Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúir því að líkt lækni líkt

Jóna Ágústa Ragnheiðardóttir hómópati
Smellið á myndina til að lesa grein Fbl

Í Fréttablaðinu í gær er viðtal við Jónu Ágústu Ragnheiðardóttur hómópata. Þetta er voða krúttleg frétt í Fréttablaðinu um málefni sem þó er alvarlegt. Hér er um að ræða konu sem trúir ýmsum bábiljum, sannfærir aðra um sömu bábiljur og selur vanþekkingu sína. Hún stillir sér upp sem e.k. heilsusérfræðingi þó hún hafi ekki gengið í gegnum nokkurs konar nám sem Háskóli Íslands myndi viðurkenna.

Það er ýmislegt furðulegt sem kemur frá Jónu.

Hún notar ekki örbylgjuofn eftir að hún komst yfir upplýsingar um skaðsemi þeirra og telur greinilega að rafsegulsvið örbylgjuofnsins hafi áhrif á ónæmiskerfi hennar.

Það er ekkert sem bendir til skaðsemi örbylgjuofna enda er geislun örbylgjuofna á mjög lágu tíðnisviði sem eingöngu örva vatnssameindir þannig að þær hitna.

Á Vantrú hefur þegar verið skrifað um hómópatíu eða smáskammtalækningar og einnig viljum við benda á grein á hinu nýlega vefriti Húmbúkk.

Það sem er alvarlegast við það sem Jóna gerir er að á vef hennar má finna áróður gegn bólusetningum. Hún stillir því reyndar upp þannig að þetta sé eitthvað sem foreldrar eigi að skoða kosti og galla um.

Jóna vitnar í einhvern gamlan kennara sinn sem segir allar bólusetningar vera eitur en samt er bara talað um sömu gömlu sögurnar um bólusetningar eins og tengsl einhverfu og MMR bóluefnisins og skaðsemi þess snefilmagns af kvikasilfri sem finna má í sumum bóluefnum. Allt hefur þetta verið hrakið.

Þegar leitað er eftir upplýsingum um heilbrigðismál leitar maður til heilbrigðisstarfsmanna, ekki kuklara.

Upplýsingasíða Landlæknisembættisins

Ritstjórn 04.02.2009
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Guðjón B. - 04/02/09 14:47 #

Það er alveg með ólíkindum hvað þetta kuklaralið kemst upp með að segja, skaðsemi bólusetninga?!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/02/09 15:18 #

Mér finnst alltaf frekar merkilegt að kuklarar virðast samþykkja allan hindurvitnapakkann. Þannig er blandað saman fyrirbærum sem virðast ekki eiga nokkuð sameiginlegt annað en að vera hindurvitni. Smáskammtalækningar, rafmengun, bóluefnafordómar, blóðflokkamataræði og svo framvegis. Efast þetta fólk ekki um neitt annað en hefðbundnar lækningar og "vestræn vísindi"?


Eva Hauksdóttir - 04/02/09 15:23 #

Ég hef einmitt oft velt fyrir mér þessari hugmynd um smáskammtalækningar og að líkt lækni líkt, út frá bólusetningum. Ég tek fram að ég hef ekki kynnt mér hómopatíu að ráði en þar sem bólusetning er einmitt það að gefa smáskammt af sjúkdómi til að koma í veg fyrir að maður fái mikið af þeim sama sjúkdómi, hefði ég haldið að þetta væri náskylt.

Annars reyndi ágætur maður að gefa mér kraftaverkalyf um daginn. Það virkar þannig að annaðhvort tekur maður mikið af því og fær þá svo heiftarlegan niðurgang og uppköst að líkaminn losar sig þannig við sjúkdóminn (sem í mínu tilviki er í lungunum) eða þá að maður tekur lítið í einu og þá getur það tekið frá einni viku og upp í mjög margar að losna við óværuna.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/02/09 15:27 #

Ég tek fram að ég hef ekki kynnt mér hómopatíu að ráði en þar sem bólusetning er einmitt það að gefa smáskammt af sjúkdómi til að koma í veg fyrir að maður fái mikið af þeim sama sjúkdómi, hefði ég haldið að þetta væri náskylt

Munurinn felst meðal annars í því að remedíur hómópata innihalda ekkert virkt efni. Þetta er bara vatn.

