Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kirkjur og kirkjulóðir


Lóð Hallgrímskirkju er meðal þeirra sem um er rætt
Í Kastljósi í gærkvöldi var sagt frá því að búið er að breyta gamalli kirkju á Stöðvafirði í gistiheimili. Fyrst þurfti að afhelga húsið með sérstakri athöfn eins undarlega og það hljómar. Mér þótti þetta ósköp jákvæð frétt og varð hugsað til þess hvað það eru óskaplega margar kirkjur á Íslandi.

Í Fréttablaðinu þann sama dag var sagt frá því að ríkiskirkjan vill eignast lóðir sem kirkjurnar standa á þrátt fyrir að hafa fengið að nota þær gjaldfrítt alla tíð. Í fréttinni er vitnað í bréf kirkjuráðs þar sem segir meðal annars:

"Til að hægt sé að þinglýsa kirkju á eiganda sinn þarf að fylgja henni afmarkað land eða lóð," segir kirkjuráð og bendir á að algengast sé að kirkjur standi á lóðum í eigu annarra, eins og til dæmis sveitarfélaga.
...
Kirkjurnar tíu sem taka á út í forathugun eru Dómkirkjan í Reykjavík, Hallgrímskirkja, Útskálakirkja, Hólmavíkurkirkju, Mosfellskirkja, Prestbakkakirkja, Stóra-Dalskirkja, Eyvindarhólakirkja, Stóra-Borgarkirkja og Kollafjarðarneskirkja.

Þetta þarf að stöðva í fæðingu.

Ég vil ítreka hugmynd sem ég setti fram í greininni Kirkjur eru tímaskekkja en þó í örlítið annarri útfærslu í þetta skipti. Í stað þess að færa ríkiskirkjunni lóðirnar skulum við færa eignarhald á kirkjum sjálfum yfir til sveitarfélaga og gefum fólki kost á að nýta þær óháð lífsskoðun. Breytum kirkjunum í menningarhús fyrir alla. Einhverjar byggingar verða svo seldar til einkaaðila sem geta breytt þeim í gistiheimili, veitingastað eða íbúðarhúsnæði en flestar verða í umsjá sveitarfélaganna.

Að sjálfsögðu fengju trúfélög áfram að halda athafnir sínar í þessum húsum en aðrir, sem hafa kostað byggingu og viðhald kirkjubygginga, fengju sama rétt og hinir kristnu.

Önnur trúfélög en hin Evangelíska lútherska Þjóðkirkja fá afnot af kirkjunum og trúleysingjar gætu einnig fengið húsin til afnota fyrir borgaralegar athafnir. Hægt væri að leigja þau undir fundi, tónleika, veislur og ýmsar skemmtanir. Hafa þarf samkeppnissjónarmið í huga því einkaaðilar reka sali undir slíkt nú þegar.

En það er þörf á aðstöðu fyrir athafnir hér á landi, hvort sem þær eru borgaralegar eða trúarlegar og ljóst að ekki er rekstrargrundvöllur fyrir slíkum byggingum án aðkomu opinberra aðila. Við getum ekki ætlast til að fólk borgi hundruð þúsunda fyrir afnot af sal fyrir minningarathöfn svo dæmi sé tekið. Ég tel að samfélagið þurfi að bjóða upp á slíka aðstöðu eins og gert er nú fyrir þá sem aðhyllast eina tiltekna tegund af kristni. Ég er einfaldlega að leggja til að allir landsmenn hafi jafnan aðgang að þeirri aðstöðu sem þegar er til staðar og hún verði færð undir umsjá sveitarfélaga sem sjá þá um rekstur þeirra.

Vonandi muna sumir eftir frekju Mosfellsbæjarprest þegar hann frétti af hugmyndum um að kirkjan myndi deila húsnæði með öðrum þar í bæ. Það er alveg öruggt að kristnar frekjudollur munu bregðast eins við þessari hugmynd en er hún virkilega óeðlileg eða ósanngjörn?

Hvað með eignarréttinn, á ríkiskirkjan ekki þessi hús og væri ekki ósanngjarnt að svipta hana eignarhaldi á þeim? Nei, svo sannarlega ekki. Eins og ég nefndi hefur ríkið og sveitarfélög kostað uppbyggingu og viðhald þeirra. Nú síðast settu ríki og Reykjavíkurborg mörg hundruð milljónir í viðhald Hallgrímskirkju. Auk þess skuldum við kirkjunni ekki krónu.

Það er löngu kominn tími til að taka frumkvæðið úr höndum hinnar fégráðugu ríkiskirkju. Meðal þess sem þarf að ræða er framtíð eigna sem skattgreiðendur hafa fært kirkjunni. Nóg er komið af slíkri ölmusu.

