Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skoðun án trúar

Þórhallur HeimissonSéra Þórhallur Heimisson wikipedifræðingur er eins og svo margir trúmenn ákaflega spenntur fyrir því að troða trú upp á þá sem ekki trúa. Nú hefur hann skrifað undarlegan pistil um trú sem vert að er að taka fyrir til að sýna fram á fáránleika málflutningsins.

Séra Þórhallur tekur eftirfarandi dæmi um trú:

  • „Ég hef trú á því að Ísland nái sér upp úr efnahagslægðinni“
  • "Ég trúi því að Sjálfstæðisstefnan sé besta stefnan fyrir Ísland".
  • "Ég trúi því að enginn Guð sé til".
  • "Ég trúi því að Guð sé til“.

Það sést fljótt og örugglega að síðustu tvö dæmin skera sig úr. Þau snúast um hvort einhver trúi eða trúi ekki á tilvist einhvers fyrirbæris. Orðalag guðleysisyfirlýsingarinnar sem Þórhallur kemur með sýnir vel að hann er vanda sig voðalega að setja hana upp þannig að þetta hljómi eins og viðkomandi sé að lýsa yfir trú. "Ég trúi því að enginn Guð sé til" er voðalega skrýtin yfirlýsing. Flestir myndu einfaldlega segja "Ég trúi ekki á guð" eða "Ég trúi ekki á neinn guð". Þannig sést líka betur að hér er ekki verið að lýsa yfir trú heldur þvert á móti verið að tiltaka skort á trú.

En skoðanir Þórhalls verða líka enn fráleitari ef kafað er dýpra. Þegar Þórhallur segir að sá sem trúir ekki á guð sé trúaður og sá sem er hlynntur sjálfstæðisstefnunni einnig þá hlýtur sá líka að vera trúaður sem aðhyllist ekki sjálfstæðisstefnuna. Sá maður gæti sagt "Ég trúi því að Sjálfstæðisstefnan sé ekki besta stefnan fyrir Ísland". Ef við pælum aðeins meira í þessu sjáum við samkvæmt skilgreiningu Þórhalls þarf sá "trúaði" í raun ekki einu sinni að hafa skoðun á málinu. Ef einhver hefur aldrei heyrt á sjálfstæðisstefnuna eða guð þá er hann sjálfkrafa trúaður.

Hérna sjáum við hvernig Þórhallur og aðrir sem ætla að troða trú upp á trúlausa lenda fljótt og örugglega í rökfræðilegu öngstræti. Það er ekkert erfitt að skilja að það er eðlismunur á því að trúa á tilvist einhvers yfirnáttúrulegs fyrirbrigðis og að hafa skoðun á einhverju álitamáli. En ekki stoppar það ruglsérfræðingana í að halda áfram að bulla.

Óli Gneisti Sóleyjarson 27.08.2009
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Kjartan - 27/08/09 09:11 #

Eins og Douglas Adams sagði í viðtali við American Atheists:

I do not believe-that-there-is-not-a-god. I don’t see what belief has got to do with it. I believe or don’t believe my four-year old daughter when she tells me that she didn’t make that mess on the floor. [...] I am, however, convinced that there is no god, which is a totally different stance"

Það er hægt að lesa viðtalið í heild sinni hér

Það er alveg merkilegt hvað trúað fólk er æst í að benda okkur trúleysingjunum á að við séum í raun trúaðir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 27/08/09 09:16 #

Ekki veit ég af hverju mörgum trúmanni er svo mjög í mun að troða trú upp á okkur hin. Mig grunar að það sé enn eitt snuðið þeirra sem veitir þeim einhverja andlega fróun. Einhver tilraun til að "normalisera" sjálfa sig.

En þegar skipta á fólki niður í afstöðu í trúmálum er enginn vafi á að til er stór hópur manna sem hafnar afdráttarlaust allri trú á yfirnáttúrulega veru/skapara/anda. Enn stærri hópur er efins um tilvist slíks fyrirbæris eða heldur/vonar/vill að eitthvað misóljóst sé til handan okkar skilnings. Svo eru þeir sem efast ekkert um að þeir séu í beinu sambandi við Æðstastrump sjálfan, þann alstærsta, besta og magnaðasta.