Mér lýst ágætlega á þetta kraftaverkalyf, þ.e. virknina þegar fólk tekur lítið í einu :-)


Björn Ómarsson - 04/02/09 15:50 #

Sæl Eva.

þessi samanburður á bólusetningum og smáskammtalækningum er fullkomnlega rökréttur, ef maður veit ekki mikið um það hvað smáskammtalækningar eru. Mig langar í mestu vinsemd að reyna að útskýra muninn.

Fyrst eru það bólusetningarnar, en ég hef sama skilning á því fyrirbæri og þú, þ.e. að gefinn er viðráðanlegur skammtur af sjúkdómnum sem á að fyrirbyggja. Viðbrögð líkamans eru að byrja að framleiða mótefni gegn þessum sjúkdómi og það fyrirbyggir smit síðar meir. Þetta er t.d. ástæðan fyrir því að bólusetningu gegn flensu geta fylgt væg flensu einkenni(!).

Hómópatía, aftur á móti, er allt allt annað. Hómópatíska hugsunin er sú að líkt lækni líkt, þar er ekki verið að tala um að fyrirbyggja sýkingar. Maður bólusetur ekki gegn flesnu eftir að maður smitast. Í þokkabót eru skammtarnir hafðir svo smáir að samkvæmt öllum lögmálum eðlisfræðinnar eru þeir eki lengur skammtar, bara vatn.

Tökum dæmi um hómópatískt lyf sem á að "lækna" svefnleysi. Þá er smá Kaffeini (sem veldur svefnleysi) sett út í vatn, og vatnið þynnt svo svakalega að það er stjarnfræðilegur möguleiki á að eitt einstakt mólekúl sé eftir í lausninni. Á mannamáli þýðir þetta að lausnin inniheldur ekki lengur neitt kaffein, bara vatn. Þessu er helt á sykurtöflur og gefið við svefnleysi.

Það sem mér þykir merkilegt er að svefnleysistöflurnar eru svo auglýstar "án aukaverkana" (ætti að vera "án verkana"). Þetta skil ég ekki, því kaffein veldur mörgu fleiru en bara svefnleysi. Ef þessi kenning er gild ættu þessar töflur að valda syfju, lækkuðum blóðþrýstingu, lækkaðri streytu, hægari viðbrögðum (sleni) o.s.fr..

Mig grunar að hugmyndin á bak við bólusetningar hafi ýtt mikið undir vinsældir hómópatíu. Fólk veit hvernig bólusetningar virka, og ef maður kafar ekki undir yfirborðið virðist hómópatían virka svipað. það er því íronískt að þessir kuklarar séu að tala gegn bólusetningum, og setja þarmeð líf margra barna í hættu.


G2 - 04/02/09 15:57 #

Alveg fannst mér frábært að sjá í greininni um kuklarann að hún býður upp á 'bráðaþjónustu'. Er það til þess, ef þú skyldir hrökkva upp um miðjar nætur, og finna hjá þér yfirþyrmandi þörf til að láta féfletta þig?


Björn Ómarsson - 04/02/09 16:10 #

Hér má horfa á James Randy halda skemmtilegann fyrirlestur um hómópatíu og hversu vitlaust þessi hugmynd er, og hér má lesa grein eftir (alvöru) lækni, Harriet Hall, sem heitir "Homeopathy — Still Crazy After All These Years".


Ragnar (meðlimur í Vantrú) - 04/02/09 16:11 #

Nútíma bólusetningar ganga út á að nýta sér 20. aldar þekkingu okkar á ónæmiskerfinu til þess að plata líkamann til að mynda mótefni gagnvart sjúkdómi sem hann fær ekki. Í bóluefninu er þá veiklaður sýkill eða efni úr sýklinum sem búið er að einangra.

Hómeopatía gengur út á galdra og 18. aldar léleg vísindi.


Pétur Maack Þorsteinsson - 04/02/09 16:44 #

Skýringar Björns Ómarssonar á því hvers vegna remedíur hómópata virka ekki eru réttar. Ég ætla að leyfa mér að setja hér hlekk á grein sem ég skrifaði nýlega um efnið og tekur ítarlegar á þessu og svarar á grundvelli efnafræði hvers vegna hómópatía gengur ekki upp: http://blog.eyjan.is/humbukk/category/homopatia/ Það hvers vegna sumir fá góðan bata af remedíum er svo heil stúdía út af fyrir sig og tilheyrir rannsóknum á placebo-áhrifum sem eru afar merkilegt fyrirbæri og þarf ALLTAF að taka tillit til þegar mat er lagt á árangur af meðferð.


