Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Steinunn Arnþrúður spinnur, steypir og hraunar

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir vinnur á biskupsstofu og ber titilinn "verkefnisstjóri á upplýsingasviði, sviði samkirkjumála og þvertrúarlegra mála" og ætti því að vera vel upplýst.

Adda Steina, eins og hún er kölluð, reyndi að koma í veg fyrir að Samfylkingin samþykkti tillögur þess efnis að menn gengu í hjónaband hjá sýslumanni (en gætu svo sóst eftir blessun trúfélaga ef þeir vildu) og að sérréttindi ríkiskirkjunnar yrðu afmnumin úr stjórnarskránni.

Rök hennar voru kostuleg og sýna berlega hve langt kirkjunnar menn vilja seilast og hversu lágt þeir leggjast til að verja sérhagsmuni sína.

Öddu Steinu finnst hjónabandið borgaraleg stofnun (!) en "hagkvæmara" fyrir fólk að leita til presta en sýslumanna því sýslumenn eru bara 20 en prestar ríkiskirkjunnar 110.

Hún bendir á að fjárhagslegir hagsmunir og sérréttindi ríkiskirkjunnar breytast ekki þótt ákvæði um Þjóðkirkju hverfi úr stjórnarskrá, hins vegar varar hún við nokkrum breytingum því kirkjan reki svo öfluga byggðastefnu!

Rúsínan í pylsuenda þessa "upplýsingafulltrúa" er að þótt breytingar á stjórnarskrá hafi ekki víðtæk áhrif á fjárhagsleg forréttindi kirkjunnar ætti ekki að hrófla við þeim vegna þess að Háskóli Íslands sé svo ljómandi fín stofnun, með miklu námsframboði, og það væru röng skilaboð í kreppunni að skerða fjárframlög til hans!

Já, við megum ekki hrófla við sér- og forréttindum ríkiskirkjunnar í stjórnarskránni því Háskóli Íslands þarf á fé að halda.

Haldi nokkur að hér sé málflutningur guðfræðingsins úr lagi færður má hlusta og horfa á þessa ámátlegu spunatilraun.

Reynir Harðarson 15.04.2009
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Sindri Guðjónsson - 15/04/09 09:41 #

VÁ! Magnaður málflutningur.


G2 - 15/04/09 11:00 #

Um konugarminn er þetta eitt að segja - AULI!


S - 15/04/09 11:12 #

Fyrir okkur sem fylgjumst greinilega ekki nógu vel með, hvað samþykkti flokkurinn í þessu sambandi?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/04/09 11:50 #

Birt án ábyrgðar

Samfylking:

  1. Samfylkingin vill tryggja jafnrétti milli veraldlegar og trúarlega lífsskoðunarfélaga. Í þvi felst m.a. að veraldleg lífsskoðunarfélög fái skráningu með opinberum hætti og hafi sömu réttindi og skyldur og önnur lífsskoðunarfélög hafa.
  2. Samfylkingin telur að afnema eigi ákvæði sem er að finna í 8. gr. laga um skráð trúfélög þar sem segir að: Barn skal frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess.
  3. Landsfundur fer þess á leit við þingflokk Samfylkingarinnar að hann hefji vinnu við að endurskoða hjúskaparlög og tengd lög með það að markmiði að ein lög gildi um hjúskap en jafnframt án þess að hlutast er til um innri málefni einstakra trúfélaga.
  4. Samfylkingin minnir á að trúboð og trúaráróður á ekki heima í leik- og grunnskólum. Gæta þarf að réttri allra til lífsskoðana en ekki hygla einum umfram annan. Fræðsla og upplýsingar um lífsskoðanir á að vera hluti af skólastarfinu.
  5. Samfylkingin vill að í landinu sé í gildi ein hjúskaparlög fyrir alla.
  6. Tillaga um að hjónabandið sé borgaraleg stofnun var samþykkt.

Vinstri græn:

Jafnrétti og frelsi í trúmálum Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn að Hótel Nordica 20.-22. mars 2009 ályktar að stefna skuli að aðskilnaði þjóðkirkju og ríkisvalds. Mikilvægt er að stuðla að víðtækri sátt í þjóðfélaginu um samstarf ríkis og trúfélaga. Landsfundurinn leggur til eftirfarandi aðgerðir til að stuðla að jafnrétti og frelsi í trúmálum Íslendinga:

  1. Breyta skal ákvæðum laga um aðild að trúfélögum á þann veg að sjálfkrafa skráning barns í trúfélag móður við fæðingu verði afnumin. Framvegis verði samþykki beggja forsjáraðila, ef þeir eru tveir, að liggja fyrir til þess að barn sé skráð í trúfélag þegar það er yngra en svo að því sé heimilt að sjá um trúfélagsskráningar sínar sjálft.

  2. Afnema skal 125. grein almennra hegningarlaga, lög um guðlast, sem hljóðar svo: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.”

  3. Lífsskoðunarfélög sem gegna sama félagslega hlutverki og trúfélög öðlist sömu lagalegu réttindi og þau.

  4. Virða ber réttindi foreldra til þess að ráða trúaruppeldi barna sinna.

  5. Það skulu vera ein hjúskaparlög á Íslandi.

