Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Opnun opinberar stofnunar

Í grein minni um athafnavana sem ég ritaði í september síðastliðinn fjallaði ég um þegar fólk í hugsunarleysi og "afþvíbara" viðheldur gömlum rútínubundnum venjum kristninnar. Sá vani sem ég ætla að minnast á núna er af svipuðum toga og þó hann sé sem betur fer á hröðu undanhaldi en hann samt enn allt of algengur.

Hér áður í litlum sveitasamfélögum þar sem menntun var af skornum skammti og yfirvaldið fámennt og misjafnlega mannað þóttu prestarnir, sem reyndar voru hluti af yfirvaldinu, en voru öðrum fremur sigldir og höfðu hlotið menntun, ómissandi við hvers konar skipulag, hátíðahöld og atburði. Þótti þá nokkuð koma til prjálklæddra presta sem einnig gátu skreytt sig með skrúðmælgi og yfirborðsmennsku þeirra sem meira þykjast meiga sín og telja sig skörinni hærra en skrílinn.

Þess vegna var ekkert gert, sýslað eða framkvæmt án þess að fulltrúar almættisins væru þar með í ráðum og kæmu fram og blessuðu, báðu fyrir eða gæfu með öðrum hætti vilyrði og leyfi sitt og hins háa herra fyrir því sem verið var að bardúsa hverju sinni.

Með aukinni upplýsingu og bættum stjórnháttum minnkuðu áhrif prestanna sem yfirvalds en eftir sem áður mátti hvergi reka við eða taka í notkun nýtt áhald eða hús án þess að presturinn væri fengin til hjala við athöfnina.

Enn í dag eru hvers konar opnanir hátíðlegar athafnir. Fyrsta opnun á til dæmis nýju húsi, íþróttaleikvangi, sundlaug eða annari aðstöðu kallar oft á athöfn þar sem farið er yfir sögu verksins, haldnar ræður, óskað til hamingju og að lokum opnað með táknrænum hætti og gestum svo leyft að skoða/nota/njóta og jafnvel þiggja veitingar.

Og enn í dag kemur það fyrir að á slíkri opinberri opnun sé prestur fengin til að fara með bænaþulur og “blessa” atburðin eða aðstöðuna, hvað sem það nú þýðir.

Ég varð nýlega vitni að slíkri opnun þar sem prestur kom og blessaði nýja opinbera aðstöðu sem var verið að taka í notkun og fór með bænir. Hvað svona blessun á að þýða veit ég ekki og ekki voru forsvarsmenn fleiri lífsskoðunarfélaga þarna með sínar þulur. Vinur minn sem er kristinn hafði á orði við mig af fyrra bragði að þessi seremónína væri nú svolítið furðuleg svo ekki væri meira sagt og ætti alls ekki heima á þessar annars skemmtilegu opnunarathöfn.

Ég veit að forsvarsmenn bæjarfélagsins eru engir sérstakir áhugamenn um trúmál heldur er þarna einungis á ferð sá gamli og þreytti vani að sérann á staðnum þurfi eins og áður að láta ljós sitt skína við öll tækifæri.

Ég vil biðja fólk um að íhuga það frá öllum hliðum og fordómalaust, næst þegar það verður vitni að opnun opinberrar byggingar eða aðstöðu sem er hugsuð sem þjónusta fyrir alla, hvort það sé endilega viðeigandi að þjónn eins lífsskoðunarfélags umfram önnur mæti þar með bænaþulur og blessunarorð yfir dauðum steinsteypuhlut.

Sigurður Ólafsson 30.04.2009
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/04/09 09:34 #

Hinn upplýsti nútími þarf ekki töfralækna með galdra sína. Við eigum að vita betur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.