur gert í nafni hans.


Björn I - 09/10/09 19:45 #

Hefur einhver annar farið fram á slíka riftun núna nýlega? Hvert ætti fólk að snúa sér til slíks gjörnings?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/10/09 21:07 #

Ég veit það ekki Björn, þú gætir prófað að byrja á því að senda æðsta biskupi ríkiskirkjurnar beiðni.


Jón Valur Jensson - 10/10/09 01:33 #

Af því að ég er nafngreindur hér, vil ég gjarnan láta það koma fram, að skírnin skilur að kaþólskum skilningi eftir "óafmáanlegt mark" (character indelibilis) á skírnarþeganum. Því er hvorki unnt að afmá hana né að endurtaka hana í raun, ef mönnum snerist hugur eftir að hafa gert tilraun til að afmá hana. Þá er hún ennfremur eiginlegt verk Guðs, en í 2. lagi verk manna (sem hjálparorsakar einungis). Einnig þetta gerir skírnina óafturkallanlega. – Hvort tveggja á líka við um lútherska skírn, að kaþólskum skilningi, a.m.k. ef ásetningurinn er réttur og efnið og orðin rétt með farin.

Guði er þókknanlegt að starfa fyrir mannlega meðalgangara ("hjálparorsakar"), bæði i sakramentunum, boðun trúar og með annarri hjálp við mennina vegna bæna þeirra eða fyrirbænar fyrir öðrum. Þetta svarar mótbáru Birgis.

PS. Helgi heitinn Hóseasson vildi láta afmá skráninguna á skírn sinni í kirkjubók, ekki aðeins fá það skráð, að hann hefði "rift" henni.


Jóhann - 10/10/09 01:45 #

Jæja, þar hafið þið það. Gjörningurinn fól í sér staðfestingu (eða staðfestingin fólst í gjörningnum). Credóið getur hvort tveggja verið lúterskt eða kaþólkst.

Ykkar er valið.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 10/10/09 13:41 #

JVJ: Helgi var sáttur við að fá riftunina skráða en kirkjan hafnaði því.


Sigurður Rósant - 17/10/09 23:45 #

Mér finnst eitt veigamikið atriði vanta í þessa umræðu, þ.e. þáttur guðfeðgina Helga sem ómálga barns. Þau færa barnið til skírnar og eru líka ábyrg fyrir þessum gjörningi. Ekki minnist ég þess að Helgi hafi gert kröfu til þessara guðfeðgina um eins konar riftun af þeirra hálfu. Skírn er eins konar blessun af hálfu prests fyrir hönd safnaðarins sem ekki verður tekin aftur, frekar en blessun Ísaks yfir syni sínum Jakobi (sem laumaðist inn til síns blinda föður og þóttist vera Easú). Þessi gjörningur er óafturkræfur. Að krefjast þess að þessum gjörningi verði rift, er að krefjast þess að söfnuðurinn taki upp nýja kenningu eða trúarathöfn sem hvergi fyrirfinnst í Biblíunni eða sögu safnaðarins (kirkjunnar). Helgi framkvæmdi eins konar gjörning sjálfur í Langholtskirkju með því að þiggja vín og brauð, skyrpa því síðan í plastpoka og lýsa því yfir að hann hefði hér með ógilt skírn sína. Hann vildi síðan fá það skráð að ógildingin hefði átt sér stað, en fékk það ekki. Skírn er í raun jafn óafturkræf og umskurður í augum trúaðra.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/10/09 00:31 #

Hann vildi síðan fá það skráð að ógildingin hefði átt sér stað, en fékk það ekki.

Hvað kemur í veg fyrir að ógildingin sé skráð?

Eitthvað annað en þvermóðska og mannvonska?


Sigurður Rósant - 18/10/09 11:23 #

Matti - Ég held að þú hafir misst af því að upplifa þessa atburði líkt og ég gerði á sínum tíma. Séra Árelíus Níelsson sem var prestur við Langholstssókn á þessum tíma er Helgi Ingibjargarson vildi fá skírn sína lýsta ógilda, hefði örugglega viljað gera allt sem í hans valdi stæði til að þóknast Helga. Sama hefði þáverandi biskup, Sigurbjörn Einarsson líka viljað. En hér er bara um óvenjulega kröfu að ræða sem engin lausn fannst á, né nokkur getur leyst enn þann dag í dag.

Hvernig getur einstaklingur farið fram á að trúsöfnuður breyti kenningum sínum og taki upp nýja kenningu sem aldrei hefur verið til áður? Ef við tökum t.d. hugtökin helgun/vígsla. Þessi hugtök ná ef til vill yfir athöfnina skírn líka. Afhelgun finnst í GT í sambandi við musteri eða bænahús sem átti síðan að rífa niður, en hvergi í sambandi við að afturkalla blessun yfir einstaklingi sem vildi gerast vantrúaður. Þar af leiðandi vantar trúaða fordæmi til að fylgja og lenda þess vegna í þessum leiðinlega vandræðagangi.

Sama gildir um hjónavígslu samkynhneigðra. Hún stríðir gegn kenningu safnaðarins og er líka án fordæmis í helgiritum þess. Þvermóðska að mannvonska er þín túlkun á neitun kirkjunnar, en þú mátt alveg endurskoða afstöðu þína í rólegheitum. Þú kemst að rangri niðurstöðu að mínu mati, kannski vegna eigin þvermóðsku?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/10/09 11:29 #

Þú ert að misskilja mig. Fram hefur komið að málið var hægt að leysa með einfaldri yfirlýsingu um að Helgi hefði ógilt skírn sína. Biskupsstofa kom í veg fyrir þessa lausn á málinu. Eina ástæðan sem ég get séð fyrir því er mannvonska.


Sigurður Rósant - 18/10/09 12:58 #

Nei, Matti. Ég er alls ekki að misskilja þig. Segjum sem svo að það sé alveg hárrétt sem Ólafur Arnarsson segir um 'lausn' föður síns Arnar Clausen og Baldurs Möller ráðuneytisstjóra og að biskupsstofa hafi síðan lagst gegn þeirri lausn, þá er ég efins um þá fullyrðingu Ólafs að Helgi Ingibjargarson hefði verið sáttur við þessa framkomnu 'lausn'„Dóms- og kirkjumálaráðuneytið staðfestir hér með að Helgi Hóseasson hefur tilkynnt ráðuneytinu að hann hafi fyrir sitt leyti rift skírnarsáttmála sínum.“ Hann var miklu þrjóskari en svo að hann teldi þessa yfirlýsingu nægilega, enda hljómar hún eins og læknisvottorð sem gæti verið orðað á eftirfarandi hátt: -Matthías Ásgeirsson lýsir því yfir að hann heyri raddir og sjái sýnir-. Hver tæki mark á slíku læknisvottorði? Helgi var greindari en svo að hann léti blekkjast á slíkri yfirlýsingu.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?