Sjálfstæðisflokkur:

Sjálfstæðisflokkurinn vill að hjúskaparlögum og skilgreiningu á hjónabandinu verði breytt þannig að á Íslandi gildi einungis ein hjúskaparlög fyrir gagnkynhneigða og samkynhneigða.

Sjálfstæðisflokkurinn telur óeðlilegt að forstöðumenn trúfélaga hafi á sínum höndum þann löggjörn ing sem hjónavígsla felur í sér. Sá gjörningur skal vera á höndum ríkisvaldsins og þá munu trúfélög hafa sjálfdæmi um það hvers konar sambúðarform hljóta blessun innan vébanda þeirra.

Sjálfstæðisflokkurinn vill að hjúskaparlögum og skilgreiningu á hjónabandinu verði breytt.


Óttar Birgisson - 17/04/09 08:40 #

4. grein hjá Vinstri grænum er fáranleg: "Virða ber réttindi foreldra til þess að ráða trúaruppeldi barna sinna".

Á að virða mannréttindi barna að vettugi ?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/04/09 09:11 #

Hvað áttu við? Sjá foreldrar ekki um uppeldi barna sinna yfir höfuð?


Óttar - 17/04/09 09:56 #

Jú auðvitað. En við eigum ekki alltaf að virða hvaða leiðir foreldrar fara ef það brýtur gegn réttindum barnanna. Heilaþvottur er brot á mannréttindum.


K. - 17/04/09 09:57 #

Það er ekki svo að Sjálfstæðisflokkurinn telji óeðlilegt að forstöðumenn trúfélaga hafi á sínum höndum þann löggjörning sem hjónavígsla felur í sér.

Þetta var í drögunum, en tekið út úr endanlegri ályktuninni.

Sjá: http://wms0a.straumar.is/xd/malefnanefndir2HBJ.wmv

(Sirka klukkan 2.50)


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/04/09 10:35 #

Takk, K. Ég er sammála Óttari að réttindi barna til frjálsrar hugsunar beri að virða. Mér finnst illt að vita til þess að sum börn eru gjörsamlega heilaþvegin miskunnarlaust og kerfisbundið. En ég veit líka að mörgum trúmanni finnst það skelfing að ala barn upp án trúar, það sé ekki hlutleysi heldur einörð afstaða gegn trú. Þótt ég sé því ósammála skil ég hugsanaganginn.

Við verðum að viðurkenna að foreldrar vilja og mega ráða uppeldi barna sinna - upp að vissu marki.

Fjórða grein vinstri grænna er alls ekki fáránleg heldur tekur hún beint mið af klausu í lögum um mannréttindi. Þessi klausa hefur verið notuð til að stöðva trúarinnrætingu barna í skólum í Noregi og við vitum að full þörf er á slíku hér.

Kannski væri heppilegra að banna frekar trúarinnrætingu opinberra aðila en að leggja höfuðáherslu á rétt foreldranna - sá var held ég tilgangurinn. Auðvitað á barnið að vera útgangspunkturinn, réttindi þess til frjálsrar hugsunar. Þetta er snúið.

En á meðan kirkjan leitar allra leiða, með góðu og illu, til að krækja í börn okkar í leik- og grunnskólum, eins ógeðfellt og siðlaust sem það er, þá er gott að geta vísað í rétt foreldranna til að ráða trúarlegu uppeldi barna sinna. Þennan rétt þykist kirkjan virða en raunin er allt önnur. Þess vegna fagna ég stefnu vinstri grænna innilega.


Davíð - 21/04/09 23:50 #

Óttar hér er 14. grein barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Það hveður bæði um rétt barna til lífskoðunnar eða trúar, ein einnig réttindi forráðamanna.

,,14. gr. 1. Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. 2. Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess. 3. Frelsi til að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar til að gæta öryggis almennings, allsherjarreglu, heilsu almennings eða siðgæðis, eða grundvallarréttinda og frelsis annarra."


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/04/09 08:27 #

Barnasáttmálinn er góður en íslensk lög eru sterkari (sbr. kvótakerfið). Alþjóðasáttmáli um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi er lögfestur (mannréttindi) og 4. mgr. 18. gr. hans hljóðar svo:

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, eftir því sem við á, lögráðamanna til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.

Þetta er klausan sem dugaði norskum foreldrum í baráttu þeirra gegn trúarinnrætingu í skólum.


Erik Olaf - 22/04/09 09:40 #

Alþjóðasamningurinn um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi hefur einungis verið fullgiltur en ekki lögfestur hér á landi. Noregur og Finnland eru einu norðurlöndin sem hafa lögfest samninginn.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/04/09 11:03 #

Rétt, Erik. Þetta ákvæði dugði fyrir Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í máli norskra.

En fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu var það ákvæði í viðauka Mannréttindasamnings Evrópu sem dugði til, nánar tiltekið 2. gr. viðauka nr. 1 við Rómarsáttmálann um verndun mannréttinda og mannfrelsis:

Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

Þetta er lögfest hér.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.