Matthías Ásgeirsson 02.09.2009
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 02/09/09 09:03 #

"Allt þetta skal ég gefa þér...." Og kirkjan sagði: "Já, þetta er mitt. Svo vil ég fá þetta og þetta og þetta og þetta...."

Allt samkvæmt bókinni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/09/09 10:27 #

Allur texti fréttarinnar í Fréttablaðinu í gær:

Þinglýsingar á eignarhaldi kirkna og hlunnindum þeirra eru í miklum ólestri. Kirkjuráð hyggst nú freista þess að koma skikki á þessa hluti.

Í bréfi Kirkjuráðs til aðila sem tengst geta umsýslu slíkra mála segir að eigendaskráning kirkna sé í dag afar mismunandi og stundum röng. "Til að hægt sé að þinglýsa kirkju á eiganda sinn þarf að fylgja henni afmarkað land eða lóð," segir kirkjuráð og bendir á að algengast sé að kirkjur standi á lóðum í eigu annarra, eins og til dæmis sveitarfélaga.

"Í flestum tilfellum er um það að ræða að þinglýsa eignarheimild kirkju á viðkomandi sókn. Til að svo megi verða þarf að liggja fyrir eignarheimild á þeirri lóð sem kirkjan stendur á, svo sem afsal eða gjafagerningur," segir Kirkjuráð, sem kveður þörf á samvinnu margra aðila sem hagsmuna eigi að gæta og nefnir þar sem dæmi sveitarfélög, landeigendur, sóknarnefndir og ráðuneyti.

"Vegna umfangs verkefnisins var ákveðið að taka út nokkrar kirkjur í dreifbýli og þéttbýli og bjóða fram aðstoð við að þinglýsa á réttan eiganda. Með því fæst reynsla af ferlinu og því vinnuframlagi sem heildarverkefnið hugsanlega krefst," segir Kirkjuráð.

Kirkjurnar tíu sem taka á út í forathugun eru Dómkirkjan í Reykjavík, Hallgrímskirkja, Útskálakirkja, Hólmavíkurkirkju, Mosfellskirkja, Prestbakkakirkja, Stóra-Dalskirkja, Eyvindarhólakirkja, Stóra-Borgarkirkja og Kollafjarðarneskirkja.


Sveinn Ríkarður Jóelsson - 02/09/09 10:44 #

Að lang stæstum hluta þá sé ég kirkjur landsins sem minnisvarða um skipulagða glæpastarfsemi andans þjófa. Myndi fagna því að skerpt yrði á eignarétti almennings á þessum byggingum.


Sigurlaug - 02/09/09 12:13 #

Hvernig má það vera að kirkjan vilji fá lóðir undir kirkjum þinglýstar á sig? Það heyrir nú til algerra undantekninga að sveitar/bæjarfélög selji lóðir undir hvers kyns hús. Það er gerður leigusamningur, og viðkomandi greiðir þá lóðaleigu sem er er ákveðin prósenta af verðmæti lóðar. Það að vera með húseign á leigulóð hefur ekki hingað til hindrað það að viðkomandi geti þinglýst húseigninni á sig.

Það er bara fáránlegt að gera kröfu til þess að bæjarfélög hreinlega GEFI lóðir á oftast eru staðsettar á verðmætustu svæðum hvers bæjarfélags.

Og, auðvitað á að rukka um lóðaleigu undir þessar byggingar sem aðrar. Skólar og heimavistir voru lengi vel undanþegnar, en eru það ekki lengur.


Halldór E - 02/09/09 14:00 #

Sæll, í grófum dráttum er ég sammála þér, enda fer tæplega 70% af rekstrarfé kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu í steypu og stál. Ef kirkjan losnaði undan því að reka þessi hús með tilheyrandi kostnaði en gæti einfaldlega fengið aðstöðu þar líkt og aðrir gegn hóflegu endurgjaldi, þá væri það brilliant og kirkjunni gæfist færi á að ráða fleiri æskulýðsfulltrúa :-)

Rétt er að hafa í huga að þó ríkisvaldið hafi komið með beinum hætti að uppbyggingu einhverra kirkna eins og t.d. Hallgrímskirkju, þá á það ekki við alstaðar.

Þá er rétt að hafa í huga að svona húsnæði er mjög dýrt í rekstri og ég sé ekki fyrir mér að þrátt fyrir að húsin væru í eigu ríkisins myndi kostnaður vegna minningarathafna lækka svo neinu nemi. Við þetta er því að bæta að sumir söfnuðir hafa litið svo á að húsnæði þeirra sé almenningi opið gegn vægu eða engu gjaldi, þannig hafa húsfélög, AA-hópar, dansskólar og fleiri fengið inni í safnaðarsölum, án þess að greiða fyrir og án þess að prestar þurfi að fara með bæn í upphafi stundarinnar.