Pétur Maack - 04/02/09 16:46 #

my bad

ég las ekki greinina nógu vel í fyrstu umferð og sá ekki hlekkinn í greinina. Maður er náttúrulega í því að prómótera nýjan vef!

kv. Pétur Maack


Erlendur Már Antonsson - 04/02/09 17:13 #

Hér, á heimasíðu hennar, má sjá eftirfarandi: „Hómópatar gefa remedíur sem eru unnar úr jurta-, dýra- og steinaríkinu og eru það mikið þynntar að ekki er lengur talað um eiginleg efni heldur hvata.“ Ég hef ekki enn séð góða ástæðu til að taka mark á þessum hjáfræðum.

Hér er svo bloggfærsla þar sem síðuhöfundur, einhver kanadískur skeptíker, lýsir því þegar hann innbyrti þriggja mánaða skammt af remedíu fyrir dýr. Hann lifði af.


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 04/02/09 20:28 #

Ég heyrði síðasta sumar viðtal við blómadropakuklara á rás tvö sem var alveg kostulegt. Fyrst eyddi hún (kuklarinn) töluverðum tíma í það að útskýra að það væru nákvæmlega engar aukaverkanir af blómadropum og því væri ekki hægt að hljóta nokkurn skaða af þeim.

Til að undirstrika það þá sagði hún einmitt að það væri óhætt að taka margfalt stærri skammta heldur en væru uppáskrifaðir og "ekkert" myndi gerast (átti þó væntanlega við engar aukaverkanir...).

Spyrillinn spurði hana þá hvort óhætt væri að gefa börnum blómadropa. Jú, það var ekkert mál, fólk þarf bara að passa sig á því að gefa þeim aðeins hálfan skammt...!

En annars langaði mig að setja hér inn link á samanburð á hugsanlegri skaðsemi bólusetninga vs. skaðsemina af sjúkdómunum sem þær eiga að koma í veg fyrir, sem er reyndar undirsíða af vef landlæknisembættisins sem vísað er í á eftir greininni.


danskurinn - 05/02/09 09:36 #

Læknavísindi standa á hátindi kostnaðar og upphafningar sinnar og þekkingar. Við megum vænta þess að þau stefni enn hærra. Hlustfallslega liggur mestur kostnaður heilbrigðiskerfis í að halda dauðvona fólki á lífi í nokkra daga eða fáeinar klukkustundir til viðbótar það sem eðlilegt gæti talist. Athugið að sá kostnaður og þekking er einvörðungu greiddur fyrir svokallaða vesturlandabúa sem eru fámennur hópur fólksins hér á Jörðinni.

Og svo virðist sem að heilsufar sé almennt ekkert betra hjá þeim fámenna hópi þar sem miklu er spanderað í nútíma lækningar. Síður en svo. Hjá þessum fámenna hópi vesturlandabúa eykst lyfjaát dag frá degi og talað er um sjálfvirka hækkun útgjalda í heilbrigðismálum sem sérstakt efnahagslegt vandamál. Fjórir af hverjum tíu vinnufærum mönnum fara nú á örorku frekar en á vinnumarkað vegna kvíða og þunglyndis og annarra nútímakvilla sem læknar kunna engin ráð við. Hafið það í huga næst er rembingurinn tekur yfir skynsemina í orðræðunni um lækningar og vísindi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/02/09 10:01 #

Og svo virðist sem að heilsufar sé almennt ekkert betra hjá þeim fámenna hópi þar sem miklu er spanderað í nútíma lækningar.

Þú ert ekki í neitt rosalega góðu samband við raunveruleikann. Hafa framfarir í heilbrigðismálum alveg farið framhjá þér?

Fjórir af hverjum tíu vinnufærum mönnum fara nú á örorku frekar en á vinnumarkað vegna kvíða og þunglyndis og annarra nútímakvilla sem læknar kunna engin ráð við.

Hvaðan hefur þú þessar tölur? "Rúmlega 13.000 örorkulífeyrisþegar eru á Íslandi og yfir 1.200 manns bætast í hópinn árlega." # Atvinnuþátttaka hér á landi var 82.6% í fyrra.

Hafið það í huga næst er rembingurinn tekur yfir skynsemina í orðræðunni um lækningar og vísindi.

