Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fyrir þá sem ekki hafa enn mætt á kjörstað

Enn eru nokkrir tímar þar til kjörstöðum lokar. Sumir eru ef til vill staðráðnir í því að sitja heima, en séu einhverjir að tygja sig á kjörstað og eru enn ekki vissir hvað kjósa skuli, þá gæti þessi rannsókn okkar Vantrúarsinna hjálpað.

Samfylking:

  1. Samfylkingin vill tryggja jafnrétti milli veraldlegar og trúarlega lífsskoðunarfélaga. Í því felst m.a. að veraldleg lífsskoðunarfélög fái skráningu með opinberum hætti og hafi sömu réttindi og skyldur og önnur lífsskoðunarfélög hafa.
  2. Samfylkingin telur að afnema eigi ákvæði sem er að finna í 8. gr. laga um skráð trúfélög þar sem segir að: Barn skal frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess.
  3. Landsfundur fer þess á leit við þingflokk Samfylkingarinnar að hann hefji vinnu við að endurskoða hjúskaparlög og tengd lög með það að markmiði að ein lög gildi um hjúskap en jafnframt án þess að hlutast er til um innri málefni einstakra trúfélaga.
  4. Samfylkingin minnir á að trúboð og trúaráróður á ekki heima í leik- og grunnskólum. Gæta þarf að réttri allra til lífsskoðana en ekki hygla einum umfram annan. Fræðsla og upplýsingar um lífsskoðanir á að vera hluti af skólastarfinu.
  5. Samfylkingin vill að í landinu sé í gildi ein hjúskaparlög fyrir alla.
  6. Tillaga um að hjónabandið sé borgaraleg stofnun var samþykkt.

Vinstri græn:

Jafnrétti og frelsi í trúmálum Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn að Hótel Nordica 20.-22. mars 2009 ályktar að stefna skuli að aðskilnaði þjóðkirkju og ríkisvalds. Mikilvægt er að stuðla að víðtækri sátt í þjóðfélaginu um samstarf ríkis og trúfélaga. Landsfundurinn leggur til eftirfarandi aðgerðir til að stuðla að jafnrétti og frelsi í trúmálum Íslendinga:

  1. Breyta skal ákvæðum laga um aðild að trúfélögum á þann veg að sjálfkrafa skráning barns í trúfélag móður við fæðingu verði afnumin. Framvegis verði samþykki beggja forsjáraðila, ef þeir eru tveir, að liggja fyrir til þess að barn sé skráð í trúfélag þegar það er yngra en svo að því sé heimilt að sjá um trúfélagsskráningar sínar sjálft.
  2. Afnema skal 125. grein almennra hegningarlaga, lög um guðlast, sem hljóðar svo: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.”
  3. Lífsskoðunarfélög sem gegna sama félagslega hlutverki og trúfélög öðlist sömu lagalegu réttindi og þau.
  4. Virða ber réttindi foreldra til þess að ráða trúaruppeldi barna sinna.
  5. Það skulu vera ein hjúskaparlög á Íslandi.

Sjálfstæðisflokkur:

Sjálfstæðisflokkurinn vill að hjúskaparlögum og skilgreiningu á hjónabandinu verði breytt þannig að á Íslandi gildi einungis ein hjúskaparlög fyrir gagnkynhneigða og samkynhneigða.

Sjálfstæðisflokkurinn telur óeðlilegt að forstöðumenn trúfélaga skuli vera á höndum ríkisvaldsins og þá munu trúfélög hafa sjálfdæmi um það hvers konar sambúðarform hljóta blessun innan vébanda þeirra.

Sjálfstæðisflokkurinn vill að hjúskaparlögum og skilgreiningu á hjónabandinu verði breytt.

Frjálslyndir:

Ríki og kirkja aðskilin Frjálslyndi flokkurinn telur að það sé einkamál hvers og eins hvaða trú eða lífssýn hann eða hún aðhyllist. Aðskilja ber ríki og kirkju. Opinberar stofnanir eiga að vera opnar öllum, óháð trú þeirra eða lífssýn.

Framsókn:

Markmið Þjóðin þekki rætur sínar, menningararf og þau siðrænu gildi sem hún hefur byggt samfélag sitt á um aldir. Þessi siðrænu gildi eru að miklu leyti sprottin úr kristnum jarðvegi enda hefur kristin kirkja haft mótandi áhrif á menningu þjóðarinnar undanfarin þúsund ár. Leiðir • Áfram verði stutt við öflugt starf þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. • Staðinn verði vörður um trúfrelsi og fjölmenningu á Íslandi • Stuðlað verði að samráði og samvinnu ólíkra trúarbragða.

Borgarahreyfingin: (svar við fyrirspurn en ekki tekið úr stefnuskrá)

Trúboð á ekki heima í grunn-og leikskólum!

Það hvort lífskoðunarfélög sem veita sömu þjónustu og trúfélög njóti sömu réttarstöðu samkvæmt lögum hefur ekki verið rætt sérstaklega innan Borgarahreyfingarinnar en mér finnst líklegt að það yrði niðurstaðan.

Sömu sögu er að segja með að ríki verji sjúklinga gagnvart þeim sem stunda læknisaðferðir sem ekki virka... hljómar eins og þú sért að tala um aðila sem gefa fólki falskar vonir um bata...slíkt hlýtur að teljast ólöglegt.

Við erum hæstánægð með ályktanir Vinstri Grænna, Frjálslyndra og Borgarahreyfingarinnar að stefna skuli að aðskilnaði ríkis og kirkju. Það er fyrirkomulag sem auðvitað er fáránlegt fyrir upplýsta, frjálslynda og umburðarlynda þjóð eins og Ísland er á 21. öldinni. Samfylkingin er þó sammála Vinstri grænum um að gefa skuli ótrúuðum lífsskoðunarfélögum sömu réttindi frá ríkinu og trúfélög hafa notið, og Frjálslyndir virðast vera á því pallborði líka. Borgarahreyfingin hefur ekki rætt það, en hallast í áttina að sömu skoðun.

Ritstjórn 25.04.2009
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Gunnhildur - 25/04/09 20:11 #

Afstaða Frjálslyndra kemur mér svolítið á óvart, ég hélt að þeir væru íhaldsamari en þetta.


Þorvaldur Jóhannesson - 28/04/09 17:24 #

Ég sakna þess að fá ekki að vita hvað Ástþór snillingur og Lýðræðihreyfingin vill í þessum efnum?


Bjarki - 29/04/09 09:48 #

Frjálslyndi flokkurinn hefur einn flokka haft aðskilnað ríkis á kirkju á dagskránni í mörg ár. Þeir hafa aldrei fengið nóg credit fyrir það finnst mér.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.