Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þögn er sama og samþykki

MarkíonEinn allra frægasti „villutrúarmaðurinn“ í frumkristni hét Markíon. Eitt af því sem hneykslaði hina „rétttrúuðu“ hvað mest var skoðun hans á guði Gamla testamentisins, honum Jahve. Samkvæmt Markíon var guð kristinna manna kærleiksríkur, en honum fannst augljóst að guð Gamla testamentisins væri það ekki. Því gat sá guð klárlega ekki verið guð kristinna manna. En skoðun Markíons var fordæmd og í tvö þúsund ár hafa kristnir menn haldið því fram að guð Gamla testamentisins sé guðinn þeirra.

Í þessu tvö þúsund ár hafa kristnir menn boðað það að góði guðinn þeirra hafi drepið frumburði Egyptalands og fyrirskipað þjóðarmorð á íbúum Kanaans. Nú á tímum, þegar nánast allir telja fjölda- og þjóðarmorð ætíð vera röng, er erfitt að komast hjá því að fallast á röksemdafærslu Markíons.

Þar sem rétttrúnaður gerir ráð fyrir því að guð Gamla testamentisins sé guð kristinna manna, þá er réttast að gera ráð fyrir því að prestar ríkiskirkjunnar trúi því, nema annað komi í ljós.

Það er líka ekki svo að sjá að þeir sjái nokkuð athugavert við þessi fjöldamorð Jahves. Ríkiskirkjuprestarnir ræða oft um sögurnar af honum Jahve, og aldrei hef ég heyrt þá fordæma voðaverk hans. Þvert á móti er farið fögrum orðum um þau. Það var gott af Jahve að bjarga Ísraelsmönnum frá Faraó. Það var gott hjá Jahve að gefa Ísraelsmönnum land. Ég efast samt um að nokkur þeirra myndi í raun og veru verja Jahve ef þeir yrðu spurðir beint út voðaverkin: Var réttlætanlegt hjá Jahve að drepa frumburði Egyptalands? Var það rétt af honum að fyrirskipa útrýmingu þeirra sem bjuggu í landinu sem hann gaf Ísraelsmönnum?

Prestarnir eru vissulega í óþægilegri aðstöðu, annað hvort verða þeir að afneita honum Jahve og ganga í flokk trúvillinga, eða þá að viðurkenna að Jahve sé guðinn þeirra og reyna að réttlæta öll illvirkin.

Sumir hafa reyndar reynt að komast hjá því að svara þessari spurningu með því að segja að þetta sé allt saman skáldskapur[1]. Það er vissulega rétt, en það breytir því ekki að maður getur dæmt um það hvort að hegðun persónu í skáldskap sé ásættanleg eða ekki. Þó svo að Stjörnustríð sé skáldskapur, þá aftrar það manni ekki frá því að segja að það hafi verið virkilega illt af Anakin Skywalker að drepa öll börnin í Jedi-musterinu[2].

Á meðan ríkiskirkjuprestarnir hýrast í skápnum með trúarskoðanir sínar, þá er eðlilegt að maður geri ráð fyrir því að þeir telji góða guðinn sinn hafa framið þau illvirki sem eru eignuð honum í Gamla testamentinu. Ef þeir vilja losna við þennan stimpil, þá þurfa þeir bara að opna munninn og fordæma hinn illa guð Gamla testamentisins. En þangað til þeir þora að gera það er ekki varla hægt að taka mark á siðferðisskoðunum þeirra, fyrst þeir geta ekki einu sinni fordæmt þjóðarmorð.

[1] Heilög stríðsafneitun
[2] Í Star Wars Episode III: Revenge of the Sith

Hjalti Rúnar Ómarsson 07.05.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 07/05/09 15:29 #

Hver sem les gamla testamentið sér hverslags villimennska er þar á ferðinni. Guðinn er morðóður, vænisjúkur og hégómagjarn.

Haft er eftir Jesú að allt þetta bull standi eins og stafur á bók, svo hann missti af tækifærinu til að frelsa fólk úr ánauð hjátrúar og fáfræði.

Guðfræðingar seinni tíma eru jafnaftarlega á merinni. Óneitanlega er meira vit í guðfræði Markíons en þvættingnum sem enn veður uppi, þótt á endanum sé þetta allt sama tóbakið.


Árni Árnason - 07/05/09 22:41 #

Í flestu samhengi hefur mannkynið þurft að endurskoða þekkingu sína með tilliti til nýrra upplýsinga ótal sinnum, og því örar sem nær dregur okkar tímum. Ég get ekki séð að það geti með nokkru móti talist dyggð að skella skollaeyrum við þroskamerkjum mannsandans en hanga eins og hundur á roði á mörg þúsund ára gamalli bábilju.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 08/05/09 00:00 #

Gætirðu útskýrt betur hvað þú átt við?

Ef þú átt við að það sé gott ef prestar ganga villutrúarmanninum Markíoni á hönd, þá er ég alveg sammála því.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.