Eðlilega vilja trúarlífsspekúlantar skipta fólki niður samkvæmt afstöðu þeirra í trúmálum og þannig má flokka trúleysi sem "religious belief", en að kalla það trú er hundalógík af verstu sort.


Jakob Sv. Bjarnason - 27/08/09 12:37 #

Ég skil ekki alveg afhverju þú ert að kvarta yfir þessari grein. Ég las hana í heild sinni og mér finnst það gott þegar þeir trúuðu átta sig á því að trúarbrögð og trú er ekki sami hluturinn. Og ég vonast til hins sama frá þeim trúlausu.

Ég sá hvergi í grein hans að hann sé að reyna að fá hina trúlausu sem trúaða.

Ég viðurkenni alveg að ég trúi ekki á tilvíst guðs. Ég trúi á ýmislegt sem ég hef sannfæringu fyrir eins og hann bendir vel á. Held að greinarhöfundur, Óli, sé að leitast eftir einhverju í greininni til að vera ósammála. Ég er uppfullur af trú á ýmsa hluti, en ég er harkalega á móti trúarbrögðum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 27/08/09 12:48 #

Lastu umræðuna? Hún sýnir vel að ég skil Þórhall rétt:

Nei - en kjarni málsins er að allar lífsskoðanir snúast að endingu um einhverskonar "trú".

Þess vegna er guðleysi betra hugtak en trúleysi til að lýsa skoðun þess sem ekki trúir á Guð. Hans skoðun er sú að Guð sé ekki til.

Þá skoðun eða fullyrðingu getur hann ekki sannað, aðeins reynt að rökstyðja.


Jakob Sv. Bjarnason - 27/08/09 13:08 #

Kvótið sem þú komst með þarna var ekki í greininni, heldur commentunum. Þetta stáð ekki í greininni sjálfri.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/08/09 13:11 #

Enda bendir Óli á það í athugasemd sinni og tekur fram að athugasemdin sýni að Óli skilji Þórhall rétt.

mér finnst það gott þegar þeir trúuðu átta sig á því að trúarbrögð og trú er ekki sami hluturinn. Og ég vonast til hins sama frá þeim trúlausu.

Hver gerir sér ekki grein fyrir því? Þetta er mikið notaður frasi en að sjálfsögðu gera flestir greinarmun á trú og trúarbrögðum.

Málið snýst um að séra Þórhallur heldur því fram að trúleysingjar séu trúaðir á sama hátt og hann. Það er svo sannarlega rangt.


Jakob Sv. Bjarnason - 27/08/09 13:14 #

Mér hefur alltaf fundist vera smá vankanntur á tungumálinu þegar kemur að þessu. Trúaður er ekki sá sem hefur trú, heldur sá sem hefur trúarbrögð. Við höfum öll trú, sökum þess að við getum aldrei búið yfir hinum fullkomna sannleika. Og þeir sem halda að þeir búi yfir hinum eina sanna og rétta sannleika eru yfirleitt verri heldur en verstu öfgatrúarmanneskjurnar.

Ég trúi á að það sem mér er kennt sem sannleikurinn er það nálægasta sem við höfum sannleikanum í dag. Ég reyni ekki að reikna út flóknustu stærðfræði jöfnur til þess að sannreyna þær því að ég tek þeim trúarlegum. Ég trúi á margt og mikið, en ég trúi ekki á einhvern ósýnilegan skýjaguð sem segir okkur hvernig við eigum að lifa lífinu.


Jakob Sv. Bjarnason - 27/08/09 13:17 #

"Málið snýst um að séra Þórhallur heldur því fram að trúleysingjar séu trúaðir á sama hátt og hann. Það er svo sannarlega rangt."

Sammála þér þar. En ég sá það ekki útfrá greininni sjálfri og nennti svo sannarlega ekki að lesa commentin. Og ef hann reynir að fara þá leið þá gerir hann það allaveganna frekar smekklega miðað við flesta sem reyna að koma þeim skilaboðum fram, og margir reyna það.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 27/08/09 13:21 #

Ég held að það sé ekki rétt að sá sé trúaður sem hafi trúarbrögð, ég held að sá sem sé trúaður trúi á tilvist yfirnáttúrulegra fyrirbrigða s.s. guðs, líf eftir dauðann og þess hátt. Út frá þeirri skilgreiningu er ég trúlaus.


