Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Til minningar um Helga Hóseasson I

Maðurinn sem stóð út á horni og mótmælti þótti skrýtinn. Hann þótti líka skrýtinn þegar hann mótmælti reykingum kennara sinna í Iðnskólanum á Akureyri og þegar hann sendi gesti sína út þegar þeir vildu fá sér sígarettu.

Helgi Hóseasson stóð í langri deilu við ríkisvaldið og ríkiskirkjuna vegna skírnarsáttmála sem var gerður fyrir hans hönd. Hann þótti skrýtinn að taka þetta alvarlega. Enginn á Íslandi virtist þá hafa velt fyrir sér að ríkisvaldið hefði ekki rétt til þess að skipta sér af hlutum sem voru fyrst og fremst einkamál hvers og eins.

Helgi leyfði sér að efast um, gagnrýna og hæðast að kennisetningum kristinnar kirkju. Fyrir þetta er ég honum þakklátur. Trúarkreddur þarf að gagnrýna. Helgi ruddi leiðina og þess vegna virðumst við sem fylgjum í kjölfarið ekki jafn skrýtin.

Við þingsetningu í október 2004 stóðum við í félaginu Vantrú fyrir mótmælum á Austurvelli. Annars vegar var tilgangurinn að hvetja til aðskilnaðar ríkis og kirkju og hins vegar að minna á réttindabaráttu Helga Hóseassonar. Okkur þótti táknrænt að bjóða þingmönnum upp á skyr (einungis tveir þáðu). Helgi var svo góður að mæta með okkur. Eftir mótmælin keyrði ég Helga heim af Austurvelli. Í þakklætisskyni fyrir farið (og líklega mótmælin líka) gaf hann mér epli, flösku af sykurlausu appelsíni og Macintosh mola.

Maðurinn sem stóð út á horni og mótmælti þótti skrýtinn. En líklegast eru það við hin sem erum raunverulega skrýtin. Við getum horft upp á stríð og aðrar manngerðar hamfarir í sjónvarpsfréttunum og gleymt því fimm mínútum seinna. Líklega vantaði einhverja síu í Helga. Líklega væri best ef það vantaði þessa síu í okkur öll.

Við í félaginu Vantrú syrgjum andlát eina heiðursfélaga okkar og vottum aðstandendum hans samúð. Um leið lofum við því að baráttumál Helga munu ekki gleymast.


Birtist sem minningargrein í Morgunblaðinu þann 23. september

Óli Gneisti Sóleyjarson 24.09.2009
Flokkað undir: ( Helgi Hóseasson )

Viðbrögð


FellowRanger - 24/09/09 12:38 #

Mjög góður pistill. Ég get ekkert annað sagt. Mjög góður.


Gunni - 25/09/09 13:59 #

Heyr, heyr.


Eva Lind - 25/09/09 17:17 #

Heyr, heyr...


Ingvi Steinn - 26/09/09 12:20 #

Heyr, Heyr...

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?