Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað borgar þú í fasteignaskatt?

HallgrímskirkjaÞeir sem eitthvað hafa kynnt sér trúarbrögð eru fljótir að sjá að gvuð kann illa að fara með peninga. Gvuð ríkiskirkjunnar, sem gárungarnir kalla þjóðkirkju, er þar í engu undanskilinn, en hins vegar eru umboðsmenn hans hérlendis annálaðir fjáraflamenn og njóta velvildar alls staðar þar sem þeir bera niður. Hér rétt um daginn komst ég að því að musteri téðs ríkisgvuðs eru undanþegin ýmsum gjöldum, sem annars eru lögð á fasteignir lítilsgildari persóna.

Í Reykjavíkurprófastsdæmunum tveimur (eystra og vestra) telst mér til að séu 16 kirkjur innan Reykjavíkur og eru safnaðarheimili við sumar þeirra. Fasteignamat þessara hátimbruðu mustera losar 6 milljarða króna og lóðamatið er um 600 milljónir. Ætti ég prívat og persónulega öll þessi herlegheit mundi ég greiða af þeim rúmlega 100 milljónir í fasteignagjöld og rúmar 6 milljónir í lóðagjöld. En af því að gvuð á allt saman er ekki greidd ein einasta króna af öllu klambrinu. Umboðsmennirnir hafa nefnilega komið því svo haganlega fyrir að í lögum um tekjustofna sveitarfélaga (nr. 4/1995) eru gvuðshús undanþegin fasteignagjöldum og lóðagjöldum. Í eldri lögum (nr. 91/1989) um tekjustofna sveitarfélaganna voru skólar, heimavistir, barnaheimili, íþróttahús, skipbrotsmannaskýli, sæluhús og bókasöfn reyndar einnig undanþegin þessum gjöldum, en þar sem stjórnendur slíkra stofnana kunna ekkert með peninga að fara, voru þær settar út af sakramentinu við endurskoðun laganna 1995.

Ríkiskirkjum Reykjavíkur dugar reyndar illa þessi eftirgjöf gjaldanna því jafnan þegar dytta þarf að musterunum er enn seilst í vasa skattborgaranna og grenjaðir út aurar til viðhalds virðingunni. Ein ljótasta og viðhaldsfrekasta bygging Reykjavíkur, Hallgrímskirkja, er gott dæmi um þetta. Þar er nú enn og aftur verið að gera við stöpulinn undir kross meints frelsara mannkyns fyrir nokkur hundruð milljón kall, sem kemur beint úr vasa skattgreiðenda. Eins þurfti að malbika bílastæði undir báða bíla messugesta annarrar kirkju fyrir 70 milljónir og var Reykjavíkurborg svo elskuleg að aðstoða við malbikið.

Á meðan þessu vindur fram eru fjármál flestra landsmanna á leið til andskotans, en þá er nú gott að geta leitað athvarfs í gjaldfrjálsu musterinu hans gvuðs.

Greinin birtist í Fréttablaðinu í gær.

Guðmundur Guðmundsson 27.05.2009
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/05/09 10:28 #

Það er með ólíkindum hvernig þetta bákn hefur allar klær úti til að sleppa við að greiða fyrir sjálfsagða hluti.

Nú er það svo að greidd eru STEF-gjöld af tónleikahaldi, hvort sem selt er inn eður ei. Ég var að heyra það á dögunum, og sel það ekki dýrar en ég keypti, að við einhverja tónleika í Skálholtskirkju hafi verið passað upp á að prestur flytti einhverja mærðarlega og innihaldslausa ræðu á undan spiliríinu. Þar með er hægt að flokka samkvæmið sem eitthvað annað en tónleika og sleppa við að greiða STEF.

Gaman væri ef einhverjir sem betur þekkja til en ég kæmu í athugasemdakerfið og annað hvort hrektu þennan orðróm eða staðfestu.


Sigurlaug - 27/05/09 12:47 #

Það var raunar ekki fyrr en árið 2006 sem lögum um tekjustofna sveitarfélaga var breytt á þann veg að sveitarfélögum væri heimilt að leggja fasteignaskatt á skólahúsnæði og heimavistir, og innheimta lóðaleigu. Fram að því var einungis heimilt að innheimta þjónustugjöldin (sorpgjald, holræsagjald, vatnsgjald). Þetta hefur verið mjög íþyngjandi í t.d. rekstri framhaldsskóla, séð er fram á að leiga hækki á bilinu 50-70% nú í ár hjá framhaldsskólum landsins einmitt þegar þeim stofnunum er gert að skera niður um 10%, og engin svör fást í ráðuneyti hvort framlög fáist á móti þessari hækkun.

En, það er rétt að kirkjur eru enn undanþegnar, og sveitarfélögum skylt að útvega landsvæði undir slíkar byggingar endurgjaldslaust. Og oft/ast eru þetta eftirsóttar og bitastæðar lóðir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.