Hvað er skynsamlegt við kuklið sem við fjöllum um hér?

Að sjálfsögðu er ekki allt skynsamlegt í heilbrigðiskerfinu og vafalaust má gagnrýna ýmislegt sem þar er gert - en ég get ekki séð að slíkt réttlæti kukl á nokkurn hátt.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 05/02/09 10:08 #

Hvernig í ósköpunum skilgreinir þú "heilsufar almennt"?

Barnadauði er ólíkt minni hér en í þróunarlöndum, sem og mæðradauði svo varla er líku saman að jafna. Ótímabær dauðsföll vegna sjúkdóma sem tiltölulega auðvelt er að lækna eða koma í veg fyrir, s.s. Kóleru, Malaríu og jafnvel niðurgangs eru ólíkt fátíðari á vesturlöndum.

Það að bera saman vandræði okkar vegna s.k. lífstílssjúkdóma og þau heilsufarsvandamál sem hrjá fólk annars staðar í heiminum og okkur fyrr á tímum lýsir fáfræði.

Vissulega þarf að skoða kostnað af heilbrigðismálum, en það bendir engan veginn til að við eigum frekar að halla okkur að kukli sem stenst enga skoðun.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 05/02/09 11:34 #

Já, djös munur að vera loksins laus við malaríuna hérna á klakanum :D

En ef kostnaður er of hár við að halda lífinu í dauðvona sjúklingum er auðvitað skynsamlegt að drekka vatn (remedíur).

Annars er ég sammála danskinum að vissu leyti. Síaukinn kostnaður er ekki í samræmi við bætt heilsufar og sé litið til ástands heilbrigðismála í heiminum er fjáraustur okkar í eigin rass auðvitað hneyksli.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 05/02/09 11:45 #

Umræðan var um vesturlönd í heild. Ég veit ekki betur en að Malaría hafi verið töluvert vandamál t.d. í sunnanverðum Bandaríkjunum allt fram á 5. áratug síðustu aldar, þegar hún var upprætt.

En, já, kostnaður heilbrigðiskerfisins er annað mál, sem kemur hómópatíu nákvæmlega ekkert við.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 05/02/09 11:52 #

Eins voru malaría og gula helsta ástæðan fyrir því að Panamaskurðurinn var ekki kláraður fyrr en 1914, þegar nútíma læknavísindi voru farin að gera grein fyrir smitleiðum þessara sjúkdóma.

Malaría var líka vandamál við Miðjarðarhafið, t.d. á Ítalíu og á Balkanskaganum.

Er það kuklurum að þakka að þessi hætta heyrir nú sögunni til á þessum slóðum?


BrynBryn - 05/02/09 13:19 #

Þarf allt að vera viðurkennt af Háskóla Íslands til að það sé eitthvað að marka? Þó hún hafi ekki gengið í gegnum þannig nám, þá hefur hún eflaust reynsluna af þessu. Sem mér finnst nú alveg 50% af marktæki hluta. Ég bara spyr, ert þú eða það sem þú segir viðurkenndur af Háskóla Íslands???? Ef svo er, hvernig þá? Ef ekki, tjah! þá er nú varla mikið að marka þig....


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 05/02/09 13:36 #

Háskóli Íslands kemur þessu máli ekkert við. En, já, það þarf að sýna fram á að það sé eitthvað að marka svona hluti áður en þeir eru seldir almenningi dýrum dómum.

Hómópatar viðurenna sjálfir að það er ekki snefill af virka efninu eftir í "remedíum" þeirra, heldur er það "orka" virka efnisins sem á að lækna eða þá "minni" lausnarefnisins, sem yfirleitt er vatn.

Burtséð frá kenningum þeirra um að "líkt lækni líkt", sem reyndar er fyrir löngu er búið að sýna fram á að er bull, er ekki einu sinni neitt í remedínum til að hafa þessi áhrif!


danskurinn - 06/02/09 23:37 #

Matti skrifar: "Þú ert ekki í neitt rosalega góðu samband við raunveruleikann. Hafa framfarir í heilbrigðismálum alveg farið framhjá þér?"