Jakob Sv. Bjarnason - 27/08/09 13:34 #

Útfrá báðum skilgreiningunum er ég trúlaus. Merkilegt hvað mörgum finnst það nauðsinnlegt að trúa á líf eftir dauða. Hef aldrei skilið það.


Teitur Atlason - 27/08/09 16:07 #

Mér sýnist Þórhallur bara slengja þessu fram til þess að pirra trúleysingja. Í rauninni skiptir þetta engu máli fyrir hann sjálfan eða kristindóminn. Eina markmiði með þessari gengisfellingu hugtaksins er að geta sagt: Ha ha. -Trúlausir eru líka trúaðir.

Hin venjulega notkun hugtaksins og sannarlega sú sem trúleysingjar nota, er vísun í trú á yfirnáttúru en ekki trú um að billinn manns fari í gang.

Ef að við tökum Þórhall á orðinu þá þessi orðanotkun sem hann kýs að nota, s.s að orðið "trú" vísi ekki á neitt yfirnáttúrulegt, heldur bara eitthvað, þá er um leið verið að gengisfella alla orðræðu kristinnar kirkju. Það vantar þá alltaf botnin í alla umræðuna.

Setningar á borð við: "við sem trúum" eða "trúðaðir telja" eru því markausar setningar því það vantar fyrirbærið sem átrúnaðirinn beinist að.

Þórhallur er því sjálfsagt að beina spjótum sínum að málvenjunni í kringum orðið "trú" og ná í leiðinni ákveðnu klámhöggi á trúlausa.

Ég held að hann ætti að eyða orku sinni í uppbyggilegri hluti en að reyna að spyrða trú við trúlausa.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 27/08/09 17:00 #

Er þetta ekki ákveðinn flótti frá hinni raunverulegu umræðu hjá prestunum? Taktík til að forðast umræður sem þeim finnast vandræðalegar og beina athyglinni yfir á eitthvað moð sem engu máli skipta?


Þundur Freyr - 28/08/09 11:41 #

Góður punktur hjá Teit.

Ég hef sagt það áður hér á síðunni einhverstaðar að mér hefur alltaf fundist þetta "þið eruð bara líka trúuð" come-back frekar tvíeggjað.

Svona líkt því ef maður kallaði annan auðtrúa að þá sneri sá sér við og segði: já er það? þá ert þú bara jafn auðtrúa og ég.

Frekar slapt. Og tekur í raun undir virðingarleysi okkar á því sem trúmenn eiga að meta sem mest, einmitt trú.

Trausti Freyr


Sveinn Ríkarður Jóelsson - 01/09/09 15:49 #

Upplifun okkar af raunveruleikanum byggir á skynjun sem er oft afar persónuleg en mikið til er hún okkur sameiginleg eða í versta falli svipuð. Vissa mín hvað sumar víddir upplifunar minnar varðar tekur allan vafa af um trú, ég er því trúlaus í þeim efnum, gott dæmi er etv. mæling með reglustiku. Ég kann ekki þýðingu á enska hugtakinu "belief system" e.t.v persónuleg heimssýn? En það sem mig langar að segja er að við höfum ekki sömu sýn á það hvað við köllum raunveruleikann en eitthvað af honum er hægt að prófa og sýna og gerast sammála um. Tilvist guðs er bara ekki einn þeirra, í það minnsta ekki hingað til.

Ef ég trúi ekki að guð sé til, heldur veit það, það er persónulegs eðlis og tengist vitund, einhverskonar innri skynjun frekar en bólstra skýi eða brennandi runna þá er ég trúlaus vissa mín krefst þess. Tilvistin er ósannanleg þvi mun ég ekki boða trúarbrögð nema hugsanlega afspurður. Ég mun ekki taka ákvarðanir fyrir aðra byggða á þessari vissu minni og þaðan af síður að hræða fólk til þess að hlíða mér eða ganga sjálfur í söfnuð.

Ég er trúlaus vegna þess að ég veit að guð er til :)

(afsakið villur, þær eru ekki viljandi)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.