En alla vega hugmyndin þín er ekki alslæm, oft á tíðum eru einstaka söfnuðir með meiri umsvif í tengslum við byggingarrekstur en trúarlega starfsemi og alla vega ég myndi vilja sjá það breytast.

E.s. Kristján Valur er ekki prestur í Mosfellsbæ, heldur einfaldlega prestur sem sér vankanta á verkefninu þar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/09/09 14:08 #

Sæll, í grófum dráttum er ég sammála þér, enda fer tæplega 70% af rekstrarfé kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu í steypu og stál.

Þetta liti dálítið öðruvísi út ef kirkjan greiddi laun presta en þeir væru ekki launamenn hjá ríkinu. Að sjálfsögðu myndi rekstrarfé kirkjunnar dragast saman við þessar breytingar.

Þá er rétt að hafa í huga að svona húsnæði er mjög dýrt í rekstri og ég sé ekki fyrir mér að þrátt fyrir að húsin væru í eigu ríkisins myndi kostnaður vegna minningarathafna lækka svo neinu nemi.

Því held ég ekki fram. Ég tel rétt að aðstaða fyrir slíkar athafnir, hvort sem þær eru trúarlegar eða borgaralegar, sé niðurgreidd af samfélaginu. Ég tel semsagt ekki forsendur fyrir því að einkaaðilar byggi sal sem hentar fyrir slíkar athafnir, sé ekki að það geti gengið upp fjárhagslega.

Við þetta er því að bæta að sumir söfnuðir hafa litið svo á að húsnæði þeirra sé almenningi opið gegn vægu eða engu gjaldi, þannig hafa húsfélög, AA-hópar, dansskólar og fleiri fengið inni í safnaðarsölum, án þess að greiða fyrir og án þess að prestar þurfi að fara með bæn í upphafi stundarinnar.

Þannig að lítið breytist vonandi hjá þessum aðilum ef hugmynd mín verður að veruleika.

En alla vega hugmyndin þín er ekki alslæm, oft á tíðum eru einstaka söfnuðir með meiri umsvif í tengslum við byggingarrekstur en trúarlega starfsemi og alla vega ég myndi vilja sjá það breytast.

Gott að heyra. Ég gæti þó trúað því að þú sért í minnihluta hjá þínum söfnuði eins og svo oft áður ;-)

E.s. Kristján Valur er ekki prestur í Mosfellsbæ, heldur einfaldlega prestur sem sér vankanta á verkefninu þar.

Mea culpa.


G2 - 02/09/09 15:15 #

Spurning til Halldórs vegna:

.... sumir söfnuðir hafa litið svo á að húsnæði þeirra sé almenningi opið gegn vægu eða engu gjaldi, þannig hafa húsfélög, AA-hópar, dansskólar og fleiri fengið inni í safnaðarsölum, án þess að greiða fyrir og án þess að prestar þurfi að fara með bæn í upphafi stundarinnar.

Eru þá greidd fasteigna- og lóðagjöld af húsnæðinu (kirkjunni eða safnaðarheimilinu) vegna þessarar notkunar, eins og skylt er skv. lögum?


Hallldór E. - 02/09/09 17:34 #

Sæll G2, það er sjálfsagt allur gangur á því, yfirleitt ekki - geri ég ráð fyrir. Ég þekki til þar sem það er ekki gert en hins vegar þekki ég einnig til nokkurra dæma þar sem húsnæði kirkjunnar er skipt á mismunandi fasteignanúmer og fasteignagjöld greidd af þeim hluta húsnæðisins sem telst ekki vera hluti af helgidóminum. Ég þekki hins vegar ekki hvort greidd eru lóðagjöld í þeim tilfellum.

Það væri öllum til heilla og kirkjunni líka að þessi mál fáist á hreint og ástæða að mínu viti til að fagna tilraunum Biskupstofu til að samræma vinnubrögð varðandi kirkjubyggingar. Hvort það leiði til þess að kirkjurnar eignist landið undir kirkjunum eða gerður verði formlegur leigusamningur, er að mínu viti minna um vert en það að þessi mál verði skýrð.


Óli Jón - 02/09/09 20:15 #

Það væri verið að vinna að boði Biblíunnar ef Ríkiskirkjan losaði sig við kirkjur sínar:

Mattheus 6:5-6: 5Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 6En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.


G2 - 02/09/09 20:32 #

Takk Halldór.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.