Raunveruleikinn er þannig að mestu er spanderað í lyf fyrir öryrkja og að halda lífinu í fárveiku og dauðvona fólki. Í þeim tilfellum er “lækning” öfugmæli því að engin lækning er raunverulega í boði. Vesturlandabúar segja að hvert mannslíf sé ómetanlegt og eyða nánast ómælanlegum fjármunum í "lækningar" sem með réttu mætti kalla úrkynjun. Þannig er hræsnin svo óskapleg að á meðan milljónir manna fá enga lækningu við kvillum sem auðveldlega eru læknanlegir erum við örfáir hvítingjar fullir rembings og sjálfsánægju og þykjumst geta lengt líf okkar um nokkra daga og kostað til þess auðæfum sem gætu bjargað þúsundum mannslífa ef nokkur vitglóra væri í þessari læknisfræði. Allt vegna þess að hvert mannslíf er svo dýrmæt. Þetta er náttúrlega bara skammarlegt.

Því til hvers eru framfarir í læknavísindum ef þau sinna fyrst og fremst lúxusvandmálum hvítingja. Hefur þetta alveg farið framhjá þér?

Það var rangt að segja að 4 af hverjum 10 væru öryrkjar. Rétt er að 4 af hverjum 9 eru ekki í vinnu. Þetta eru upplýsingar frá SA. ( á vef þeirra er leitarvél og hægt að slá inn "öryrkjar" til að lesa meira) Það er löngu vitað að lífeyrissjóðakerfið er tæknilega hrunið. Það er engin leið fyrir helming fólksins hér að vinna fyrir öllu því sem þarf að borga og halda uppi velferðarkerfi. Mestar áhyggjur þarf að hafa af fjölgun öryrkja. Það er sú fjölgun sem er að setja allt úr jafnvægi þrátt fyrir allar framfarir í heilbrigðismálum. Þá erum við að tala um fólk sem vinnur aldrei neitt sem heitið getur.

Umræða um blómadropa og aðrar kerlingabækur getur alveg verið uppbyggileg þó hún sé frekar hallærisleg miðað við önnur brýn mál. Það er ekkert víst hinar miklu framfarir í heilbrigðismálum standi okkur stöðugt til boða eða komandi kynslóðum. Og örugglega ekki, ef hún þarf alltaf að kosta hvítuna úr augum okkar til að kallast fullboðleg í öllum rembingnum og sjálfsdekrinu.


Þór Friðriksson - 07/02/09 12:33 #

Vissulega eru gríðarlegir fjármunir notaðir í lyf handa öryrkjum og gamlingjum en það þarf ekki að þýða að um sé að ræða "eyðslu". Tökum sem dæmi lyf við beinþynningu. Slík lyf draga úr mjaðmabrotum en eytt mjaðmabrot er fokdýrt fyrir samfélagið. Því getur borgað sig að gefa öllum sem eru í áhættuhóp beinþynningarlyf sem kosta okkur töluverða peninga en við komum samt út í plús því kostnaðurinn við fá mjaðmabrot er enn hærri. Önnur ágæt dæmi eru háþrýstingslyf og blóðþynningarlyf. Varðandi það að halda lífi í fólki þá er nútíma læknisfræði, a.m.k. hér á landi, ekki í þeim pakka að halda fólki á lífi bara til þess að halda fólki á lífi. Einstaklingar sem eru illa haldnir af sínum krankleika en vilja ekki deyja fá þá hjálp sem þeir þurfa. Dæmi gæti verið kona sem er illa haldin af krabbameini en vill lifa í 3 mánuði í viðbót til að sjá son sinn útskrifast úr háskóla. Læknavísindin í dag veita henni þann möguleika. Það er vissulega siðferðisleg spurning hvort réttlætanlegt sé að veita þessari konu sína hinstu ósk þegar aðrir í samfélaginu þurfa að greiða fyrir hana.

Já danskurinn, stór hópur fólks býr ekki við sömu kjör og við. Vandamálið er þó ekki það að læknavísindin séu orðin of þróuð í dag og gangi bara út á að hjálpa "hvíta manninum". Óstöðugleiki og ójöfn skipting auðs í heiminum er líklegri sökudólgur. Með meiri jöfnuði á heimsmælikvarða væri sennilega hægt að veita öllum góða heilsugæslu og aðstoð. Ég er handviss um að þó við myndum spara peninga í heilbrigðiskerfinu hér með því að reka gamalt fólk út á gaddinn og kenna öryrkjum að betla á laugarvegi þá myndi það ekki bæta hag Afríkubúa eða Afghana á nokkurn hátt.

