Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Það þarf bara smá trú

Nánast daglega bera fjölmiðlar okkur fregnir af fólki sem hefur framið hræðilega glæpi eða hegðað sér ótrúlega heimskulega. Iðulega eru þetta erlendar fréttir og flestir hrista hausinn í forundran og hugsa með sér: „Djöfull er hann heimskur“, „Hún hlýtur bara að vera geðveik“ eða jafnvel: „Þau eru bara ill.“ Í flestum tilvikum eiga þessar hugsanir líklega fullkomlega rétt á sér en stundum er ástæðan önnur og augljósari en heimska, geðveiki eða illska.

Er heimska ástæðan fyrir því að einhverjir foreldrar í Bandaríkjunum neituðu sykursjúkri dóttur sinni um læknismeðferð vegna þess að „Guð“ átti að lækna hana? Er geðveiki ástæða þess að flugmaður nokkur nauðlenti vél sinni eftir að hafa lagst á bæn frekar en hafa samband við flugturninn þegar upp kom vandamál í flugvélinni? Er illska ástæðan þegar læknastofur eru sprengdar í loft upp og starfsfólki þeirra ógnað eða það jafnvel myrt vegna þess að þar voru framkvæmdar fóstureyðingar?

Í þessum tilvikum virðist hinn raunverulegi sökudólgur augljós en samt grípa margir, ef ekki flestir til sömu skýringanna: „Djöfull er hann heimskur“, „Hún hlýtur bara að vera geðveik“ eða jafnvel: „Þau eru bara ill.“

Hvers vegna vill fólk ekki horfast í augu við það hvað veldur þessum hryllilegu voðaverkum en styðjast þess í stað við margtuggnar klisjur? Ef til vill spilar þar inn í að við heimsku mannanna, geðveiki eða illsku eigum við fá svör og getum því gefist upp fyrirfram. Svona er bara mannfólkið og við því er lítið að gera. Það þarf ekki að kryfja málin nánar. Áframhaldandi greining og pælingar eru til lítils. Þegar búið er að stimpla atvikið með orsökinni heimska, geðveiki eða illska er hægt að hætta að hugsa um það. Málið er afgreitt. Dautt.

Ranghugmyndirnar sem augljóslega eru ástæða þessara skelfilegu atburða krefjast þess hins vegar af fólki að það hugsi málin og spyrji sjálft sig erfiðra spurninga: „Af hverju trúði hann þessu?“, „Hvar fékk hann þessar hugmyndir?“ og jafnvel: „Hvað getum við gert í því?“

Það er skylda okkar að spyrja þessara spurninga, greina ástæðuna og pæla í henni svo við getum komið í veg fyrir að slík atvik endurtaki sig. Í þessum raunverulegu dæmum sem nú þegar hafa verið nefnd sést klárlega hver ranghugmyndin er sem olli þeim.

Sá sem trúir því að „Guð“ lækni og enginn lækni nema „Guð“ biður að sjálfsögðu „Guð“ um að lækna barnið sitt frekar en að leita til læknis. Þeim sem trúir á almáttugan og algóðan „Guð“ sem grípur inn í atburðarás hversdagsins finnst heimskulegt að tala við mennska menn í stað „Guðs“ þegar upp koma vandamál. Sá sem trúir því að fóstureyðingar séu morð finnst siðferðilega óverjandi að reyna ekki að koma í veg fyrir þær með öllum tiltækum ráðum.

Það hefur verið sagt að trúin flytji fjöll og víst má það til sanns vegar færa. Trúin getur fengið fólk til að gera ýmislegt sem annars væri ómögulegt, bæði gott og illt. Trúin getur fengið gott fólk til að fremja hræðileg voðaverk. Hún fær gáfað fólk til að fremja heimskupör og geðheilbrigða til að hegða sér eins og geðsjúklinga.

Það þarf nefnilega ekki heimsku. Það þarf ekki geðveiki. Það þarf ekki einu sinni illsku.

Það þarf bara smá trú.

Haukur Ísleifsson 04.09.2009
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Trúlaus - 04/09/09 15:29 #

"With or without religion, you would have good people doing good things and evil people doing evil things. But for good people to do evil things, that takes religion."

-- Steven Weinberg


Svanur Sigurbjörnsson - 06/09/09 01:43 #

Fín grein hjá þér Haukur. Þetta er mjög mikilvægt og fólk þarf að vakna og sjá hvernig hvernig þetta tengist. Fólk þarf einnig að sjá það að með því að styðja "frjálslynd" trúarbrögð er það að hjálpa bókstafstrúuðum óbeint að viðhalda trú sinni. Ef allir þeir sem í raun eru bara af menningarástæðum í kristnum söfnuðum, færu úr þeim og hættu að styðja við fólk sem messar um ímyndaðan guð, þá myndu hinir bókstafstrúuðu standa svo áberandi einir í sinni trúarkreddu.


Benedikt - 07/09/09 14:32 #

Ég spái því að það verði jarðskjálfti, bara lítill, einhversstaðar, bráðum!

Ég sé það..


Davíð Þór - 08/09/09 00:37 #

Mér finnst alltaf jafn leiðinlegt þegar ég heyri frá trúaðri manneskju eða jafnvel ungling sem vildi ekki hljóta læknismeðferð út af trú og deyr.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.