Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Pollagallinn

Ímyndið ykkur poll sem vaknar einn morgun (ég veit að þeir eru ekki vanir því en gefið mér smá svigrúm, ég skrifa vísindaskáldsögur) og hugsar með sér: þetta er áhugaverður heimur sem ég er hluti af. Áhugaverð hola sem ég er í. Hún passar mér alveg fullkomlega, ekki satt? Passar mér reyndar svo vel að hún hlýtur að hafa verið sköpuð til að hafa mig í sér! Þetta er svo mögnuð hugmynd að á meðan sólin rís á himninum, dagurinn verður hlýrri og pollurinn minnkar smám saman, heldur hann enn örvæntingarfullt í þá von að allt verði í lagi. Því honum er ætlað að vera hluti af heiminum. Heimurinn var búinn til fyrir hann. Svo það kemur pollinum algerlega á óvart þegar hann gufar að lokum upp. Ég held að við þurfum að hafa varann á okkur varðandi þetta. – Douglas Adams

Fyrir þá sem ekki skildu líkinguna þá er þessi pollur myndhverfing fyrir mannkynið. Okkur hættir nefnilega til að halda að heimurinn hafi verið skapaður fyrir okkur. Hann hentar okkur jú svo ótrúlega vel...

Hér er andrúmsloft sem við getum andað að okkur, dýr og jurtir sem við getum nærst á, byggingarefni í hús, vatn að drekka og fuglasöngur og lækjarniður til að hlusta á. Já, þessi heimur passar mannskepnunni víst ótrúlega vel. Svo vel að hann hlýtur að hafa verið skapaður handa henni. Og hver myndi skapa svona fullkominn heim fyrir menn nema skapari sem væri mannlegur sjálfur. Og þannig skapaði maðurinn Guð/i í sinni eigin mynd. Hér er með öðrum orðum verið að rugla saman orsök og afleiðingu. Heimurinn passar manninum vegna þess að maðurinn ef afurð hans, rétt eins og holan passaði fyrir pollinn og bolir eru með ermar á réttum stöðum (Vá! Það mætti halda að ég hafi verið skapaður fyrir þennan bol. Hann er með tvær ermar og ég er með tvær hendur! Hálsmál þar sem ég er með háls og XXL alveg eins og ég!).

Að sama skapi skóp maðurinn Guð í sinni eigin mynd og gaf honum alla okkar kosti og galla. Við getum séð ákveðna þróun á siðgæðisvitund mannkyns og hugmyndum um rétt og rangt á muninum á Guði gamla- og nýja testamentisins. Það er þess vegna ekkert skrýtið að þessi Guð sé enn að breytast og hugmyndir nútíma trúmanna um hann eigi lítið skylt við guðshugmyndir manna árið tólf eða tólfhundruð. Maðurinn hefur breyst á þeim tíma og þar með ímynd hans af Guði.

Það er ákaflega erfitt að sjá fyrir sér að ef einhver trúarbrögð yrðu til í hinum vestræna heimi í dag og næðu síðar mikilli útbreiðslu að guðshugmynd þeirra fæli í sér þrælahald, kvennakúgun, fórnir, hernaðardýrkun og margt fleira sem finna má í eldri trúarbrögðum. Trúarbrögðin endurspegla nefnilega fyrst og fremst þá menningu sem þau eru sprottin úr, frekar en einhvern Guð (sem við vitum hvort sem er öll að er ekki til (a.m.k. svona innst inni þó við viljum ekki öll viðurkenna það)) sem er bara hugmynd og álíka raunverulegur og Piltdown maðurinn. Til að skilja samfélög er einmitt ákaflega gagnlegt að skoða trúarhugmyndir þeirra. Þá öðlast maður smá innsýn í hvað telst rétt og rangt í viðkomandi menningarheimi, hver eru normin og tabúin og á hvaða stigi þekkingin er.

Já þekkingin, því rétt eins og trúarhugmyndirnar endurspegla siðferðisstig manna þá koma þær upp um þekkingarleysi þeirra. Um leið og við finnum trúarlega skýringu á einhverju áttum við okkur á því að við erum komin út á svið sem þekkingin nær ekki yfir; Stjörnurnar eru göt á himnafestingunni, Atlas ber himininn á herðum sér, Guð skapaði manninn í sinni eigin mynd, heimurinn var búinn til úr risa.

Allt trúarlegar skýringar sem við vitum í dag að eru ekki réttar, en samt er enn til fólk sem ber höfðinu við steininn og stendur fastar á því en fótunum að trúarbrögð séu nauðsynleg einmitt til að útskýra það sem þekking okkar nær ekki yfir. Þar sem vísindin enda taka trúarbrögðin við og útskýra dauðann, sálina, draugagang, chi, prana, nirvana o.s.frv. Það virðist vera mjög erfitt að viðurkenna að sumt einfaldlega vitum við ekki og munum e.t.v. aldrei vita.

Það er nefnilega eitt með trúarlegu útskýringarnar sem vert er að hafa í huga, fyrir utan að vera oft á tíðum skáldlegar og fallegar eiga þær það nefnilega sameiginlegt að vera rangar. Það er ekki ólíklegt að það eigi líka við um þær skýringar sem eru í gangi í dag rétt eins og hugmyndir manna fyrri alda um þrumuguði, meyfæðingar og talandi snáka og runna.