Umræða um blómadropa og kerlingabækur getur vissulega verið uppbyggileg ef gagnrýnni hugsun er beitt en ekki aðeins slett fram fullyrðingum og fáránlegum kenningum sem aldrei hefur reynst mögulegt að sanna og rannsóknir benda til að séu humbúkk og vitleysa. Hómópatía erágætt dæmi um slíka vitleysu.


Sigurjón - 07/02/09 13:17 #

Danskur, spurningin hvort rétt sé forgangsraðað í heilbrigðiskerfinu hefur ekkert með það að gera hvort hómópatía sé kjaftæði eða ekki, eða um hvort "vestræn" heilbrigðisaðferðir séu áhrifaríkar og byggðar á staðreyndum eða ekki. Þetta eru tvö algjörlega aðskilin mál.

Þetta minnir mig svolítið á algeng rök (ef rök skyldi kalla) sem fólk beitir. Maður talar fyrir vísindum og segir að þau séu besta leiðin til að læra um heiminn. Þá fær maður gjarnan á móti "já en vísindin hafa líka búið til kjarnorkusprengjuna." Jæja þá, en hvort afleiðingar vísindalegrar þekkingar séu allar góðar er allt önnur umræða. Jafnvel jafnhræðilegt fyrirbæri og kjarnorkusprengjan er magnaður vitnisburður um að hin vísindalega aðferð er áhrifarík leið til að komast að því hvernig heimurinn virkar. Hitt er síðan önnur umræða.

Eins er spurningin, hvort við eigum að eyða púðri í að halda lífi í dauðvona fólki, algjörlega óviðkomandi þeirri spurningu hvort einhver tiltekin meðferð sé byggð á staðreyndum eða kjaftæði. Að sjálfsögðu er ástæða til að spyrja sig hvar á að leggja áherslu og hvernig á að forgangsraða. Það er góð og gild spurning, og í raun mjög mikilvæg. En það er bara einfaldlega ekki efni þessarar greinar.


danskurinn - 07/02/09 13:35 #

Sigurjón skrifar. "En það er bara einfaldlega ekki efni þessarar greinar."

Einmitt! Þar hittir þú sannarlega naglann á höfðið.


Sigurjón - 07/02/09 13:48 #

Samt kýstu að koma með þetta sem andsvar við greininni. Undarlegt.


danskurinn - 07/02/09 13:51 #

Þór skrifar: "Með meiri jöfnuði á heimsmælikvarða væri sennilega hægt að veita öllum góða heilsugæslu og aðstoð."

Þú hefur ekki skilið inntakið. Hið rándýra heilbrigðiskerfi vesturlanda er ein af ástæðum ójöfnuðarins. Lyfjakostnaður er svo hár að hinir fátækari geta ekki keypt þjónustuna. Og hann er svona hár vegna þess að fámennur hópur getur greitt mikið fyrir lyfin. Og nú étum við lyf sem aldrei fyrr þó vitað sé að mörg þeirra hafi enga virkni til lækninga af neinu tagi. Í þessu ljósi er "alvarleg" umræða um blómadropa í besta falli vandræðaleg tímaskekkja.


danskurinn - 07/02/09 14:06 #

Sigurjón skrifar: "Samt kýstu að koma með þetta sem andsvar við greininni. Undarlegt."

Við látum það viðgangast að lyfjafyrirtæki framleiði og selji lyfleysur dýrum dómum. Hvers vegna ekki að gefa ímyndunarveikum vesturlandabúum blómadropa og nota peninga sem sparast til að þjónusta fólk sem er raunverulega veikt?


Sigurjón - 07/02/09 14:34 #

Vandamálið er að það er ekki bara ímyndunarveikt fólk sem leitar í blómadropa, hómópatíu, orkusteina og allt hitt bullið. Það er fullt af veiku fólki sem leitar í þetta í staðinn fyrir eitthvað sem getur raunverulega hjálpað þeim.

Ég kannast nú ekki við að "við" látum það viðgangast að lyfjafyrirtæki selji dýrar lyfleysur í stórum stíl. En ef það er rétt þá get ég að sjálfsögðu tekið undir það, að slíkt á ekki að viðgangast. Umræða um blómadropa og annað bull er aldrei tímaskekkja, hversu gallað sem "kerfið" kann að vera. Þekkingarleitin á alltaf við og við eigum sífellt að leggja okkur fram við að rannsaka áhrifamátt meintra lækninga, hvort sem það eru blómadropar eða pillur framleiddar af lyfjafyrirtækjum.

