Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af hverju að takmarka sig við smáskammtalækningar?

Hér á Vantrú hefur oft verið fjallað um hómópata og remedíur þeirra (sjá t.d. nýlegan pistil). Hómópatar eru duglegir að halda því á lofti að smáskammtalækningar byggist á „gamalli lækningahefð“ (sem á í þessu tilfelli uppruna sinn að rekja til loka 18. aldar). Hómópatar beita sem sagt tveggja alda gömlum aðferðum á annað fólk, aðferðum sem byggjast á því að þynna blöndur nánast út í hið óendanlega í vatni svo varla stendur eftir ein sameind af upphaflega efninu.

En nú liggur beint við að spyrja hómópata: Hvers vegna að einskorða sig við læknisfræði 18. aldar? Af hverju ekki að taka líka upp mataræði 18. aldar (skyr, harðfisk og smjör)? Hvers vegna sér maður ekki fleiri hómópata á hestum? Nú eða í skóm úr steinbítsroði?

baðstofulíf

Á síðustu 200 árum hafa átt sér stað ótrúlegar framfarir hvort sem litið er til mataræðis, samgangna eða lækninga. Mér er því fyrirmunað að skilja að einhver skuli hafna þróun í lækningum en taka fegins hendi öðrum framförum sem snúa að heilsu s.s. bættum skjólfatnaði, öruggari og fjölbreyttari matvælum og betra húsnæði.

Sverrir Guðmundsson 17.02.2009
Flokkað undir: ( Efahyggja , Nýöld )

Viðbrögð


Guðjón B. (meðlimur í Vantrú) - 17/02/09 10:22 #

Virkilega góður punktur!


Haukur Valgeirsson - 17/02/09 12:02 #

þetta er fínn punktur.

þó er sjálfsagt að vega og meta kosti þess gamla á móti því nýja, því ekki er gefið að það nýja sé betra en það gamla á öllum sviðum.

þó gefur auga leið að þegar valið stendur á milli gamalla aðferða sem byggja á ýmist hjátrú eða kenningum sem síðar hafa sýnt sig að standast engan vegin og svo aðferða þar sem viðhöfð eru ströng vísindaleg vinnubrögð... þá finnst mér persónulega ekki spurning um á hvoru er meira mark takandi.


Kári Helgason - 17/02/09 23:45 #

Góð klausa Sverrir. Sú staðreynd að hómópatía skuli ennþá vera við lýði er virkilega undarleg. Þetta tengist eflaust þeirri skrýtnu tilhneigingu fólks að halda að forn fræði séu á einhvern hátt dýpri og merkilegri en nútímafræði. T.d. fornar aðferðir, gömul munkaspeki eða "leyndarmálið".


Hera - 19/03/09 18:14 #

Eru hómopatar að hafna þróun í læknisfræði þó þeir leggi stund á óhefðbundnar lækningar? Hvað er að því að nýta sér þekkingu fyrri tíma við jafn hversdagslegum kvillum eins og t.d. höfuðverk, eyrnabólgu, magakveisu eða jafnvel þunglyndi/kvíða? Þetta er bara afbragðs valmöguleiki í samfélagi þar sem gripið er til kemískra lyfja við minnsta slappleika. Held að flestir hómópatar mundu ráðleggja skjólstæðingum sínum að leita til alvöru sérfræðings ef þeir koma til þeirra með alvarlegan sjúkdóm, þeir vita alveg að þeir koma ekki í staðin fyrir þá. Svo er alveg hægt að notfæra sér lækningamátt jurta (lyfjaiðnaðurinn byggist jú á þeim) án þess að ríða berbakt í skóm úr steinbítsroði....ef ekki þá erum við aðeins of framtíðarleg og hrokafull.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 19/03/09 18:32 #

En þó að eitthvað sé gamalt er ekki þar með sagt að það sé gott eða að það virki vel.

Hræðsla við "kemísk efni" (hvaða efni eru ekki "kemísk"?) og upphafning einhvers sem er gamalt eingöngu vegna þess að það er gamalt skilar engu og getur í mörgum tilfellum verið skaðlegt.

Það vill svo til að smáskammtalækningar virka alls ekki og þess vegna er rangt að telja fólki trú um að þær virki til þess að hafa af því fé.

Og nei, það er ekkert að því að notfæra sér lækningamátt jurta. Eins og þú segir sjálf gengur lyfjaiðnaðurinn af stórum hluta út á að einangra virk efni úr jurtum. þannig eykur lyfjaiðnaðurinn virkni efnanna og dregur úr aukaverkunum.

Smáskammtalækningar eru gömul aðferð sem sýnt hefur verið fram á að virkar ekki. Þess vegna hættu læknar að nota hana og hún varð að s.k. "óhefðbundinni lækningaaðferð". Það heiti er yfirleitt notað yfir aðferðir sem læknavísindin hafa hafnað, oftast vegna þess að þær virka ekki.

Aðrar gamlar aðferðir sem læknar notuðu mikið voru td að gefa kvikasilfur og arsenik sem lyf við sárasótt. Blóðtaka var líka eitt sinn talin vera allra meina bót. Einhverra hluta vegna hafa þessar aðferðir ekki náð miklum vinsældum sem "óhefðbundnar lækningar".

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.