Hvað er svona hræðilegt við það að standa frammi fyrir heiminum og viðurkenna að við vitum ekki allt um hann? Að það sé enn svo margt að uppgötva og kanna? Að e.t.v. sé ýmislegt sem við eigum aldrei eftir að skilja?

Hvers vegna þarf að styðjast við hækju trúarinnar í staðinn fyrir að feisa heiminn eins og hann er? Hvers vegna finnst sumum betra að trúa því að holan hafi verið sköpuð fyrir þá og neita sjálfum sér um að uppgötva hringrás vatnsins?

Sem betur fer hefur alltaf verið til fólk sem hefur neitað að kokgleypa trúarlegu útskýringarnar og haldið yfir fjallið til að athuga hvað væri í næsta dal, haldið út á hafið til að komast að því hvað væri handan þess, frekar en að trúa því að þar væru drekar eða endimörk heimsins. Fljótlega kemur líklega (vonandi) sá tími að við áttum okkur á því að trúarbrögðin sem við styðjumst við núna passa ekki lengur við menningu okkar, siðferðis- og þekkingarstig, hugmyndir okkar um rétt og rangt, eins og táningsstúlka sem áttar sig á því að Hannah Montana plakötin og leikfangabangsarnir eru ekki alveg að gera sig.

Þá vaknar spurningin um hvað muni taka við. Ný trúarbrögð með nýja guðshugmynd sem endurspeglar nútímamanninn betur en þau gömlu og nýjar útskýringar á undrum alheimsins, undir sömu sökina seldar og þær gömlu (þ.e. að vera rangar) eða jafnvel (á maður að þora að vona?) átta menn sig á að trúarbrögðin eru ónauðsynleg, eins og hjálpardekk í Tour de France og í stað gömlu trúarbragðanna taka menn upp ... EKKERT!

Daníel Freyr Jónsson 22.05.2009
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Sindri Guðjónsson - 22/05/09 09:37 #

Já, það er einmitt eitt megin stefið í trúvörn að halda því fram að heimurinn sé augljóslega skapaður fyrir okkur, og ef jörðin væri bara örlítið lengra frá sólinni, eða þyngdarlögmálið virkaði eilítið öðruvísi, o.s.frv., þá værum við ekki til.


Kristín - 22/05/09 11:50 #

Takk fyrir góðan pistil!


Davíð - 22/05/09 19:21 #

Góð grein. Ég óttast samt að það sé mjög langt í að sú almenna skoðun verði að guð sé ekki til. Fáfræði í heiminum er svo mikil og fólk sem heldur frammi trú mun klóra endalaust í bakkann. Breytingar eiga sér þó stað í rétta átt, hægt og rólega.


Jón Arnar Magnússon - 23/05/09 04:53 #

En hvers vegna eru þá trúabrögð ef þau hafa engan tilgang og er bara skáldskapur?

Man eftir hópi sem fór á Snæfellsnesjökul til þess að bíða eftir geimverum. Ég hugsa að þessi bið getur verið býsna löng jú við miðum allt við heimilið okkar. Við skilgreinum líf eins og við höfum uppgötvað lífið hér á jörðinni. En í raun og veru vitum við ekkert um lífið. Það væri gaman að fara í leiðangur út í heim og athuga hvort það séu aðrir hnettir sem eru með líf og þá hvernig líf og í hvaða formi.

Hver segir það að þau lögmál sem eru á jörðinni um lífið þurfa að vera þau sömu og lífið á annarri plánetu.

En hvers vegna trúir fólk? Hvað er það i trúnni sem fólk leitar eftir.

Fyrir mig þá finnst mér gott að fara í kirkju og fara með bænir, alveg burt séð frá því hvort að þessi guð sé til eða ekki. Bænin fyrir mér er ákveðin íhugun og samskiptaform við sjálfan mig til þess að ná tökum á huganum þegar hann fer í fælkju. Þegar ég verð óöruggur og tilfinningar mínar flækjas fyrir manni.

Ég fer í kirkju í þeim tilgangi að róa mig niður eftir erfiðan dag.

Jú en hvað er inni í þessu húsi sem ég finn ekki annars staðar. Jú það er ákveðin kyrrð, ró, ákveðin tegund af þögn sem mér finnst gott að vera í. Jú það er einum stað þar sem ég fann þessa kyrrð það var í risafururskógi í Californiu.

Það er dálítið spölur að fara þangað.

Ef þið vitið um einhvern annan stað þar sem ég get sest niður og íhugað. Þá væri gott að vita um þann stað.

Þar sem ég finn fyrir þessari kyrrð í huganum þá væri gott að vita af því. Ég er að tala um ákveðin tegund að af slökun.

Ég tala ekki þegar ég verð sorgmæddur. þá finnst mér gott að fara með bænir til að minnast þann sem fór og komast í gegnum sorgina og leita ég kyrrð og ró þar sem ég get sest niður og minnst þann sem ég sakna í friði.

Kveðja Jóndi


Gunnar - 23/05/09 17:28 #

Góð grein og sýnir okkur hversu fáránlegt er að halda því fram að heimurinn sé skapaður fyrir okkur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.