Svo finnst mér allt þetta tal um "vestræn" heilbrigðisvísindi og -kerfi svolítið leiðingjarnt. Vísindalegar aðferðir í þessum málum eru notaðar í Kína, Japan, Indlandi, Filipseyjum, Indónesíu og fjölmörgum öðrum löndum utan vesturlanda. Vísindi eru ekki "vestræn" heldur tilheyra þau mannkyninu í heild sinni.


danskurinn - 07/02/09 15:57 #

Sigurjón skrifar: "Vandamálið er að það er ekki bara ímyndunarveikt fólk sem leitar í blómadropa, hómópatíu, orkusteina og allt hitt bullið. Það er fullt af veiku fólki sem leitar í þetta í staðinn fyrir eitthvað sem getur raunverulega hjálpað þeim."

Nú, hvaðan hefuru þessar upplýsingar?

Sigurjón skrifar: "Ég kannast nú ekki við að "við" látum það viðgangast að lyfjafyrirtæki selji dýrar lyfleysur í stórum stíl."

Þá fylgist þú ekki nógu vel með.

Sigurjón skrifar: "Vísindi eru ekki "vestræn" heldur tilheyra þau mannkyninu í heild sinni."

Nákvæmlega! En þegar þau eru söluvara eru þau seld hæstbjóðanda. Í því liggur vandinn, því þörfin er meiri hjá hinum sem ekkert geta boðið.


Sigurjón - 07/02/09 16:11 #

Ef þú hefur aldrei heyrt um fólk sem leitar til kuklara í stað alvöru lækna þá ert það þú sem fylgist ekki nógu vel með.

Í þúsundasta sinn, ég er ekki að tala um hvernig kerfið er hannað eða hvernig forgangsraðað er í heilbrigðiskerfinu. heldur um alvöru vísindi vs. kukl og kjaftæði. Í þeirri umræðu er mér hjartanlega sama um einhverjar pólitískar vangaveltur um fátækt og misskiptingu gæða heimsins. Það er bara ekki til umræðu hérna.


danskurinn - 08/02/09 16:50 #

Sigurjón skrifar: "Ef þú hefur aldrei heyrt um fólk sem leitar til kuklara í stað alvöru lækna þá ert það þú sem fylgist ekki nógu vel með."

Ég hef heyrt um fólk sem leitar til kuklara en aldrei um að það sé "fullt af veiku fólki sem leitar í þetta í staðinn fyrir eitthvað sem getur raunverulega hjálpað þeim".

Það er einmitt mergur málsins og tengist greininni beinlínis, þó þú hafir enn ekki skilið tenginguna. Ég vil sem skattgreiðandi síður að rembingsmenn stoppi starfsemi blómdropakuklara og beini fólkinu sem þangað fer til alvöru lækna á kostnað fækkandi skattreiðenda. Það er staðreynd að fjöldi fólks fer til kuklara og þess vegna ætti meint skaðsemi þeirra að vera daglegt fréttaefni. Svo er ekki. Til hvers er þá allur rembingurinn? Getur verið að fólkið sem fer til kuklara sé í raun og veru ekki veikt?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/02/09 16:58 #

Já, það getur verið. Það getur líka vel verið að oft sé ekkert beinlínis skaðlegt við að fara til kuklara, remedíur gera ósköp lítið. Aftur á móti er sú hætta alltaf fyrir hendi að fólk leiti frekar til kuklara en lækna þegar eitthvað er að því.

Einnig er ekki hægt að líta hjá því að um vörusvik er að ræða. Kuklararnir eru ekki heiðarlegir og setja ósatt um virkni "vörunnar". Þannig snýst þetta að stórum hluta einfaldlega um neytendavernd. Sumum finnst allt í lagi að plata fólk, þeir sem láti platast eigi það bara skilið. Okkur í Vantrú finnst nauðsynlegt að reyna að koma upplýsingum á framfæri, svo fólk geti tekið upplýsta ákvörðun.

Mér finnst algjörlega óþolandi að fjölmiðlar skuli auglýsa þetta kjaftæði gagnrýnislaust trekk í trekk. Þegar slíkt gerist er varla hægt að ásaka fólk fyrir að trúa þessari vitleysu allri saman.

Það eru nefnilega peningar í spilinu, fullt af fólki að græða ágætis pening á því að selja öðru fólki kjaftæði.


danskurinn - 09/02/09 23:18 #

Matti skrifar: "Það eru nefnilega peningar í spilinu, fullt af fólki að græða ágætis pening á því að selja öðru fólki kjaftæði."

Þessi setning gæti átt við nánast alla kaupmannastéttina eins og hún leggur sig. T.d. þegar kreppan hófst og Bretarnir beittu okkur hryðjuverkalögum með tilheyrandi harmkvælum, þá settu Íslendingar aðsóknarmet á James Bond bíómynd. Þvílík háðung og niðurlæging. Og kjaftæði!

Matti skrifar: "Aftur á móti er sú hætta alltaf fyrir hendi að fólk leiti frekar til kuklara en lækna þegar eitthvað er að því."

Ég veit ekki. Held að kuklararnir fari sjálfir til læknis þegar þeir veikjast. Og þá hafa þeir kannski ekki greitt skatta af tekjum sínum þannig að ég og fleiri þurfum að greiða lækniskostnaðinn. Allt út af helvítis rembingi.

Ég man eftir því að að RÚV bannaði einu sinni að Bach væri spilaður á harmónikku. Þar var mikill rembingur í mönnum. Hvað vilja svoleiðis menn? Gerilsneyða allt þjóðfélagið?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/02/09 23:23 #

Matti skrifar: "Það eru nefnilega peningar í spilinu, fullt af fólki að græða ágætis pening á því að selja öðru fólki kjaftæði."

Þessi setning gæti átt við nánast alla kaupmannastéttina eins og hún leggur sig

Enda er töluvert eftirlit með kaupmannastéttinni. Samkeppniseftirlit, neytendastofa, heilbrigðiseftirlit og svo framvegis. Vissulega ekki alltaf jafn skilvirkt, en það gilda þó reglur og það kemur fyrir að þeim er framfylgt. Það gerist t.d. reglulega að auglýsingar eru bannaðar vegna þess að í þeim eru settar fram fullyrðingar sem ekki standast skoðun.

Af hverju ætti eitthvað annað að gilda um kuklara? Er ekki eðlilegt að sú stétt þurfi að geta sýnt fram á að varan sem þeir selja geri það sem þeir fullyrða að hún geri?

Hættu svo þessu heimskulega hjali um rembing.


danskurinn - 10/02/09 08:55 #

Matti skrifar: "Er ekki eðlilegt að sú stétt þurfi að geta sýnt fram á að varan sem þeir selja geri það sem þeir fullyrða að hún geri?"

Þeir þyrftu að gera það á sama hátt seljendur snyrtivara. Þ.e.a.s. sýna fram á að varan sé ekki skaðleg. Í tilfelli blómadropa ætti það að vera vandalaust. En á meðan til er fólk sem vill koma fram undir nafni og segjast hafa fengið bót meina sinna með blómadropum verður að horfa til þess sjálfsagða réttar sem stýrt er með lögmáli framboðs og eftirspurnar. Það er ekki hægt að banna einum það sem öðrum leyfist.

Við sjáum svona klemmu þar sem er bann við áfengisauglýsingum vegna þess að það liggur fyrir að neysla áfengis getur verið skaðleg. En svo eru til læknar sem ráðleggja sjúklingum sínum að drekka rauðvín á hverjum degi. Í blöðum birtast reglulega greinar um lækningamátt áfengis. Og kannabisneysla á víst líka vera gagnleg í sumum tilfellum. Ég hef ekki séð vantrúarmenn á kjaftæðisvaktinni þar.


Jóna Ágústa - 11/03/09 17:29 #

Kærar þakkir fyrir að auglýsa hómópatíuna svo ég tali nú ekki um myndbirtingu af mér sjálfri - þið hafið að sjálfsögðu fengið leyfi til birtingar myndarinnar hjá ljósmyndara Fréttablaðsins Gunnari Andréssyni - allt er þetta hómópatíunni til framdráttar - enn og aftur kærar þakkir. Endilega nýtið ykkur bráðaþjónustuna - tek þó fram að hún er einungis opin kl. 8.-18 virka daga og kl. 10-16 um helgar. Jóna Ágústa hómópati í Heilsuhöndinni ehf.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.